Aflátsbréf hin nýjustu

Í fréttum í visir.is í janúar sl. var sagt frá því að flugfélagið SAS myndi frá og með næsta hausti bjóða þjónustu þar sem byggt er á svipaðri hugmynd og aflátsbréf kaþólsku kirkjunnar á miðöldum. Í fréttinni segir að bréf SAS séu „til þess gerð að hreinsa samvisku flugfarþega. Þeim mun gefast kostur á að leggja sautján krónur danskar ofan á fargjaldið. Krónurnar munu svo renna beinustu leið í græn verkefni sem binda samsvarandi magn gróðurhúsalofttegunda og losna við flugferðina. Þannig geta farþegarnir flogið með hreina og strokna samvisku.“

Fyrir nokkrum árum seldi myndlistarmaðurinn Snorri Ásmundsson aflátsbréf í þremur flokkum frá kr. 2000. Þau bréf eru fáanleg á íslensku, þýsku og ensku eftir því sem fram kemur á vefsíðu hans. Snorri er einnig þekktur fyrir að hætta við að bjóða sig fram í embætti forseta Íslands og ef ég man rétt var hann foringi vinstri-hægri-snú sem bauð fram til borgarstjórnar í Reykjavík 2002.

Pokasjóður úthlutaði nýlega um 100 milljónum til umhverfis- og mannúðarmála og fleiri málaflokka. Mér skilst að um helmingur af andvirði burðarpoka í mörgum verslunum renni í Pokasjóð – en líka að minna sé notað af pokum vegna gjaldsins.

Nú hafa Landvernd og Skógræktarfélag Íslands tekið höndum saman á vefsíðunni kolvidur.isog bjóða fólki og fyrirtækjum að „kolefnisjafna útblástursáhrif samgöngutækja sinna með skógrækt“. Reiknivél er á vefsíðunni þar sem maður getur komist að því hversu mikið maður hefur mengað. Kaupi maður svokallaða „kolefniskvittun“ verður gróðursettur tiltekinn fjölda trjáa, í mínu tilviki 19 tré fyrir 2.774 kr., á Geitasandi sem er einhvers staðar í Rangárvallasýslu.

Satt að segja fylgja öllum þessum aflátsbréfum og -pokum blendnar tilfinningar: Það er nefnilega ekki til nema eitt gott ráð í baráttunni við mengun andrúmsloftsins og loftslagsbreytingar; það felst í að menga minna með því að aka minna en í stað þess ganga eða nota almenningssamgöngur - nú, reyndar má hjóla líka og svo er gagn að því að nokkrir séu samferða í bíl. Kolefniskvittunin mín breytir alls engu þar. Kostnaðar- og magnvitund um mengunina, t.d. með því að nota reiknivélina á vefsíðunni, er þó undir öllum kringumstæðum mjög gagnlegt að byggja. Skógræktin sjálf eru að einhverju leyti „business“. Því miður eru engar upplýsingar um Geitasand á vefsíðunni en sandinum var lýst í útvarpsfrétt skömmu fyrir kosningar þannig að mér virtist að þar væri ekki gróðursett í votlendi – en þá væri verr af stað farið en heima setið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hef fylgst með Kolviði frá upphafi og verður áhugavert að sjá hvert þetta þróast. En ég er sammála því að svona sjóðir, sem og aðrar syndaaflausnir, er eitthvað sem er vandmeðfarið. Þarf að kynna til leiks sem mótvægisaðgerð við þá losun sem ekki er hægt að draga úr með öðrum hætti og sé því "stuðningsaðgerð" fremur en "aðalaðgerð". Og svo þarf að vera einhver trygging fyrir þá sem kaupa þessa þjónustu að bindingin gangi ekki þvert á önnur umhverfissjónarmið, t.d. varðandi líffræðilega fjölbreytni. Mætti hugsa sér að slíkur sjóður hefði t.d. sérstakar siðareglur þar sem tekið væri á þessum þáttum.

Auður H Ingólfsdóttir 23.5.2007 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband