Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
30.4.2008 | 21:42
Hvað gerist í Svarfaðardal um helgina?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2008 | 19:12
Samtöl, samráð, samstarf - á hvaða forsendum?
Fyrir viku bloggaði ég um að Björgólfur Thorsteinsson formaður Landverndar hefði þegið sæti í varastjórn Landsvirkjunar. Margvísleg viðbrögð komu við færslunni, m.a. um mikilvægi samstarfs til að hafa áhrif á stefnu orkufyrirtækjanna. Auðvitað hafna ég ekki möguleikum til að hafa áhrif (sjá athugasemd númer 10 við færslu). Ég vil aftur á móti undirstrika hversu miklu skiptir hvernig að slíku er staðið, á hvaða forsendum samtöl og samstarf fara fram. Meðan orkufyrirtæki hafa miklu sterkari stöðu í samfélaginu en náttúruverndarsamtök og stofnanir náttúru- og umhverfisverndar er veruleg hætta á að forsendur náttúruverndar verði undir - en því sterkari sem forsendur náttúruverndar geta orðið, því betra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2008 | 22:21
Aldrei!
... var svarið við ritboðinu sem ég sendi Friðriki Degi þegar ég fór um Mývatnssveit um daginn en ritboðið flutti með sér "understatement" nokkurt, hljómaði svona: "Mývatnssveit er ekki ljót í dag".
Núna í apríl hef ég tvívegis skroppið með erlenda kollega sem hingað hafa komið til að vinna með mér í Háskólanum á Akureyri austur í Mývatnssveit. Svo skemmtilega vill til að í síðara skiptið, á þriðjudaginn, átti bloggfélagi Brattur líka leið um sveitina og tók nokkrar myndir sem mig langar að vísa ykkur á: http://gisgis.blog.is/blog/brattur/entry/515874/.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2008 | 16:36
Björgólfur - segðu af þér!
Opið bréf til Björgólfs Thorsteinssonar formanns Landverndar:
Þær fréttir bárust að þú værir orðinn varastjórnarmaður í Landsvirkjun! Þetta er staðfest á heimasíðu Landsvirkjunar, því miður; ég hafði vonað að mér hefði misheyrst. Þetta vekur þá spurningu hvort þú sem Landsvirkjunarmaður ætlar að halda áfram að berjast með okkur gegn álveri á Bakka við Húsavík og tilheyrandi virkjunum? Ætlar þú að sitja fundi með öðrum náttúruverndarsinnum og náttúruverndarsamtökum - en fara svo þaðan á stjórnarfund Landsvirkjunar og vinna að gagnstæðum markmiðum? Ég bið þig að segja strax af þér sem formaður og stjórnarmaður í Landvernd til að þú rýrir ekki traust til samtakanna. Náttúruverndarsinnar áttu ekki von á því að einn af fyrirliðunum í þeirra hópi myndi skipta um lið.
Viðbót 22. apríl: Ég þakka þér, Björgólfur, útskýringar á því hvernig varastjórnarsetu þína í Landsvirkjun bar að. Ég virði að þú svaraðir mér ítarlega og ég virði líka að þú hefur ekki skipt um lið og leiðrétti það hér með. Ég er ekki jafn-bjartsýnn og þú um að þú getir áorkað miklu í stjórn Landsvirkjunar; vonandi hef ég rangt fyrir mér um það. Mín skoðun um að það sé fullkomlega ósamrýmanlegt að vera einn af helstu talsmönnum náttúruverndarhreyfingarinnar í landinu á sama tíma og að sitja í stjórn eða varastjórn Landsvirkjunar hefur hins vegar ekki breyst.
Bloggar | Breytt 22.4.2008 kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.4.2008 | 20:10
Hrós til flugfarþega frá Akureyrarflugvelli
Við Akureyrarflugvöll eru nokkur stæði ætluð þeim sem sækja eða skila af sér farþegum, merkt sem 30 mín. stæði. Nokkur stæði til viðbótar eru tólf tíma stæði. Skemmst er frá því að segja að ég minnist ekki annars en að hafa fundið stæði á öðrum hvorum þessum reit ef ég hef sótt farþega. Sem sé: Við sem oft ferðumst notum stæðin sem fjær eru flugstöðinni ef við dveljum lengur á áfangastað.
Annað mál er að yfirvöld Reykjavíkurflugvallar mættu taka sér hið akureyrska fyrirkomulag til fyrirmyndar og merkja þau stæði sem eru næst flugstöðinni á áþekkan hátt; við þá flugstöð er oft hálfgert öngþveiti, bara að koma bíl nálægt flugstöðinni með farangur. Og ekki hægt að leggja þar meðan beðið er eftir farþega eða beðið með farþega í þær 20 mínútur sem bið frá innritun að innkalli í vél tekur oftast nær.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.4.2008 | 16:58
Að senda "á"!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vörubílstjórar hafa svolítið rótað við okkur með mótmælum sínum. Ég hef ekki haft aðstöðu til að setja mig inn í kröfur þeirra til hlítar en þykist þó hafa heyrt að þeir vilji breytingar á hvíldartímareglum þannig að þeir megi vinna/aka lengur en 4,5 klst. án hvíldar. Ég get ekki tekið undir þá kröfu en aftur á móti tek ég heils hugar undir að aðstaða við þjóðvegina til hvíldar verði bætt og á áningarstöðum verði sett snyrtiaðstaða sem mér hefur heyrst vera ein af kröfum bílstjóranna. Það myndi gagnast mun fleirum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.4.2008 | 07:25
Einu sinni einkaþota, alltaf einkaþota
Nú berast þær fréttir að Geir Haarde og Björgvin G. Sigurðsson séu farnir til Norður-Svíþjóðar á Norðurlandafund með einkaþotu, svo þeir missi ekki úr vinnunni! Ég hef skilning á vinnutapsrökunum - en skyldu þeir gera eitthvert gagn hér heima á þeim tíma sem er sagður sparast við að nota einkaþotuna? Hefðu þeir slegist við verðbólguna? Nota þeir tímann í (vonandi) þægilegum sætum einkaþotunnar til að undirbúa aðgerðir til að efla hag heimila landsins í dýrtíðinni? Vona það - og a.m.k. dregur ekki úr verðbólgunni við að ráðherrarnir þurfi að bíða eftir áætlunarflugi á ýmsum flugvöllum.
Ég fagna því þó að Norðurlandasamstarfið þyki ekki síður merkilegt til einkaþotunotkunar en NATÓ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.4.2008 | 12:10
Einkaþotuflugið á NATÓ-fundinn snýst um ímynd en ekki kostnað
Talsvert hefur verið hneykslast á því að fulltrúar Íslands hafi ferðast á einkaþotu á NATÓ-fund. Ég nenni nú ekki að hneykslast mikið á því og viðurkenni að það getur vel verið að það sé hárrétt að umframkostnaður að teknu tilliti til vinnutaps hafi verið óverulegur, þótt það myndi reyndar vera ágætt að biðja Ríkisendurskoðun fara yfir það.
Einkaþotuflugið fer í taugarnar á mörgum - þykir flottræfilsháttur á skjön við alvarlega atburði í efnahagsmálum, verðbólgu sem hefur alvarleg áhrif á kjör launafólks. Var tíminn sem sparaðist hjá ráðherrum nýttur til að takast á við efnahagsvandann? Ekki hefur mér skilist það. Ráðherrarnir verða að hugsa um hvort ferðamátinn skapar ríkisstjórninni bestu ímyndina. Rökstuðningur kostnaðarins er ekki það flestir láta sig mestu varða - eða það held ég ekki. (Því má svo bæta við að í Fréttablaðinu í dag upplýsir Sigmar Guðmundsson hjá Ríkisútvarpinu að hann hafi langt fram eftir degi, þ.e. 1. apríl, haldið að það væri aprílgabb að ráðherrarnir hefðu ferðast í einkaþotu.)
Mér skilst að það dugi að gróðursetja 80 tré til að kolefnisjafna aukaútblástur af þessu flugi. Þau yrðu eflaust áhugaverður ímyndarlundur á Fagra Íslandi Samfylkingarinnar sem er svo ráðalítil gegn stóriðjustefnunni, sbr. síðasta blogg mitt.
Ísland úr NATÓ - ekki fleiri álver!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.4.2008 | 23:29
Ertu ekkert á blogginu?
... spurði bloggvinkona sem ég hitti í dag. Sótti í síðustu viku málþing Bandarísku menntarannsóknasamtakanna (AERA) í New York og dvaldi þar fáeina daga til viðbótar. Hélt upp á afmælið mitt um miðja nótt á heimleiðinni í háloftunum.
Það er hins vegar um nóg að blogga: Umhverfisráðherra hefur nú úrskurðað gegn sannfæringu sinni um umhverfismat álvers í Helguvík og tengdra framkvæmda, þ.e. virkjana og raflína. Finnst að þetta sé í raun ein framkvæmd, treystir sér ekki til að úrskurða að svo sé og vill setja lög um að hér eftir verði að meta slíkar tengdar framkvæmdir saman. Hafi ég skilið fréttirnar rétt.
Hér fyrir norðan vill Alcoa líka reisa álver og við þurfum að krefjast þess að álverið og allar tengdar framkvæmdir verði metin saman. Nú liggja fyrir tillögur að matsáætlunum um virkjun á Þeistareykjum og raflínur þaðan - sett fram sem tvær aðskildar framkvæmdir. Hvorttveggja er þó hluti af forsendum álversins, hluti af umhverfisáhrifum þess, og ætti allt þetta að metast saman.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)