Úrskurðarfrestur svo langur að framkvæmd er lokið!

Og í framhaldi af Gjástykkismálum þá má koma fram að í byrjun júlí sl. sumar skutu SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, til umhverfisráðherra úrskurði Skipulagsstofnunar um að framkvæmdir - tvær rannsóknarholur og vegslóði - á Þeistareykjum væru undanþegin mati á umhverfisáhrifum. Nú hafa þær fréttir borist að lokið sé við að bora holu með svipuðu númeri og önnur kærða holan. Úrskurðarfrestur umhverfisráðherra er tveir mánuðir og rennur út á sunnudaginn. Það er ekki hvetjandi fyrir lýðræðisleg ferli að úrskurðarfrestur skuli svo langur að framkvæmdum sé að hluta eða í heild lokið þegar úrskurður loks kemur.

Meðfylgjandi er kæran, dags. 4. júlí: 

Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) leggja hér með fram kæru, sbr. 14. gr. laga nr 106/2000 til umhverfisráðherra, gagnvart ákvörðun Skipulagsstofnunar varðandi ákvörðun á matskyldu: 

1. BORUN RANNSÓKNARHOLA ÞG-4 OG ÞG-5 (málsnúmer 2007030057) 

2. VEGSLÓÐ VEGNA BORUNAR KJARNAHOLU Á ÞEISTAREYKJUM, AÐALDÆLAHREPPI (málsnúmer 2007040020) 

Kærufrestur er til 9. júlí 2007. 

SUNN eru þeirrar skoðunar að ofangreindar framkvæmdir skuli skilyrðislaust vera háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr 2. og 3. viðauka laga nr 106/2000. Það er álit SUNN að ekki skuli veita frekari leyfi til framkvæmda eða rannsóknarborana á svæðinu fyrr en svæðisskipulag liggur fyrir og umhverfismati er lokið á Þeistareykjasvæðinu, en hvorttveggja er nú í vinnslu.  

SUNN mótmæla því fordæmi sem fyrrgreindar ákvarðanir Skipulagsstofnunar veita þar sem veitt eru rannsóknar- og framkvæmdaleyfi til eins og eins vegarslóða eða einnar og einnar rannsóknarholu, sem ef til vill hafa ekki sem stakar framkvæmdir umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér, en sem framkvæmd í heild gegnir öðru máli um. Töluverðar líkur eru á að samanlögð áhrif rannsókna og framkvæmda geti haft umtalsverð umhverfisáhrif þótt ein og ein hola eða einn og einn vegarslóði hafi það ekki. 

Nú þegar hafa verið boraðar  þrjár rannsóknarholur á Þeistareykjum, en a.m.k. tvær þeirra eru staðsettar á svæði á náttúruminjaskrá. Rannsóknarholurnar á svæðinu sem nú stendur til að bora eru skv. úrskurði Skipulagsstofnunar einnig á náttúruminjaskrá. SUNN mótmæla þeim úrskurði Skipulagsstofnunar skv. ákvörðun um matskyldu að þar sem viðkomandi náttúruminjasvæði hafi nú þegar verið skert með rannsóknarborholum muni frekari framkvæmdir á sama náttúruminjasvæði ekki hafa verulega neikvæð áhrif á verndargildi svæðisins umfram það sem nú þegar hefur orðið. Telja SUNN einmitt hið gagnstæða og vísa í ákvörðun Skipulagsstofnunar um boranir fyrri rannsóknarhola frá 15. ágúst 2003 þegar stofnunin benti á nauðsyn þess að ef komi til frekari rannsóknarborana á Þeistareykjasvæðinu verði lögð áhersla á að fjalla heildstætt um mat á umhverfisáhrifum rannsóknarborana og orkuvinnslu til framtíðar á svæðinu. SUNN krefjast þess að þetta mat Skipulagsstofnunar frá 2003 verði haft til grundvallar frekari leyfa við framkvæmdir og rannsóknir á Þeistareykja-svæðinu, þannig að frekari rannsóknarboranir, s.s. þær sem kæra þessi fjallar um, verði ekki framkvæmdar fyrr en að mat á umhverfisáhrifum hefur farið fram. 

Enn fremur telja SUNN ástæðu til að benda á að ítrustu varfærni þarf að gæta varðandi framkvæmdir og uppbyggingu orkuvers á Þeistareykjum, ef af þeim verður. Áform framkvæmdaraðila eru mjög umfangsmikil, þar sem vonast er eftir allt að 180 MW virkjun á svæðinu. Ljóst er að lítið má út af bregða við þessar væntingar standist. Framkvæmdaraðili stefnir greinilega að því að hefja orkuvinnslu á Þeistareykjasvæðinu. Þær rannsóknir sem þegar hafa farið fram virðast hafa fullnægt væntingum framkvæmdaraðila um gildi þess að halda áfram áformum sínum varðandi orkuvinnslu.  

SUNN telja einsýnt að verði að þvílíkum framkvæmdum þá rýrni verndargildi Þeistareykja stórkostlega, hvort sem einstökum jarðmyndunum, gróðursvæðum eða fornleifum verður þyrmt eða ekki. Mat á umhverfisáhrifum fyrir frekari framkvæmdir á svæðinu er nauðsynlegt til ákvörðunar á verndargildi svæðisins, áhrifum á umhverfi og náttúru og þess hvort annars konar atvinnustarfsemi í meiri sátt við náttúru og minjar svæðisins sé betri kostur fyrir sveitarfélagið og þjóðina.  

Skv. drögum að svæðisskipulagi kemur fram að Þeistareykir séu án efa með merkari minjastöðum á Íslandi og að frá minjaverndarlegu sjónarmiði séu allar forsendur fyrir hendi að friðlýsa Þeistareyki sem þjóðminjar. Á Þeistareykjum er einnig að finna margvíslegar jarðmyndanir með hátt verndargildi auk fugla- og plöntutegunda í útrýmingarhættu. Verndargildi þessara verðmæta minnkar við hverja rannsóknarholu sem boruð er á svæðinu og við hvern vegarslóða sem lagður er inn á óraskað land.

Þeistareykir eru á náttúruminjaskrá vegna fjölbreyttra jarðmyndana, gufu- og leirhvera og útfellinga. Þessi jarðhitaummerki falla undir 37. gr laga nr 44/1999 um náttúruvernd. Einnig er á Þeistareykjum eldhraun sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr laga nr 44/1999 um náttúruvernd og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Friðaðar plöntur og plöntur á válista finnast á Þeistareykjum auk þess sem dýrategundir smádýra þar eru fjölbreytilegar. Til að mynda hefur fundist þar tegund snigils sem hvergi hefur fundist annars staðar á landinu.  Í Þeistareykjahrauni eru hellar, þar á meðal dropasteinshellar, en dropasteinar eru friðlýst náttúruvætti skv. auglýsingu nr 120/1974. Á Þeistareykjum eru gígar, Stóra-Víti og Litla-Víti, sem eru á náttúruminjaskrá. Samkvæmt fornleifaskráningu Fornleifastofnunar Íslands eru 58 þekktir fornleifastaðir í Þeistareykjalandi. Stór hluti svæðisins er þó enn ókannaður. Mannvistarleifarnar eru taldar einstakar og  telja fræðimenn nauðsynlegt að gera áætlanir um að tryggja varðveislu þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir fyrir þessa úttekt, Ingólfur. Mér finnst mjög alvarlegt mál ef það á að fara afla orku fyrir Alcoa álver á þessum einstaka stað þar sem ferðmönnum mun einungis fjölga. Einnig er Húsavík mjög vaxandi ferðamannabær í sambandi við hvalaskoðun. Mývatn og svæðin þar í kring eru í mínum huga náttúruperlur Íslands sem ber að alfriða með öll.

Ólafur Örn Pálmarsson 5.9.2007 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband