Les Landsvirkjun ekki eigin bréf?

Landsvirkjun hefur kveinkað sér undan ósk SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, og Landverndar um rannsókn Alþingis á útgáfu rannsóknarleyfis tveimur dögum fyrir kosningar og harmað að samtökin hafi ekki kynnt sér málið. SUNN og Landvernd hafa gögn málsins undir höndum frá iðnaðarráðuneytinu og þar kemur glögglega í ljós hvað ferillinn er undarlegur. Dæmi: Ef bornar eru saman umsókn Landsvirkjunar í október 2004, ítrekun í september 2006 og umsókn/ítrekun 8. maí 2007 (fjórum dögum fyrir kosningar) kemur í ljós að í ítrekun í september 2006 er talað um að það verði lögð fram NÝ umsókn um rannsóknarboranir. Það er því ljóst að umsagnir aðila sem bárust annaðhvort í október 2004 eða á haustdögum 2006 eru ekki um rannsóknarboranir.

Það er athyglisvert að í umsögn Orkustofnunar frá október 2004 er sérstaklega tekið fram að umsögnin sé um leitarrannsóknir, ekki rannsóknarboranir. Í bréfi Landsvirkjunar 8. maí í vor er svo aftur sérstaklega tekið fram að yfirborðsrannsóknum sé "að mestu lokið á svæðinu og næsta skref í rannsóknum þar [sé] borun rannsóknarhola". Hér er því verið að sækja um annað en áður var sótt um og full ástæða að mínum dómi til að fá nýjar umsagnir, a.m.k. í þeim tilvikum sem hinar eldri voru skilyrtar. Er furða að samtökunum tveimur þyki ástæða til að Alþingi fari yfir ferilinn? - ekki síst í ljósi þeirra ágætu stefnu ríkisstjórnarinnar að setja stopp á virkjunaráform þar til rammaáætlun um nýtingu hefur verið gerð.

Svo má koma fram að í bréfi Landsvirkjunar 8. maí kemur greinilega fram stress yfir því að Kröflusvæðið og Þeistareykjasvæðið gefi ekki næga orku vegna álvers á Húsavík. Því virðist ekki ofsagt að það hafi legið á að fá víðtækari leyfi fyrir kosningar, leyfi til að fara með stór tæki og vinnuvélar inn á svæðið þar sem áður var hægt að komast um á einfaldari tækjum og helst að vetrarlagi eins og bent er í umsögn Umhverfisstofnunar í desember 2004.

Nýjustu fregnir herma að á svæðinu sé verið að breyta gömlum slóðum í vegi með tilheyrandi jarðraski og e.t.v. námuvinnslu til ofaníburðar. Sjá fyrri blogg hér og hér. Viðbót: Ómar Ragnarsson er líka með ítarlegri upplýsingar um jarðraskið í Gjástykki og mynd af því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Takk fyrir þessi skjótu og góðu viðbrögð Ingólfur. Það á ekki að láta Landsvirkjun komast upp með þetta bull, það hafa þeir gert of lengi. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 2.9.2007 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband