Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Á heimsmælikvarða – í fremstu röð – í fararbroddi

Í stefnuyfirlýsingu samstæðisstjórnarinnar árgerð 2007 er a.m.k. þrívegis samkeppnismarkmið við aðrar þjóðir: „Ríkisstjórnin setur sér það markmið að allt menntakerfi þjóðarinnar, frá leikskóla til háskóla, verði í fremstu röð í heiminum“. „Stefna ríkisstjórnarinnar er að á Íslandi verði veitt heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða“. „Ríkisstjórnin einsetur sér að Ísland verði í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum“.

Ég hef grun um að sú tilhneiging fari vaxandi að setja sér þvíumlík markmið, markmið sem í raun er ómögulegt að ná ef þjóðir heims vinna saman. Á Íslandi er margt til fyrirmyndar en við þurfum líka að sækja fordæmi fyrir okkur til annarra þjóða. Menntakerfið er nú þegar í fremstu röð og heilbrigðisþjónustan er með því besta sem þekkist. En við viljum að þau séu betri – fyrir okkur; ef öðrum fer fram á sama tíma fjölgar þeim fordæmum sem við getum lært af. Eitt nýlegt fordæmi þarf þó ekki að sækja til útlanda því að nýi menntaskólinn í Borgarnesi ætlar að gefa sérstaklega gott fordæmi: Að leggja niður próf og taka upp símat. Margar vikur á ári fyrir próf í skólum eru sóun á tíma, 20. aldar fyrirbæri eins og skólameistarinn, Ársæll Guðmundsson, hefur bent á í viðtölum.


Kolefnisjöfnun Íslandspósts

Í heilsíðuauglýsingu grobbar Íslandspóstur nú af því að hann kaupi kolefnisjöfnun fyrir bifreiðir sínar af Kolviði. Í mörg ár hefur það angrað mig að útakstursfólk Póstsins hefur látið bifreiðirnar vera í gangi meðan pakkar eru afhentir og greiðslur innheimtar. Stundum hef ég beðið fólkið um að drepa á bílnum á meðan og því svo sem verið kurteislega tekið. Og fyrir nokkrum árum hafði ég orð á þessu við stöðvarstjórann hér Akureyri sem tók málaleituninni vel og fannst þetta sjálfsagt mál - en ef einhver breyting varð í raun og veru þá var hún úr sögunni næst ég fékk pakka.

Íslandspóstur góður: Nú er mál að linni. Hættið að grobba ykkur af aflátsbréfakaupum - drepið frekar á bílunum.


Upplýsingafrelsi?

Nú er mikið rætt um nauðgunar"leik" sem var á vefsíðu en var tekinn af henni í dag. Eitt af því sem talsmaður vefsvæðisins nefndi var "upplýsingafrelsi". Öllu frelsi fylgja skuldbindingar hvort heldur gagnvart tjáningarfrelsinu eða öðru frelsi. Hugtak á borð við "upplýsingafrelsi" sýnist einnig notað til að réttlæta hvers konar dreifingu á hugverkum, oft stolnum frá höfundum.

Ég hef ekki séð þenna "leik" en af lýsingum að dæma hafði ég ekkert með þær "upplýsingar" að gera. Það sem meira er: af lýsingunum að dæma var heldur alls ekki um neins konar "upplýsingar" að ræða. Rit- og tjáningarfrelsinu virðist því ekki ógnað með því að taka hann af vefsíðunni.


mbl.is Nauðgunarleikur fjarlægður af íslenskri vefsíðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert stóriðjustopp

Geir Haarde hefur hamast við að sverja af sér stóriðjustopp í dag! Ingibjörg Sólrún Gísladóttir biður um að við gleymum ekki því að í stjórnarsáttmálanum séu mikilvægar yfirlýsingar um verndun Langasjávar og eflingu Vatnajökulsþjóðgarðs. Hvað er hið rétta - eða réttara sagt: Hvað er það sem ber að varast? Hefur nýja stjórnin tekið upp stefnu Framsóknarflokksins um þjóðarsátt og stóriðjustopp þegar búið verður að virkja allt sem hægt er að virkja? Gefum okkur að náttúruverndaráætlunin sem á að gera á næstu þremur árum - raunar tveimur og hálfu ef ég hef tekið rétt eftir - verði góð áætlun. En það er bara tíminn þangað til og öll þau virkjunaráform sem nú eru til staðar sem ógna náttúrunni mest af öllu. Um virkjunaráform má m.a. lesa í ársgamalli grein eftir Dofra Hermannsson, einn af hugmyndafræðingum Samfylkingarinnar í umhverfismálum. Verður náttúruverndarstefna Samfylkingar í minnihluta á Alþingi? Náttúruverndaráætlunin gæti reynst haldlítil ef hún verður gerð í kapphlaupi við þá sem vilja virkja til álframleiðslu - ef þeir fara að eins og Dofri lýsir í hinni ágætu grein sinni. Ég heiti hins vegar nýja umhverfisráðherranum stuðningi við gerð náttúruverndaráætlunarinnar.


Verkefni fyrir umhverfisráðherra

Það hlýtur að vekja bjartsýni um aðgerðir í umhverfismálum að setja Þórunni Sveinbjarnardóttur í starf umhverfisráðherra, eina þingmann Samfylkingarinnar enn á þingi, sem greiddi atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun. Enda þótt maður eigi enn eftir að heyra af stjórnarsáttmálanum og enda þótt maður hafi fulla ástæðu til að óttast að haldið verði áfram með álverin er rétt að bjóða Þórunni velkomna til starfa - því að hennar bíða ærin verkefni sem ekki verða leyst nema stjórnmálamaðurinn hafi skilning og áhuga á málinu.

Ingibjörg Sólrún gaf Þórunni þá einkunn í gærkvöldi að hún væri merkisberi í umhverfismálum. Ég vona að merkið verði ekki sett niður í einhverja gjótuna á Þingvöllum í dag heldur tekið með til ríkisráðsfundarins þar sem Þórunn heldur því á lofti gagnvart stóriðju- og álverssinnum í eigin flokki og Sjálfstæðisflokknum. Við þurfum aðgerðir í umhverfismálum hvort heldur það er náttúruverndaráætlun, friðlýsing nýrra landsvæða, stækkun friðlýstra svæða, verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá, eftirfylgja með hinum nýja Vatnajökulsþjóðgarði, stefnumótun fyrir vesturhluta hálendisins eða aðgerðir í loftslagsmálum - að ógleymdu fræðslustarfi og vakningu meðal almennings. Listinn er langur.


Aflátsbréf hin nýjustu

Í fréttum í visir.is í janúar sl. var sagt frá því að flugfélagið SAS myndi frá og með næsta hausti bjóða þjónustu þar sem byggt er á svipaðri hugmynd og aflátsbréf kaþólsku kirkjunnar á miðöldum. Í fréttinni segir að bréf SAS séu „til þess gerð að hreinsa samvisku flugfarþega. Þeim mun gefast kostur á að leggja sautján krónur danskar ofan á fargjaldið. Krónurnar munu svo renna beinustu leið í græn verkefni sem binda samsvarandi magn gróðurhúsalofttegunda og losna við flugferðina. Þannig geta farþegarnir flogið með hreina og strokna samvisku.“

Fyrir nokkrum árum seldi myndlistarmaðurinn Snorri Ásmundsson aflátsbréf í þremur flokkum frá kr. 2000. Þau bréf eru fáanleg á íslensku, þýsku og ensku eftir því sem fram kemur á vefsíðu hans. Snorri er einnig þekktur fyrir að hætta við að bjóða sig fram í embætti forseta Íslands og ef ég man rétt var hann foringi vinstri-hægri-snú sem bauð fram til borgarstjórnar í Reykjavík 2002.

Pokasjóður úthlutaði nýlega um 100 milljónum til umhverfis- og mannúðarmála og fleiri málaflokka. Mér skilst að um helmingur af andvirði burðarpoka í mörgum verslunum renni í Pokasjóð – en líka að minna sé notað af pokum vegna gjaldsins.

Nú hafa Landvernd og Skógræktarfélag Íslands tekið höndum saman á vefsíðunni kolvidur.isog bjóða fólki og fyrirtækjum að „kolefnisjafna útblástursáhrif samgöngutækja sinna með skógrækt“. Reiknivél er á vefsíðunni þar sem maður getur komist að því hversu mikið maður hefur mengað. Kaupi maður svokallaða „kolefniskvittun“ verður gróðursettur tiltekinn fjölda trjáa, í mínu tilviki 19 tré fyrir 2.774 kr., á Geitasandi sem er einhvers staðar í Rangárvallasýslu.

Satt að segja fylgja öllum þessum aflátsbréfum og -pokum blendnar tilfinningar: Það er nefnilega ekki til nema eitt gott ráð í baráttunni við mengun andrúmsloftsins og loftslagsbreytingar; það felst í að menga minna með því að aka minna en í stað þess ganga eða nota almenningssamgöngur - nú, reyndar má hjóla líka og svo er gagn að því að nokkrir séu samferða í bíl. Kolefniskvittunin mín breytir alls engu þar. Kostnaðar- og magnvitund um mengunina, t.d. með því að nota reiknivélina á vefsíðunni, er þó undir öllum kringumstæðum mjög gagnlegt að byggja. Skógræktin sjálf eru að einhverju leyti „business“. Því miður eru engar upplýsingar um Geitasand á vefsíðunni en sandinum var lýst í útvarpsfrétt skömmu fyrir kosningar þannig að mér virtist að þar væri ekki gróðursett í votlendi – en þá væri verr af stað farið en heima setið.


Náttúruverndin réð mestu

Þrátt fyrir stórsigur VG þá hélt ríkisstjórnin velli með rúmlega 48% atkvæða, nokkurn veginn alveg það sama og "kaffibandalagið". Samanlagt unnu VG og S lítið eitt á - en ekki nóg. Hér munar um þau 3,3% sem Íslandshreyfingin fékk; ef prósentumarkið væri lægra væri stjórnin fallin.

Og ef við lítum á sigur VG og fylgi Íslandshreyfingarinnar - samanlagt tæp 18% - er alveg ljóst að náttúruvernd reyndist sá einstaki málaflokkur sem réð mestu í kosningunum því að S setti líka fram áhugaverða stefnu í náttúruverndarmálum þótt Kristján Möller ætti erfitt með að muna hana þegar kom að því að tala um álbræðsluna við Húsavík. Samt var reynt að þegja um náttúruverndarmálin á endasprettinum. Það var stóriðjustefnan sem varð Framsókn alvarlegasti fjöturinn um fót. Ég skora á nýja ríkisstjórn, hver sem hún verður að taka þessar vísbendingar alvarlega.

Í augnablikinu lítil ástæða til bjartsýni um nýja ríkisstjórn þótt sú gamla segi af sér. En hver veit - kannski er Framsókn til í stjórn með VG og S. Aukin afköst umhverfisráðherra við að friðlýsa er kannski til marks um meiri skilning því að á fimmtudaginn kom hún norður í Eyjafjörð til að friðlýsa tvö svæði, annað á hafsbotni og hitt í Öxnadal.


Of langt á kjörstað?

Ég heyrði mjög leiðinlega frétt í dag um að það væri fólk sem væri í rauninni svipt kosningarétti með því að hafa aðeins einn kjörstað í öðrum enda gríðarstórs sveitarfélags. Þannig t.d. fólkið á Jökuldal þyrfti niður í Fellabæ - og ég býst við að með þessu séu þeir sem búa í langstærsta þéttbýliskjarnanum á Héraði, Egilsstöðum, líka hálfpartinn sviptir þeim möguleika að ganga til kjörstaðarins. Fyrir sveitafólkið, þá er byrjaður sauðburður og því getur ekki öll fjölskyldan farið í einu því að það þarf að sinna burðinum. Kosningar hér áður fyrr voru í júní en ekki á sauðburði. Svo ættum við kannski að kjósa fyrr á vorin áður en fólk leggst í ferðalög. Hef reyndar heyrt þetta á fleirum sem eiga langt í kjörstað að það er bara kosið á þéttbýlisstað í öðrum enda sveitarfélagsins. Það þarf að taka það mál rækilega til skoðunar. Kannski ætti að taka upp póstkosningar og skyldu til að kjósa eins og Ástralir sem sekta fólk fyrir að kjósa ekki (leyfa að vísu afsökunarbréf til að losna við sektina).

Á Akureyri kvartar svo fólk undan umferðaröngþveiti við kjörstaðinn; ég hef aldrei ekið hér á kjörstað svo ég veit ekkert um það. Kjörstaðurinn er á gamla vinnustaðnum mínum í Oddeyrarskóla frá 1975-1976. Mér finnst það svolítið flott - stofan sem kjördeildin mín er í var þó ekki til þá.


Eru stjórnarflokkarnir úrtaksskekkja?

Undanfarna daga hafa niðurstöður skoðanakannana verið margbreytilegar, ýmist hefur stjórnin verið fallin eða ekki fallin. Sjálfstæðis- og framsóknarflokkur risið og hnigið á víxl - og rætt hefur verið af alvöruþunga hvort fylgi Framsóknarflokksins sé úrtaksskekkja. Hið alvarlega í málinu er þó valdatími Sjálfstæðisflokksins sl. 16 ár - því miður er það alvarlegra mál en úrtaksskekkja. Og Valgerður Sverrisdóttir hótar því að Framsóknarflokkurinn fari ekki í ríkisstjórn nema fólk kjósi flokkinn! Hef heyrt verri hótanir en það. Kjósum V fyrir velferð allra.

Fyrsti kjósandi VG

Mig langar núna, daginn fyrir kjördag, að deila með ykkur þeirri sögu að ég er sennilega fyrsti kjósandi flokksins - ég kaus flokkinn kl. rúmlega 11 á fyrsta degi utankjörfundaratkvæðagreiðslu þann 13. mars 1999. (Ef einhver kaus flokkinn sama daginn, staddur eða stödd í Ástralíu eða Japan, þá óska ég þeim hinum sama eða sömu til hamingju.) Þetta var ánægjuleg stund eins og gefur að skilja. Enn ánægjulegra er það þegar kjósendum og þingfólki flokksins fjölgar.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband