Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

"Æskilegt að hlusta á veðurspá áður en lagt er af stað"

... sagði félagi í björgunarsveitinni Oki í Sjónvarpinu (ruv.is) eftir för upp á Langjökul að sækja 11 manns sem ekki treystu sér til að komast til byggða eftir að óveðrið skall á. Nú veit ég ekki hvort hann átti við ellefu-menningana, eða hvort þeirra ferðir voru eitthvað sérstaklega óyfirvegaðar. Ég gleðst einfaldlega yfir því að fólkið hafi komist af jöklinum.

Áminning björgunarsveitarmannsins er hins vegar afskaplega mikilvæg: Óveðrinu hafði verið spáð í næstum því viku. Umhleypingarnar undanfarnar margar vikur mættu minna okkur sérstaklega mikið á að fylgjast með veðurfréttum og upplýsingum um færð á vegum. Upplýsingar eru næstum því á hverju strái, ekki bara í veðurfréttatímum mörgum sinnum á sólarhring (eins og verið hefur í nokkra áratugi), þær eru núna líka á netinu og hægt að hringja í síma Vegagerðarinnar þegar þarf að fá upplýsingar um færð á vegum.


Femínískt samsæri eða áfangi í jafnréttisbaráttunni?

Það er með ólíkindum að unnt sé að sjá femínískt samsæri út úr valinu á Margréti Láru sem íþróttamanni ársins, eins og skilja má af ýmsum textum hér í blogginu. Samt hef ég nú lúmskt gaman af þessu meinta femíníska samsæri. Reyndar er ég ekki heldur viss um það sé skynsamlegt að reyna að sjá út úr þessu einhvern jafnréttissigur, eins og mér sýnist val hennar einnig vera túlkað til marks um.

Ætli mikilvægasti árangur Margrétar Láru sé ekki sá að íslensk kvennaknattspyrna er nú samkeppnisfær við knattspyrnu annars staðar? - Margrét Lára skorar mörk á við meðalhandboltamanneskju! - Hún benti þó á í sjónvarpsviðtalinu eftir hún tók við gripnum að hún er hópíþróttamanneskja og þar af leiðandi getur hún ein aldrei náð þess háttar árangri enda hafa aðrar íslenskar knattspyrnukonur náð langt, líka í þessu kjöri á fyrri árum. Þetta undirstrikar Margrét Lára í blaðaviðtölum sem ég hef lesið í dag.

Ánægjulegt er að það komu margir frábærir íþróttakarlar og -konur til greina og að fleiri en einn annar íþróttamaður eða -kona hefði getað hampað titlinum með fullri sanngirni, þótt mér sýnist val Margrétar Láru langeðlilegasta valið. Óskaplega er þó erfitt að bera saman árangur í ólíkum íþróttum, og það vita auðvitað þeir sem að valinu standa, íþróttafréttamenn, allra best.

Ef keppnisskap ræður einhverju um val íþróttamanns ársins virðist mér Margrét Lára vera fremst meðal jafningja. Það er stórkostlegt að sjá þegar fólk hefur gaman af því sem það er fást við, eins og Margrét Lára hefur sannarlega. Ég held að hún muni ná gríðarlega langt í sinni íþrótt, með þá hæfileika og áhuga sem hún hefur, og óska henni velfarnaðar og til hamingju.


mbl.is Margrét Lára íþróttamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannar skáldsögur

Núna er verið að flytja þátt sem var frumfluttur sl. laugardag á rás 1 í Ríkisútvarpinu (ruv.is) um Fjalla-Bensa, sögupersónu Gunnars Gunnarssonar sem hann byggði á Benedikt Sigurjónssyni, Mývetningi, sem stjúpfaðir minn talaði um sem Bensa Sigurjóns. Og annar þáttur var um Bensa á sunnudagsmorguninn var. Í þættinum núna er Arngrímur Geirsson, kennari og bóndi í Álftagerði, að ræða um Bensa, sannleiksgildi Aðventu og segir frá því þegar frændi Bensa þýddi bókina úr dönsku (sem hún var skrifuð á) og því þegar hann sagði "nú lýgur hann" [Gunnar]. Arngrímur þekkti Bensa á sínum tíma þegar Arngrímur var barn.

Benedikt í sögu Gunnars er ekki sama persóna og Bensi Sigurjóns; Gunnar bjó hins vegar til listaverk eftir að hafa heyrt um eftirleitir Bensa. Hugsanir sögupersónunnar Benedikts eru þó trauðla hugsanir Bensa Sigurjóns, eins og jafnvel mátti skilja á sunnudagsþættinum. Framtak Skúla Björns hjá Gunnarsstofnun um að fara á eftirleitarslóðir er aftur á móti afar skemmtilegt framtak. Þessar eftirleitir voru miklar þrekraunir og stjúpfaðir minn, Jón Þorláksson bóndi á Skútustöðum, sagði mér margar sögur úr þeim. Arngrímur sagði eina þeirra.

Fyrir jólin kom út annað listaverk byggt á sannsögulegum atburðum, Rimlar hugans, eftir Einar Má Guðmundsson, ástarsaga Einars Þórs og Evu. Hvað af þeirri er sögu eru sagnfræðilegar staðreyndir og hvað af því er skáldskapur, sannur skáldskapur, veit ég ekki. Sagan er hins vegar ótrúlega spennandi saga og gefur eiginlega ekkert eftir helstu spennusögunum fyrir en er þar fyrir utan fallega ástarsaga. Sannar skáldsögur eru sá búningur sem góður rithöfundur gefur atburðum sem gerðust.


Utan seilingar skattyfirvalda - skattalegt hagræði

Það var fleira í Markaðinum í gær en það sem ég bloggaði um í gærkvöldi. Vitnað er í skýrslu starfshóps frá 2003 um skattsvik. Þar segir að nú á dögum virðist viðtekið að fagmenn og fyrirtæki "veiti ráðgjöf sem beinlínis miðar að því að komast undan eðlilegri skattlagningu". Slík fyrirtæki "sérhæfa sig í að ráðleggja mönnum hvernig vista á fé með þeim hætti að það sé utan seilingar skattyfirvalda", segir í skýrslu skattsvikanefndarinnar. Þessu andmælir Elín Árnadóttir hjá Pricewaterhouse Coopers en segir þessa gullnu setningu: "Skattalegt hagræði er bara allt annað mál". Hún tekur fram að viðskiptavinir "eigi ávallt frumkvæðið" og fyrirtæki hennar ýti ekki "einu eða neinu ólöglegum að mönnum". Mér hefði nú faktískt aldrei dottið það í hug og það er ekki það sem sagt er í ívitnuðum málsgreinum skattsvikanefndarinnar. Ég hefði nú frekar haldið að ráðgjafarnir ráðlegðu viðskiptavinunum hvernig gjörðir þeirra við að halda fé "utan seilingar skattyfirvalda" væru löglegar. Einmitt þess vegna átta ég mig ekki á því hvernig "skattalegt hagræði" getur verið "allt annað mál". "Eðlileg skattlagning" er smekksatriði: Hvað er sanngjarnt að maður leggi fram til samfélagsins? Skattalögum er ætlað að endurspegla slíka sanngirni.


Skattsvik og velferð

Í frétt í Markaðinum, blaði á brúnleitum pappír sem fylgir Fréttablaðinu, kemur fram að vaxandi skattbyrði í Danmörku hafi ekki orðið til að auka skattsvik. Í upphafi 20. aldar hafi skattsvik verið um fjórðungur en komin niður í 5% um 1980. Enn fremur kemur fram að einstakar breytingar á skattalögum virðist ekki hafa haft áhrif á þróun skattsvika. Þetta er afar athyglisvert og að einhverju leyti í ósamræmi við það sem maður hefði trúað. En þegar betur er að gáð kemur í ljós að hið fyrrnefnda er skýrt, skv. fréttinni, með því að fólk sætti sig við aukna skatta vegna aukinnar velferðar. Það er nú akkúrat þess vegna sem mér líkar ágætlega að borga mín opinberu gjöld og var ekki hrifinn af því þegar svokallaður hátekjuskattur var aflagður eða lækkaður fyrir fáeinum árum. Ég hef löngum sagt söguna af því þegar skattur minn lækkaði um 25 þúsund krónur á ári vegna breytingarinnar en á sama tíma var eigin greiðsla fyrir dýrt lyf hækkuð og 5 þúsund krónur fóru beint í það (á ári). Ég græddi smápening, þeir sem ekki nutu skattalækkunarinnar urðu fátækari af því að þeir þurftu líka að greiða hækkunina fyrir lyfið, samfélagið varð eilítið lakara þar sem samtryggingin og velferðin minnkuðu.


Sennilega er hægt að útrýma kynbundnum launamun

Launamunur kynjanna mælist nú aðeins þrjú prósent hjá Akureyrarbæ, ef marka má niðurstöður nýrrar launakönnunar ... Katrín Björg Ríkharðsdóttir, framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar Akureyrarbæjar, hélt erindi um breytingar á launakerfi bæjarins. Akureyrarbær hefur unnið markvisst að því undanfarin ár að jafna laun kynjanna, meðal annars með því að taka þátt í starfsmati, setja reglur um þak á yfirvinnu og hætta að greiða fastar greiðslur fyrir akstur og óunna yfirvinnu.

Skáletraði textinn er tekinn af heimasíðu Jafnréttisstofu þar sem er frétt um málþingið Kynbundinn launamunur – aðferðir til úrbóta,sem Jafnréttisstofa hélt á Hótel KEA í gær. Yfir 70 manns mættu á fundinn sem var stuttur og hnitmiðaður, troðfullur af upplýsingum. Því miður voru þær ekki alveg allar svona jákvæðar, t.d. kom fram að ef þróun kynbundins launamunar í landinu öllu verður sú sama og það sem af er þessari öld verði það ekki fyrr en upp úr miðri öld sem hann jafnast.

Gleðilegri voru því tíðindin frá Akureyrarbæ þar sem konur hafa nú reyndar örlítið hærri dagvinnulaun en karlar sé tekið mið af ólíkum störfum og starfsaldri og fleiri þáttum sem talið er að megi skýra með öðru en kyni. En það sem gerðist hér á Akureyri "gerðist" ekki heldur var unnið af vandvirkni og fagmennsku og kostaði svita og tár, eins og Katrín sagði, þó ekki blóð, eins og hún tók líka fram. Þetta starf sannar að það er líklega hægt að minnka og jafnvel eyða kynbundnum launamun.

Einnig var sagt frá jafnréttisstarfi Skýrr og ég verð að segja að ég er enn þá ánægðari með að vista vefsíðuna mína hjá ismennt.is, sem ég borga þeim fyrir, eftir að frétti af jákvæðu jafnréttisstarfi þar og því að starfsfólkið þar fær "alvöru latté" í vinnunni úr góðum baunum frá Tei og kaffi.


Leitin lifandi – ný spennandi bók

Um helgina var ég að lesa í bók sem heitir Leitin lifandi – líf og störf 16 kvenna. Bókin er afraksturs samstarfs Kristínar Aðalsteinsdóttur, dósents við kennaradeild HA og deildarforseta, við 15 aðrar fræðakonur sem allar hafa doktorspróf í félagsvísindum og eru háskólakennarar. Í bókinni segja þær lífssögu fræðastarfs síns. Ég hef fengið að fylgjast nokkuð með gerð bókarinnar; ég man reyndar ekki hvenær Kristín, sem í tíu ár hafði skrifstofu við hliðina á minni í húsi kennaradeildarinnar á efstu hæð í Þingvallastrætinu, sagði mér fyrst frá hugmyndinni. Afskaplega ánægjulegt að hugmyndin er orðin að veruleika. 

Í bókinni segir hver og ein kvennanna frá ferli sínum og ýmsum mikilvægum persónulegum æviatriðum sem mótuðu námsval og starfsferil. Höfundarnir eru 16 úr sjö til níu greinum félagsvísinda (eftir því hvernig greinar eru flokkaðar saman), flestar úr menntunarfræðum þar sem fræðasvið höfundanna eru margbreytileg og ólík. Enda þótt ég þekki svo að segja alla höfundana persónulega eða sem kollega í fræðasamfélaginu finnst mér mjög gaman að kynnast þeim betur, líka þeim sem ég hef náið unnið með við HA eða annars staðar sem meira en helmingur hópsins. Í hópnum eru þrjár konur sem kenndu mér í Háskóla Íslands á sínum tíma um og fyrir 1980 og þrjár sem voru skólasystur mínar þar. 

Ætli sé ekki best að setja hér nafnalistann: Sigrún Sveinbjörnsdóttir, Rannveig Traustadóttir, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Snæfríður Þóra Egilson, Hafdís Ingvarsdóttir, Jóhanna Einarsdóttir,  Kristín Loftsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir, Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, Elín Díanna Gunnarsdóttir, Sigrún Júlíusdóttir, Unnur Dís Skaptadóttir, Kristín Aðalsteinsdóttir, Guðrún Kristinsdóttir, Sigrún Aðalbjarnardóttir og Dóra S. Bjarnason. Við lauslega talningu sýnist mér þær hafa stundað formlegt nám í sjö löndum utan Íslands og stundað rannsóknir í a.m.k. fjórum öðrum löndum. Sumar eru þær frumkvöðlar fræðigreinanna hér á landi, en aðrar á sérsviðum innan greina sinna. Þær hafa því frá miklu að segja sem er ekki bara persónulegt heldur varðar fræðigreinina og tilurð hennar. Í bókinni er gríðarleg reynsla og þekking samandregin á óvenjulegan og frumlegan hátt. Óhætt er að hvetja alla sem áhugasamir eru um þróun íslenskra félagsvísinda að lesa. Háskólaútgáfan gefur út.


Jólatónleikar evrópskra útvarpsstöðva

Enn eitt eyrnakonfektið er núna í útvarpinu - mestallan dag: Eins og á hverju ári síðasta sunnudag fyrir jól (reyndar hlýtur reglan að vera síðasta sunnudag fyrir Þorláksmessu því að hún er síðasti sunnudagur fyrir jól þetta árið!) eru jólatónleikar evrópskra útvarpsstöðva á rás 1 í Ríkisútvarpinu. Graduali Nobili, sem sveitungi minn Jón Stefánsson stjórnar, á að syngja fyrir hönd Íslands kl. 8 í kvöld. Njótið vel Smile

Ég verð nú bara að bæta við þetta, því að núna kl. 5 eru að hefjast tónleikar úr Nikulásarkirkjunni í Gent: Ég heimsótti þessa kirkju í september þegar ég var þar á ferð.


Öfgar eða róttækni í trúmálum og jafnréttismálum?

Í dag fylgdist ég með hluta af þætti Egils Helgasonar þar hann ræddi við Sóleyju Tómasdóttur, Drífu Snædal og Katrínu Önnu Guðmundsdóttur (talið frá vinstri eins og þær sátu í þættinum). Ein spurninganna var hin sígilda spurning um "öfga". Honum var svarað neitandi: Femínismi væri ekki öfgar. En viðmælendur gengust við róttækni. Á þessu er munur - en munurinn snýst líka um að við komum fram hvort við annað af lágmarksvirðingu.

Sams konar sjónarmið gagnvart trúleysi "leikur lausum hala", t.d. í grein sem Tómas Torfason, formaður KFUM og KFUK á Íslandi, ritaði í 24 stundir á miðvikudaginn var (bls. 16). Hann ræðir þar um fámennan "öfgahóp sem leiki lausum hala" en nefnir reyndar aldrei hver þessi hópur er nema að hann sé trúlaus andstæða leiðtoga í sértrúarsöfnuðum. Ég hlýt að taka orð hans að einhverju leyti til mín þótt ég neiti því að hafa sett fram neins konar kröfur um trúmál og trúfræðslu sem "endurspegla frekju". Ég hef ritað nokkrar greinar um þessi málefni í blöð, sú fyrsta er líklega þessi. Kunna að vera róttæk sjónarmið en þó má efast um það; er það róttækt að Ísland fari að yfirlýsingu Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna eins og Siðmennt ætlast til og er tekið mið af í lagafrumvörpum um skóla? Kannski á Tómas einmitt við Siðmennt eða annan félagsskap að nafni Vantrú. Eða á hann við hinn breiða fjölda okkar sem aðhyllumst ekki trú og erum þess vegna ekki í trúfélagi?

Ásökun um öfgar er of mikið notuð í samfélaginu - en sú ásökun er stundum sett fram á öfgafullan hátt í merkingunni ofstopi eða ýkjur eins og orðið öfgar er útskýrt með í Íslenskri orðabók (Edda, 2002). Vörum okkur á slíkum ásökunum, látum hvort annað njóta þess vafa að vera talin róttæk. Sennilega er Tómas Torfason róttækur kristinn maður sem vill verja ástand sem hann telur gott - en er ekki í fullu samræmi við kröfur Sameinuðu þjóðanna. En mér þykir afskaplega ólíklegt að hann sé ofstopafullur öfgamaður þótt mér mislíki málflutningur hans.


mbl.is Siðmennt svarar biskup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tuttuguogfimmþúsundasta flettingin

Tuttuguogfimmþúsundasta fletting bloggsíðunnar nálgast og ég hef ákveðið að senda einum bloggsíðugesti gjöf af því tilefni, eins og þegar síðunni var flett í tíuþúsundasta skiptið í júlí sl. Reglurnar eru að þeir eða þær sem vilja taka þátt í því að verða númer tuttugufimmþúsund senda "kvitt" við þessari bloggfærslu og fljótlega eftir að tuttugufimmþúsundustu flettingunni er lokið mun ég draga eitt nafn af þeim sem hafa kvittað við færsluna og líta þannig á að það hafi verið tuttugufimmþúsundasti gesturinn. Aðeins eitt kvitt frá hverjum þátttakanda gildir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband