Bloggfærslur mánaðarins, september 2007
30.9.2007 | 19:22
Úttektarnefndin, ímyndunaraflið og Mývatnssveit
Á föstudagskvöldið og laugardaginn sat ég í fjóra tíma samtals á þremur fundum og einum kvöldverði með úttektarnefnd sem nú fer um háskóla landsins til að taka út þá háskóla sem sinna félagsvísindum til að unnt sé fyrir menntamálaráðuneytið að viðurkenna starfsemi skólana. Þetta var mikil fundarseta, eins og munnlegt próf þar sem aðeins hluti pensúmsins var vitaður fyrir fram. Nefndin er skipuð þremur þaulreyndum háskólakörlum, Dana, Þjóðverja og Breta.
Fyrir vikið missti ég af fyrirlestri breska prófessorsins Elisabeth Wood sem talaði um kennslufræði leikja á ráðstefnu skólaþróunarsviðs kennaradeildar sem bar nafnið Ímyndunaraflið sviflétt og vegvíst. Grein eftir Wood og Bennett um hvernig kennarar læra í starfi hefur verið á leslista hjá mér. Mér tókst þó að ná í skottið á ráðstefnunni og hlusta á kollegur mínar Rósu Kristínu og Jórunni flytja erindi um ímyndaraflið þar sem við þátttakendur fengum að búa til pappírsfugla og freista þess að láta þá fljúga, sem sé þær beittu kennslufræði leikja, og lokafyrirlestur Halldóru og lokaorð Trausta. Gaman . Eftir það fór ég í Mývatnssveit, hitti fólkið mitt, svaf úr mér hluta af álaginu eftir fundina og fór svo í stuttan göngutúr í morgun um Rófurnar sem Náttúruverndarráð uppnefndi sem Skútustaðagíga þegar þær voru friðlýstar 1973.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.9.2007 | 15:52
Slóvenskur fjallaþjóðgarður og belgískar kartöflur
Ég kom heim í gær úr rúmlega tveggja vikna ferðalagi, fyrri vikuna var ég í Slóveníu á ferð um Triglaviþjóðgarðinn í norðvesturhluta landsins, en þá síðari var ég á evrópsku menntarannsóknaráðstefnunni í Gent í Belgíu. Þetta var mín fyrsta ferð til Slóveníu, raunar sú fyrsta til lands þar sem slavneskt mál er aðaltungumálið. Það reyndist þó lítil fyrirstaða því að móttökur Slóvena voru til fyrirmyndar og gestrisni er alþjóðlegt tungumál og Slóvenar lærðu að taka á móti ferðafólki á 19. öld hafi ég skilið söguna rétt. Margir kunna fína ensku og þýskuhraflið mitt reyndist stundum gagnlegt, a.m.k. til að skilja hvað ég átti að borga þegar veitingar voru keyptar. "Espresso" og "makkíató" eru líka jafnslóvensk orð og þau eru orðin akureyrsk! Þetta var 15 manna hópur, mest héðan frá Akureyri, með frábæran slóvenskan leiðsögumann sem reyndar hefur ferðast margsinnis um Ísland, blanda af gönguferðum og afslöppun. Damjan sýndi okkur landið sitt stoltur, t.d. hvernig lögð hafði verið gönguleið um hið 1600 metra langt Vintgargljúfur undir lok 19. aldar. Á heimleiðinni fengum við óvænta aukadvöl í litlu ítölsku þorpi rétt við Triesteflugvöll þar sem heimfluginu seinkaði. Ég náði samt fluginu til Amsterdam og þeim "árangri" að vakna að morgunlagi í fjórum löndum í röð: Slóveníu, Ítalíu, Íslandi, Belgíu! (Já, og koma við í því fimmta!)
Þetta var hins vegar önnur ferðin mín til Belgíu og ég vissi að Belgar byggju til besta bjór í heimi og líka súkkulaði, auk þess sem "franskar" kartöflur eru víst í raun og veru belgískar - þær sömu og mér skilst að George Bush hafi lagt til að yrðu ekki lengur French Fries heldur Freedom Fries þegar Frakkar neituðu að ráðast á Írak. Ráðstefnan sjálf var þrautskipulögð af hálfu menntarannsóknasamtakanna (EERA) og þá ekki síður Belganna sem höfðu ótal aðstoðarmenn úr hópi stúdenta til að fylgjast með því að tölvur og skjávarpar virkuðu eins og vera átti og að framsögumenn hefðu nóg vatn. Þá var gaman að sjá hvernig málstofan sem ég skipulagði í félagi við kollega í Námsmatsstofnun um kyn og PISA-rannsóknina(gender og PISA) kom út (50 manns sóttu hana að hluta eða í heild), auk þess sem þetta var í fyrsta skipti sem ég bar ábyrgð á að skipuleggja þann hluta dagskrárinnar sem féll undir Network 23: menntastefnurannsóknir og menntapólitík (tæpar 20 málstofur samtals). Það verður gaman að undirbúa ráðstefnuna að ári sem verður í Gautaborg. Auk þess reyndist smátími til að njóta bjórsins, súkkulaðsins og annarra veitinga sem Belgar útbúa af mikilli matargerðarlist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.9.2007 | 22:20
Fertugan þjóðgarð í Skaftafelli vantar þjóðgarðsvörð
Þjóðgarðurinn í Skaftafelli verður fertugur í næstu viku og heldur af því tilefni góða dagskrá þar syðra.
Þá vantar þjóðgarðinn yfirmann, þjóðgarðsvörð, eins og fram kemur í auglýsingu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.9.2007 | 14:45
Gæðastörf úr völsuðu og afar hreinu hágæðaáli
Ál-aflþynnuverksmiðjunni á Akureyri hefur verið sunginn hár lofsöngur undanfarið. Framleiðslan er "sérhæfð hátækni sem losar ekki gróðurhúsalofttegundir en skapar um 90 ný gæðastörf. Hráefnið er valsað og afar hreint hágæðaál ... rafhúðað í sérhönnuðum vélasamstæðum". Og ekki nóg með það heldur er afurðin, aflþynnur, líklega notuð í "háspenntari þétta með mikinn áreiðanleika ..." sem vaxandi eftirspurn er eftir. Það vill svo vel til að Becromal, fyrirtækið sem reisir verksmiðjuna, er leiðandi við að búa til aflþynnur í einmitt slíka þétta (Vikudagur, 16. ágúst sl.). Gott að þetta eru ekki neinir ómerkingar, þessir hálf-eyfirsku þéttar, og ánægjulegt að um er ræða að ræða gæðastörf.
Þá er okkur er lofað að þessi 75 MW muni ekki leiða af sér nýjar virkjanir og þá auðvitað hvorki með eða án náttúruspjalla enda þótt rafmagnið samsvari 10% aukningu í eigin raforkuframleiðslu Landsvirkjunar frá síðasta ári (sama heimild). En þarf þá ekki einhvers staðar að virkja vegna almennrar aukningar? Og einhvern veginn hefur mér fundist loforðið um að verksmiðjan losi ekki gróðurhúsalofttegundir jafngildi því að hún mengi ekki, en ég hef ekki séð mikið um slíkt í fjölmiðlum. Vonandi kemur það þó allt fyrir augu almennings í mati á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar þannig að auðvelt sé að bera starfsemina saman við hverja aðra starfsemi hvað það varðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.9.2007 | 21:56
Úrskurðarfrestur svo langur að framkvæmd er lokið!
Og í framhaldi af Gjástykkismálum þá má koma fram að í byrjun júlí sl. sumar skutu SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, til umhverfisráðherra úrskurði Skipulagsstofnunar um að framkvæmdir - tvær rannsóknarholur og vegslóði - á Þeistareykjum væru undanþegin mati á umhverfisáhrifum. Nú hafa þær fréttir borist að lokið sé við að bora holu með svipuðu númeri og önnur kærða holan. Úrskurðarfrestur umhverfisráðherra er tveir mánuðir og rennur út á sunnudaginn. Það er ekki hvetjandi fyrir lýðræðisleg ferli að úrskurðarfrestur skuli svo langur að framkvæmdum sé að hluta eða í heild lokið þegar úrskurður loks kemur.
Meðfylgjandi er kæran, dags. 4. júlí:
Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) leggja hér með fram kæru, sbr. 14. gr. laga nr 106/2000 til umhverfisráðherra, gagnvart ákvörðun Skipulagsstofnunar varðandi ákvörðun á matskyldu:
1. BORUN RANNSÓKNARHOLA ÞG-4 OG ÞG-5 (málsnúmer 2007030057)
2. VEGSLÓÐ VEGNA BORUNAR KJARNAHOLU Á ÞEISTAREYKJUM, AÐALDÆLAHREPPI (málsnúmer 2007040020)
Kærufrestur er til 9. júlí 2007.
SUNN eru þeirrar skoðunar að ofangreindar framkvæmdir skuli skilyrðislaust vera háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr 2. og 3. viðauka laga nr 106/2000. Það er álit SUNN að ekki skuli veita frekari leyfi til framkvæmda eða rannsóknarborana á svæðinu fyrr en svæðisskipulag liggur fyrir og umhverfismati er lokið á Þeistareykjasvæðinu, en hvorttveggja er nú í vinnslu.
SUNN mótmæla því fordæmi sem fyrrgreindar ákvarðanir Skipulagsstofnunar veita þar sem veitt eru rannsóknar- og framkvæmdaleyfi til eins og eins vegarslóða eða einnar og einnar rannsóknarholu, sem ef til vill hafa ekki sem stakar framkvæmdir umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, en sem framkvæmd í heild gegnir öðru máli um. Töluverðar líkur eru á að samanlögð áhrif rannsókna og framkvæmda geti haft umtalsverð umhverfisáhrif þótt ein og ein hola eða einn og einn vegarslóði hafi það ekki.
Nú þegar hafa verið boraðar þrjár rannsóknarholur á Þeistareykjum, en a.m.k. tvær þeirra eru staðsettar á svæði á náttúruminjaskrá. Rannsóknarholurnar á svæðinu sem nú stendur til að bora eru skv. úrskurði Skipulagsstofnunar einnig á náttúruminjaskrá. SUNN mótmæla þeim úrskurði Skipulagsstofnunar skv. ákvörðun um matskyldu að þar sem viðkomandi náttúruminjasvæði hafi nú þegar verið skert með rannsóknarborholum muni frekari framkvæmdir á sama náttúruminjasvæði ekki hafa verulega neikvæð áhrif á verndargildi svæðisins umfram það sem nú þegar hefur orðið. Telja SUNN einmitt hið gagnstæða og vísa í ákvörðun Skipulagsstofnunar um boranir fyrri rannsóknarhola frá 15. ágúst 2003 þegar stofnunin benti á nauðsyn þess að ef komi til frekari rannsóknarborana á Þeistareykjasvæðinu verði lögð áhersla á að fjalla heildstætt um mat á umhverfisáhrifum rannsóknarborana og orkuvinnslu til framtíðar á svæðinu. SUNN krefjast þess að þetta mat Skipulagsstofnunar frá 2003 verði haft til grundvallar frekari leyfa við framkvæmdir og rannsóknir á Þeistareykja-svæðinu, þannig að frekari rannsóknarboranir, s.s. þær sem kæra þessi fjallar um, verði ekki framkvæmdar fyrr en að mat á umhverfisáhrifum hefur farið fram.
Enn fremur telja SUNN ástæðu til að benda á að ítrustu varfærni þarf að gæta varðandi framkvæmdir og uppbyggingu orkuvers á Þeistareykjum, ef af þeim verður. Áform framkvæmdaraðila eru mjög umfangsmikil, þar sem vonast er eftir allt að 180 MW virkjun á svæðinu. Ljóst er að lítið má út af bregða við þessar væntingar standist. Framkvæmdaraðili stefnir greinilega að því að hefja orkuvinnslu á Þeistareykjasvæðinu. Þær rannsóknir sem þegar hafa farið fram virðast hafa fullnægt væntingum framkvæmdaraðila um gildi þess að halda áfram áformum sínum varðandi orkuvinnslu.
SUNN telja einsýnt að verði að þvílíkum framkvæmdum þá rýrni verndargildi Þeistareykja stórkostlega, hvort sem einstökum jarðmyndunum, gróðursvæðum eða fornleifum verður þyrmt eða ekki. Mat á umhverfisáhrifum fyrir frekari framkvæmdir á svæðinu er nauðsynlegt til ákvörðunar á verndargildi svæðisins, áhrifum á umhverfi og náttúru og þess hvort annars konar atvinnustarfsemi í meiri sátt við náttúru og minjar svæðisins sé betri kostur fyrir sveitarfélagið og þjóðina.
Skv. drögum að svæðisskipulagi kemur fram að Þeistareykir séu án efa með merkari minjastöðum á Íslandi og að frá minjaverndarlegu sjónarmiði séu allar forsendur fyrir hendi að friðlýsa Þeistareyki sem þjóðminjar. Á Þeistareykjum er einnig að finna margvíslegar jarðmyndanir með hátt verndargildi auk fugla- og plöntutegunda í útrýmingarhættu. Verndargildi þessara verðmæta minnkar við hverja rannsóknarholu sem boruð er á svæðinu og við hvern vegarslóða sem lagður er inn á óraskað land.
Þeistareykir eru á náttúruminjaskrá vegna fjölbreyttra jarðmyndana, gufu- og leirhvera og útfellinga. Þessi jarðhitaummerki falla undir 37. gr laga nr 44/1999 um náttúruvernd. Einnig er á Þeistareykjum eldhraun sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr laga nr 44/1999 um náttúruvernd og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Friðaðar plöntur og plöntur á válista finnast á Þeistareykjum auk þess sem dýrategundir smádýra þar eru fjölbreytilegar. Til að mynda hefur fundist þar tegund snigils sem hvergi hefur fundist annars staðar á landinu. Í Þeistareykjahrauni eru hellar, þar á meðal dropasteinshellar, en dropasteinar eru friðlýst náttúruvætti skv. auglýsingu nr 120/1974. Á Þeistareykjum eru gígar, Stóra-Víti og Litla-Víti, sem eru á náttúruminjaskrá. Samkvæmt fornleifaskráningu Fornleifastofnunar Íslands eru 58 þekktir fornleifastaðir í Þeistareykjalandi. Stór hluti svæðisins er þó enn ókannaður. Mannvistarleifarnar eru taldar einstakar og telja fræðimenn nauðsynlegt að gera áætlanir um að tryggja varðveislu þeirra.
Bloggar | Breytt 6.9.2007 kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.9.2007 | 20:43
Iðnaðarráðuneytið og umsókn Landsvirkjunar
Undanfarna daga hefur mikið verið fjallað í fjölmiðlum um útgáfu rannsóknarleyfis í Gjástykki eftir að Landvernd og SUNN óskuðu þess að Alþingi rannsakaði hvernig staðið hefði verið að útgáfu rannsóknarleyfisins. Iðnaðarráðuneytið ber af sér í langri yfirlýsingu í dag og telur eðlilega að málum staðið. Kjarni málsins kemur þó fram í lokaorðum yfirlýsingarinnar: "Það var mat ráðuneytisins að erindi frá Landsvirkjun 8. maí 2007 væri aðeins ítrekun á umsókn fyrirtækisins frá 25. október 2004. Í ljósi hlutverks ráðuneytisins, lagaákvæða um jarðhitarannsóknir og eðlis rannsóknarleyfa var ekki talin þörf á að afla frekari umsagna um umsókn Landsvirkjunar um rannsóknarleyfi á Gjástykkissvæðinu og umrætt rannsóknarleyfi gefið út" [leturbreyting mín]. SUNN og Landvernd hafa metið það svo hér hafi verið á ferðinni ný umsókn, enda voru umsagnir lögboðinna umsagnaraðila um annars konar rannsóknir, sjá fyrri blogg um málið og heimasíðu Landverndar. Því hefði verið full ástæða til að afla nýrra umsagna, sérstaklega frá Orkustofnun sem skilyrti fyrri umsögn.
Iðnaðarráðuneytið bendir líka á að rannsóknarleyfi sé ekki framkvæmdaleyfi af neinu tæi og það geti líka þurft mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Og nú eru bersýnilega hafnar vegaframkvæmdir eins og sjá má á myndum Ómars Ragnarssonar í frétt Landverndar. Fór þessi vegagerð í mat á umhverfisáhrifum? Viðbót: Allur þessi hraði tengist náttúrlega áformum fv. ríkisstjórnar og samkomulagi við Alcoa sem undirritað var 1. mars 2006, sjá frétt Mogga. Það verður að finna orkuna, hvað sem það kostar.
Náttúruverndarsinnar krefjast heildstæðrar stefnumótunar um náttúruvernd og aðra landnýtingu, þ.m.t. orkuöflun.
Bloggar | Breytt 4.9.2007 kl. 06:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2007 | 11:20
Les Landsvirkjun ekki eigin bréf?
Landsvirkjun hefur kveinkað sér undan ósk SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, og Landverndar um rannsókn Alþingis á útgáfu rannsóknarleyfis tveimur dögum fyrir kosningar og harmað að samtökin hafi ekki kynnt sér málið. SUNN og Landvernd hafa gögn málsins undir höndum frá iðnaðarráðuneytinu og þar kemur glögglega í ljós hvað ferillinn er undarlegur. Dæmi: Ef bornar eru saman umsókn Landsvirkjunar í október 2004, ítrekun í september 2006 og umsókn/ítrekun 8. maí 2007 (fjórum dögum fyrir kosningar) kemur í ljós að í ítrekun í september 2006 er talað um að það verði lögð fram NÝ umsókn um rannsóknarboranir. Það er því ljóst að umsagnir aðila sem bárust annaðhvort í október 2004 eða á haustdögum 2006 eru ekki um rannsóknarboranir.
Það er athyglisvert að í umsögn Orkustofnunar frá október 2004 er sérstaklega tekið fram að umsögnin sé um leitarrannsóknir, ekki rannsóknarboranir. Í bréfi Landsvirkjunar 8. maí í vor er svo aftur sérstaklega tekið fram að yfirborðsrannsóknum sé "að mestu lokið á svæðinu og næsta skref í rannsóknum þar [sé] borun rannsóknarhola". Hér er því verið að sækja um annað en áður var sótt um og full ástæða að mínum dómi til að fá nýjar umsagnir, a.m.k. í þeim tilvikum sem hinar eldri voru skilyrtar. Er furða að samtökunum tveimur þyki ástæða til að Alþingi fari yfir ferilinn? - ekki síst í ljósi þeirra ágætu stefnu ríkisstjórnarinnar að setja stopp á virkjunaráform þar til rammaáætlun um nýtingu hefur verið gerð.
Svo má koma fram að í bréfi Landsvirkjunar 8. maí kemur greinilega fram stress yfir því að Kröflusvæðið og Þeistareykjasvæðið gefi ekki næga orku vegna álvers á Húsavík. Því virðist ekki ofsagt að það hafi legið á að fá víðtækari leyfi fyrir kosningar, leyfi til að fara með stór tæki og vinnuvélar inn á svæðið þar sem áður var hægt að komast um á einfaldari tækjum og helst að vetrarlagi eins og bent er í umsögn Umhverfisstofnunar í desember 2004.
Nýjustu fregnir herma að á svæðinu sé verið að breyta gömlum slóðum í vegi með tilheyrandi jarðraski og e.t.v. námuvinnslu til ofaníburðar. Sjá fyrri blogg hér og hér. Viðbót: Ómar Ragnarsson er líka með ítarlegri upplýsingar um jarðraskið í Gjástykki og mynd af því.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.9.2007 | 18:27
Hvar er Grunnafjörður?
Auðvitað veit ég hvar Grunnafjörður er - en ekki endilega af því að ég ek stundum fram hjá honum eða flýg yfir hann á leið til Reykjavíkur eða á heimleiðinni - heldur af því að ég kann þó nokkuð í staðalandafræði og dálítið um náttúruvernd. Og aldrei hef ég skoðað Grunnafjörð enda er friðlýsing hans og viðurkenning á alþjóðlegu mikilvægi hans vegna votlendisins og fuglanna en ekki mín vegna. Þess vegna er fárra km stytting á leiðinni milli Akraness og Borgarness ekki nægilega mikils virði til að fórna honum - sjá mynd á vef Umhverfisráðuneytisins. Tvö önnur svæði á Íslandi eru á þessari skrá, bæði þekktari: Mývatn og Þjórsárver sem samt voru bæði á skilorði til skamms tíma vegna rasks og áforma um meira rask. Kannski er búið að aflétta skilorðinu af Mývatni vegna þess að námuvinnslunni þar er hætt og áform um meiri námuvinnslu aflögð. Ég fagna synjun umhverfisráðherra.
Umhverfisráðherra hefur synjað staðfestingu á þeim hluta aðalskipulags Leirár- og Melahrepps er varðar vegalagningu yfir Grunnafjörð en staðfestir það að öðru leyti. Staðfestingu á þeim hluta aðalskipulags Skilmannahrepps er varðar vegalagningu yfir Grunnafjörð var einnig synjað. ... Grunnafjörður var gerður að friðlandi árið 1994 og samþykktur sem Ramsarsvæði 1996. Víðlendar leirur eru í firðinum og má segja að hann sé frekar leirulón en eiginlegur fjörður. Margir vaðfuglar, svo sem sendlingur, lóuþræll, sandlóa og tjaldur, byggja tilveru sína á lífríki leiranna. Þá halda margir æðarfuglar til í firðinum og um fjórðungur margæsastofnsins hefur viðkomu þar á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu til heimskautasvæðanna. Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna og má þar meðal annars nefna tjaldinn. (Umhverfisráðuneytið 21.8.2007 til að sjá tilkynninguna í heild.)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)