Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Að dreyma útburð ráðuneytisstjóra!

Mig dreymdi draum í fyrrinótt, sem er ekki í frásögur færandi, nema að efni draumsins var að ég var að bera ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins út úr einhverju húsi, ég held að lokinni einhverri ráðstefnu, bera hann út eins og hálfgerða tusku eða hund, með taki í hnakkadrambið. Nú er fátt hægt að leggja út af þessum draumi annað en að í mér býr sú einlæga von að ný ríkisstjórn taki til í stjórnkerfinu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur hreiðrað um sig í, ekki bara á síðustu átján árum en miklu lengur. Hitt er allmiklu merkilegra að nefndur ráðuneytisstjóri skrifar varnargrein sem var það fyrsta sem ég sá í Mogganum snemma morguninn eftir. Áðan las ég greinina og er feginn að ég gerði það því að sérhver á sér málsvörn. Hann lýsir því hvernig hann eignaðist hlutabréfin og hvers vegna hann gat tæpast selt þau fyrr og að það hafi ekki verið innherjaupplýsingar sem réðu þeirri sölu, heldur einmitt það sjónarmið að óheppilegt sé að ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins eigi hlutabréf í fjármálafyrirtækjum. Ég dæmi ekki um formlega sekt eða sýknu hans hvað varðar lögbrot, en ég er nokkuð viss um að nefndur ráðuneytisstjóri ber ábyrgð á þeirri pólítík sem rekin hefur verið og er valdandi að kreppunni.


mbl.is Ríkisstjórnin kynnt í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varðar okkur um kynhneigð forsætisráðherra?

Það er mjög athyglisvert að fylgjast með fréttum af kynhneigð mögulegs verðandi forsætisráðherra Íslands, Jóhönnu Sigurðardóttur. "Iceland is set to become the first country to have an openly-queer head of government", segir einn vefmiðill [Ísland verður líklega fyrsta landið til að hafa yfirlýsta samkynhneigða manneskju sem æðstu manneskju ríkisstjórnar]. Sem minnir okkur á að við vitum yfirleitt ekkert hver er kynhneigð stjórnmálafólks því að hjúskaparstaða hefur í gegnum tíðina ekki verið örugg leið til að segja til um kynhneigð. Þannig veit ég ekki hvort Jóhanna verður fyrsti samkynhneigði forsætisráðherra Íslands eða fyrsti samkynhneigði forsætisráðherra heims. Reyndar eru meiri líkur á því að hommar eða tvíkynhneigðir karlar hafi gegnt slíku starfi án athygli út á það en að lesbíur eða tvíkynhneigðar konur hafi komist til sömu metorða, einmitt vegna þess að karlar hafa að mestu einokað þetta starfsheiti í veröldinni. Þessi umræða er um margt jafngáfuleg og að segja að Geir Haarde hafi verið síðasti gagnkynhneigði forsætisráðherrann úr röðum Sjálfstæðisflokksins. Ekki að ég viti nokkurn skapaðan hlut um kynhneigð hans og kemur hún ekki við - en ég vona að hann verði sá síðasti úr Sjálfstæðisflokknum.

En hvað um það: Á sama hátt og þessi umræða getur hæglega dregið athygli frá verkum Jóhönnu, hver sem þau eru, hef ég samt ekki á móti því að um kynhneigð hennar sé rætt ef það eykur virðingu landsins út á við. Við þurfum á því að halda á þessum tímamótum.


mbl.is Jóhanna vekur heimsathygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær sýning í Listasafninu á Akureyri

Óhætt er að segja að sýning Margrétar Jónsdóttur í Listasafninu á Akureyri, Hvítir skuggar, hafi komið mér á óvart. Ekki að það hefði átt að koma mér á óvart að hrífast af verkum Margrétar eins þekkt og Margrét er af margvíslegum verkum sínum á Akureyri. Það sem kemur á óvart er að sjá bæði gamalkunnuga muni og ótrúlega falleg listaverk öll saman í þeirri umgjörð sem hefur verið sköpuð og hvernig kertastjakar og bollar verða eiginlega að alveg nýjum hlutum þegar þeim er raðað upp eins og þarna er gert. Það hefur líka verið fróðlegt að heyra viðtöl við Margréti um listina bæði á RÚV í kvöld og Aksjón í síðustu viku.


Kosningar sem allra fyrst

Miklar umræður eru um hvenær kosningar verða og hvort flokkarnir setji allir hagsmuni sína á oddinn um kosningadag, en ekki hagsmuni þjóðarinnar. Ég held að þegar meirihlutastjórn fellur með þvílíkum dampi og nú gerðist eigi að kjósa sem fyrst og það sé meginregla. En á að gefa nýrri stjórn Samfylkingarinnar og VG færi á að spreyta sig? Kannski - en um leið er það óeðlilegt "forskot" sem þá er fengið. Nefnt hefur verið að kosningar valdi óróa og að stjórnmálafólk muni ekki leggja sig fram í glímunni við efnahagsvandann. Ef eitthvað hið minnsta er hæft í því að ný stjórn verði upptekin af kosningunum ætti að kjósa sem fyrst til að stytta þann tíma. Niðurstaða mín er hins vegar sú að flokkarnir hljóti að koma sér saman um kosningadag. Það er mín skoðun að það ætti að vera sem fyrst og er ég þar sammála flokkssystkinum mínum í VG.
mbl.is Nær Evrópu með Vinstri grænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna útgjalda- og skattahækkunarmanneskja

Geir Haarde fráfarandi forsætisráðherra, tuttugasti mest ábyrgi einstaklingurinn fyrir ástandi efnahagsmála í heiminum, finnur að því að Jóhanna Sigurðardóttir sé forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar því að hún sé fyrir útgjöld og skattahækkanir. Í þessari yfirlýsingu Geirs felst vitanlega talsvert "heilbrigðisvottorð" fyrir Jóhönnu: Í því ástandi sem nú ríkir er útilokað annað en við þurfum að leggja meira fram til samfélagsins til þess að ríki og sveitarfélög geti varið velferðina í landinu hvort heldur það eru fjármál til húsnæðis eða almannatryggingar, menntun og heilbrigðismál. Sérstaklega ef við erum aflögufær með sæmileg laun eða eignir.
mbl.is Stjórnarsamstarfi lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lagst á grænt eyra

Hann var ágætur, fréttamaður Ríkisútvarpsins, sem áðan spurði Sigmund framsóknarformann að því hvort hann færi nú heim og leggðist á sitt græna eyra og biði eftir því hvort Samfylking og VG hefðu myndað stjórn í fyrramálið. Ég geri ráð fyrir að þetta sé framsóknargrænt eyra.
mbl.is Ný ríkisstjórn í kortunum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sendum "björgunarleiðangur" í rétta átt

Í viðtali í RÚV í gærmorgun kvaðst forsætisráðherra ekki sjá annan betri kost en að sitja áfram í stjórn með Samfylkingunni. Eiginlega setti hann þetta nú fram eins og að hann ætti við við "skárri" kost. Auðvitað vill Sjálfstæðisflokkurinn sitja sem lengst að völdum, seinka kjördegi eins og flokknum er stætt. Alveg sama þótt hann sé rúinn trausti og ráði ekki við ástandið. Líkingin um björgunarleiðangur, sem ekki má stoppa í miðri ferð, er ámátleg því að það er alltaf sendur út nýr ef í ljós kemur að sá fyrri fór í austur en týnda fólkið reynist vera í vesturátt. Og einhvern veginn svoleiðis virkar staðan þannig á mig, t.d. þegar farið er raska í skipulagi heilbrigðismála, t.d. hér á Norðurlandi.


mbl.is Rof milli þings og þjóðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkir þetta 111 milljarða SKULD?

Merkir "neikvætt eigið fé" skuld? Eða hvað? Mörg eru orðin sem ég skil ekki þegar talað er um fjármál. Eitt er skuldabréfavafningar - það minnir mig svolítið á vafnar sígrettur, og eru þeir eflaust viðlíka hættulegir á annan máta.
mbl.is Eigið fé Stoða neikvætt um 111 milljarða króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einangrun Sjálfstæðisflokksins

Svo var að heyra á skoðanakönnun sem Ríkisútvarpið sagði frá í sjö-fréttum sínum (veit ekki hvar birt) að Sjálfstæðisflokkurinn og lítill hópur stuðningsfólks hans væri nú einangraður í afstöðu sinni til mótmælanna sem hafa átt sér stað undanfarna daga. Tveir þriðju hlutar þjóðarinnar styðja friðsamleg mótmæli, einn fjórði hluti á móti, og það er bara meðal fylgisfólks Sjálfstæðisflokksins sem er meiri hluti gegn mótmælunum. Nú ríður á að Samfylkingin rjúfi samstarfið við flokkinn strax og efni til samstarf með einhverjum hætti við VG og Framsókn fram að kosningum í mars eða apríl. (Þetta er frétt Fréttablaðsins, sbr. frétt Moggans: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/01/23/meirihlutinn_stydur_motmaelin/)


mbl.is Landsfundur færður nær kosningum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háskólinn á Akureyri: Lögð niður bestu störfin?

Fyrir nokkrum dögum kynnti framkvæmdastjórn Háskólans á Akureyri tillögur sínar til sparnaðar í rekstri Háskólans á fjölmennum fundi starfsfólks. Á fjárlögum 2009 eru Háskólanum ætlaðir tæplega 1,4 milljarðar eða eftir því sem næst verður komist 8,6 eða 8,8% meira en á fjárlögum 2008 (þetta vissi framkvæmdastjórnin ekki á fundinum - þetta eru tæp 6% eftir nýjum upplýsingum þann 23. janúar), en það sem meira máli skiptir er að upphæðin er 7,1% lægri en til stóð í upphaflegu fjárlagafrumvarpi og því mikill vandi á höndum stjórnenda. Stjórnendur Háskólans settu sér þrjú markmið: Vernda störf, raska ekki námi nemenda og byggja upp öflugan háskóla (til langtíma), hafi ég skilið rétt það sem rektor sagði á fundinum. Sparnaðurinn sem þurfti að ná fram, miðað við frumvarpið og áætlanir unnar út frá því, er ríflega 100 milljónir og næst tæpur helmingur með því að samningur við menntamálaráðuneytið um eflingu Háskólans frá desember 2007 frestast. En rúmlega 50 milljónir á að spara með því að veita engin svokölluð rannsóknarmisseri á síðari hluta árs 2009 og fyrri hluta árs 2010 og leggja af að mestu eða alveg ferðir á rannsóknarráðstefnur erlendis.

 Rannsóknir eru, ásamt kennslu, kjarnastarfsemi háskóla. Kennsla í háskólum er að því leyti frábrugðin kennslu í öðrum skólum að við sem kennum notum og eigum að nota þekkingu úr rannsóknum sem við sjálf höfum stundað eða aflað með því að fylgjast með því besta sem gerist í fræðaheiminum um víða veröld. Þetta er einkum gert með þrennu móti: Í fyrsta lagi eru 40-43% vinnutíma prófessora, dósenta og lektora, sem hafa gengist undir strangt hæfnismat, ætlað að fara í rannsóknir, í öðru lagi með að við förum í rannsóknarmisseri , eitt á hverjum þremur árum eða eitt ár af hverjum sex, og í þriðja lagi með því að Háskólinn hefur kostað eina ráðstefnuferð til útlanda á tveggja ára fresti. Með því að borga eitthvað með sér hefur mörgum tekist að fara árlega, eða oftar með því að finna aðra styrki, eða borga meira með sér, og þannig flutt á ósérhlífinn hátt með sér þá þekkingu sem með þessu fæst, en einnig miðlað þeirri þekkingu sem við höfum skapað hér. Háskólinn ætlar líka að skerða dagpeninga á ferðalögum innanlands, t.d. ráðstefnuferðum, en mér skilst að greiða ferðakostnaðinn. Að hætta að greiða slíka dagpeninga er brot á kjarasamningi.

Þessar aðgerðir eru mjög alvarlegar og koma til með að bitna á rannsóknum þar sem yfirvöld Háskólans gefa til kynna að rannsóknarmisserum verði fækkað mjög þegar þessu aðhaldstímabili sem að ofan er nefnt lýkur - og hafa þannig skapað ótta um að rannsóknarmisseri verði lögð alveg af. Það er líka hugsanavilla í aðgerðunum því að með því að rannsóknarmisseri eru lögð niður eru lögð niður þau störf, sem í því felast. Og þetta eru ekki bara einhver störf, heldur eru þetta nú vísast einhver allra eftirsóknarverðustu störfin sem unnt er að fá á Akureyri, og það er ekki sagt til að kasta rýrð á önnur góð störf . Ég veit ekki með vissu hversu margir áttu að vera í rannsóknarmisseri á næsta háskólaári en það eru líklega milli fimm og tíu á hverjum tíma. Við sem ekki fáum rannsóknarmisseri á árinu 2009 eða árinu 2010 samkvæmt reglum, samþykktum í upphafi síðasta árs, munum þá kenna og spurt er: Hvað verður þá um „störf" þeirra sem hefðu leyst okkur af? Getur verið að framkvæmdastjórnin hafi gleymt þeim?

Okkur verður örugglega sagt að við höldum 40-43%-rannsóknartímanum. Og ég hef ekki heyrt nein áform um að leggja hann af enda er hann í kjarasamningum sem verður ekki einhliða breytt. Okkur var líka sagt á fundinum um daginn frá því að að við gætum sótt um fé úr innlendur og erlendum samkeppnissjóðum, rétt eins og við höfum ekki vitað vel af þeim sjóðum. Við í Háskólanum á Akureyri höfum verið misdugleg að ná því fé og eitt af því sem átti að efla á næstu árum var að leggjast á eitt um að okkur gengi betur á því sviði. Flestir samkeppnissjóðir leggja mikið upp úr samvinnu háskóla, helst í mörgum löndum. Rannsóknarmisseri og ráðstefnuferðir eru meðal annars notuð til að hitta aðra fræðimenn til að kanna áhuga og undirbúa slíkar umsóknir.  Með því að leggja niður slíkt dregur úr möguleikum okkar á að ná fé úr samkeppnissjóðum.

Ástæða er hafa verulegar áhyggjur af boðuðum aðgerðum fyrir framtíð Háskólans á Akureyri. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að virtir fræðimenn leiti fyrir sér annars staðar þar sem rannsóknarmisseri verða ekki lögð niður og fé til að fara á ráðstefnur erlendis veitt. Það verður enginn stórflótti strax því að við sem vinnum hér erum viljum Háskólanum vel - en okkur ber skylda til þess að verja þær starfsaðstæður sem hér er lýst því að það verður býsna erfitt að laða að nýja kennara við þessar aðstæður. Þetta er stórt landsbyggðarmál ef lögð eru niður bestu störfin utan höfuðborgarinnar - eða þeim breytt á svo gagngeran hátt. Þetta þekki ég ágætlega því að ég flutti gagngert til Akureyrar fyrir fjórtán árum - en mér þykir ekki líklegt að ég hefði gert það hefði ég ekki haft vonir um geta fengið rannsóknarmisseri sem hluta af starfskjörum. Rannsóknir í Háskólanum á Akureyri leggjast ekki af nú þegar þótt þessar gjörðir verði, meðal annars vegna þess að rannsóknir eru langtímaverkefni og niðurstöður bíða iðulega birtingar - en afleiðingarnar verða afdrífaríkar fljótlega.

Mér skilst raunar að nýskipað háskólaráð þurfi að samþykkja þessar gjörðir, meðal annars þar sem þær eru brot á ársgömlum og metnaðarfullum reglum um rannsóknarmisserin sem tryggðu virkustu rannsakendunum forgang að því að fara í rannsóknarmisseri. Þannig að kannski verður dregið úr afleiðingum þessarar gjörðar eða gefin út yfirlýsing um að hún sé tímabundin.


mbl.is Mótmæli á Ráðhústorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband