Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Evrópusambandsþráhyggjan og samningsmarkmið

Ég held að það sé fullt af fólki sem er með þráhyggju um Evrópusambandið og þótt margir kjósendur hafi kannski kosið flokka fyrst og fremst út af Evrópusambandsaðild erum við líka mörg sem tókum ekki sérstakt tillit til þess - heldur til annarra þýðingarmikilla málaflokka. En við komumst víst ekki undan því að þetta mál muni herja á okkur á næstunni.

Vinstri græn mega ekki gleyma því að flokkurinn nýtur trausts til að standa gegn Evrópusambandinu - eða er það í sjálfu sér markmiðið? Markmið okkar sem höfum annaðhvort verið andvíg aðild eða haft stórkostlega miklar efasemdir hljóta að þurfa að vera skýr EF sótt verður um. Markmiðið hlýtur að vera það að auðstéttir Evrópu nái ekki tökum á innlendri matvælaframleiðslu meira en orðið er, eða hægt sé að draga úr tökum innlendrar auðstéttar. (Við þessa færslu má auðvitað bæta mikilvægi þess að velferðarkerfið og íslenskir kjarasamningar fái að standast, eins og barist er um núna og varð til umræðu rétt fyrir kosningarnar.)

Í aðildarviðræðum myndi ég setja þrennt í forgang: Verndun og eflingu landbúnaðarframleiðslu, eflingu byggðarlaga landsins með meiri möguleikum á fiskveiðum, og umhverfismál, þar með talin náttúruverndarmál og almenningssamgöngur. Við eigum gott samstarf á sviði menntunar og menningar sem yrði haldið áfram og má alls ekki gleyma. Þetta á við ef við erum neydd til þess að sótt verði um.


mbl.is Ræða breytingar á stjórnarráði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórsigur vinstri grænna - stöndum umhverfisvaktina

Fjölgun þingmanna vinstri grænna úr 9 í 14 er ótrúlegur árangur, tæp 22% atkvæða, er ótrúlegur árangur. Það skyggir reyndar á þenna sigur að Kolbrún Halldórsdóttir, hin mikla baráttukona í umhverfismálum, komst ekki inn á þing, en það hindrar ekki að hún geti haldið áfram sem ráðherra. Hún hefur staðið vaktina í umhverfismálum og baráttumálum kynjajafnréttis í félagi við fjóra til fimm aðra þingmenn og þingkonur flokksins meðan þingfólk flokksins var aðeins fimm eða sex manns á árabilinu 1999-2007. Nú í efnahagsþrengingunum reynir verulega á flokkinn sem umhverfisverndarflokk til að standa gegn alls konar virkjunarframkvæmdum í ám og á háhitasvæðum, bæði á suðvestur- og norðausturhornum landsins, t.d. þeirri sókn sem er í að taka Þeistareyki til virkjunarframkvæmda, og náttúruverndarsinnar hafa andæft.
mbl.is 27 nýir þingmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í hvaða veruleika?

Guðlaugur Þór Þórðarson segist ekki hafa þegið háar fjárhæðir í því "umhverfi, sem þá var". En á þessum tíma þáðu þingmenn og frambjóðendur vinstri grænna ekki styrki frá fyrirtækjum fremur en endranær. Ef til vill lifði hann í öðru umhverfi, og ekki einn þar meðal stjórnmálafólks - það var þess háttar umhverfi, þess háttar tengsl stjórnmála og viðskipta, sem leiddu til bankahrunsins: Gagnrýnislaus afstaða þar sem peningar áttu að geta keypt flest.


mbl.is Segir 40 aðila hafa styrkt sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram Kolbrún

Kolbrún Halldórsdóttir hefur sýnt á þeim fáu vikum sem hún hefur verið í embætti að hún er góður umhverfisráðherra - og Kolbrún þorir að segja sannleikann og fylgja eftir sannfæringu sinni. Ég tel að efasemdir hennar um olíuleit séu í anda stefnu vinstri grænna og hvet fleiri þingmenn og ráðherra flokksins til að staldra við. Eins og hún bendir á samrýmist olíuvinnsla engan veginn stefnu um sjálfbæra nýtingu orkulinda. Olía er ekki eldsneyti morgundagsins.

Af hverju myndum við vilja finna þar olíu? Jú - atvinna og tekjur fyrir landið. En hvað um kostnaðinn? Er það áhættunnar virði í kostnaði? Er þetta alltof langt frá landi? Er ekki alvarleg hætta á mengun? Mun það ekki hafa áhrif á fiskistofna? En það sem ég óttast þó mest er að þegar olíuvinnsla yrði hafin og tekjur umfram stofnkostnað í sjónmáli að þá verði heimsbyggðin búin að finna aðrar lausnir en olíu og markaðurinn myndi hrynja, af því að olían var eldsneyti 20. aldarinnar. Hugsum um þetta - hugsið um þetta, bloggarar góðir, áður en þið úthúðið Kolbrúnu.


mbl.is Kolbrún segir þingflokk VG ekki hafa lagst gegn olíuleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálafólk og sannfæring

Á þéssum lista er fólk sem ég held að hafi ekki selt sannfæringu sína fyrir kvartmilljón og jafnvel ekki fyrir hærri upphæð - en ég verð að játa að það veldur mér miklum vonbrigðum að frétta að Helgi Hjörvar og Steinunn Valdís Óskarsdóttir hafi þegið háa styrki. Ég vona þó að spillingin í kringum SjálfstæðisFLokkinn og einkavinavæðingu hans falli ekki í skuggann af gagnrýni á þau.

Enn og aftur er rétt að halda því til haga að frambjóðendur í forvali vinstri grænna mega ekki kosta til peningum við framboð sitt - hvað þá að þeir megi þiggja styrki frá fyrirtækjum. Vinstri græn eru því eini stjórnmálaflokkurinn af þessum fjórum flokkum sem mest fylgi hafa sem ekki eru of-tengdir stórum fyrirtækjum.


mbl.is Þrjú fengu 2 milljónir frá Baugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðsluáróður - kvótinn færist frá fyrirtækjum TIL fjölskyldna

Auðvitað er um að ræða hræðsluáróður því að ekki verður hætt við að veiða fisk. Ég hygg meira að segja að margar af þeim fjölskyldum, sem hér mætti trúa að væru ofáætlaður fjöldi, fengju betra lífsviðurværi þegar kvótinn næst frá fáum, stórum aðilum. Ætlunin er sem sé að taka kvótann frá fyrirtækjum. Og það eru einmitt þessi fyrirtæki sem mest óttast aðildina að Evrópusambandinu - því að eitt af samningsmarkmiðum við það, hvort í aðildarviðræðum eða viðræðum um tvíhliða samning, ætti að vera strandveiðar sem dreifast á fleiri, dreifast á byggðir landsins fremur en stór fyrirtæki aðallega.

Það er kannski ekki úr vegi að setja hér tengil á sjávarútvegsstefnu VG þar sem meðal annars er vísað í álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem ég tel ekki að við getum alveg hunsað (kl. 9:15 þann 23. maí).


mbl.is Segja fyrningu aðför að 32 þúsund fjölskyldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi möguleikar að birtast

Eftir síðustu skoðanakannanir sem sýna að Borgarahreyfingin eigi raunhæfa möguleika á að koma fólki á þing og að Framsóknarflokkurinn sæki fremur í sig veðrið heldur en hitt skapast sá raunhæfi, tölfræðilegi möguleiki að að annaðhvort Vinstri græn eða Samfylking geti myndað stjórn með þessum tveimur flokkur, án hins vinstri flokksins. Eflaust freistast einhverjir afar harðir Evrópusambandssinnar innan S að flokknum að reyna þetta eigi flokkurinn kost á þessu. En þar sem fylgi vinstri grænna sveiflast reyndar líka til og frá og hafi farið upp fyrir 31% í könnun Háskólans á Bifröst, þá er þessi tölfræðilegi möguleiki ef til vill líka í stöðunni fyrir vinstri græn. Niðurstaðan er þó þessi: Þetta eru fyrst og fremst tölfræðilegir möguleikar og líklega ekki góðir kostir, þótt ég vilji ekki útiloka að stjórnarsamstarf okkar vinstri grænna við Framsókn og Borgarahreyfinguna gæti verið góður kostur.

Eitt er þó ljóst að því sterkari sem vinstri græn koma til borðsins í stjórnarmyndunarviðræðum, því meiri líkur á góðri niðurstöðu - ekki bara í Evrópumálum. Ég horfi held ég persónulega mest á náttúruverndarmálin því að margir vilja gleyma þeim núna í efnahagsþrengingunum.


mbl.is S- og V-listar bæta heldur við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreint til verks? En með óhreint fyrir dyrum í náttúruvernd

Úr frétt frá Náttúruverndarsamtökum Íslands:

Til að gylla kosningaloforð sín um tvö ný álver hafa forustumenn Sjálfstæðisflokksins reynt að gera sem mest úr fjölda afleiddra starfa en þagað þunnu hljóði yfir umhverfisáhrifum virkjanaframkvæmda sem samsvara tveimur nýjum Kárahnjúkavirkjunum að afli. Virkjanir fyrir álver í Helguvík og á Bakka.

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson fullyrti í kosningaþætti Rikissjónvarpsins þann 8. apríl að þau störf sem fylgja tveimur nýjum álverum og „... afleidd áhrif, skipta þúsundum, skipta þúsundum." Í kosningaauglýsingum Sjálfstæðisflokksins er fullyrt að um sé að ræða 6000 afleidd störf.

Þessar tölur Sjálfstæðisflokksins eru mun hærri en annars staðar þekkist. Áhrif álvers á atvinnu í byggðarlagi gætu verið nokkur, t.d. er ekki ólíklegt að um 1000 ný störf tengist álveri Fjarðaáls í Reyðarfirði þegar allt er talið (þar með taldir þeir sem vinna í álverinu). Á hinn bóginn eru ruðningsáhrif álvers Fjarðaáls einnig umtalsverð.

Álver skapa fá störf og því hafa ráðamenn lagt áherslu á svo kölluð afleidd störf. Áhrif álvera á atvinnustig/atvinnuleysi eru þó engin þegar til lengdar lætur. Um það ku ekki vera nokkrar deilur meðal hagfræðinga. Forustumenn Sjálfstæðisflokksins verða að að skýra þessi efnahagsundur sín betur.

Náttúruverndarsamtök Íslands gera þá kröfu að Sjálfstæðisflokkurinn geri hreint fyrir sínum dyrum og upplýsi kjósendur um hvaða orkulindir flokkurinn vill að virkjaðar verði til að knýja tvö ný álver. Vill Sjálfstæðisflokkurinn að Skjálfandafljót eða Jökulvötnin í Skagafirði verði virkjuð? Vill Sjálfstæðisflokkurinn að virkjað verði í Krísuvík, Austurengjum og Eldvörpum?

Ég tek undir gagnrýni Náttúruverndarsamtakanna - Sjálfstæðisflokkurinn verðu að skýra mál sitt betur og svara því hvað hann ætlar að virkja. Það þýðir ekki að halda því fram að það verði byggð tvö ný álver og engu af því fórnað sem hér er nefnt - og kannski verður meiru fórnað en okkur dettur í hug í dag.


Vændi er ekki atvinnugrein heldur kúgun

Morgunblaðið fagnar í leiðara sínum nýju vændislögum sem þingmenn SjálfstæðisFLokksins voru annaðhvort á móti eða sátu hjá. Sú bábilja gengur þegar fólk ætlar að vera fyndið að kalla vændi "elstu atvinnugrein kvenna" - og það gerði t.d. efsti maður (kona) SjálfstæðisFLokksins í Suðurkjördæmi í Sjónvarpinu í gærkvöld. Slíkt er sögufölsun, annars vegar vegna þess að konur stunduðu akuryrkju og mörg önnur störf áður en nokkrum datt í hug að selja aðgang að líkama þeirra, en hins vegar vegna þess að vændi er yfirleitt ekki atvinnugrein kvenna: flestir melludólgar, það er þeir sem hafa milligöngu um að selja aðgang að líkama kvenna (og stundum drengja) eru karlar.

Hugmyndin um að vændi sé atvinnugrein er varhugaverð því að þá er rætt um það á röngum forsendum. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir í inngangsorðum að það sé ógeðfelld atvinnugrein og í lokaorðum sínum að það sé ekki venjuleg atvinnugrein. Þessu er ég sammála - nema ég vil reyndar að við losum okkur alveg við þá hugmynd að vændi sé atvinnugrein. Vændi er kúgun og ofbeldi gagnvart konum - ekki atvinna - og þá skiptir engu máli hvort einhver kona fær einhvern tíma peninga fyrir kynlíf (frjálst eða þvingað). Ég vil hrósa leiðarahöfundinum fyrir að taka þátt í að kveða niður bábiljuna um frjálsar og hamingjusamar vændiskonur.


mbl.is Fagna vændislögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki frétt að V-listi tvöfaldi fylgi sitt?

Afar athyglisvert hvað þykir frétt - er það hætt að vera frétt að VG tvöfaldi fylgi sitt og ríflega það í kjördæminu? Því kjördæmi sem flokkurinn hefur verið einna veikastur í hingað til. Nei, heldur er bent á að þarna sé kjördæmi þar sem D-listinn er stærstur. Það telst kannski til tíðinda þegar hann er orðinn fjórði í röðinni í norðausturkjördæmi. En stóra fréttin hlýtur þó að vera fylgisaukning VG.

Annars var í dag í útvarpinu spiluð gömul 1. apríl-frétt um að Vestmannaeyjar hefðu sagt sig úr lögum við Ísland. Kannski fylgi Sjálfstæðisflokksins þar sé tengt því að einhverjum datt þetta í hug.


mbl.is D og S listi stærstir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband