Slóvenskur fjallaþjóðgarður og belgískar kartöflur

Ég kom heim í gær úr rúmlega tveggja vikna ferðalagi, fyrri vikuna var ég í Slóveníu á ferð um Triglaviþjóðgarðinn í norðvesturhluta landsins, en þá síðari var ég á evrópsku menntarannsóknaráðstefnunni í Gent í Belgíu. Þetta var mín fyrsta ferð til Slóveníu, raunar sú fyrsta til lands þar sem slavneskt mál er aðaltungumálið. Það reyndist þó lítil fyrirstaða því að móttökur Slóvena voru til fyrirmyndar og gestrisni er alþjóðlegt tungumál og Slóvenar lærðu að taka á móti ferðafólki á 19. öld hafi ég skilið söguna rétt. Margir kunna fína ensku og þýskuhraflið mitt reyndist stundum gagnlegt, a.m.k. til að skilja hvað ég átti að borga þegar veitingar voru keyptar. "Espresso" og "makkíató" eru líka jafnslóvensk orð og þau eru orðin akureyrsk! Þetta var 15 manna hópur, mest héðan frá Akureyri, með frábæran slóvenskan leiðsögumann sem reyndar hefur ferðast margsinnis um Ísland, blanda af gönguferðum og afslöppun. Damjan sýndi okkur landið sitt stoltur, t.d. hvernig lögð hafði verið gönguleið um hið 1600 metra langt Vintgargljúfur undir lok 19. aldar. Á heimleiðinni fengum við óvænta aukadvöl í litlu ítölsku þorpi rétt við Triesteflugvöll þar sem heimfluginu seinkaði. Ég náði samt fluginu til Amsterdam og þeim "árangri" að vakna að morgunlagi í fjórum löndum í röð: Slóveníu, Ítalíu, Íslandi, Belgíu! (Já, og koma við í því fimmta!)

Þetta var hins vegar önnur ferðin mín til Belgíu og ég vissi að Belgar byggju til besta bjór í heimi og líka súkkulaði, auk þess sem "franskar" kartöflur eru víst í raun og veru belgískar - þær sömu og mér skilst að George Bush hafi lagt til að yrðu ekki lengur French Fries heldur Freedom Fries þegar Frakkar neituðu að ráðast á Írak. Ráðstefnan sjálf var þrautskipulögð af hálfu menntarannsóknasamtakanna (EERA) og þá ekki síður Belganna sem höfðu ótal aðstoðarmenn úr hópi stúdenta til að fylgjast með því að tölvur og skjávarpar virkuðu eins og vera átti og að framsögumenn hefðu nóg vatn. Þá var gaman að sjá hvernig málstofan sem ég skipulagði í félagi við kollega í Námsmatsstofnun um kyn og PISA-rannsóknina(gender og PISA) kom út (50 manns sóttu hana að hluta eða í heild), auk þess sem þetta var í fyrsta skipti sem ég bar ábyrgð á að skipuleggja þann hluta dagskrárinnar sem féll undir Network 23: menntastefnurannsóknir og menntapólitík (tæpar 20 málstofur samtals). Það verður gaman að undirbúa ráðstefnuna að ári sem verður í Gautaborg. Auk þess reyndist smátími til að njóta bjórsins, súkkulaðsins og annarra veitinga sem Belgar útbúa af mikilli matargerðarlist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Fyrir matgæðing eins og þig hefur ferð til matarmenningarlanda án efa verið sönn ánægja, velkominn heim.

Kristín Dýrfjörð, 24.9.2007 kl. 18:51

2 Smámynd: Eyþór Árnason

Hér sækir haustið á, en velkominn heim frændi. Það er merkilegt hvað bjórinn smakkast vel í útlöndum.

Eyþór Árnason, 24.9.2007 kl. 19:45

3 identicon

Velkominn heim...

Eygló 24.9.2007 kl. 20:21

4 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Velkomin heim - Vona að þú hafir notað tækifærið og fengið þér krækling að hætti belga.

Anna Karlsdóttir, 25.9.2007 kl. 07:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband