Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Landsvirkjun hafði ekki grun um að Framsókn myndi tapa kosningunum

Já, viðbrögð Landsvirkjunar við kröfu Landverndar og SUNN, sbr. síðasta blogg, eru af frumlegra tæinu. Landsvirkjun sendi ekki ítrekunarbréf fjórum dögum fyrir kosningar vegna þess að kosningar væru í nánd og líklegt væri að eftir kosningar myndi verða tregða við að gefa út leyfið sem hún hafði sótt um af því Framsóknarflokkurinn myndi tapa kosningunum, nei, þeir bara sendu ítrekunarbréfið, sbr. frétt Vísis. Eða ef þetta var svona sjálfsagt mál, af hverju var þá ekki búið að afgreiða það fyrr?

Okkur í SUNN og Landvernd finnst þetta stórundarleg atburðarás og viljum að hún sé könnuð af hálfu Alþingis. Við viljum ekki að gefin séu út leyfi til rannsókna eða vinnslu öðruvísi en þau séu hafin yfir allan vafa. Og okkar vafi um það fara skuli í Gjástykki er mikill.


Rannsóknar krafist á útgáfu rannsóknarleyfis í Gjástykki

Beiðni hefur verið send umhverfis- og iðnaðarnefndum Alþingis um að fram fari rannsókn á vegum Alþingis á útgáfu á leyfi til rannsókna í Gjástykki. Leyfið var gefið út af iðnaðarráðherra tveimur dögum fyrir síðustu Alþingiskosningar á grundvelli umsóknar sem send var inn fjórum dögum fyrir sömu kosningar. Hér má sjá bréfið til umhverfisnefndarinnar en bréfið til iðnaðarnefndar var samhljóða. Sjá líka heimasíðu Landverndar.

Beiðnin er að sjálfsögðu ekki send út í bláinn heldur hefur komið í ljós að ferillinn við útgáfu leyfisins var í besta falli stórgallaður og pólitískt óþolandi heldur og afskaplega vafasamur með tilliti til rannsóknarreglu stjórnsýslulega, enda afgreiðsla málsins óeðlilega hröð; e.t.v. afgreiðslan ólögmæt. Ekki var leitað umsagna Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar eins og á að gera. Þá er eignarhald á landinu sem um er að ræða óljóst þar sem deilt er um hvort um þjóðlendu eða einkaeign sé að ræða.

Staðfesti rannsókn þingnefndar þá ágalla, sem athugun samtakanna tveggja hefur leitt líkum að, ber að iðnaðarráðherra að afturkalla leyfið, sbr. heimildir þar um í 20. gr. laga nr 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Við þessa færslu má svo bæta fulltrúar VG í þingnefndunum hafa óskað eftir því að fundir verði í nefndunum svo fljótt sem auðið er.


Vegurinn yfir Lyngdalsheiði

Ég fagna líka ákvörðun Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra að kanna hvort úrskurður forvera hennar, Jónínu Bjartmarz, um að heimila nýjan veg frá Þingvöllum til Laugarvatns hafi verið ólögmætur. Náttúrufræðingar hafa bent á mjög veigamikil rök gegn veginum og áhrifum af honum á Þingvallavatn. Jónína taldi að það ætti að mæla mengunina - en hvað á að gera ef mengunin verður búin að skemma vatnið þegar búið er mæla? Sjá umfjöllun Mogga á sunnudaginn.

Við eigum vatnið öll

Ég fagna þeirri ákvörðun Össurar Skarphéðinssonar að freista þess að losa okkur við þau vatnalög sem voru samþykkt í vor og eiga eftir að taka gildi. Sjá frétt Moggans.


Öflugar myndavélar

Þessi frétt var í Mogganum í dag. Í henni er sagt frá því að lögreglan noti "gjarnan löggæslumyndavélar sem staðsettar eru við helstu gatnamót borgarinnar [þ.e. Reykjavíkur] ... [til að] taka myndir af ökutækjum ef þeim er ekið yfir á rauðu ljósi en einnig ef farið er yfir leyfilegan hámarkshraða. Um miðja síðustu viku voru brot 422 ökumanna mynduð á aðeins nítján klukkustundum. Myndavélin var á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu og fylgst var með ökutækjum sem ekið var eftir Hringbraut í vesturátt."

En hvað merkir öflug myndavél í þessu samhengi? Ekki ekur hún hratt því að hún er kjur, ekki lemur hún ökumennina ... Lýsingarorðið "öflugur" kemur víða fyrir í textum nútímans, t.d. var lofað "öflugri greiningu á sérþörfum" í skólastefnunni 1998 og Verslunarskóli Íslands auglýsti um hríð (og gerir kannski enn) öflugt fjarnám. Í Íslenskri orðabók (Edda 2002) eru nokkrar skýringar. Sú líklegasta er voldugur - eða merkir þetta að myndavélarnar séu sterkbyggðar eða aflmiklar eins og líka eru skýringar? Ég held að þetta merki í raun og veru að myndavélarnar séu nákvæmar eða þessi starfsemi sé markviss/skilvirk. Eða merkir þetta að myndavélin borgaði sig upp á 19 tímum með auknum sektargreiðslum, eins og kemur líka fram í fréttinni? Tekið skal fram að orðið öflug kemur hvergi fram í texta blaðamannsins, bara í fyrirsögninni.


Flugeldabanki - flugeldafíkn

Af hverju þurfa bankar sem flytja í nýtt húsnæði, veitingahús sem eiga afmæli, þeir sem halda hátíðir um verslunarmannahelgar og jafnvel einstaklingar sem halda upp á eitthvað að skjóta upp flugeldum íbúum til armæðu? Sennilega náði þessi fíkn hámarki hér á Akureyri árið 2002 þegar á tímabilinu febrúar til miðs október voru leyfðar sex slíkar sýningar (sýslumannsembættið veitir leyfin). Árið 2001 var jafnvel haldin flugeldasýning til að kveðja skemmtiferðaskip! Nokkuð margar þessara sýninga hafa verið að sumarlagi og því orðið að bíða rökkurs til þess arna, jafnvel til kl. 23:30, sem er seint og vekur þá sem fara að snemma að sofa. Sýslumannsembættið auglýsir ekki þessar sýningar og þess er ekki krafist af leyfishöfum, sem væri þó ástæða til.

Nú í kvöld var flugeldasýning á tíunda tímanum, ekki svo afar seint, en hávaðaónæði um allan bæ. Og á morgun verður önnur á vegum bæjarins - hef ekki séð hana auglýsta en löggan sagði mér frá henni áðan. Er sú sýning ekki annaðhvort alveg nóg eða meira en nóg? Þurfti þessi banki endilega að ergja fólk og dýr? Ekki skoraði nýi bankinn Saga Capital sem stóð fyrir hávaðanum í kvöld mörg stig á virðingarskalanum hjá mér - en hann ætlar sér það víst ekki hvort sem er.

Ég vona að engin heimilisdýr hafi orðið hrædd, eða hestar fælst, í kvöld - og verði það ekki heldur annað kvöld - en ég bið þá sem eiga dýr hér á Akureyri og nágrenni að huga vel að þeim. Látum flugeldaskot á nýársnótt og þrettándakvöldi duga og stillum þeim í hóf á þeim tímum líka - virðum næði fólks, ónáðum ekki dýrin, mengum andrúmsloftið minna.


Busunartíð

Framhaldsskólarnir hefja nú störf hver af öðrum, trúlega flestir eða allir með einhvers konar nýliða- eða svokölluðum busavígslum. Þessar busavígslur er því miður oft á tíðum niðurlægjandi, það er tilhneiging til að gera lítið úr nýliðunum. Margar hverjar eru ofbeldisfullar, þótt vissulega sé líklegt að þær svæsnustu rati fremur í fjölmiðla en aðrar. Þá veit ég að í mörgum skólum freista yfirvöld þess að draga úr ofbeldi og hættu á meiðslum, en verður e.t.v. síður ágengt gegn "meinlausari" aðferðum við niðurlæginguna.

Eftir að hafa séð myndir af busavígslu Menntaskólans af Egilsstöðum í þættinum Gettu betur í Sjónvarpinu í febrúarlok fyrir tveimur árum var mér meira en nóg boðið. Þessi "athöfn", sem var valin af menntskælingum sjálfum sem sýnishorn úr skólastarfinu, fólst m.a. í því að nýliðarnir voru látnir skríða í drullupollum. Ég átti samtal við þáverandi umboðsmann barna um málið og í framhaldinu skrifaði ég umboðsmanninum og menntamálaráðuneytinu bréf. Mér er kunnugt um að menntamálaráðuneytið skrifaði skólameisturum bréf í kjölfarið.

Í Sögu Reykjavíkurskóla, II. bindi (Reykjavík 1978, bls. 11) segir Heimir Þorleifsson frá því að tollering sé með elstu skólavenjum. Elstu heimildir um hana eru þó aðeins frá 1888 og svo virðist sem vatn hafi fremur verið notað við vígsluathafnir Bessastaðaskóla og Hólavallarskóla. Heimir bendir á að talið sé að vatnsvígslur hafi tíðkast í Skálholti og á Hólum. Athöfnin er ættuð úr drengjaskólum en niðurlæging drengja og stúlkna er þó ábyggilega ámóta mikil. Busavígslur þrífast á því að nýliðarnir séu settir í goggunarröð á þann veg að þeir viti að þeir fái að niðurlægja aðra að nokkrum árum liðnum.

Við leit með google.com komu upp 19 síður fyrir tveimur og hálfu ári, þ.e. ef slegið er orðið „busavígslur", en 38 síður við leit fyrr í kvöld. Þar á meðal eru fundargerðir skólaráða, bloggsíður nemenda, umræðuvefir skóla og brot úr sögu VMA. Þessar heimildir benda til þess að margir í skólunum, nemendur sem skólayfirvöld, hafi verulegar áhyggjur af busavígslum, og fram kemur að nokkrir skólar hafa sett nýjar reglur. Flestar busavígslur virðast felast í því að nýliðum er smalað á ákveðinn stað og þar geta hlutir hæglega farið úr böndum.

Nokkur dæmi af vefsíðunum (stafvillur leiðréttar en málfari ekki breytt):

Bloggsíða einstaklings: 'Ég held að busavígslur hafi orðið miklu siðmenntaðari og þægilegri síðastliðin ár. Mér skilst að um 1990 hafi busaböðlar jafnvel verið undir áhrifum áfengis þegar busavíglan sjálf fór fram en það var hætt þegar ég byrjaði í MA. Nú er það orðið svo að busar eru ekki lengur tolleraðir og einnig er hætt að hafa draugahús sem busar eru leiddir í gegnum. Tolleringarnar hættu vegna þess að slys höfðu átt sér stað og draugahúsin voru lögð niður vegna þess að einstaklingar meðal fjórðu bekkinga virtust fá "flakkandi hendur" þegar busastelpurnar voru leiddar í gegn.'

Úr fundargerð 4. fundar vorannar, Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu: &#39;Móttaka nýnema í haust. Síðastliðið haust var móttaka nemenda tvíþætt. Annars vegar fyrsti kennsludagurinn þar sem m.a. var grillað og hins vegar busun. Nokkur umræða hefur verið í tengslum við busunina og þá helst að nýnemar þurfi að gera eitthvað til að lítillækka sig. Farið verður fram á að mótaðar verði nýjar reglur í tengslum við busavígslur.&#39; <www.fas.is/skolinn/stjornun/fundir_skolarads/+%22busav%C3%ADgslur%22&hl=is> [14. apríl 2005]

Umræðuvefur Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi haustið 2003: &#39;Hver er tilgangurinn með busavígslu? ... Ég get séð að það sé einhver tilgangur í einhverskonar ,,manndómsvígslu" en þetta er hrein og klár niðurlæging og ég get ekki skilið hverjum þykir þetta skemmtilegt. Nema þá kannski helst þeim böðlum sem hafa slæma reynslu af sinni eigin vígslu. Ég ber nógu mikla virðingu fyrir sjálfri og mér og öðrum til að fara ekki í sal þennan dag. Gerði það einu sinni og fór út með frosið bros. Skora á nemendur til að breyta hressilega til næst. Bjóða nýnemum í gönguferð á Akrafjall, útileiki, gefa þeim koss á kinn og rauða rós ;) eða bara hvað sem er annað en þetta ... Fyrir mína parta var busadagurinn einn af skemmtilegustu dögum sem ég hef upplifað í FVA. Svo auðvitað spurning um hvað er sniðugt og hvað ekki, það er eiginlega bara háð hverjum tíma fyrir sig, en eins og t.d. hluti af busavígslunni í MA er að ganga "menntaveginn" sem er orðin hefð, það finnst mér mjög sniðugt og þá er kannski komin spurning "hvar eru allar hefðirnar í FVA?"&#39; <http://www.fva.is/tolvur/umraedur/skoda.php?tradur_id_svar=53&umraedu_id=15&efni=L%C3%A1ti%C3%B0%20lj%C3%B3s%20ykkar%20sk%C3%Adna> [14. apríl 2005]

Þessi dæmi tala sínu máli um að það kann víða að vera pottur brotinn þótt ástandið kunni líka að hafa batnað. Í dæmunum kemur fram að busavígslur hafa orðið tilefni til kynferðislegrar niðurlægingar auk annars ofbeldis. Einn af þeim sem gefur álit sitt skilur tæpast að nokkur geti haft gaman af því að niðurlægja aðra - nema þá sem hefnd fyrir eigin niðurlægingu áður. Ánægjulegt er að sjá kallað eftir fallegri móttökum nýliðanna - en um leið sýnist ljóst að margir hafa gaman af þessu ati.

Mér sýnist á samtölum við skólafólk undanfarna daga að það sé full ástæða til þess að menntamálaráðuneytið eða umboðsmaður kanni hvernig slíkum vígslum er háttað í framhaldsskólum landsins. Meðal annarra ástæðna er að hér er tvímælalaust um barnaverndarmál að ræða eftir að lögræðisaldur var hækkaður. Slík könnun myndi líka styðja skólafólk í viðleitni sinni til að vinna gegn slæmum venjum í kringum busavígslur. Og það er líka ástæða til að grípa inn í málin þar sem þau eru verst


Vatnajökulsþjóðgarður

Þá hefur verið skipað í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs sem tekur til starfa þegar samið hefur verið landeigendur í kringum jökulinn og landið friðlýst. Auk þess falla inn í garðinn þjóðgarðarnir í Jökulsárgljúfrum og Skaftafelli. Ég hef fylgst með aðdragandanum í nokkur ár, nú síðast með þátttöku í undirbúningsnefnd sem starfaði á árinu 2006, og fæ sem fulltrúi í svæðisráði norðursvæðis og varafulltrúi í stjórn tækifæri til að taka þátt í mótun þjóðgarðsins. Það er ánægjulegt að fá að taka þátt í þessu stóra verkefni. Ekki síst bind ég vonir við að komið verði upp skipulögðu kerfi gönguleiða í kringum jökulinn, meðfram Jökulsá á Fjöllum og miklu víðar upp frá byggðunum.

Þjóðgarðurinn mun ekki ná yfir stór svæði utan jökulsins til að byrja með, en þó mun Jökulsá á Fjöllum allt til sjávar verða friðlýst ef allt gengur upp. Í framtíðinni mun þjóðgarðurinn stækka, en í millitíðinni mun það verða fjármagnið sem til hans rennur og hvernig okkur tekst að standa að uppbyggingunni sem ræður því hversu hratt það gerist. Sorglegur er fleygurinn vegna Kárahnjúkastíflunnar en þeim mun meiri og brýnni er þörfin á að verja Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljót fyrir ágengni af margvíslegu tæi.


mbl.is Skipað í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaffiprófið

Búinn að taka kaffiprófið nokkrum sinnum og fæ til skiptis þessar tvær niðurstöður. Þær passa allvel við raunverulega kaffineyslu nema hvað ég fæ mér annaðhvort mjólk í espressókaffið eða mjólkurfroðuhattinn hjá þeim í Te og kaffi í Hafnarstrætinu sem nú er flutt yfir í Pennann.

Þú ert svo mikið sem...

  • Latte! Þú ert skapstór og íhaldsamur einstaklingur sem lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Undir vissum kringumstæðum leyfirðu þér að prófa nýjungar, en þó aðeins að vel athuguðu máli. Samkvæmt kaffiprófinu er ég Latte! og samanstend af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk.

  • Espresso! Þú ert með eindæmum sjálfsöruggur einstaklingur. Þú ert vandvirkur og samviskusamur en lætur það þó stundum eftir þér að fresta verkefnum til morguns. Þú ert á sífelldri hraðferð án þess þó að það hái þér á nokkurn hátt. Samkvæmt kaffiprófinu er ég Espresso! 30 ml af mikið brenndu eðalkaffi.
    Hvernig kaffi ert þú eiginlega?


Móttaka nýrra nema

Það er ánægjulegt verk að taka á móti 100 nýjum nemendum sem hefur verið starfi minn undanfarna daga. Þetta eru nemendur á meistaranámsstigi í menntunarfræðum og í kennslufræði til kennsluréttinda fyrir grunn- og framhaldsskóla við Háskólann á Akureyri. Námið fer fram í fáeinum staðbundnum kennslulotum, þremur til fjórum á hverju misseri. "Samtals eru nýnemar í framhaldsnámi við HA rúmlega 150 þetta haustið og hafa þeir aldrei verið fleiri. Skólabyrjun hjá nýnemum í grunnnámi verður mánudaginn 20. ágúst nk." (úr frétt). Þetta höfum við gert með bros á vör þrátt fyrir erfiðar umræður um fjárhag Háskólans í fjölmiðlum undanfarna daga, enda höfum við unnið að því að treysta undirstöðurnar, þ.e. með því að þróa og bæta kennsluna í þeim námsgreinum sem fyrir eru, bjóða ný námskeið en kenna þau annað hvort ár o.fl., og efla rannsóknir kennara Háskólans. Og eftir rúman hálfan mánuð á Háskólinn á Akureyri 20 ára afmæli.

Eins og staðgengill rektors sagði í kvöldfréttum RÚV rétt áðan eiga stofnunin og stjórnendur hans vissulega að bera ábyrgð á gjörðum sínum og því að fara fram úr fjárlögum sem er ljótt að gera. Sannleikurinn er þó sá að það skortir sárlega fjármagn til íslenskra háskóla og framhaldsskóla og aukið námsframboð HA á árunum upp úr aldamótum var til að bregðast við brýnum þörfum fólks bæði á Akureyri og á ótal fjarnámsstöðum víðs vegar um landið. Háskólinn á Akureyri var ekki að bruðla með peninga í eiginlegum skilningi þess orðs; Háskólinn notaði peningana markvisst og til hagsbóta fólki í dreifbýli, já, og jafnvel til að bregðast við þörfum sem fólk á höfuðborgarsvæðinu taldi sig ekki fá uppfylltar öðruvísi en skrá sig til fjarnáms við HA eða náms sem fer fram í kennslulotum á Akureyri.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband