Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Náttúrusjóðurinn Auðlind

Fréttatilkynning: "Næstkomandi föstudag, 20. júní, verður haldinn kynningarfundur í Þjóðminjasafninu vegna stofnunar Auðlindar-Náttúrusjóðs. Áhugafólk um náttúruauðæfi Íslands hefur um árabil unnið að stofnun sjóðsins, sem tekur að sér að styrkja endurheimt og viðhald náttúruauðlinda landsins. Sjóðurinn á sér ekki fyrirmyndir hér á landi, en erlendis eru til hliðstæðir sjóðir, oft samstarfsvettvangur einkaaðila, fyrirtækja og hins opinbera, sem vinna að verklegum framkvæmdum á sviði umhverfisverndar.

Að Auðlind standa nokkir áhugasamir einstaklingar sem eiga að baki ólíka reynslu í atvinnulífinu. Meðal þeirra eru: Frú Vigdís Finnbogadóttir fv. forseti Íslands, Guðmundur Páll Ólafsson rithöfundur og náttúrufræðingur, Orri Vigfússon formaður NASF Verndarsjóðs villtra laxastofna, Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur og prófessor, Jóhann Ísberg ljósmyndari, Þórólfur Árnason forstjóri SKÝRR, Andri Snær Magnason rithöfundur, María Ellingssen leikstjóri, Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor, Ívar Kristjánsson fjármálastjóri CCP, Ragnhildur Sigurðardóttir vistfræðingur, Snorri Baldursson líffræðingur og Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur ­svo nokkrir séu nefndir."


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ísbjörn óskast! Deilt um uppstoppunarrétt ísbjarnarins?

Hmm, er það virkilega svo að það verði deilur um hver fái að sýna uppstoppaðan ísbjörn? O, jæja. En skömmu áður en ísbjörninn var aflífaður í gær gat eftirfarandi að lesa á vef Umhverfisstofnunar:

17.6.2008 : 17:00 Ísbjörn óskast! Það er stundum gaman að tilviljunum. Fyrirsögnin er tilvísun í leikrit Sigurbjargar Þrastardóttur sem frumsýnt var fyrir þremur árum, á 15. júní, sama dag og Skagabjörninn stígur á land. Fjallaði það um ísbjörn sem var að sækja um vinnu í dýragarði og ekki hvaða dýragarði sem var heldur dýragarðinum í Kaupmannahöfn.


mbl.is Hvítabjörninn á Stokkseyri?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með karla?

Ég er viss um að það er mikið til í þessu. Fyrir 32 árum tók ég mig til og vildi grennast en ákvað gefa mér góðan tíma á morgnana og borða nokkurn veginn eins mikið og mig langaði til en strangt aðhald við aðrar máltíðir, einkum síðari hluta dagsins. Árangurinn lét að einhverju leyti á sér standa, eins og hér kemur líka fram, en hann svo kom hann og entist í tvo til þrjá áratugi.
mbl.is Stór morgunverður auðveldar megrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður sjálfsagt myndarbragur á þeim búskap

... segir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir í Morgunblaðinu í dag (bls. 2) þar sem hún fagnar því að sátt náðist milli þriggja systra um að ein þeirra, Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari, í félagi við Höfðafélagið, myndi eignast landskika og sumarhús sem fara hafði átt á uppboð til að systurnar gætu slitið sameign sinni. Jafnframt óskar Steinunn Ólína Mývetningum "farsællar sambúðar" við systur sína.

Um farsæla sambúð Mývetninga við Laufeyju mælir Steinunn Ólína afar rétt. Þannig hefur Laufey lagt menningarlífi í Mývatnssveit gott lið, t.d. með tónlistarhátíðinni Músík í Mývatnssveit um páska. Ég er Laufeyju mjög þakklátur fyrir hennar framlag og hef notið þessara tónleika í nokkur skipti. Ég geri ráð fyrir að niðurstaðan í Höfðamálinu stuðli að áframhaldandi samstarfi og framlagi Laufeyjar til menningarlífsins.

Höfðafélagið er félag einstaklinga, sem flestir tengjast Mývatnssveit, og hefur það markmið að eignast allan Höfða til að sveitarfélagið eigi þar allt land og bæti þannig við þann almenningsgarð og fólkvang sem amma systranna, Guðrún Pálsdóttir, gaf sveitarfélaginu fyrir nærri 40 árum. Höfðafélagið safnar nú fé til að fjármagna kaupin. Bankanúmer þess er 1110-05-402540 og kennitala 631106-1100. Það er ánægjulegt að samstarf hefur komist á við Laufeyju um málið. 


mbl.is Uppboð á Höfða við Mýtvatn fellt niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi tekst að koma öllum Höfða í almenningseigu

Vonandi tekst Höfðafélaginu að eignast afganginn af Höfða í Mývatnssveit. Markmið félagsins er að afhenda landið sveitarfélaginu til eignar og sameina þannig land Höfða sem kalla má sveitargarð, því að vissulega lítur ekki allur Höfði mjög náttúrlega út með barrtrjám sem þar var plantað. Eins og fram kemur í fréttinni er verið að bjóða upp til að slíta sameign erfingja Guðrúnar Pálsdóttur sem gaf sveitarfélaginu meginhluta Höfða fyrir tæpum 40 árum. Vilji Guðrúnar mun þó hafa verið skýr: að eignin rynni til sveitarfélagsins ef erfingjar hennar vildu ekki nota land og gamalt hús sem því fylgir.

Margvíslegar hugmyndir eru uppi um hvað gera má í Höfða, verði þessi lóð og hús að almenningseign. Meðal þeirra sem ræddar voru á aðalfundi Höfðafélagsins 16. júní á sl. ári eru: Ljósmyndasafn að hluta tileinkað listamanninum Bárði sem byggði Höfða; náttúruskoðunarsetur, m.a. fuglaskoðun; kyrrðarsetur fyrir listamenn eða rannsóknarsetur fyrir tónlist og sönghefðina í Mývatnssveit þar sem sjaldan koma saman þrír án þess að syngja allt af fjórraddað (kannski aðeins ýkt); upplýsingamiðstöð fyrir málefni er tengist Mývatnssveit, t.d. náttúrufarsrannsóknir eða veiðiskap; safn um sögu Hafurshöfða sem Höfði stendur á. Hér af mörgu að taka og alveg augljóst hvers vegna Höfði þarf að vera í almenningseigu.

Og þess má til viðbótar geta að á aðalfundi Höfðafélagins sl. sunnudag (8. júní) var sérstakleg velt vöngum yfir því hvort yrði mikill vargur á uppboðsdeginum því að ef margmenni kemur til þátttöku í uppboðinu er húsið of lítið til að halda uppboðið innan húss. Mér sýnist af veðurspá að dæma að það gæti einmitt orðið vargur í dag.


mbl.is Höfði boðinn upp í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matvælaöryggi

Var að hlusta á Spegilinn í Ríkisútvarpinu (www.ruv.is, rás 1) þar sem rætt var um hvaða áhrif hækkun flutningskostnaðar hefur á viðskipti. Íslendingar þurfa að flytja inn talsvert af matvælum en við framleiðum líka talsvert. Við þessar aðstæður er maður ánægður með að ekki hafi verið gengið af íslenskum landbúnaði dauðum. En það þarf meira til: Það þarf að hlúa að honum vegna hækkana á erlendum aðföngum, það þarf að niðurgreiða orkuverð, t.d. til gróðurhúsa svo að við verðum síður háð innflutningi á erlendu grænmeti. Það er miklu stærra öryggismál að hér sé nóg að borða en að við fáum hingað franska dáta öðru hverju.

Nú er ég ánægður með fagfélagið mitt

Mér finnst frábært af Sagnfræðingafélagi Íslands að benda á að skýrsla forsætisráðuneytisins um ímynd Íslands sé á skjön við sagnfræðirannsóknir um uppruna Íslendinga. Hér er tilkynning Sagnfræðingafélags Íslands um bréf sem félagið sendi forsætisráðherra í gær (bréfið er nælt við neðst í færslunni):

"Í viðhengi er afrit af bréfi sent forsætisráðherra frá stjórn Sagnfræðingafélags Íslands. Tilefnið er nýútgefin skýrsla um ímynd Íslands. Skýrslan er afrakstur af starfi nefndar forsætisráðherra en nefndarformaður var Svava Grönfeldt, rektor við Háskólann í Reykjavík.  Í skýrslunni kemur fram að ein af undirstöðum ímyndar Íslands eigi að vera uppruni þjóðarinnar og þá m.a. eftirfarandi þættir í sögu hennar: Fyrstu Íslendingarnir voru fólk sem kom hingað í leit að frelsi og betri lífsskilyrðum. Þjóðin bjó lengstum við kröpp kjör en þegar hún fékk frelsi og sjálfstæði tók hún stökk frá því að vera þróunarland til þess að verða ein ríkasta þjóð í heimi á innan við öld. Íslendingar eru dugleg og stolt þjóð, mótuð af lífsbaráttu í harðbýlu landi. Mikilvægasti menningararfur Íslendinga, íslensk tunga, lifir í máli þjóðarinnar og í bókmenntum hennar.

Sagnfræðingafélagi Íslands finnst rétt að benda á að þessar fáu setningar fela m.a. í sér söguskoðun sem er á skjön við sagnfræðirannsóknir síðustu 30-35 ára. Hún sver sig fremur í ætt við þá söguskoðun sem mótuð var í sjálfstæðisbaráttunni í pólitískum tilgangi. Þeirri söguskoðun hafa fjölmargir sagnfræðingar andmælt síðustu áratugi og komið fram með sannfærandi rök sínu máli til stuðnings. Greina má goðsagnir á borð við frelsisþrá landsnámsmanna og nýja gullöld í kjölfar sjálfstæðis sem voru meðal þeirra sem skapaðar voru til að réttlæta sjálfstæðiskröfuna. Einnig má sjá að nútímahugtök og -viðmið eins og „betri lífsskilyrði" og „þróunarland" eru notuð yfir fortíð þar sem óvíst er að þau hafi haft nokkuð gildi.

Sannarlega er umdeilt hvort ímyndir hafi nokkuð með sannleika að gera. Hins vegar lýsir nefndin því yfir að „[á]rangursrík ímyndaruppbygging þarf að byggjast á einkennum lands og þjóðar sem eru sönn eða „ekta" og eiga sér djúpar rætur."  Ofangreindar staðhæfingar um sögu íslensku þjóðarinnar geta því varla samræmst skilgreiningu nefndarinnar á árangursríkri ímyndaruppbyggingu nema að því leyti að fyrrnefndar goðsagnir eiga sér sannarlega djúpar rætur.

Meðfylgjandi bréfinu er listi yfir áhugaverðar rannsóknir og umfjallanir fræðimanna annars vegar um ímyndir og hins vegar endurskoðunina á þeirri pólitísku söguskoðun sem ríkti á Íslandi fram á 8. áratug síðustu aldar. Það er von Sagnfræðingafélags Íslands að ekki verði litið fram hjá rannsóknum sagnfræðinga og annarra fræðimanna á síðustu áratugum við ímyndarsköpun Íslands á vegum hins opinbera. Jafnframt má benda á að ávallt er hægt að leita til félagsins sem veitir faglega aðstoð eftir bestu getu og er vilji meðal stjórnarmanna að halda fund með fagfólki og fulltrúum nefndarinnar um sagnfræði og ímyndarsköpun."

Bréf þetta er birt á Gammabrekku, tölvupóstlista sagnfræðinga.


mbl.is Skoðanir í ímyndarskýrslu á skjön við nýjustu sagnfræðirannsóknir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innilegar hamingjuóskir til Margrétar Lindquist

Innilegar hamingjuóskir! Smile Þetta er glæsilega flaska - fáum við vatn úr henni hér á Akureyri einhvern tíma?


mbl.is Hlaut viðurkenningu Evrópusamtaka grafískra hönnuða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vatnajökulsþjóðgarður og "tæknin að stríða okkur"

Ég var viðstaddur þegar Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður sl. laugardag. Við þá athöfn var notuð sú tækni að sjónvarpa um vef ávörpum Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra og Önnu Kristínar Ólafsdóttur formanns stjórnar þjóðgarðsins. Þannig fylgdist ég með því norður í Gljúfrastofu í Ásbyrgi þegar Þórunn undirritaði reglugerðina, stödd í Skaftafelli. Litlu munaði þó að tæknin myndi gera meira en að stríða okkur því að daginn áður munu Öræfingar hafa fengið langþráð þriggja fasa rafmagn. Sem betur fer voru tæknierfiðleikar, sem af hlutust, leystir hratt og lítil sem engin töf á athöfninni.

Þetta er þó bara fyrsta skrefið því enda þótt Vatnajökulsþjóðgarður sé nú þegar stærsti þjóðgarður í Evrópu, eða svo er manni sagt, þá er mikið verk eftir við að stækka þjóðgarðinn. Þannig þarf hann að ná til miklu fleiri svæða kringum jökulinn en enn er orðið, svo sem Jökulsár á Fjöllum (aðeins lítill hluti hennar hefur enn verið friðlýstur) og Langasjávar en Þórunn umhverfisráðherra var vongóð um að hann bættist fljótlega við. Persónulega hlakka ég mest til þess þegar Ódáðahraun og Suðurá hafa verið innlimuð í þjóðgarðinn.


mbl.is „Stór áfangi í náttúruvernd"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En er búið að semja við JetX sem flýgur fyrir Heimsferðir?

Mér finnst alltaf ánægjulegt þegar kjarasamningur hefur náðst og óska flugfreyjum til hamingju með það. En veit einhver hvort búið er að semja við félagið JetX (eða heitir félagið Primera Air?) sem flýgur fyrir Heimsferðir? Síðast þegar ég las um samningamál flugfreyja var félagið ekki á þeim buxunum að gera kjarasamning við Flugfreyjufélag Íslands.
mbl.is Flugfreyjur semja við Iceland Express
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband