Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Framhaldsskólarannsóknir - fyrirlestraröð í febrúar

Námsbraut um kennslu í framhaldskólum og Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs boða til funda (málstofa) um rannsóknir á framhaldsskólastarfi. Málstofurnar, sem verða fjórar talsins, verða haldnar í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð í stofu K206 kl. 16:20–17:05 á miðvikudögum í febrúar 2013.

6. febrúar 2013: Guðrún Ragnarsdóttir, framhaldsskólakennari og doktorsnemi í rannsóknarstöðu á Menntavísindasviði við Háskóla Íslands: Rannsóknir og umbótastarf á framhaldsskólastigi í upphafi 21. aldarinnar.

Lýsing: Leitast verður við að varpa ljósi á umfang og eðli rannsókna og umbótastarfs á framhaldsskólastigi á tíu ára tímabili frá árunum 2003–2012. Allyson Macdonald og Ingibjörg Kaldalóns gerðu úttekt á formlegri og óformlegri menntun í umfangsmikilli skýrslu árið 2005. Að þessu sinni er framhaldsskólastigið sérstaklega tekið fyrir. Bent verður á það sem vel hefur verið gert en einnig verður sýnt fram á umbóta- og rannsóknagap og samstarfsþörf á milli hópa og sviða á skólastiginu um umbætur og rannsóknir. Markmiðið er að hvetja til gagnvirkra, samstilltra, samræðna á milli framhaldsskólastigsins, vísindasamfélagsins og stefnumótandi aðila til umbóta og frekari framþróunar.

13. febrúar 2013: Árný Helga Reynisdóttir, framhaldsskólakennari og meistaranemi í Kennaradeild Háskóla Íslands: Er komið að þáttaskilum í framhaldsskólum?

Lýsing: Um þessar mundir fer fram mikil vinna í framhaldsskólum landsins við endurskoðun á skólastarfi í samræmi við framhaldsskólalög frá 2008 og aðalnámskrá frá 2011. Í stað ítarlegra markmiða fyrir hverja námsgrein og námsbraut eru nú sett fá almenn markmið fyrir allt skólastarf. Frelsið, sem í þessu felst, býður upp á gott tækifæri fyrir skóla að móta námið á nútíma­legan hátt og er traust sett á fagmennsku kennara til að finna leiðir til að framfylgja metnaðarfullum markmiðunum. En svigrúmið gefur líka mögu­leika á að breyta engu, ef svo ber undir. Viðhorf kennara eru lykilatriði. Erindið er byggt á nýrri meistararitgerð höfundar um viðhorf reyndra framhaldsskólakennara til breytinga og samræmdra námskráa.

20. febrúar 2013: Gestur Guðmundsson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Staða starfsmenntunar og horfur á næstu árum

Lýsing: Starfsmenntun hefur lengi átt undir högg að sækja í íslenskum framhaldsskólum og nemendum fremur fækkað en fjölgað á meðan gífurlegur vöxtur hefur verið í almennu menntaskólanámi. Á allra síðustu árum hefur þó á nýjan leik orðið nokkur vöxtur, einkum með aukinni þátttöku fullorðinna nemenda sem margir hafa fyrst farið í gegnum raunfærnimat. Ríkisstjórn og aðilar vinnumarkaðarins settu árið 2010 fram það stefnumið að stórauka starfsnám á framhaldsskólastigi og spurningin er hversu raunhæft þetta stefnumið er. Erindið byggir á nýlegri vinnu höfundar við að skrifa yfirlit um stöðu starfsmenntunar á Íslandi og á þátttöku hans í starfshópi ríkisstjórnarinnar um menntun og atvinnusköpun.

27. febrúar 2013: Magnús Þorkelsson, aðstoðarskólameistari við Flensborgarskóla og doktorsnemi á Menntavísindasviði Háskóla Íslands: Enn ein skýrslan – sömu tillögurnar?

Lýsing: Þann 13. nóvember sl. kom út skýrslan Allir stundi nám og vinnu við sitt hæfi. Tillögur um samþættingu menntunar og atvinnu. Skýrslan var samin af nefnd sem skipuð var af stjórnvöldum og í henni má finna fjölda tillagna sem sagðar eru til þess fallnar að bæta skólastarf og draga úr brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum. Skýrslan fékk blendnar viðtökur og ekki mikla umræðu. En hversu nýjar eru tillögur skýrslunnar? Og ef þær eru ekki nýjar, hvers vegna hafa sambærilegar tillögur ekki löngu fengið brautargengi? Í erindinu verður litið stuttlega á eldri skýrslur og þá rauðu þræði sem milli þeirra liggja, skoðað hvaða örlög sumar þeirra fengu, varpað fram hugmyndum um hvort verið sé að spyrja réttu spurninganna, hvort verið sé að ofmeta brotthvarfið eða vanmeta skólana? Eða öfugt...

Veturinn 2011–2012 voru fluttir fyrirlestrar í sömu röð af málstofum. Upptökur frá nokkrum þeirra eru nú aðgengilegar á slóðinni: http://www.hi.is/menntavisindasvid/upptokur_fra_radstefnum_og_fyrirlestrum Þar verða jafnframt birtar upptökur af völdum fyrirlestrum úr þessari málstofuröð.

http://www.hi.is/vidburdir/malstofa_rannsoknir_og_umbotastarf_a_framhaldsskolastigi_i_upphafi_21_aldarinnar


Kúrdískir og norskir foreldrar

Samanburðarrannsókn á viðhorfum og þátttöku foreldra í skólagöngu barna sinna i alþjóðlegu, fjölmenningarlegu samhengi

31. janúar kl. 16-17 heldur Dr. Ingibjörg K. Jónsdóttir erindi í stofu K-204 í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð

Erindið fjallar um rannsókn höfundar sem fólst í samanburði á þremur hópum foreldra: kúrdískra foreldra í Kúrdistan i norðurhluta Íraks, norskra foreldra sem eru fæddir og uppaldir i Noregi og kurdískra foreldra sem hafa flutt til Noregs og sest þar að. Meginumfjöllunarefnið er hvað gerist í fjölmenningarlegu evrópsku samfélagi eins og Noregi og í skólakerfinu þegar fólk flytur þangað frá fjarlægari menningarheimum.

Ingibjörg K. Jónsdóttir hefur lokið B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands, meistaraprófi í sérkennslufræðum frá New Jersey City University og doktorsprófi í menntunarfræðum frá St Johns University í New York. Hún hefur meðal annars starfað sem grunnskólakennari í Íslandi og Noregi og starfar nú sjálfstætt sem ráðgjafi að menntamálum.

Erindið er haldið á vegum Rannsóknarstofu um þróun skólastarfs og Rannsóknarstofu í fjölmenningarfræðum og eru allir velkomnir.

Vefslóðir rannsóknarstofanna eru:

http://rannskolathroun.hi.is/

http://stofnanir.hi.is/fjolmenning/


Er rétt að fagna Rammaáætlun?

Ég fagna því að Jökulsá á Fjöllum, Norðlingaölduveita, hluti Hengilssvæðisins, Geysir, Kerlingarfjöll og Gjástykki skuli hafa verið sett í verndarflokk í svokallaðri rammaáætlun – ásamt fáeinum öðrum svæðum. Ég fagna að líka að Jökulsárnar í Skagafirði, Skjálfandafljót, neðri hluti Þjórsár, Hólmsá og fleiri svæði skuli ekki hafa verið sett í nýtingarflokk – þá er hægt að berjast fyrir því að ekki verði virkjað á öllum þessum stöðum eins og virkjunaröflin vilja.

Ég harma mjög mikið að Bjarnarflag og Þeistareykir í Þingeyjarsýslu og hversu mörg svæði á Reykjanesskaga eru komin í nýtingarflokk – fullkomið veiðileyfi á þau svæði.

En svarið við því hvort beri að fagna henni er samt ekki mjög skýrt - það fer dálítið eftir hvort það tekst að verja svæðin sem fóru í biðflokk.

Hér er áætlunin: http://www.althingi.is/altext/141/s/0892.html


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband