Sennilega er hægt að útrýma kynbundnum launamun

Launamunur kynjanna mælist nú aðeins þrjú prósent hjá Akureyrarbæ, ef marka má niðurstöður nýrrar launakönnunar ... Katrín Björg Ríkharðsdóttir, framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar Akureyrarbæjar, hélt erindi um breytingar á launakerfi bæjarins. Akureyrarbær hefur unnið markvisst að því undanfarin ár að jafna laun kynjanna, meðal annars með því að taka þátt í starfsmati, setja reglur um þak á yfirvinnu og hætta að greiða fastar greiðslur fyrir akstur og óunna yfirvinnu.

Skáletraði textinn er tekinn af heimasíðu Jafnréttisstofu þar sem er frétt um málþingið Kynbundinn launamunur – aðferðir til úrbóta,sem Jafnréttisstofa hélt á Hótel KEA í gær. Yfir 70 manns mættu á fundinn sem var stuttur og hnitmiðaður, troðfullur af upplýsingum. Því miður voru þær ekki alveg allar svona jákvæðar, t.d. kom fram að ef þróun kynbundins launamunar í landinu öllu verður sú sama og það sem af er þessari öld verði það ekki fyrr en upp úr miðri öld sem hann jafnast.

Gleðilegri voru því tíðindin frá Akureyrarbæ þar sem konur hafa nú reyndar örlítið hærri dagvinnulaun en karlar sé tekið mið af ólíkum störfum og starfsaldri og fleiri þáttum sem talið er að megi skýra með öðru en kyni. En það sem gerðist hér á Akureyri "gerðist" ekki heldur var unnið af vandvirkni og fagmennsku og kostaði svita og tár, eins og Katrín sagði, þó ekki blóð, eins og hún tók líka fram. Þetta starf sannar að það er líklega hægt að minnka og jafnvel eyða kynbundnum launamun.

Einnig var sagt frá jafnréttisstarfi Skýrr og ég verð að segja að ég er enn þá ánægðari með að vista vefsíðuna mína hjá ismennt.is, sem ég borga þeim fyrir, eftir að frétti af jákvæðu jafnréttisstarfi þar og því að starfsfólkið þar fær "alvöru latté" í vinnunni úr góðum baunum frá Tei og kaffi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það eru tvær leiðir til að útrýma kynbundnum launamun. Önnur er sú að fólk vinni aðeins hjá opinberum eða hálfopinberum aðilum. Hin er sú að lóga öllum karlmönnum!

Þorsteinn Siglaugsson, 18.12.2007 kl. 16:44

2 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Launamunur er ekki 3% rétt er að konur hafa 1,4% hærri laun en karlar sambærileg laun eru laun á klukkustund fyrir sambærilegt starf. Vitna einnig i könnun rafiðnaðarsambandsins þar sem kemur fram að konur hafa mun hærri laun en karlar fyrir sömu vinnu á tímaeiningu. Lengri vinnudagur telst ekki launaójöfnuður og skal því ekki miða við vinnustundafjölda heldur kaup pr klukkustund. Svo er gott að vita að það er jafnréttisstimpill að  borga konum hærri laun. Var þetta ekki um jafnrétti annars? Eða eru sum dýrin jafnari en önnur ?

Jón Aðalsteinn Jónsson, 19.12.2007 kl. 11:03

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Vil benda á að það gengur alls ekki upp að lóga öllum karlmönnum! Það væri nóg að halda einum á hverjar 1000 konur, en einhverja karlmenn þarf

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 19.12.2007 kl. 16:35

4 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Þorsteinn, MaggaStína, Jón og Anna: Takk fyrir innlitið.

Það er hægt að skoða launamun út frá fjölmörgum forsendum, Jón. Sá kostur að skoða heildarlaun óleiðrétt út frá vinnutíma eða öðru snýst um möguleika fólks til framfærslu. Hér var leiðrétt fyrir starfi, starfssviði, aldri og starfsaldri. Vilja karlar yfirvinnu? Vilja konur yfirvinnu? Fá annaðhvort karlar eða konur frekar yfirvinnu? Ég þori ekki að fullyrða hvort 1,4% munurinn er marktækur tölfræðilega eða ekki, en það væri væntanlega best að báðar tölur, heildarlaun og dagvinnulaun, væru jöfn. Hvorugt er þó afgerandi launamunur og það skiptir mestu. Heildarlaunamunurinn var 8% fyrir tæpum tíu árum þannig að hér er breyting.

Ert þú, Þorsteinn, að lýsa minni launamun kynja hjá hinu opinbera - eða því að konur vinna meira hjá hinum opinbera? Kannski mætti jafna launamuninn með því að einkavæða spítala og skóla en þjóðnýta verktakafyrirtæki og togara. Mæli þó ekki með þeirri leið þótt vissulega sé hún stórkarlalegri en vandvirknisleg vinnubrögð Akureyrarbæjar og Skýrr.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 19.12.2007 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband