Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Betra að mæta of seint en aldrei!

Segir samgönguráðherrann! Og vill við ökum á 95 km hraða en ekki 120 km sem ég vissi ekki að hefði nokkru sinni verið valkostur. Munið þó að 90 km er löggiltur hámarkshraði víðast hvar og það er skynsamlegur hraði á bestu vegarköflunum við bestu aðstæður - ekki bara af öryggisástæðum heldur líka af umhverfisástæðum. Langskynsamlegast er þó að leggja nógu snemma af stað - en takist það ekki á heilræði ráðherrans ákaflega vel við: Betra er að komast seint á leiðarenda og þá heill heilsu, fremur en freista þess að fara fram úr öðrum og líka sjálfum sér. (Viðtal í Speglinum á RÚV, Rás 1, var að ljúka.)

 


Mútur eða mótvægisaðgerðir

Gengur fram af manni hversu opinská tilboð Landsvirkjunar til Flóahrepps eru. Bætt samband fyrir GSM-vasasíma, hluti af tilboði Landsvirkjunar, er t.d. mótvægisaðgerð til að vara fólk við því ef stíflan brestur - skilji ég Friðrik Sophusson virkjunarforstjóra rétt í útvarpsviðtali rétt áðan. Bendi á umfjöllun Ölmu Lísu varaþingmanns VG.

Minnir þó nokkuð á kolefnisjöfnunina og aflátsbréfin. Forstjóri Náttúrufræðistofnunar, Jón Gunnar Ottósson, er ekkert feiminn við að tala um skógræktaráform álbræðslusinna á Húsavík í þessu samhengi. Ef Alcoa vill bæta sig, af hverju þá ekki kaupa regnskóg? Af hverju ekki hætta að vinna báxít- endurvinna álið í staðinn? Af hverju rækta skóg á Íslandi? Jú, til að gera íslenska skógræktarsinna ánægða, fólk sem raunverulega vill náttúrunni vel og e.t.v. er hægt að freista með því að skógur geti komið í staðinn fyrir land sem fer undir lón eða háhitasvæðin á Þeistareykjum og víðar í Þingeyjarsýslum. Kaupa þannig fylgi íslenskra skógræktarsinna?

Fólkið í Flóahreppi á að fá almennilegt GSM-samband og nothæfa vegi í öðrum tilgangi en að geta flúið undan brostinni stíflu. Skógræktarsinnar eiga að sæta umhverfismati fyrir iðju sína og ef skógrækt á rétt á sér á hún ekki fara fram til "jöfnunar" vegna álbræðslumengunar.


Magma/kvika

Fór í dag og skoðaði hönnunarsýninguna Magma/kvika í Listasafni Reykjavíkur að Kjarvalsstöðum. Ægilega skemmtileg sýning þar sem eru alls konar verk, allt frá fötum og garðhúsgögnum yfir í nýjar gerðir af ljósarofum, gervilimi Össurar og súkkulaðifjöll, sem er reyndar er hægt að kaupa, en svo er líka uppskriftin gefin upp. Súkkulaðifjöllin eru samstarfsverkefni Brynhildar Pálsdóttur hönnuðar og Hafliða Ragnarssonar súkkulaðimeistara. Hvet ykkur öll til að skoða - og borða. Viðbót: Við borðuðum tvö súkkulaðifjöll í vinnunni hjá mér í gær. Brögðuðust afbragðsvel Smile 


Íslenskar landbúnaðarafurðir

Gæði íslenskra landbúnaðarafurða, sem fá verðlaun erlendis, eru kannski helsta ástæðan fyrir því að fara varlega í innflutningi á vörum sem hér er framleitt nóg af - og auðvelda framleiðslu á öðrum, t.d. með því að niðurgreiða rafmagn í átt til niðurgreiðsluna til álbræðslunnar. Íslenskir bændur þurfa sjálfir að fara varlega til að halda slíkum hlut og hugsa fram í tímann um lífræna ræktun og að koma algerlega í veg fyrir að erfðabreyttum jurtum sé hleypt út í náttúruna. Hér er talsvert ræktað af lífrænu grænmeti, jafnvel er lífrænt lambakjöt á boðstólum, að ógleymdri AB-mjólkinni sem ég borða daglega og mér skilst að sé úr Mýrdalnum. Millileið er sú að kaupa upprunavottaðar eða -merktar vörur, t.d. kjöt frá Austurlambi á Héraði. Flest grænmeti er nú upprunamerkt: Í kvöld fékk ég tómata frá Brún á Flúðum og ég man svo vel þegar ég var lítill og stundum sendi afi í Garði okkur 3. flokks tómata sem félagar í Garðyrkjufélagi Reykhverfinga fengu frá Hveravöllum. Voru bara grænir þegar þeir voru tíndir - en orðnir rauðir þegar komu upp í Mývatnssveit.


mbl.is Sjálfbært Ísland fékk verðlaun veitingahúsaeigenda í Washington
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Malbikaður vegur eða upphækkaður

Mikið búið að tala og blogga um veg yfir Kjöl undanfarið - og mér virðist að það séu aðallega tveir kostir ræddir: Óbreytt ástand eða upphækkaður vegur. Nú er upphækkaður langleiðina inn að Hveravöllum upp úr Blöndudal - bara ekki þá leið sem fyrirtækið Norðurvegur vill fara sem er yfir friðlýst land.

Fáir ef nokkrir eru á móti vegabótum á Kili, a.m.k. ekki þeir sem hafa ekið veginn. Engan langar að aka í rykmekki og í sjálfu sér langar engan að aka eftir vegi með þvottabrettum, þótt mér finnist þau séu skárri en rykið. Slíkar vegabætur þurfa að vera í samhengi við stefnumótun um friðlýsingu og aðra landnotkun á hálendinu. Persónulega fyndist mér réttast að malbika veginn en láta hann liggja í landinu sem sumarveg þar sem umferðarhraðinn er mest 70 km og alls ekki ætlað fyrir þungaflutninga. Malbikið er hins vegar ekki ódýrt - nema líklega til lengri tíma. Slíkur vegur um Kjöl yrði vegur ætlaður ferðafólki fyrst og fremst - og er það ekki af hinu góða að hugsa fyrir þeirri atvinnugrein?

Finn ekki Moggann þar sem umhverfisráðherra lýsti andstöðu við upphækkaðan veg; man einhver hvort hún sagði eitthvað um malbik? Það er þrasað um hvort samgöngu- og umhverfisráðherra muni koma sér saman um málið og hvað umhverfisráðherra hafi sagt; samgönguráðherrann fullvissar lesendur Moggans í dag um að þau muni koma sér saman. Það er nú bara ekki nóg - það þarf að vera víðtæk samstaða um vegabæturnar. (Sjá fyrri færslu.)


Stundvísi og óreiða

Athyglisvert um stundvísina og verðmæti tímans, sérstaklega tíma annarra. Kólumbíski rithöfundurinn Gabriel García Márguez gerir grín að þessu í bók sinni Minningar um döpru hórurnar mínar: "Ég uppgötvaði ... að ég er einungis stundvís til þess að ekki komist upp hve tími annarra skiptir mig litlu". Þetta er að sjálfsögðu sögupersóna hans, háaldraður dálkahöfundur við dagblað, sem hugsar þetta. Sama persóna hafði uppgötvað að þráhyggja sín um að láta hvern hlut vera á sínum stað væri til að dylja eðlislæga óreiðu Blush
mbl.is Dýrt spaug að mæta of seint á blaðamannafund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kúnstin að sitja á kaffihúsi

Yndislegur þáttur áðan í útvarpinu þar sem Sigurður Pálsson rithöfundur útskýrði hvernig hann lærði að vera á kaffihúsi í París. Reglan sem hann lærði var annaðhvort sú að staldra fremur stutt við eða setjast og vinna: Þú átt ekki að sitja of lengi því að orðið restaurant þýðir að hressa sig við … Þú átt að staldra hæfilega lengi við til að safna orku … og út aftur, ellegar sitja þar og vinna. Næstum því orðrétt eftir Sigurði – en hlustið bara á hann á vef RÚV næstu tvær vikurnar, byrjar á 27. eða 28. mínútu í þættinum Bókmenntir og landafræði.

Þetta minnir mig á að Te og kaffi á Akureyri er að flytja yfir Hafnarstrætið yfir í gamla KEA-húsið. Te og kaffi hefur verið kaffibar þar sem sannarlega er ekki hægt að vinna sitjandi á barstólum, en dásamlegt andrúmsloft fastakúnna, annarra gesta og barþjónanna flyst vonandi yfir götuna og blómstrar þar á nýjan hátt.


Styttri vegalengdir - meiri umferð?

Því er haldið á lofti að með uppbyggðum vegi yfir Kjöl muni útblástur gróðurhúsalofttegunda minnka vegna þess að vegalengdir styttist. En er það víst? Í skoðanakönnun sem fyrirtækið Norðurvegur hefur látið gera kemur fram: „Um 45% aðspurðra töldu að ferðum þeirra milli áfangastaða á Norður- og Suðurlandi myndi fjölga með framkvæmdinni en 55% töldu að þeim myndi ekki fjölga.“ Leiða má að því líkur að þessi niðurstaða bendi til þess að umferð beinlínis aukist við að leggja Kjalveg. Kannski er þetta bara bull - kannski endurspeglar þessi skoðun alls ekki almenningsálitið sem Pierre Bourdieu hafnar að sé til - sjá færslu - kannski mun akstur alls ekki aukast við þetta. En þá er varla meira að marka þá niðurstöðu sem Norðurvegur fékk að meirihluti landsmanna vilji „heilsársveg". Upplýsingar á heimasíðu Norðurvegar um skoðanakönnunina eru reyndar fremur litlar en eitthvað meira hefur um hana birst í fjölmiðlum. Aðalatriðið er þó þetta: Í þessari skoðanakönnun voru tæpast gefnir þeir ótal valkostir sem eru til staðar um samgöngubætur milli Norður- og Suðurlands, t.d. betri sumarvegur um Kjöl, jafnvel malbikaður, eða stytting hér og þar annars staðar. Og ég leyfi mér að fullyrða að það var ekki spurt um hvort viðmælendur myndu vilja að strandsiglingar væru niðurgreiddar, hvort fólk óttaðist vetrarveður og hálku á Kili og þaðan af síður hvort það vildi að byggðar yrðu upp lestarsamgöngur.


Kolefnisútblástur Íslandspósts

Í síðustu viku bloggaði ég um kolefnisjöfnun Íslandspósts - sjá færslu. Útakstursfólk stofnunarinnar heldur því miður uppteknum hætti því að í fyrrakvöld - eða var það á þriðjudagskvöldið? - var mér fært ábyrgðarbréf, og bíllinn hafður í gangi á meðan mér var afhent bréfið.

Góðir bloggvinir og aðrir bloggfélagar: Tökum höndum saman og biðjum útakstursfólk Póstsins að drepa á bílnum meðan það afgreiðir okkur.


Almenningsálitið er ekki til!

Greinasafn með titlinum Almenningsálitið er ekki til er komið út. Höfundur greinanna er franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu sem hefur rannsakað ólík viðfangsefni. Uppáhaldsefnið mitt er líklega rannsókn á því hvernig listsmekkur er tengdur félagslegum þáttum, svo sem menntun og efnahag. Hann skoðar hvernig flestar gjörðir okkar eru beint eða óbeint liður í því að skapa táknrænan auð. En hann hefur líka skrifað um ábyrgð og stöðu vísindamanna, ekki síst eigin greinar, félagsfræðinnar, enda þótt sum verk hans sé erfitt að flokka þannig á þröngan hátt.

Greinin sem bókin heitir eftir fjallar um yfirborðslegar skoðanakannanir. Skoðanakannanir geta verið framkvæmdar með "viðurkenndum aðferðum" en það getur verið að spurt sé um eitthvað sem skiptir litlu máli eða spurningarnar nái á engan hátt yfir mögulegar skoðanir eða hneigðir fólks. Hversu oft hefur það komið fyrir þig, lesandi, að þú værir spurð/ur að einhverju sem þú hafðir tæpast áhuga á því að hafa skoðun á?

Löngu var tímabært að út kæmi greinasafn eftir Bourdieu á íslensku. Hvet til lesturs hennar. Hún er ekki stór og hún er þýdd á aðgengilegt mál. (Skellli hér inn líka tengli í fyrirlestur  um Bourdieu á ráðstefnu sem var fyrir fáum misserum.)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband