Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Ályktun um Vatnajökulsþjóðgarð

Ályktun um Vatnajökulsþjóðgarð frá Náttúruverndarsamtökum Suðurlands

"Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka  Suðurlands haldinn á Selfossi  5. maí 2011 fagnar framsýnni  Stjórnunar-  og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs, sem ráðherra umhverfismála staðfesti í febrúar sl.  Mikilvægast er að nú gefst tækifæri til að hlú að framsýnum markmiðum stærsta þjóðgarðs í Evrópu, þar sem horft er til framtíðar varðandi náttúruvernd, skipulagningu göngu- og umferðarleiða gesta og móttöku ferðamanna, svo koma megi í veg fyrir frekara tjón náttúrunnar  vegna óheftrar og óskipulagðrar umferðar ökutækja og mannvirkjagerðar sem allt of víða blasir við. Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðurlands  skorar á umhverfisráðherra og stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs að standa vörð um metnaðarfulla, nýstaðfesta Verndaráætlun þessa stærsta þjóðgarðs Evrópu.  Greinargerð:

Mikilvægt er að að horfa til langrar framtíðar varðandi hálendi Íslands, víðerni, mannvirkjagerð og að vélvæddri útivist verður að setja skorður, rétt göngufólks á fáförnum opnum landsvæðum skal virða. Akstur utan vega er verulegt vandamál á hálendi Íslands. Á hverju sumri koma hópar fólks á óskráðum vélhjólum og aka án hiks um viðkvæm gróðursvæði á suðurhálendinu. Uppi eru áform um að láta undan skammsýnum kröfum fámenns hóps jeppafólks um að aka megi um Vonarskarð og að þeir fái að aka leið sem þeir bjuggu til norðan Dyngjufjalla. Líklegt er að ef gefið verður eftir hvað varðar framangreindar umferðarleiðir og þær opnaðar aftur, þá muni í kjölfarið verða sótt í að gerð verði ökuleið um Þjórsárver og Arnarfellsmúla og víðar. Því er afar mikilvægt að hvergi verði bakkað frá ákvæðum Stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs um umferðarleiðir ökutækja og veiðifriðland við Snæfell og Eyjabakka.

Ég geri þá athugasemd við þessa greinargerð að ég veit ekki til þess að það séu uppi nein "áform um að láta undan" kröfum sem ég vissulega tek undir að séu skammsýnar. Það er hins vegar verið að ræða við fulltrúa fjölmennra hópa útivistarfólks um samgöngur í garðinum, og þar er ekkert sérstakt undanskilið til umræðu. Ég segi þetta af því ég hef setið fundi í stjórn þjóðgarðsins undanfarið hálft ár.

Eðlilegt að er náttúruverndarsamtök láti nú í sér heyra um þetta mál og ég tek undir sjónarmiðin sem í áætluninni birtast að öðru leyti en því að það séu uppi áform um að opna á ný einhverjar leiðir. Reyndar er rangt hjá Náttúruverndarsamtökum Suðurlands að einhvern tíma hafi verið opin leið norðan Dyngjufjalla - en það er nú kannski útúrsnúningur hjá mér að benda á það. Það var tekin ákvörðun í Stjórnunar- og verndaráætluninni að opna ekki slíka leið og engin sérstök eftirspurn var eftir henni þegar unnið var að áætluninni.

Það kunna að vera fleiri staðir sem kemur til álita að opna akstur um með ströngum skilyrðum. En vonandi koma fram markvissar tillögur frá samráðshópnum á vegum þjóðgarðsins.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband