Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Hvorki upp á punt - né til bráðabirgða!

Ég held að mér hafi þótt ræða Jóhönnu Sigurðardóttur, sem nýkjörins formanns Samfylkingarinnar, það athyglisverðasta í fréttum helgarinnar. Að vísu heyrði ég bara það sem var flutt í Ríkisútvarpinu um fjögurleytið á laugardaginn - en þar tók Jóhanna fram að hún væri ekki formaður upp á punt, ef einhver hefði haldið það, og alls til bráðabirgða og nefndi að amma hennar hefði verið pólitísk til dauðadags og hún hefði látist rúmlega 100 ára. Ég held að Jóhanna hafi með þessu kveðið í kútinn allar raddir um að hún væri bráðabirgðaformaður meðan aðrir í Samfylkingunni væru að takast á um hnossið. Að vísu höfðu þessar raddir hljóðnað nokkuð - en gott að kveða þær í kútinn.


mbl.is Greiðsluaðlögun komin í gegnum þingið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blátt skyr? Með hvaða bragði?

Fyrir fáeinum misserum var grænu skyri slett á fulltrúa á álfundi á Nordica og fyrir miklu fleiri árum var skyri slett á alþingismenn. En hvers konar skyr er Bjarni? Hrært skyr, segir hann sjálfur. En með hvaða bragði? Og hvernig á litinn? Er hann N1 skyr?


mbl.is Bjarni kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkavinavæðingin og Sjálfstæðisflokkurinn

Fremur spaugilegt er nú að frétta af stund játninganna í Sjálfstæðisflokknum þar sem nú hver um annan þveran biður afsökunar. Einkavinavæðingarstefna Sjálfstæðisflokksins var ekki óvitaháttur eins og halda mætti af ummælum Vilhjálms og Geirs Haarde heldur þrauthugsuð pólítísk stefna sem miðaði að því að skapa skilyrði fyrir þá ríku til að verða ríkari. Vel getur verið að einhverjir flokksfélagar hafi trúað því að það væri ekki á kostnað annarra sem svo færi, að það væri til óendanlegur hagvöxtur. Við fyrirgefum gjarna óvitum ýmislegt og metum stundum af hverju mistök eða glæpir voru framdir, hvort þar var á ferðinni klaufaskapur. Ef stefna Sjálfstæðisflokksins væri klaufaskapur en ekki þrautpæld stjórnmálastefna væri ef til vill hægt að taka afsakanirnar gildar.


mbl.is Mistökin Sjálfstæðisflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðaraðstoðin við Sjálfstæðisflokkinn og "hinir brutu líka af sér"

Sjálfstæðisflokkurinn bítur höfuðið af skömm sinni, framlaginu frá Neyðarlínunni, sem hefur þótt einkar neyðarlegt, með því að benda fingrinum á að aðrir stjórnmálaflokkar hafi líka brotið lögin aðstoð (ekki-aðstoð) frá ríkisfyrirtækjum. [Ég var reyndar búinn að skrifa hér að Andri hefði sagt allir aðrir - en það er ekki rétt því að í fréttinni kemur fram að hann hafi sagt að flestir aðrir hafi líka farið á svig við lögin.] Þetta hefur örugglega þótt mikilvæg neyðaraðstoð á sínum tíma, 2007, í ljósi þess að ekki mátti lengur taka við hærri framlögum frá einstökum fyrirtækjum.
mbl.is Skilar framlagi Neyðarlínunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagnað kjöri og flokksfélögum þakkað traust

Ég fagna því að hafa hlotið það traust landsfundarfulltrúa, flokksfélaga minna, að fá að sitja í flokksráði VG fram að næsta landsfundi - varð númer 24 í kjörinu eins og síðast. Þetta verður þriðja tímabilið sem ég sit í flokksráðinu og mun ég leitast við að leggja lóð á vogarskálarnar með að flokkurinn hafi róttæka sem ábyrga stefnu um náttúruvernd, jafnrétti og kvenfrelsi, kjara- og velferðarmál og utanríkismál. Á þetta mun aldrei reyna meira en ef flokkurinn verður í ríkisstjórn eftir kosningarnar í vor.

Nú um stundir er umræða um endurnýjun í flokkum, líka í VG, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins frá upphafi, verið spurður að því hvort hann muni hætta og hann svarað því að hann muni einhvern tíma hætta, helst áður en menn verði leiðir á honum! Mér finnst sumt af þessu tali um að "endurnýja" vera lýðskrum, þótt ég líka geri mér grein fyrir því að lýðræðishugsjónir snúist um að ekki ráði alltaf allir þeir sömu (hér er karlkynið viljandi haft). Við þurfum nefnilega líka forystu, reynslu og yfirsýn - og þess vegna bauð ég fram til að sitja í flokksráðinu þar sem ég tel mig hafa bæði reynslu og yfirsýn yfir mörg helstu baráttumál VG, þeim sem flokkurinn sker sig úr öðrum flokkum með, því að þótt við eigum ágætt bandafólk í Samfylkingunni í flestum málunum, sem ég nefndi, er það ekki heldur einhlítt, enda eru þetta tveir flokkar. En fyrst og síðast er VG tæki til að koma málum áfram, tæki sem aldrei er ofar málstaðnum og hinni pólítísku sannfæringu. Þótt það skipti líka máli að leika saman í liðinu og takast á um það sem ágreiningur kann að vera um.


mbl.is Úrslit í flokksráðskjöri hjá VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskaplegt væl er þetta

Vilhjálmur Egilsson hjá Samtökum atvinnulífsins er í rúmlega fullu starfi í dag við að væla undan seðlabankastjóranum, peningastefnunefndinni og forsætisráðherranum nú þegar samtök atvinnurekenda hafa ekki alla þessa aðila í vasanum. Jóhanna Sigurðardóttir hefur ekki svert fyrirtækið HB Granda - heldur hefur fyrirtækið sjálft gert það með ósvífni sinni. Ég vona að verkalýðshreyfingin mæti ákvörðun þeirra um arðgreiðslu af fullum þunga og tel eðlilegt að hún hætti við að fresta umsömdum launahækkunum við slíkar aðstæður.


mbl.is Atvinnurekendur reiðir Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eini kosturinn?

Enda þótt það sé nú ekki í verkahring mínum, af því að ég er flokksmaður annars staðar (það er í VG), að velja formann Samfylkingarinnar sýnist mér, eins og flestum öðrum, það vera eini góði kostur Samfylkingarinnar að Jóhanna Sigurðardóttir taki að sér formennskuna, a.m.k. meðan hún er forsætisráðherra. Mér fannst það hálfgert klúður þegar Ingibjörg Sólrún kom fram um daginn og lagði til að hún yrði formaður áfram og Jóhanna forsætisráðherraefni.

Það hefur verið mikið um gagnrýni á Ingibjörgu Sólrúnu undanfarið og sérstaklega meðan hún sat í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Auðvitað var það misráðið að setjast í stjórn með íhaldinu og halda áfram einkavinavæðingarstefnu þess og and-umhverfisstefnu - en um leið rétt að slíta því samstarfi þegar til uppreisnarástands var komið í samfélaginu. Um leið gleymist kannski hverju Ingibjörg Sólrún áorkaði í íslenskri pólítík í raunverulegu persónulegu kjöri þegar seta hennar í 8. sæti R-listans felldi Reykjavíkuríhaldið, ekki einu sinni eins og gerðist 1978, heldur þrívegis.


mbl.is Biðin eftir Jóhönnu á enda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju er Grafarholti skipt en ekki Vesturbænum?

Hvað veldur vali hverfis til að skipta í sundur? Myndi það rugla fólk í Vesturbænum, eða öðrum hverfum vestan Elliðaáa, meira að vera skipt? Af hverju er skipt í norður-suður, en ekki austur-vestur og mörkin færð austar eftir því sem fjölgar í úthverfunum? Er það vegna þess að þingmennirnir búa í vesturhlutanum og óttist að íbúar úthverfanna muni gera tilkall til þingsæta verði þau að sérstöku kjördæmi? Ég bjó um fjögurra ára skeið austan Elliðaáa og hefði ekki líkað að vera færður milli kjördæma á þennan máta. Og af hverju er ekki óhætt að hafa Reykjavík sem eitt kjördæmi?


mbl.is Grafarholt skiptist áfram milli kjördæma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hægt í stórfyrirtækjunum

Ég held að ef viðskiptavinir stóru fyrirtækjanna fengju að kjósa um stjórnendur þeirra yrði snarlega skipt þar um fólk í brúnni. Og hvað væru slík fyrirtæki án viðskiptavina. Gunnar Páll Pálsson var hins vegar svo heppinn - má ég segja - að vera forystumaður í almannahreyfingu þar sem hann gat látið á það reyna hvort honum væri treyst til áframhaldandi forystu. Hvernig væri að við, viðskiptavinirnir, fengjum að kjósa stjórnarfólk hjá Baugi - eða Samkaupum eða Nóatúni sem ég versla ekki síður við?


mbl.is „Taldi mig hafa þekkingu og reynslu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolbrún hefur staðið vaktina í tíu ár!

Kolbrún Halldórsdóttir alþingiskona hefur staðið vaktina í næstum tíu ár á Alþingi, áður en hún varð umhverfisráðherra. Hún hefur staðið þessa vakt bæði í umhverfis- og jafnréttismálum - og auðvitað öllum öðrum stefnumálum VG, ekki ein en lengst af ein af fimm þingmönnum flokksins. Aldrei dregið af sér, aldrei hlíft sér við að fylgja fast eftir stefnu flokksins. Sé það rétt hjá henni að hún hafi ekki aflað sér vinsælda með því - þá sannast enn og aftur hið sama að pólítík á að vera byggð á sannfæringu en ekki lýðskrumi. 

Eitt af fyrstu verkum Kolbrúnar í ráðuneytinu var að fá ríkisstjórnina til að samþykkja að staðfesta Árósayfirlýsinguna svokölluðu um aðgang almennings í umhverfismálum. Núna eru nokkrar vikur fram að kosningum og full ástæða til að nýta þær vikur vel í umhverfismálum. Ég held að það styrki best stöðu VG og ef til vill stöðu Kolbrúnar sérstaklega hvernig þær verða notaðar. Í efnahagsþrengingunum á að hugsa til framtíðar sem aldrei fyrr - og það hefur Kolbrún Halldórsdóttir sem stjórnmálamanneskja gert á sínum ferli.


mbl.is Keik og stolt í sjötta sætinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband