Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Ísland til fyrirmyndar

Ísland er til stakrar fyrirmyndar í heiminum með því að loka fátt fólk inni í fangelsum. Hér á landi voru árið 2006 aðeins 31,5 af hverjum 100.000 íbúum landsins í fangelsi (hagstofa.is), það mun vera um 0,03% af öllum Íslendingum samanborið við meira en 1% af fullorðnum Bandaríkjamönnum. Það munu reyndar ekki vera nema um fimm til tíu lönd sem hafa færri fanga hlutfallslega en Íslendingar. Mér sýnist að þessi hlutfallstala hafi meira að segja lækkað aðeins hér. Höldum áfram að lækka hana. Lokum fólk helst ekki inni og ef við lokum fólk inni sköpum föngum sem bestar aðstæður, t.d. til náms, og höfum tímann sem stystan.


mbl.is Fangafjöldi í hámarki í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jökulsárnar í Skagafirði

SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, hafa ályktað til stuðnings tillögu til þingsályktunar um friðlýsingu Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði, sem liggur nú fyrir Alþingi. Í ályktun frá SUNN segir: "Austari- og Vestari-Jökulsá í Skagafirði renna frá Hofsjökli. Þær hafa markað sér sérstöðu, sem eitt besta svæði til fljótasiglinga í Evrópu og þar hefur byggst upp umtalsverð atvinnustarfsemi þar sem afl jökulánna og umhverfi er nýtt með sjálfbærum hætti. Stjórn SUNN telur eðlilegt að friða svæðið og stjórna því á þann hátt að landslag, náttúrufar og menningarminjar séu varðveitt, ásamt því að það verði notað til útivistar, ferðaþjónustu og hefðbundinna landbúnaðarnytja."


Póstur í sveitum

Nú berast þau tíðindi að það eigi að spara með því að aka pósti á sveitaheimili aðeins þrívegis í viku í stað fimm sinnum eins og í þéttbýli, m.a. vegna þess að skjöl berist á rafrænan hátt. Nú er það svo að tölvutengingar til sveita eru víða þannig að ekki er á vísan að róa í þeim efnum.

Þarf að aka pósti út á hverjum degi? Lengi, lengi kom pósturinn í sveitinni tvisvar eða þrisvar í viku, og það var bara gaman að fá mörg blöð af Tímanum í einu. Mjólkurbíllinn kom með póstinn og jafnframt með vörur úr útibúi Kaupfélagsins í Reykjahlíð eða varahluti eða annað frá Húsavík. Fyrir tiltölulega stuttu var fundið upp á því að aka póstinum fimm sinnum í viku en á sama tíma mátti póstbíllinn ekki aka mjólk eða öðrum nauðsynjavarningi heim til fólksins og heyrði ég á mörgum að þriggja daga kerfið hefði nú verið betra þegar þjónustan var fjölþættari. Í þessum efnum gæti jafnræðið fólgist í því að fækka póstakstursdögum en bjóða þjónustu sem ekki er þörf í þéttbýli.


Hverfa samtök sjálfgræðisflokksins?

Mig minnir að hún hljómaði svona, tilkynningin í Útvarp Matthildi forðum. Skyldi einhver af höfundum hennar standa á bak við raunveruleikasjónvarpið hjá íhaldinu - eins og Katrín Jakobsdóttir kallaði farsann í ræðu sinni á flokksráðsfundi vinstri grænna um helgina. 

Ég held að þessi farsi auki engan veginn tiltrú á stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum yfirleitt, enda þótt við störfum í öðrum flokkum eigum ekki þátt í ruglinu sem á sér stað hjá Reykjavíkuríhaldinu - og mikilvægt er að bregðast við því.  Eindrægni var á flokksráðsfundi VG um helgina. Hápunkturinn var líkast til útskýring Turid Leirvoll, framkvæmdastýru Socialistisk Folkeparti í Danmörku, þar sem hún útskýrði hvernig flokkurinn fór að því tvöfalda fylgið frá kosningunum á undan, sjá frétt.


mbl.is Þrjú gefa kost á sér í borgarstjóraembættið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt úthverfi

Nú hef ég skoðað betur tillögur Skotanna um nýtingu landsins sem Reykjavíkurflugvöllur stendur á. Þær staðfesta það sem haldið hefur verið fram að svæðið verði ekki annað en eitt úthverfið enn. Kosturinn við þær er ekki síst sá að það er alls ekki reynt láta líta út fyrir neitt annað. Annar kostur er sá að varðveita eigi mýrlendi með nýrri tjörn. Og af þeim tillögum sem hafa verið sýndar sýnist ljóst að þessi sé langbest.

Svo er það náttúrlega ekki beinlínis leiðinlegt fyrir okkur sem búum á Akureyri að sami höfundur sé að þessari tillögu og hugmyndinni um síkið sem skeri miðbæ Akureyrar upp í Skátagil - sem vonandi verður fremur að veruleika en það að leggja niður Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýri.


Síki eða flugvöllur?

Já, það er nefnilega það. - Kannski komi síki í staðinn fyrir Reykjavíkurflugvöll úr því að hugmyndasmiður hins fræga síkis sem á að koma í miðbæ Akureyrar er búinn að vinna hugmyndasamkeppnina um Vatnsmýrina. Og kannski megi þá bara lengja flugvöllinn á Akureyri enn þá meira ef Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni verður lagður niður.


mbl.is Úrslit í keppni um skipulag Vatnsmýrar kynnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar í Laugaskóla

Meðal bestu skólaminninga er útgáfa skólablaðsins Járnsíðu sem var gefin út landsprófsveturinn minn í Laugaskóla í Þingeyjarsýslu og félagslífið sem spratt upp í kringum blaðið og nýtt málfundafélag.

     Fyrir nokkrum dögum var ég staddur í Laugaskóla, sem nú er Framhaldsskólinn á Laugum þeirra erinda að kynna mér skólastarfið og flytja fyrirlestur um umhyggju í starfi kennara. Þar er nú unnið að þróunarverkefni sem felst meðal annars í breyttu kennsluformi: Einungis helmingur kennslunnar fer fram í svokölluðum fagtímum en hinn helmingurinn í vinnustofutímum þar sem nemendur vinna sjálfstætt að viðfangsefnum námsgreinanna en kennarar leiðbeina þeim. Þetta merkir að kennarar hafa meiri samvinnu en áður og nemendur núna leita til þess kennara sem er staddur hjá þeim hverju sinni hvort sem hann kennir fagið eða ekki. Konráð Erlendsson, Konni, sem kenndi mér í landsprófi forðum rifjaði upp að þannig hefðum við nú haft það þegar kennarar gengu á milli herbergjanna síðdegis á daginn; við hefðum spurt út í hvað sem var – og alltaf fengið gagnleg svör! Ég hugsa að það sé alveg rétt hjá honum.

     Þetta fyrirkomulag merkir líka að aldrei eru eyður í stundatöflu sem er einn böggull áfangakerfis því að núna skiptast á fagtímar og vinnustofutímar með eðlilegum matar- og kaffihléum; það er líka styttri vinnudagur fyrir vikið. Ef nemi velur fáa áfanga vegna þess að hann treystir sér ekki til að taka fullt nám hefur hann fleiri vinnustofutíma og meiri aðgang að kennurunum. Sem er jákvætt. Þetta fyrirkomulag kalla Laugamenn sveigjanlegt námsumhverfi og líka er notað hugtakið persónubundin áætlun þar sem nemendur geta tekið mismarga áfanga í einu.

     Hver einasti dagur byrjar á hálftíma vinnustofutíma kl. 8.30. Margir nemendur vakna fyrr og geta mætt upp úr kl. 8 en aðrir eiga erfiðara með að vakna og eru kannski syfjaðir fyrst í stað. Svo er morgunmatur en þar sem ég kom ekki austur í Laugar fyrr en kl. 11 veit ég ekki hvort þar er sami hafragrauturinn á boðstólum eins og þegar ég var þar fyrir 37 árum. Hins vegar var sprengidagssaltkjötið beinlaust og það get ég fullyrt að saltkjötið á Laugum var ekki í gamla daga. En þar sem þarna er sama eldhús og sami matsalur fékk ég að drekka bollukaffi í sætinu sem ég hafði í landsprófi, alveg út við dyrnar fram í anddyrið. Kennarar sögðu mér að með þessu fyrirkomulagi sé betri mæting í tíma en hefði verið með eldra fyrirkomulagi og nemendur borði nú meira af því að þeir væru duglegri, svæfu t.d. aldrei af sér máltíðir dagsins sem áður hefði komið fyrir.

     Lítill framhaldsskóli með um 100 nemendum á undir högg að sækja í reiknilíkaninu sem notað er til að deila út fé til framhaldsskóla. Ég þekki þetta reiknilíkan ekki til hlítar og veit þess vegna ekki hvort þarf að breyta því mikið til að stuðla að því að framhaldsskólar eða deildir á framhaldsskólastigi geti verið á stöðum þar sem framhaldsskóli er ekki til staðar í dag. Það er líka að mörgu að hyggja við breytingar af þessum toga, t.d. að kjarasamningum við kennara sé rétt fylgt.

     Þetta er auðvitað ekki í fyrsta skipti sem breytingar verða á Laugum. Laugaskóli var stofnaður sem héraðsskóli 1925 með eins konar lýðháskólasniði en þróaðist yfir í að vera svipaður gagnfræðaskólum þéttbýlisins á þeim tíma sem ég var þar (1969–1971). Svo kom þar framhaldsdeild og loks varð hann að framhaldsskóla, fyrst í stað með 10. bekkjar deild en svo var hún lögð niður og nú er þar eingöngu framhaldsskóli með náttúrufræði-, félagsfræði- og íþróttanámi. Með þeim breytingum sem nú eiga sér stað bregst Laugaskóli við nýjum aðstæðum og nýjum hugmyndum um hvernig nám fer fram –kröfum og hugmyndum upphafs 21. aldar. Þannig hefur Laugaskóli verið til í hartnær öld af því að honum er breytt til að svara kröfum nýs tíma. Reynslan sker úr um hvort breytingarnar nú skila árangri en hugurinn er mikill og það skiptir máli þegar breytt er til.

Fljúgandi diskar

Sagt var frá því í útvarpsfréttum áðan að það væru fljúgandi diskar - gervihnattadiskar - á ferð í fylgd með þakplötum og ótal öðrum fylgihlutum. Farið varlega.
mbl.is Ekki hægt að afgreiða flugvélar á Keflavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykherbergi á Alþingi

Ég hef undrandi fylgst með umræðum um reykherbergi í húsakynnum Alþingis, réttara sagt undrandi yfir þeirri hugdettu að hafa þar sérstakt reykherbergi. Ég geri ráð fyrir að það verði lagt niður til að skapa gott fordæmi fyrir aðra. Annars las ég í morgun um aukaafurð reykingabannsins: Efnalaugar hefðu minna að gera. Það stemmir alveg við reynslu mína þá sjaldan ég lagði leið mína á skemmtistað sem leyfði reykingar.

Nýjustu fréttir úr RÚV, sex-fréttunum rétt áðan þann 8. febrúar: Reykherberginu verður lokað 1. júní nk. og vonar forseti Alþingis að þeir þingmenn sem reykja noti tímann til að hætta að reykja. Mér finnst þessi ákvörðun vera góðar fréttir.


mbl.is Vill láta loka reykherbergi á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að hægt er að læra af Íslendingum

Íslendingar hafa margt gott gert í jafnréttismálum, ekki síst fyrir að hér hefur verið sterk femínísk hreyfing sem m.a. barðist fyrir fæðingarorlofi beggja kynja (rauðsokkur, Kvennalisti o.fl.). Margt bendir til að feðraorlof hafi jákvæð áhrif en full þörf er þó á að lengja fæðingarorlofið. Norðmenn láta tekjur feðra í orlofi fara eftir tekjum mæðranna; hér á landi fer það eftir tekjum þeirra sjálfra þótt mér finnist óþarfi að klípa 20% af tekjum lágt launaðra. Nú vilja Norðmenn læra af Íslendingum - við margt gott lært af frændum okkar á Norðurlöndum; tími til kominn að endurgjalda það.
mbl.is Nýbökuðum feðrum mismunað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband