Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Lífsfylling

Út er komin bókin Lífsfylling - nám á fullorðinsárum eftir samstarfskonu mína Kristínu Aðalsteinsdóttur prófessor við Háskólann á Akureyri. Í bókinni segja konur og karlar, sem lokið hafa meistaranámi í menntunarfræði í háskólum, hér á landi eða erlendis, frá reynslu sinni af náminu; áhugahvötinni, kennslunni og leiðsögninni sem þau fengu, hvernig þeim leið á meðan á náminu stóð og hvaða ávinning þau höfðu af náminu.

Í bókarkynningu segir Kristín: "Vitað er að auðlind hins fullorðna manns er lífsreynslan, hún er það afl sem knýr fólk til að takast á við ný og ögrandi viðfangsefni. Í bókinni er gerð grein fyrir því hvað nám felur í sér, rakin söguleg þróun náms á fullorðinsárum og fjallað um kenningar fræðimanna um námsleiðir sem henta fullorðnu fólki fremur en yngra fólki eða börnum. Gerð er grein fyrir hlutverki kennara, kennslu og námskenningum sem geta verið lykill að farsælu námi og fjallað um áhugahvötina og tilfinningar sem geta ráðið því hve mikið úthald og örvun fólk hefur til að láta hugmyndir sínar eða verk verða að veruleika."

Ég er búinn að skoða þessa bók og líst afar vel á hana. Það er óhætt að veita þessari bók sem kostar 4500 kr. hjá höfundi (kada@unak.is eða sími 866 5915 ) athygli. En auk þess fæst hún í bókabúðum.


Hugleiðing um stjórnarfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs

Í frétt á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sá ég af tilviljun frétt um að almenningur gæti sent inn ábendingar um stjórnarfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs. Hópnum ber einnig að leita eftir sjónarmiðum helstu aðila sem að stjórn garðsins koma, svo sem sveitarfélaga á starfssvæðinu, svæðisráða, útivistarsamtaka, umhverfisverndarsamtaka, stjórnar og framkvæmdastjóra auk annarra sjónarmiða sem starfshópurinn telur mikilvæg við stjórn þjóðgarðsins. Spurt er þriggja spurninga:

·         Hvernig finnst þér hafa tekist með stjórnun Vatnajökulsþjóðgarðs?

·         Myndir þú vilja leggja til breytingar á núverandi fyrirkomulagi stjórnunar Vatnajökulsþjóðgarðs? Ef svo er, hverjar ættu þær að vera og af hverju?

·         Aðrar ábendingar til starfshópsins varðandi stjórnfyrirkomulag Vatnajökulsþjóðgarðs?

Nú fell ég um þessar mundir „almenning“ út frá þessari beiðni – en frá 2005 til 2011 – þegar garðurinn var undirbúinn og fyrstu fjögur ár eftir skipan svæðisráða og stjórnar – sat ég fyrst í undirbúningsnefnd og síðar í svæðisráði og loks í tæpt ár í stjórn (2010–2011). Þannig að ég hef talsverða sýn yfir þetta starf nema síðustu tvö árin. Ég hefði næstum örugglega sóst eftir að sitja lengur í svæðisráði ef ég hefði ekki flutt til Reykjavíkur; þvílík ánægja fólst í þessu starfi og því að kynnast fólki og aðstæðum kringum jökulinn.

Ég tel að það hafi náðst mikill árangur með stofnun þjóðgarðsins, þrátt fyrir gagnrýni þeirra sem stunda vélvædda útivist og er svo sem ekki enn séð fyrir endann á. Ég tel að þessi árangur hafi náðst meðal annars með því að virkja yfir 30 manns í stjórnkerfi – sex í hverju svæðisráði, það er 24, auk átta manns sem eru skipaðir í aðalstjórn og varastjórn af ráðherra eða umhverfis- og útivistarsamtökum. Þetta tryggir óvenjulega, lýðræðislega aðkomu mjög margra sem ekki væri hægt að tryggja ef þjóðgarðurinn yrði felldur undir aðra stofnun. Þetta er ekki hægt að tryggja með sama hætti með ráðgjafaráðum, því að í núverandi kerfi er það t.d. svæðisráð sem velur þjóðgarðsverðina ef slíkt starf losnar. Þannig fær heimafólkið áhrif og er í stöðugri samvinnu við fagfólkið sem er ráðið.

Í upphafi var ég ekki viss um hvort sú tillaga, sem ég þó stóð að, að fulltrúar sveitarfélaganna í kringum jökulinn, hefðu meirihluta í stjórn væri sú réttasta, það er fjórir af sjö. En í starfi mínu í svæðisráði og í stjórn sannfærðist ég um að það hefði a.m.k. ekki verið röng ákvörðun. Í svæðisráðum sitja þrír fulltrúar sveitarfélaga og þrír fulltrúar félagasamtaka með ólíka hagsmuni og áhugamál. Í stjórn sitja formenn svæðisráðanna fjögurra, sem eru fulltrúar sveitarfélaga, ásamt tveimur fulltrúum ráðherra og tveimur fulltrúum félagasamtaka, þar af er annar þeirra áheyrnarfulltrúi.

Margir samherjar mínir í náttúruverndarhreyfingunni tala fyrir því að Vatnajökulsþjóðgarður verði látinn falla undir nýja og óstofnaða Þjóðgarðastofnun og nota meðal annars sem röksemd að þjóðgarðarnir þrír séu með þrenns konar ólíkt stjórnarfyrirkomulag. Ég get verið sammála því að það sé skrítið, ekki síst stjórnarfyrirkomulag Þingvalla. En Þingvellir eru ekki til umræðu í þessari hugleiðingu minni heldur árangurinn af stjórnarfyrirkomulagi Vatnajökulsþjóðgarðs. Og  hann tel ég góðan og að það megi ekki hrófla við því út frá einhvers konar heildarkerfishugsun. Verði stofnaðir fleiri þjóðgarðar á hálendinu má endurskoða þetta stjórnarfyrirkomulag síðar; ég bara trúi ekki því að það liggi á því áður en það er til nokkur annar þjóðgarður af viðlíka stærð.

Svarið við fyrstu spurningunni, Hvernig finnst þér hafa tekist með stjórnun Vatnajökulsþjóðgarðs?, er: Í engu tilviki í minni tíð í þessu stjórnkerfi veit ég til þess að neinn fulltrúi sveitarfélags hafi tekið afstöðu á móti náttúruvernd. Allir voru í þeim gír að ná sem lengst með þjóðgarðinn, byggja hann sem best upp, meðal annars með ráðningu fagfólks, og að ná sáttum um stór mál og smá. Með þessu fyrirkomulagi tóku sveitarfélögin talsverða ábyrgð á þjóðgarðinum sem hefur skipt mjög miklu máli. Sjálfsagt mismikla og hugsanlega ekki alltaf gert rétt, þótt mér takist reyndar ekki að rifja upp neina alvarlega ranga ákvörðun svona í fljótheitum. En það sem mestu skiptir er að stofnun á borð við Umhverfisstofnun var ekki milliliður milli ráðuneytis og stjórnar þannig að heimafólk á svæðunum fékk að hafa áhrif. Hér ræður líka miklu að Umhverfisstofnun hefur ekki heldur tiltrú margra okkar sem eru í náttúruverndarhreyfingunni. Og það má ekki hætta árangrinum með því að búa til nýja stofnun sem kannski hefði enga tiltrú.

Svo er spurt Myndir þú vilja leggja til breytingar á núverandi fyrirkomulagi stjórnunar Vatnajökulsþjóðgarðs? Ef svo er, hverjar ættu þær að vera og af hverju? Ég legg til að gerðar verði minni háttar breytingar sem gætu styrkt núverandi stjórnarfyrirkomulag:

·         Að það verði skoðað hvort það komi til greina að það verði starfsstöð í Rangárvallasýslu, sambærileg við Mývatnssveit og Höfn, það er starfsstöð númer tvö á sama svæði, starfsstöð með sérfræðingum en ekki þjóðgarðsverði.

·         Að ráðherra skipi aðeins formann en ekki varaformann án tilnefningar og að fulltrúi útivistarfélaga fái þannig atkvæðisrétt í sjö manna stjórn. Ráðherra gæti valið varaformann stjórnar úr hópi fulltrúa sveitarfélaga eða ætlað sveitarfélögunum að velja hann. Eða varaformannssætið róteri á milli svæða. Róttækara væri að sveitarfélögin veldu fulltrúa til að vera formaður og ráðherra skipaði aðeins einn fulltrúa án tilnefningar.

·         Að það verði tryggt að framkvæmdastjóri sem stjórn er heimilt að ráða hafi aðsetur á einni af lögbundnum starfsstöðvum þjóðgarðsins. Það er aldeilis óþarft að það sé sérstök starfsstöð í Reykjavík og var raunar langtímafrekasta verkefni í stjórninni þann vetur sem ég sat þar að ræða flækjustigið sem af því hlaust. Það er samt mikilvægt og lýðræðislegt að enginn einn staður verði gerður að formlegum höfuðstöðvum þjóðgarðsins. Ef framkvæmdastjóri stjórnar verður staðsettur á einhverri starfsstöð gæti það vissulega orðið lögheimili á meðan svo er.

 

Þessi hugleiðing verður send starfshópnum sem skipaður er Jóni Geir Péturssyni, formanni, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Daða Má Kristóferssyni, dósent við Háskóla Íslands, og Gunnþórunni Ingólfsdóttur, sveitarstjóra Fljótsdalshrepps, tilnefndri af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Reykjavík, 8. mars 2013


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband