Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Ofstækið og Brynjar Níelsson

Ég ætti að vera hættur að verða hissa á því sem Brynjar Níelsson segir. Núna segir hann að samtök sem vilja afhjúpa hverjir kaupa vændi séu "ofstækissamtök". Það getur vel verið - en fyrir mér eru fáir ofstækisfyllri en þeir sem vilja koma í veg fyrir að við fáum að vita hvaða glæpamenn hafa verið dæmdir fyrir að kaupa vændi. Mér finnst sú andstaða vera ofstæki, ef ofstæki er á annað borð til.

Persónulega vona ég að listinn, sem Stóra systir afhenti lögreglunni, leki út - en gæti vel trúað því að Stóra systir passaði vel upp á hann til að halda sér örugglega innan ramma laganna.

Annars minnir mig að hafa lesið fyrir mörgum árum að norskir femínistar hafi málað á bíla vændiskaupenda í Ósló og það hafi orðið meiri refsing en dómstóll sem ákveður að afhjúpa glæpinn getur nokkru sinni úthlutað glæpamönnunum.


mbl.is Líkir Stóru systur við ofstækissamtök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þræðir og fléttur

Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK) boðar til alþjóðlegrar ráðstefnu í tilefni af 20 ára afmæli stofnunarinnar og 100 ára afmælis Háskóla Íslands. Ráðstefnan fer fram dagana 4.–5. nóvember 2011 við Háskóla Íslands og er haldin í framhaldi af alþjóðlegu ráðstefnunni „Líkamar í krísu“ sem fer fram dagana 2.-4. nóvember við Háskóla Íslands.

Alþjóðleg ráðstefna RIKK er fimmta stóra ráðstefnan um kvenna- og kynjarannsóknir sem hefur verið haldin við Háskóla Íslands. Dagskrá ráðstefnunnar er sérlega metnaðarfull og von er á fjölda erlendra fyrirlesara. Sjá dagskrá hér (.pdf).

Ráðstefnan í ár skiptist í 20 málstofur með þátttöku fræðimanna af ólíkum fræðasviðum. Rétt er að vekja athygli á sérstakri öndvegismálstofu í tilefni af framlagi kvenna að stofnun Háskóla Íslands og aldarafmæli laga um rétt kvenna til embættisnáms, en þar verður reynt verður að svara spurningunni: Hverju hefur menntun kvenna skilað? Málstofan er haldin í samstarfi við Kvennasögusafnið og Jafnréttisstofu.

Lykilfyrirlesarar á ráðstefnunni eru:

  • Cynthia Enloe, stjórnmálafræðingur og prófessor við Clark-háskóla í Bandaríkjunum: The Strauss-Kahn Affair: The Cultures and Structures of Masculinity
    Enloe er heimsþekkt fyrir femíníska greiningu sína á hervæðingu, stríðum, stjórnmálum og hnattvæðingu efnahagskerfa og hefur stundað rannsóknir í Írak, Afganistan, Bandaríkjunum, Bretlandi, Japan, Filippseyjum, Kanada, Chile og Tyrklandi.
  • Joni Seager, prófessor í hnattrænum fræðum við Bentley-háskóla í Boston: Death by Degrees: Making Feminist Sense of the 2° Climate Change Target. Seager stundar femínískar rannsóknir á sviði landfræði, alþjóða- og umhverfismála. Hún er afkastamikil fræðikona og hefur birt fjölda greina og bóka. Meðal bóka hennar er The Penguin Atlas of Women in the World sem hefur fengið mjög góða dóma og unnið til verðlauna. Hún hefur einnig starfað sem ráðgjafi hjá Sameinuðu þjóðunum og unnið þar að verkefnum er varða umhverfismál og stefnumótun í vatnsmálum.
  • Beverly Skeggs, prófessor í félagsfræði við Goldsmiths, London-háskóla:Rethinking Respectability: the moral economy of person value? Skeggs er höfundur bókanna Formations of Class and Gender: Becoming Respectable, Class, Self, Culture og Feminism after Bourdieu. Hún hefur fært rök fyrir mikilvægi stéttar í mótun kynjaðra sjálfsmynda og því gildi sem einstaklingum er gefið í samtímamenningu.

Ráðstefnan er haldin í samstarfi við umhverfisráðuneytið, EDDU – öndvegissetur við Háskóla Íslands, Jafnréttisstofu, Kvennasögusafnið, Stofnun Sæmundar fróða, Alþjóðamálastofnun og Alþjóðlegan jafnréttisskóla við Háskóla Íslands.


Hreindýr festast í girðingum

Áskorun Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST)  til ábúenda, umráðamanna og sveitarfélaga á Austur- og Suðausturlandi 

Að undanförnu hefur fjöldi hreindýra fest í  girðingum, tarfar hafa fest saman á hornum í girðingaflækjum og jafnvel drepist vegna girðingardræsa sem skildar hafa verið eftir á víðavangi. Þetta ástand er óviðunandi.

NAUST skorar á bændur á Mýrum í Hornafirði, sem og aðra landeigendur og sveitarfélög á Suðaustur- og Austurlandi að sýna ábyrgð  og fjarlægja þá miklu hættu sem villtum dýrum og búfénaði stafar af gömlum girðingum og girðingarflækjum sem liggja á víðavangi.

Á undanförnum árum hafa hreindýr flækst í sömu girðingardræsunum ár eftir ár. Nú á síðustu vikum hafa um 10-12 hreindýrstarfar fest hornin í girðingum eða girðingarrusli. Vitað er um minnst tvo tarfa sem drepist hafa af þessum sökum. Búið er að frelsa sex tarfa með því að skjóta af þeim hornin þar sem tveir og tveir voru flæktir saman, en aðrir hafa verið losaðir með öðrum hætti. Rökin sem landeigendur sem bera ábyrgð á umræddum girðingum bera fyrir sig eru að hreindýrin eyðileggi girðingarnar sjálf og af því hljótist töluverður kostnaður fyrir þá. Stjórn NAUST tekur ekki þessi rök hvorki gild né afsökun fyrir slíku hirðuleysi.

Þá  hvetur stjórn NAUST Umhverfisstofnun og Umhverfisráðuneytið til að sinna eftirlitsskyldu sinni og sjá til þess að sveitarfélög hirði vír,  ónothæfar girðingar og girðingarflækjur þar sem landeigendur hafa ekki brugðist við, í samræmi við heimild í 12. gr. girðingarlaga nr. 135/2001

"Þegar lögð er girðing af ábúanda fer um skyldur jarðeiganda við burtför ábúandans eftir sömu reglum og um hús á jörðinni sé að ræða, sbr. 16. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976.
Öllum umráðamönnum lands er skylt að hreinsa burtu af landi sínu ónothæfar girðingar og girðingarflækjur. Nú vanrækir umráðamaður lands þessi fyrirmæli í eitt ár eftir að lög þessi öðlast gildi og er þá sveitarstjórn skylt að framkvæma verkið á hans kostnað að fengnu mati búnaðarsambands og á sveitarstjórn þá lögveð í jörðinni fyrir greiðslu kostnaðar. Það sama gildir um eyðijarðir."

 


Lína að Veiðivötnum umhverfismatsskyld

"Við mælumst eindregið til þess að þessi framkvæmd fari í umhverfismat," segir Hilmar J. Malmquist, stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum Íslands, um áætlaða lagningu raflínu og ljósleiðara frá Vatnsfelli í Veiðivötn og Snjóöldu. "Veiðivötn eru á náttúruminjaskrá og Veiðimálastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfistofnun hafa gert tillögu um að Veiðivatnasvæðið sé gert að friðlandi. Samkvæmt svæðisskipulagi miðhálendisins er allt svæðið sem strengurinn fer um annaðhvort náttúruverndarsvæði eða almennt verndarsvæði," bendir Hilmar á. "Þetta er eldfjallaland og víðerni sem eru eitt helsta náttúrufarseinkenni Íslands." (nsi.is)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband