Hvar er Grunnafjörður?

Auðvitað veit ég hvar Grunnafjörður er - en ekki endilega af því að ég ek stundum fram hjá honum eða flýg yfir hann á leið til Reykjavíkur eða á heimleiðinni - heldur af því að ég kann þó nokkuð í staðalandafræði og dálítið um náttúruvernd. Og aldrei hef ég skoðað Grunnafjörð enda er friðlýsing hans og viðurkenning á alþjóðlegu mikilvægi hans vegna votlendisins og fuglanna en ekki mín vegna. Þess vegna er fárra km stytting á leiðinni milli Akraness og Borgarness ekki nægilega mikils virði til að fórna honum - sjá mynd á vef Umhverfisráðuneytisins. Tvö önnur svæði á Íslandi eru á þessari skrá, bæði þekktari: Mývatn og Þjórsárver sem samt voru bæði á skilorði til skamms tíma vegna rasks og áforma um meira rask. Kannski er búið að aflétta skilorðinu af Mývatni vegna þess að námuvinnslunni þar er hætt og áform um meiri námuvinnslu aflögð. Ég fagna synjun umhverfisráðherra.

Umhverfisráðherra hefur synjað staðfestingu á þeim hluta aðalskipulags Leirár- og Melahrepps er varðar vegalagningu yfir Grunnafjörð en staðfestir það að öðru leyti. Staðfestingu á þeim hluta aðalskipulags Skilmannahrepps er varðar vegalagningu yfir Grunnafjörð var einnig synjað. ... Grunnafjörður var gerður að friðlandi árið 1994 og samþykktur sem Ramsarsvæði 1996. Víðlendar leirur eru í firðinum og má segja að hann sé frekar leirulón en eiginlegur fjörður. Margir vaðfuglar, svo sem sendlingur, lóuþræll, sandlóa og tjaldur, byggja tilveru sína á lífríki leiranna. Þá halda margir æðarfuglar til í firðinum og um fjórðungur margæsastofnsins hefur viðkomu þar á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu til heimskautasvæðanna. Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna og má þar meðal annars nefna tjaldinn. (Umhverfisráðuneytið 21.8.2007 til að sjá tilkynninguna í heild.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband