Miðstöð innanlandsflugs í Grímsey

Það er örlítið fyndið að fylgjast með skoðanaskiptum nýja borgarstjórans og Gísla Marteins, leiðtoga sjálfstæðismanna í Reykjavík í skipulagsmálum, um flugvöll í Vatnsmýri. Enginn annar staður hefur fundist á suðvesturhorninu sem er jafngóður fyrir miðstöð innanlandsflugs og Vatnsmýrin, en ekkert er á móti því að kanna sem flest flugvallarstæði. Mörg eru nefnd: Hólmsheiði, Miðdalsheiði, Löngusker, Hvassahraun og Akranes. Að ógleymdri Miðnesheiði.

Mörgum, og þ.á m. held ég líka mörgum Reykvíkingum, þykir eðlilegt að höfuðborgarsess Reykjavíkur fylgi kvaðir með svipuðum hætti og honum fylgja margvísleg forréttindi. Ein slíkra kvaða er væntanlega skyldan til að leggja til land undir miðstöð samgangna, þ.m.t. miðstöð flugsamgangna.  

Þá má heldur ekki gleyma þeirri kvöð að nýta vel hið verðmæta land sem félli til ef flugvöllurinn verður færður úr Vatnsmýrinni. Á það reyndi verulega fyrir um þremur árum þegar mikið land var tekið undir hraðbraut, svokallaða Hringbraut, og ákveðið var að leggja til viðbótarland undir Landspítalann rétt fyrir ofan Vatnsmýrina þar sem stefnt er á að reisa ókleifan vegg stórra bygginga. Með þessum tveimur framkvæmdum er komið í veg fyrir að hugsanleg íbúðabyggð í Vatnsmýri geti tengst annarri íbúðabyggð með eðlilegum hætti – allra síst gömlu byggðinni milli Tjarnarinnar og Snorrabrautar. Þannig yrði byggð í Vatnsmýri að enn einu úthverfinu sem þyrfti bíla til að komast til og frá.  

Þessi slæma landnýting er ein hlið málsins: Er hægt að treysta skipulagsyfirvöldum í Reykjavík fyrir þessu landi ef þau fá það til annarrar ráðstöfunar en nú er? Er ekki hætta á því að það verði nýtt jafnheimskulega? Er ekki orðið of seint að hafa hugmyndasamkeppnina sem mér skilst að fari fram?

Í grein í Morgunblaðinu 5. nóvember 2005 (bls. 34), sem þetta blogg er sótt í, stakk ég upp á því að miðstöð innanlandsflugs væri a.m.k. jafnvel komin í Grímsey og á Miðnesheiði, en í eynni hafði þá nýlega verið lögð Fokkerhæf flugbraut. Grímsey hefur þann stóra kost fyrir Akureyri, Ísafjörð og Egilsstaði að þá er miklu styttra flug til að skipta um vél – en núna þarf að skipta um vél í Reykjavík. Ef Grímsey yrði fyrir valinu mætti hafa flug nokkrum sinnum á dag til Keflavíkur til að taka flug til útlanda.


mbl.is Ólafur treystir Gísla Marteini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Hefur verið gerð þarfagreining á veru flugvallarins í Vatnsmýrinni? Hversu margir af landsbyggðinni flygju beint til útlanda í gegnum Keflavík ef innanlandsflugvöllurinn væri þar? Eiga allir sem koma utan af landi erindi í miðbæinn, er enginn á leiðinni til ömmu á Eir eða afa í Þórðargeisla? Eða í Hafnarfjörðinn sem væri steinsnar frá Keflavík ef almennilegum almenningssamgöngum yrði komið upp?

Hversu margar flugvélar lenda svo í Vatnsmýrinni með sjúklinga? Og hversu margar þyrlur taka af þeim ómakið og lenda beint ofan á spítalanum? Ég þykist ekkert vita svörin við þessum spurningum, mér finnst bara að þeir sem ráða þurfi að hafa þekkinguna. Og ég hef mínar efasemdir um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. En mikið tek ég undir með þér, Ingólfur, Hringbrautarundrið er hroðalegt - mikið skemmdarverk.

Og vonandi tökum við upp þann sið ykkar á Akureyri að hafa áfram frítt í strætó, þannig er smávon til þess að ekki teljist þörf á mislægum slaufum um alla borg með frekari aftengingu milli hverfa.

Berglind Steinsdóttir, 3.2.2008 kl. 10:38

2 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Ég vil að innanlandsflugið flytji til Keflavíkur og það verði byggt metró kerfi milli Kef og Rey! er það ekki hægt?

Athyglisverð hugmynd með Grímsey!

Edda Agnarsdóttir, 3.2.2008 kl. 12:24

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlitið, Berglind og Edda. Það ætti að gera lest úr Vatnsmýri suður til Keflavíkur alveg burtséð frá innanlandsfluginu, sem myndi þjóna Hafnarfirði og Reykjanesbæ í leiðinni.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 3.2.2008 kl. 13:17

4 identicon

Það er einföld lausn á þessu: Einn flugvöllur fyrir innan- og utanlandsflug. Og hann verður rétt fyrir austan Reykjavík (Hólmsheiði kannski). Keflavík verður bara varaflugvöllur. Rafmagnslestir ganga frá flugvellinum niður í bæ, út á Granda, í Breiðholtið, Kópavog osfrv. Sumstaðar ofanjarðar en neðanjarðar í miðborginni.
Það yrði mun ódýrara en að byggja og reka lestir sem fara suður í Keflavík.

Guðmundur Karlsson 22.2.2008 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband