Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Loksins hægt að fagna einhverju

Mikil ástæða er til að fagna úrskurðinum um sameiginleg mat á umhverfisáhrifum álvers við Húsavík og orkuöflun fyrir álverið. Einnig er ástæða til að hrósa Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, eftir talsvert harða gagnrýni í garð hennar upp á síðkastið, meðal annars fyrir að úrskurða ekki á sama hátt um álverið í Helguvík. SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, fagna að sjálfsögðu þessum úrskurði.

Hér fyrir norðan er margt í gangi sem er talsvert verk að fylgjast með, bæði fyrir almenning og líka fyrir áhugamannafélög eins og SUNN. Álverið hefur lagt fram tillögu að matsáætlun fyrir 346 þús. tonna álver, ekki beysið plagg. Það getur nú tekið það til handargagns og undirbúið raunverulega vinnu um umhverfisáhrifin samanlögð, sem ég fullyrði að séu gríðarleg og óafturkræf. Þótt ein og ein borhola sé það ef til ekki metin ein og sér eins og rannsóknarborholur á Þeistareykjum sem þurftu ekki í mat á umhverfisáhrifum. Það liggur líka núna frammi einhvers staðar mat á Kröfluvirkjun II, sem hefur alvarleg áhrif umfram fyrri Kröfluvirkjun sem varla hefði staðist umhverfismatsferli hefði það verið til á 8. áratug síðustu aldar.

Í frétt Moggans er tekið upp úr úrskurðinum sem er birtur á heimasíðu blaðsins: „Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 13. febrúar 2008 er felld úr gildi og skulu umhverfisáhrif álvers á Bakka við Húsavík,  Þeistareykjavirkjunar, Kröfluvirkjunar II og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum til Húsavíkur metin sameiginlega ..." Ein framkvæmd, virkjun í Bjarnarflagi, er þarna undanskilin, þar sem hún fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum 2004. Hún er þó ekki óumdeild eða óumdeilanleg, fremur en virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár.


mbl.is Framkvæmdir metnar heildstætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjórsárorkan norður?

Í Morgunblaðinu í dag heldur Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra því fram að það sé ekkert misræmi í því að hafa tekið skóflustungu að álveri í Helguvík og að vera á móti virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Hann heldur því fram að hann hafi ekki tekið afstöðu til álversins og að álverið í Helguvík og virkjun í Þjórsá hefðu ekkert hvort með annað að gera. 

Nú verður að trúa ráðherranum um að hann hafi ef til vill byrjað að moka fyrir álverinu án þess að hafa sannfæringu fyrir því, rétt eins og þegar samflokksráðherra hans úrskurðaði um umhverfismat álversins gegn sannfæringu sinni - en einmitt þess vegna er ástæða til að spyrja Björgvin að því hvernig hann viti að álver í Helguvík og Þjórsá hafi ekkert hvort með annað að gera úr því að orkukostir Helguvíkurálversins eru ekki metnir með álverinu. Og það má líka spyrja sig að því, meðan ekki liggur fyrir hvort orkukostir Húsavíkurálversins verða metnir með því, hvort orkan úr Þjórsá muni á beinan eða óbeinan hátt fara norður, t.d. með því að móti að rafmagn úr Blönduvirkjun komi ekki suður heldur verið sent til Húsavíkur og Þjórsárrafmagn komi á almennan markað í staðinn.


Víst er til önnur raunhæf leið milli Dettifoss og Mývatnssveitar

Víst er til önnur raunhæf leið milli Dettifoss og Mývatnssveit en sú sem fara á rétt hjá ánni. Sú leið er nálægt núverandi slóð, um 10 km styttri en leiðin við ána, og spillir ekki minjum um hamfaraflóð eða möguleikum til gönguleiðar meðfram ánni og upplifun af ánni. Þannig að samgönguráðherra í fréttum Ríkisútvarpsins (ruv.is) núna rétt áðan hefur bara ekki rétt fyrir sér. Og eins og fram kemur í bloggi mínu fyrr í vikunni fékk leiðin sem fara á falleinkunn Skipulagsstofnunar en ekki leiðin fjær ánni.

Ráðherrann hefur eflaust rétt fyrir sér um vegtæknilegan undirbúning allra framkvæmdanna þriggja, ef ég þekki vinnubrögð Vegagerðarinnar rétt. En ekki þegar kemur að umhverfisáhrifum veganna því að þrátt fyrir úrskurði umhverfisráðherra um vegina um Teigsskóg og Lyngdalsheiði er það misráðið að leggja þá vegi, en það er ugglaust rétt að ekki nægar rannsóknir hafi farið fram á öðrum kostum í þeim tilvikum. Ráðherrann verður því að greina á milli þessara þriggja framkvæmda hvað þetta atriði varðar: Það er einfaldlega til önnur leið og betri frá Mývatnssveit til Dettifoss.


mbl.is Sakar samgönguráðherra um skilningsleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimili og gallerí

Einn af skemmtilegustu viðburðum hversdagsins á Akureyri er sýningaropnun í myndlistargalleríinu Kunstraum Wohnraum. Það er til húsa á heimili Hlyns Hallssonar, ofurbloggara, og Kristínar Kjartansdóttur í Ásabyggð 2 á Akureyri. Kunstraum Wohnraum hefur verið starfrækt frá árinu 1994, fyrst í Hannover í Þýskalandi og nú á Akureyri.

Eins og fram kemur í fréttatilkynningu, sem birt er á blogginu hans Hlyns, verður næst opnað kl. 11 á sunnudaginn kemur, þ.e. 27. júlí, en það hefur verið regla svo lengi sem ég man eftir galleríinu að opnun er kl. 11-13 á sunnudögum, sem er alveg sérlega hentugur tími til þess arna, hvort heldur er stórhríð eða sólskin, og gerir venjulegan sunnudag að hátíðisdegi við að skoða myndlist og ræða við aðra gesti yfir kaffibolla og veitingum við eldhúsborðið hjá þeim Hlyni og Kristínu.

Listamaðurinn sem nú mun sýna heitir Alexander Steig. Verkið er byggt á gjörningi og myndbandsinnsetningu og hefur þegar verið sýnt í Musée d´Art Moderne et Contemporain de Strassbourg, Dartington Gallery í Totnes á Bretlandi og í MoNA í Poznan í Póllandi. Nánari upplýsingar um verk Alexanders Steig er að finna á http://www.alexandersteig.de. Sýning Alexanders Steig stendur til 13. september 2008 og er opin eftir samkomulagi og hægt er að hringja í síma 462 3744.

Kunstraum Wohnraum er að finna á: http://www.hallsson.de/projects/kunstraum_wohnraum/kunstraum_wohnraum.html


Flott hjá ferðamálastjóra

Mér finnst það góð hugmynd hjá ferðamálastjóra að rannsaka ástand salerna á ferðamannastöðum með dagbókum leiðsögumanna, eins og sjá má og heyra í viðtali við formann Félags leiðsögumanna. Ferðamálastjórinn, Ólöf Ýrr Atladóttir, hefur líka góða reynslu úr ferðaþjónustunni á landsbyggðinni og lætur það örugglega ekki aftra sér þótt bloggarar geri nú hástöfum grín. Það eru gömul sannindi og ný að ef klósettin eru hrein og aðgengileg ganga gestirnir betur um. Algengasta spurning ferðalangs við komu í þjóðgarð eða annan slíkan stað er sennilega "Hvar eru klósettin?" Mig minnir næstalgengasta spurningin í Skaftafelli þegar ég starfaði þar fyrir meira en 20 árum hafi verið "Hvar er Svartifoss?"


mbl.is Skrásetja klósettferðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegir og náttúruvernd í þremur landshlutum

Í yfirlýsingu Vegagerðarinnar, þeim hluta sem birtur er í Mogganum, kemur ekki fram að þessir vegir hafa fengið falleinkunn af náttúruverndarástæðum. Nú man ég ekki hver gaf hverjum hvaða álit hvenær um vegina um Teigsskóg eða Gjábakkaveg - en veit að þeir vegir eru á leið fyrir dómstóla vegna óánægju með úrskurði umhverfisráðherra um þessa vegi. Og veit að þeir eru alvarleg náttúruspjöll þegar litið er lengri tíma sem skemmri. Og Þingvellir og Þingvallavatn á heimsminjaskrá í húfi og merkilegur birkiskógur á Vestfjörðum sem tengist Breiðafirði en líklega fellur hann ekki undir sérstök náttúruverndarlög um fjörðinn. -- [Viðbót 24. júlí: Ég fletti þessu upp í morgun hjá Skipulagsstofnun og þar sést að vegurinn um Teigsskóg fékk falleinkunn og umhverfisráðherra Framsóknarflokksins, Jónína Bjartmarz, sneri úrskurðinum við og núverandi umhverfisráðherra hefur ekki treyst sér til þess að taka málið upp. Gjábakkavegurinn hlaut ekki falleinkunn Skipulagsstofnunar. Var sá úrskurður kærður til umhverfisráðherra. Sama Jónína kvað upp úrskurð tveimur dögum fyrir Alþingiskosningar og staðfesti mat Skipulagsstofnunar að viðbættu einu skilyrði.]

Málið um Dettifossveg þekki ég betur: Skipulagsstofnun gaf þeirri veglínu sem Vegagerðin vill nota falleinkunn í áliti sínu á mati á umhverfisáhrifum, en sveitarfélagið Skútustaðahreppur gaf engu að síður út framkvæmdaleyfi sem úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál taldi standast þegar framkvæmdaleyfið var kært. Sá úrskurður breytir samt ekki álitinu og hann breytir því ekki heldur að til er önnur veglína sem má nota án þess að áhrif á náttúru þyki umtalsverð. Enda kom það fram í máli umdæmisstjóra Vegagerðarinnar í hádegisfréttum útvarps (ruv.is) í dag að það eru vegtækni og verð sem ráða, ekki náttúruvernd. Sambærileg kostnaðaratriði gilda að einhverju leyti um vegina fyrir vestan og sunnan.

Ég geri ráð fyrir að Vegagerðin sem stofnun og starfsfólk hennar sé í vandræðum með þessi mál þar sem auðvitað veit stofnunin hvað er í húfi, en hún getur tæpast haft pólitískt frumkvæði að því að fara aðrar leiðir. Er nokkur furða þótt Landvernd beini orðum sínum til samgönguráðherra sem hefur pólitískt vald? Nema í tilviki Dettifossvegar þar sem önnur veglína, nálægt núverandi slóð, talsvert langt vestan við Jökulsá, hefur ekki hlotið falleinkunn Skipulagsstofnunar. Sú leið er 10 km styttri milli Dettifoss og Mývatnssveitar.

Ef náttúruvernd fengi að ráða verður enginn af þessum þremur vegum lagður heldur fundnar aðrar leiðir, sem kannski eru allar betri í raun og veru, en dýrari. Allra nýjustu fréttir af árekstri samgöngumála við náttúruvernd að nú hefur sæsímafyrirtæki sótt um að fá að fara inn á friðlýsta svæðið við Surtsey, nýkomna á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Það er við erfiðleika að glíma í náttúruvernd.


mbl.is Vegagerðin hagar sér ekki eins og ríki í ríkinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fara að vinna í álveri?

Kannski þeir sem Björgvin G. Sigurðsson telur að verði ekki sagt upp við sameiningu Kaupþings og SPRON, en verður samt sagt upp, fái vinnu í álveri sem hann hefur byrjað að grafa fyrir? Það er stórt áhyggjuefni fyrir viðskiptavini sparisjóðanna ef þeir verða gleyptir af þeim stóru - og þjónustan versnar með sameiningu útibúa.
mbl.is Ráðherra trúir ekki á uppsagnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samsæri: Var Karadžic aldrei týndur?

Ég hef lengið átt erfitt með því að trúa því að ekki væri hægt að finna Karadžic og í útvarpsfréttum ruv.is rétt áðan kom fram í viðtali við Silju Báru Ómarsdóttur stjórnmálafræðing að fund karlsins bæri upp á áhuga Serba að tengjast Evrópusambandinu sem hefur sett þeim skilyrði um að finna stríðsglæpamennina úr Bosníustríðinu.  

Karadžic á að gjalda misgjörða sinna og þótt fyrr hefði verið, en mál hans fer reyndar fer dómstól sem gengur út frá því að fólk sé saklaust þar til sekt þess sé sönnuð, og það er gott að svo er. Ég vona að í kjölfarið muni alþjóðasamfélagið reyna að koma höndum yfir leiðtoga Ísraelsmanna vegna framkomu þeirra við Palestínumenn, og einnig leiðtoga annarra voldugra þjóða sem standa í stríðsrekstri, og fela dómstólnum í Haag að skera úr um sekt þeirra eða sakleysi.


mbl.is Karadžic skrifaði um heilsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldu jólasveinarnir í Dimmuborgum vera með?

... á ráðstefnunni í Köben? Það eru rúmir fimm mánuðir til jóla og því ekki úr vegi að undirbúa sig vel.

(Fékk orðsendingu í skóinn minn um að þeir verði ekki með, ekki núna - en kannski síðar.)


mbl.is Jólasveinar á sumri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minni á fimmtíuþúsundustu flettinguna

Sjá bloggið í gær: http://ingolfurasgeirjohannesson.blog.is/blog/ingolfurasgeirjohannesson/entry/594420/

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband