Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Jólahlaðborð - ekki príla

Í Vísi á mánudaginn var frétt höfð eftir vef Jótlandspóstsins um slys "á jólahlaðborðum" danskra fyrirtækja. Slík slys teljast vinnuslys, kemur fram í fréttinni; þau verði vegna áfloga og ölvunaraksturs. En: Af hverju prílar fólk upp á borðin? Eða er þarna notuð óeðlileg forsetning og átt við slys sem verði í jólaboðum?

Staðalímyndir af körlum sem kaupa ekki inn fyrir heimilið

Þetta "pláss ætlað körlum meðan konurnar kaupa inn fyrir heimilið" er partur af leiðindagríni þar sem fólk er dissað vegna kyns síns, í þessu tilviki karlar vegna meintrar vankunnáttu við heimilisstörf. Einhvern tíma henti ég bolla í vask einhvers staðar þar sem hver átti að þvo upp eftir sjálfan sig - og tækifærið var notað til að dissa alla aðra karlmenn fyrir mína yfirsjón. Hóprefsing fyrir trassahátt eins manns. Man eftir grínatriði í sjónvarpi þar sem karlmaður flæktist í sængurveri sem hann var að reyna að koma utan um sæng. Reyndar frekar hlægilegt atriði en raunalegt um leið að viðhalda slíkum staðalímyndum um vankunnáttu og getuleysi - ef ég má orða það þannig. Einhvers staðar í bloggheimum sá ég að karlahornið þýddi að Hagkaup gætu ekki lengur haldið því fram að Íslendingum þætti skemmtilegast að versla þar!

Reyndar sýna tölur að karlar í sambúð vinna ekki sinn skerf af heimilisstörfunum (innkaup auðvitað þar með talin) en ef ég man rétt hefur það þó eitthvað lagast þótt svo karlar og konur meti eigin þátt yfirleitt það stóran að heildarheimilisstörfin séu eitthvað dálítið yfir 100%. En áhyggjuefni er að viðhorf ungs fólks til verkaskiptingar kynja hafi lítið breyst, eins og kom fram í fyrirlestri Þórodds Bjarnasonar á kynjafræðiþinginu um daginn, rannsókn sem Andrea Hjálmsdóttir vann til bakkalárprófs. Og enn er það svo karlar sjá um bílana en konur um þvottinn langt umfram hitt kynið.


mbl.is Pabbar í pössun í Hagkaupum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðalímyndir kynjanna

Einhvern heyrði ég um stúdíu, veit ekki hvort hún var fræðileg rannsókn eða einhvers konar annars konar athugun, þess efnis að börn hefðu verið klædd í "öfugan" lit (miðað við hefðina), drengir í bleikt og stúlkur í blátt, og uppskorið viðmót ætlað hinu kyninu: blíðu- og dúlluhót handa drengjunum, "þetta er nú hraustur drengur" fyrir stúlkurnar.

Það er full þörf á að velta fyrir sér staðalímyndum sem drengir og stúlkur mótast inn í allt frá fæðingu, skoða hvernig þær urðu til og hvaða áhrif þær hafa í dag. Drengir í bláu og stúlkur í bleiku er ein af þeim. Greinilegt er að með fyrirspurn sinni hefur Kolbrún Halldórsdóttir rótað við ótrúlegum fjölda bloggara, bæði körlum og konum; mörgum finnst að tíma þingsins væri betur varið í önnur mál. Vitanlega er þá mótsögn í því að bloggurum finnist eigin tíma vel varið í að nöldra yfir því - en bloggararnir hafa bara sem betur fer mál- og skoðanafrelsi til að finnast það.

Ég tel að "rétti" tíminn fyrir eitthvert mál komi aldrei sjálfur; rauðsokkurnar höfðu jákvæð áhrif á samfélagið af því að þær biðu ekki eftir leyfi - en þær syntu á móti straumnum með ótal marga hluti. Þess vegna líklega höfðu þær áhrif, fengu okkur til að sjá margt í öðru ljósi. Hvort fyrirspurn þessi veldur því, ja, ótrúlega margir agnúast út í hana, svo að áhrifalaus er hún ekki.


mbl.is Ekki meira blátt og bleikt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er hjari veraldar?

Um helgina ríkti heilmikil spenna með hverjum íslenska karlaliðið í knattspyrnu lenti í riðli í heimsmeistaramóti. Niðurstaðan varð sú að flestar þjóðirnar eru fremur nálægt, nema fyrrverandi Júgóslavíulýðveldið Makedónía sem nú þarf að ferðast út á hjara veraldar til Íslands, Skotlands og Noregs. Eða hvað? Ef marka mátti umfjöllun fyrir fram virtust íþróttablaðamenn hafa áhyggjur af því að Ísland lenti í riðli með þjóðum frá Kákasusfjöllum og í DV í dag var því fagnað að nú þyrftu Íslendingar ekki að ferðast út á hjara veraldar. Ég spyr nú bara: Er eitthvert Evrópuland afskekktara en Ísland?

Fann enga rafræna mynd af Mývatni ...

... sem er stóra vatnið sem ég spurði um, en á vef Skútustaðahrepps eru fjölmargar fallegar hausmyndir og reyndar fleiri ef flett er síðunni.

P.S. 24. nóvember: Kjartan Pétur sendi mér svo slóð af mynd þar sem vel sést afstaða Stakhólstjarnar og Mývatns. Takk Smile


Stakhólstjörn og þekktara nágrannavatnið ...

Kanada 009 (10)Já, vatnið heitir Stakhólstjörn og eyjan sem það er kennt við heitir Stakhóll. Á undanförnum árum hefur orpið þar brúsi sem hrekur endurnar í burtu, en þorir ekki í álftarfjölskylduna sem kemur þangað síðari hluta sumarsins. Kristín Aðalsteinsdóttir tók þessa fallegu vetrarmynd.

Ef myndin er stækkuð sést kannski í ísinn á nágrannavatninu á milli hólanna, vinstra megin við Stakhól. Og nú er spurningin hver þekkir nágrannavatnið. Fjallið sem sést í fjarska er líka býsna þekkt fjall.


Vatnið sem oftast er myndað undir röngu nafni?

MVC-012FHvaða stöðuvatn er á myndinni? Sennilega eitt af mest mynduðu vötnum landsins - en næstum aldrei með réttu nafni heldur er það sagt vera stærra og miklu frægara nágrannavatn þess. Ein þekktasta myndin er af kúnum hans Óla, notuð til að selja ost; hún var til skamms tíma í Leifsstöð, og er kannski enn. Þessa fallegu mynd tók Eygló Björnsdóttir fyrir fáeinum misserum.

Vatnið, sem kennt er við litla eyju í vatninu, er rétt hjá einu af frægustu vötnum landsins. Úr því rennur stuttur lækur út í hitt vatnið. Það er ekki mikill straumur í vatninu og minnkaði þegar virkjunarfyrirtæki sem er núna hluti af Landsvirkjun hækkaði yfirborð nágrannavatnsins fyrir nokkrum áratugum. Nýlega sýnist okkur straumurinn í læknum hafa aukist eftir að lokað var skurðum í nærliggjandi votlendi.

Bæði vötnin eru friðlýst með sérstökum lögum, ásamt votlendinu þar í kring og víðáttumiklu vatnsverndarsvæði sem nær inn á öræfin. Vötnin og votlendið eru líka á svokallaðri Ramsarskrá um mikilvæga votlendisstaði ásamt milli 1000 og 2000 öðrum stöðum í heiminum.

Hvað heitir vatnið? Og hvað heitir stóra nágrannavatnið?


Fjölpóstur - ruslpóstur

Umhverfisráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp til að huga að þeim vanda er fylgir svokölluðum fjölpósti, sem í daglegu tali er nefndur ruslpóstur (kemur fram í Fréttablaðinu í dag). Fjölpóstur er kannski nákvæmara hugtak en ruslpóstur af því að hann er ómerktur viðtakanda, meðan eitthvað af því sem er merkt er í raun hálfgert rusl. Eins og er þá getur maður sett gulan miða og þá ber Pósturinn ekki út ómerktan póst nema sérstaklega sé beðið um það af sendanda að virða ekki miðann. Þannig fékk ég, sem betur fer, eintak af Bókatíðindum í gær, þrátt fyrir gula miðann. Þau eru samt fjölpóstur en alls ekki ruslpóstur (samt var nú of mikið auglýsingum og of mikið af bókum sem eru alls ekki nýjar).

Skv. fréttinni í Fréttablaðinu jókst sorp vegna fjölpósts um 76% á fjórum árum, stór hluti vegna dagblaða. Og ekki nóg með það: Með Fréttablaðinu fylgir nú gjarna hrúga af auglýsingapésum sem sendendur láta bera út með því, sem er þó enn þá verra, algert rusl, meðan stundum er eitt og annað læsilegt í Fréttablaðinu. Eitt af því sem starfshópurinn á að skoða er hvort framleiðendur verði látnir greiða einhvers úrvinnslugjald. En ættu ekki útgefendur að sækja blöðin aftur? Sérstaklega auglýsingapésana sem fylgja með - ég held þeir hafi verið þrír núna áðan með Fréttablaðinu. Ég fagna framtaki ráðherrans og vona að það komi skýrar reglur um ábyrgð þeirra sem bera heim til manns eitthvað sem maður hefur alls ekki beðið um.


Baráttan um Gjástykki

Gjástykki í Þingeyjarsýslu er ásamt svæðinu í kringum Leirhnjúk kannski það svæði í heiminum á þurru landi sem best sýnir hvernig landreksflekarnir færast í sundur. Landrekskenningin sannaðist þarna fyrir augum okkar og allt var vel skráð og skoðað. Þar eru aðstæður til fræðslu og náttúruupplifunar sem hvergi gefast annars staðar og í því felast mikil tækifæri, bæði andleg og efnaleg. Þarna ættu stjórnvöld því að berjast fyrir uppbyggingu eldfjallafræðagarðs.

Samt vill Landsvirkjun taka Gjástykki og virkja þar til að selja Alcoa orkuna. Undir þetta taka sveitarfélögin í Þingeyjarsýslu, þó með þeim fyrirvara að í Gjástykki verði síðast leitað að orku, þegar búið er að taka önnur háhitasvæði norðan hringvegarins. Skemmst er að minnast leyfis sem iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins gaf út tveimur dögum fyrir síðustu kosningar og Landvernd og SUNN kvörtuðu undan við iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd Alþingis (sjá m.a. blogg). Leyfið ætti að afturkalla en mér vitanlega hefur það ekki verið gert.

Nú má búast við því að baráttan um Gjástykki og Þeistareyki harðni ef hætt verður við álver fyrir sunnan (sjá m.a. frétt á vefsíðu NSÍ). Náttúruverndarunnendur um allt land: Látum ekki verða annað Kárahnjúkaslys! Heimsækjum þessi svæði næsta sumar til að við þekkjum þau betur. Getur verið að landinu við Kárahnjúka hafi verið sökkt af því að það þekktu fáir?


Kennaraháskólinn fetar í spor HA

Á bls. 8 í Morgunblaðinu í gær, 12. nóvember, er sagt frá nýju fyrirkomulagi vettvangsnáms við KHÍ, svokölluðu heimaskólafyrirkomulagi. Þar er m.a. sagt: "Mikilvæg atriði eins og undirbúningur skólaárs ... hafi hingað til ekki verið inni í starfsþjálfuninni". Þetta á þó aðeins við um hinn næstum því 100 ára Kennaraháskóla (aldur ef talið er frá stofnun Kennaraskóla Íslands), því að í kennaradeild Háskólans á Akureyri hafa nemendur hennar farið í vettvangsnám í skólum mestallt næstsíðasta námsmisserið sem einmitt byrjar í ágúst um leið og grunnskólastarf byrjar. Sambærilegt námsmisseri er í leikskólakennaranámi HA.

Það er ekki að ástæðulausu að þetta fyrirkomulag er viðhaft því að eins og kemur fram í fréttinni er mikilvægt að kennaranemar kynnist skólastarfinu öllu, ekki bara kennslu einstakra námsgreina, þótt vitaskuld haldi kennsla og samskipti við nemendur áfram að vera þungamiðja skólastarfs. Kennslan skilar hins vegar betri árangri ef kennari/kennaranemi skilur samhengi skólastarfsins. Enn fremur benda bæði rannsóknir og reynslusögur til þess að það sé auðveldara fyrir hinn nýbrautskráða kennara að hefja starf að hausti hafi hann í námi sínu gengið í gegnum sambærilega reynslu.

Ég óska KHÍ til hamingju með nýja fyrirkomulagið.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband