Færsluflokkur: Bloggar

Hvað verður um jafnréttismál í aðalnámskrá grunnskóla?

Það hefur vakið mikla athygli mína að í viðmiðunarstundaskrá er tilgreint að jafnréttismál (námsgreinin í grunnskóla) falli undir samfélagsgreinar, sem samt er líka sjálfstæð námsgrein í grunnskóla.  

Nú er búið að birta drög um námskrá fyrir samfélagsgreinar á netinu - http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/namskrardrog/- og þar eru taldar upp nokkrar námsgreinar (t.d. hinar hefðbundnu saga og landafræði) og óhefðbundnari sem þó eiga sér stað í lagagreininni (trúarbragðafræði, lífsleikni):

„Samfélagsgreinar í þessari aðalnámskrá fela í sér víðara svið og fleiri námsgreinar og efnisþætti en verið hefur áður. Undir samfélagsgreinar heyra nú meðal annars námsgreinar sem kenndar hafa verið í íslenskum skólum undir samheiti samfélagsgreina eða samfélagsfræði eða sem afmarkaðir námsþættir. Þar er einkum um að ræða sögu, landafræði, þjóðfélagsfræði, trúarbragðafræði, lífsleikni og siðfræði. Þær byggja einnig á þekkingu og stefjum úr öðrum fræðigreinum eins og heimspeki, kynjafræði, sálfræði, stjórnmálafræði og hagfræði. Þessar greinar og námsþættir eru ekki aðgreind í aðalnámskránni en skólunum látið eftir að haga greinaskiptingu eftir því sem skynsamlegast, hentugast og árangursríkast er við hverjar aðstæður  meðan öll hæfniviðmið eru höfð í huga innan þess ramma sem námssviðinu er markaður í viðmiðunarstundaskrá sem birt er í almennum hluta aðalnámskrár.“

Nú átta ég mig ekki á því hvernig tvær upptalningar í klausunni hafa orðið til. Sú fyrri gæti haft skírskotun til sögunnar að því leyti að fyrst eru taldar elstu námsgreinarnar og síðar þær yngri, svo sem lífsleikni. En ekki er talin sú nýjasta, jafnréttismál, og ekki ljóst af þessum texta hvers vegna þeim er sleppt.

Mér virðist að í þessum texta sé alveg nauðsynlegt að taka það sérstaklega fram hvaða greinar koma fram í lögum. Einnig gæti verið rökrétt að telja „gamlar“ greinar úr fyrri lögum sem eiga sér hefð, svo sem sögu og landafræði.

Svo er önnur upptalning nokkurra fræðigreina. Ég sé enga sérstaka röð eða rök fyrir þeirri röð; hér hefði líklega stafrófsröð átt verulega mikið betur við nema . Hér myndi ég líka vilja sjá fleiri af þeim fræðigreinum sem eru taldar upp þegar grunnþættinum jafnrétti er lýst. Kynjafræðin er hér með, en ekki hinseginfræði, fötlunarfræði og fjölmenningarfræði sem eiga líklega hvergi meira erindi en inn í samfélagsgreinarnar. Ég myndi reyndar alveg vilja fá fleiri greinanöfn inn í þessa upptalningu úr því þarna er einhver upptalning, greinar sem eru kenndar við íslenska háskóla, svo sem mannfræði, þjóðfræði, menningarfræði, fjölmiðlafræði og nútímafræði. Fyrst skólum er á annað borð látin eftir greinaskiptingin er best að hún sé sem óbundnust og að kennarar sem t.d. hafa menntun í einhverri grein geti þá beinlínis nýtt sér hana og kennt með sérstakri hliðsjón af henni.

(Bréf sent menntamálaráðuneytinu sem ábending við aðalnámskrá samfélagsgreina fyrir grunnskóla – drög birt á netinu – þann 31. júlí 2012.)


Félagslegt ójafnrétti og menningarlegar hliðar menntunar

Mánudaginn 11. júní heldur Jenny Stuber, dósent í félagsfræði við University of North Florida fyrirlestur sem nefnist "Félagslegt ójafnrétti og menningarlegar hliðar menntunar" [Inside the College Gates: Education as a Social and Cultural Process]. Í rannsóknum sínum beinir Jenny sjónum að menningarlegum hliðum félagslegs ójafnréttis. Hún leggur áherslu á að félagslegt ójafnrétti þýðir ekki einungis að sumir hafi meiri efnahagslegar bjargir en aðrir, heldur einnig menningarlegar bjargir, til dæmis þekkingu og tengslanet. Þetta hefur þýðingu fyrir árangur fólks í skólakerfinu.

Fyrirlesturinn byggir á nýútkominni bók hennar, þar sem að hún rannsakaði áhrif efnahagslegar stöðu á árangur í háskóla. Fyrirlesturinn fer fram 11.

júní í stofu 101 í Odda kl. 12:00-13:00.

Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, MARK Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna og Félagsfræðingafélag Íslands standa að fyrirlestrinum.

ÖLL VELKOMIN

 

*  *  *

On Monday, June 11th, Jenny Stuber, Associate Professor of Sociology at the University of North Florida will give a talk entitled “Inside the College

Gates: Education as a Social and Cultural Process” Her research focuses on the cultural aspects of social class inequality and works from the assumption that social class inequality reflects not simply the fact that some people have more economic resources than others, but also reflects the fact that some people have more valuable cultural resources than others--namely know-how and social connections (social and cultural capital). By looking at the cultural underpinnings of class inequality, her research asks questions about how people understand, enact, and use social class in their everyday lives. She is especially interested in how people understand social class and use their class-based resources within educational settings. Her assumption is that "success" within academic settings is only partially shaped by the unequal distribution of cognitive capital, human capital, and economic capital; it is also shaped by the unequal distribution and deployment of social and cultural capital and deployment of social and cultural capital.


Íslenska söguþingið 2012

Fyrir söguþingið hef ég skipulagt málstofuna Söguleg greining orðræðu: Verklag við rannsóknir sem verður síðdegis á föstudag. Í henni verða kynntar fjölbreytilegar rannsóknir sem eiga það sameiginlegt að beitt er verklagi sögulegrar greiningar á orðræðu í anda Foucaults og femínískra rannsókna. Lögð er áhersla á það annars vegar að ræða álitamál við að nota slíka greiningu og hins vegar að kynna nýjar niðurstöður rannsókna sem fengnar eru með því að nota sögulega greiningu á orðræðu. Hvers konar spurninga er spurt? Hvenær telst rannsókn geta verið söguleg greining á orðræðu? Meðal álitamála sem er fjallað um í flestum erindum er hvort verklag sögulegrar greiningar á orðræðu sé frábrugðið öðrum rannsóknum. Eftirtalin sjö erindi verða í málstofunni:

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri: Söguleg orðræðugreining í félags- og menntavísindum.

Í erindinu er fjallað um um uppruna, þróun og sérstöðu sögulegrar greiningar á orðræðu og „landnám“ hennar í mennta- og félagsvísindum. Í erindinu er fjallað um hvernig staðlaðar kröfur megindlegra rannsókna – og að nokkru marki einnig staðlaðar kröfur svokallaðra eigindlegra rannsókna – hafa haft áhrif á til hvers er ætlast af þeim beita verklagi ættuðu úr hugvísindum.

Guðný Gústafsdóttir doktorsnemi í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands: Kvenleiki sem orðræða

Á hverjum stað og tíma eru hlutverk kvenna og karla skilgreind í orðræðunni út frá ríkjandi menningu. Í túlkuninni endurspeglast ásýnd og atgervi sem mótar kyngervi (e. gender) manneskju og öfugt og þannig verða til kvenleiki og karlmennska og ímyndir þeirra. Kyngervi tákngerir jafnframt þau kynjuðu valdatengsl sem liggja til grundvallar hverju samfélagi. Staða íslenskra kvenna undanfarna áratugi hefur verið flókin og mótsagnakennd. Þrátt fyrir augljósan ávinning seinni bylgju kvennahreyfingarinnar, formlegt jafnrétti og ríka félagslega þátttöku kvenna í samfélaginu síðustu áratugina fyrir hrun, voru konur lítt sýnilegar sem leikmenn á markaði góðærisins. Ímynd uppgangs og hruns íslensks efnahagslífs var karlmennskuímynd útrásarvíkinganna. Erindið fjallar um hina hlið kynjapeningsins; birtingamynd/ir kvenleikans í íslenskum samtíma. Rýnt verður í orðræðu kvenna í vinsælum tímaritum á tímabilinu og sá kvenleiki sem komið var á framfæri kortlagður. Hver var orðræðan um stöðu og hlutverk kvenna? Hvað getur útskýrt fjarveru þeirra af opinberum vettvangi?

Anna Guðrún Edvardsdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Þekkingarsamfélagið og byggðaþróun: Mótsagnakennd orðræða um þekkingarsetur á landsbyggðinni

Uppbygging háskólamenntunar og rannsóknastarfsemi hefur verið mikil á landsbyggðinni á síðustu 15–20 árum og í hverjum landshluta starfa háskóla- og/eða rannsóknasetur, annaðhvort sem sjálfstæðar einingar eða sem hluti af móðurstofnun sem staðsett er á höfuðborgarsvæðinu. Fjallað verður um þá orðræðu sem birtist í opinberum skýrslum um uppbyggingu þekkingarsamfélagsins, þ.e. háskólamenntun og rannsóknir, á landsbyggðinni og áhrif þess á byggðaþróun. Áhersla stjórnvalda hefur verið lögð í að byggja upp þekkingarsetur og skapa störf fyrir háskólamenntað fólk og stuðla þannig að jákvæðri byggðaþróun. Greindar voru skýrslur þar sem umfjöllunarefnið voru þekkingarsetur og áhrif atvinnusköpunar þekkingarsamfélagsins á styrkingu byggða  og er í erindinu dregið fram hvað einkennir orðræðuna um málaflokkinn og hvaða mótsagnir felast í henni.

Skúlína Hlíf Kjartansdóttir, doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Orðræða hagsmunaaðila um starfsmenntun – mótsagnir og möguleikar

Margir aðilar telja nauðsyn á að þeir komi að mótun starfsmenntunar og flestir þeirra hafa mismunandi hagsmuni að leiðarljósi. Í erindinu er greind orðræða þriggja hagsmunaaðila:  Samtaka Atvinnulífsins, Kennarasambands Íslands og Sambands Íslenskra framhaldsskólanema. Hagsmundir atvinnulífs hafa tekið örum breytingum undanfarin ár, frá kröfum til stjórnvalda um að sinna þörfum iðnmenntunar til þess að leggja áherslu á „þjónustuhlutverk“ starfsmenntunar, virkjun samkeppnis- og markaðslögmála með einkavæðingu menntakerfisins og kröfum um „ávísanakerfi til náms“. Kennarasamband Íslands leggur áherslu á jafna aðstöðu til náms á framhaldsskólastigi, skýr viðmið um framkvæmd laga og þátt stjórnvalda, faglegt sjálfstæði, langtímasýn í menntunarmálum, nýtingu rannsókna í skólastarfi og rétt kennara til að koma að mótun menntastefnu og framkvæmd menntunar. Nemendur leggja höfuðáherslu á gagnkvæma virðingu, lýðræði, jafnrétti til náms, samráð og opna og lýðræðislega ákvarðanatöku um menntun og tryggingu gæðaeftirlits með námi. Í erindinu er einnig rætt hvernig orðræðugreining getur veit leiðarljósi á starfsmenntaumræðuna – og vakið athygli á einstaka þáttum hennar sem þarfnast umfjöllunar.

Hildigunnur Gunnarsdóttir, kennari við Kvennaskólann í Reykjavík og doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Orðræðan um styttingu framhaldsskólans

Setning nýrra laga um framhaldsskóla 2008 átti sér aðdraganda og sýndist sitt hverjum. Ágreiningurinn var bæði af pólitískum toga og hagnýtum. Í erindinu er sagt er frá opinberum umræðum sem urðu á 1. áratug aldarinnar um styttingu framhaldsskóla og sjónum beint að því hvað framhaldsskólakennarar sögðu opinberlega um styttingu náms til stúdentsprófs. Leitað var eftir því hvers konar framtíðarsýn birtist í þeim textum sem voru skoðaðir sem voru annars vegar skýrslur Menntamálaráðuneytisins og hins vegar blaðagreinar. Eitt af því sem oft var rætt var „skert nám“ eða „skert stúdentspróf“. Rýnt var sérstaklega í hugtakið vald með tilliti til vettvangsins sem orðræðan var sprottin úr.  Notast var við nálgun sögulegrar orðræðugreiningar og stuðst við hugmyndir Foucaults og Bourdieus um vettvang og yfirráðin yfir honum. Framhaldsskólinn getur verið vettvangur í þessu samhengi og hann einkennst af togstreitu á milli sjálfræðis vettvangsins (t.d. kennarar) og hinna ráðandi utanaðkomandi áhrifa (t.d. Alþingi, Mennta- og menningarmálaráðuneytið).

Helga Ólafs, doktorsnemi í félagsfræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands: Ógnin að utan: Orðræða Frjálslynda flokksins um innflytjendur

Farið var yfir umræðu um innflytjendamál í dagblöðum í kjölfar birtingar greinar Jóns Magnússonar undir heitinu Ísland fyrir Íslendinga – gamalkunnugu þrástefi íslenskrar þjóðernishyggju. Fjölmiðlaumræðan var orðræðugreind með hliðsjón af málgögnum Frjálslynda flokksins. Þrástef orðræðu Frjálslynda flokksins afhjúpa gegnumgangandi átakapunkt, sífelldan samanburð á „okkur“ og „hinum“ – Íslendingum og útlendingum, kristnum og múslimum. Samanburðurinn afhjúpar andstæður og mótsagnir um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Niðurstöður þessarar greiningar eru skoðaðar í ljósi sögulegra og pólitískra aðstæðna og umræðan, og skortur á henni, skoðuð með hliðsjón af meintum pólitískum rétttrúnaði.

Jón Gunnar Ólafsson, MA í alþjóðasamskiptum: Peningar, Ísland og „tær snilld“: Frásögnin um Icesave fyrir hrun

Í erindinu er fjallað um rannsókn á þeirri orðræðu sem birtist í íslenskum fjölmiðlum um Icesave fyrir hrun. Frásögn um velgengni sem endar í milliríkjadeilu tengist nokkrum lykilatburðum og er umfjöllun fjölmiðla í tengslum við þá atburði greind með aðferðum sögulegrar orðræðugreiningar. Löggildingarlögmálið „við og hinir“ er gegnumgangandi átakapunktur í orðræðunni. Áberandi þrástef tengjast góðum árangri sem ekki er dreginn í efa, tæknilegri viðskiptaorðræðu, íslenskri náttúru, menningu, sjálfsmynd og útlendingum sem gagnrýna.

akademia.is/soguthing


Forgangsröðun mála ríkisstjórnarinnar í vor!

Ég skil vel hvers vegna það er ríkisstjórninni mikilvægt að koma fram breytingum á stjórnun fiskveiða (þótt fyrr og róttækar hefði verið), afgreiða rammaáætlun um nýtingu og verndun (þótt róttækari væri til friðunar), láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá (sumpart gott að það ruglist ekki saman við forsetakosningar þótt þá yrði þátttaka næstum örugglega meiri), en ekki hvers vegna það er mikilvægt að stokka upp ráðuneytin og fækka ráðherrum enn þá meira en orðið er!

Róttækar breytingar á stjórnun fiskveiða og meiri náttúruvernd skipta mig sköpum þegar ég met frammistöðuna.


Einstök náttúra Eldsveitanna

Landvernd og Eldvötn - samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi efna til málþings um áhrif virkjana í SkaftárhreppiUm tvær virkjanahugmyndir við Fjallabakssvæðið er að ræða: Búlandsvirkjun í Skaftártungu (í Skaftá og Tungufljóti) og Atleyjarvirkjun austan Mýrdalsjökuls (í Hólmsá).

Norræna húsinu, Reykjavík, laugardaginn 5. maí, kl. 12-15

Dagskrá

12:00 Setning málþings: Ólafía Jakobsdóttir, formaður Eldvatna

12:10 Jarðfræði og lífríki Skaftárhrepps: Haukur Jóhannesson, jarðfræðingur og Snorri Baldursson, þjóðgarðsvörður

12:40 Mat faghóps I í rammaáætlun á áhrifum virkjana í Skaftárhreppi: Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor

13:00 Myndir og fróðleikur af fyrirhugaðri virkjanaslóð í Skaftártungu: Vigfús Gunnar Gíslason, framkvæmdastjóri, frá Flögu

13:20 Kaffi

13:40 Landbúnaður og virkjanir: Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi, Ljótarstöðum

14:00 Landslag, fegurð og fólk: Guðbjörg Jóhannesdóttir, doktorsnemi

14:20 Umræður

14:50 Samantekt og slit málþings

Fundarstjóri: Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar


Dagskrá um Þjórsárver í Árnesi 17. mars 2012

Fjörutíu ár eru nú liðin síðan barátta heimamanna í
Gnúpverjahreppi fyrir verndun Þjórsárvera hófst.

Hinn 17. mars 1972 boðaði landgræðslunefnd Ungmennafélags Gnúpverja til almenns sveitarfundar um Þjórsárver og þá ógn sem steðjaði að þeim vegna hugmynda um risastórt miðlunarlón sem hefði sökkt verunum. Þessi atburður  markaði upphaf varðstöðunnar um Þjórsárver.

Fundurinn var fjölmennur og stóð fram á nótt. Þar kom fram einhugur um að vernda bæri Þjórsárver. Samþykkt var ályktun þar að lútandi, og til er ítarleg fundargerð. Þegar hún er lesin, 40 árum síðar, er ljóst að þessi fundur skipti sköpum um framgang mála á þeim tíma og sennilega alla tíð.  Baráttan fyrir verndun Þjórsárvera hefur staðið nær samfellt síðan og margir mikilvægir áfangasigrar unnist.

Í tilefni þessara tímamóta boða Vinir Þjórsárvera, Áhugahópur um verndun Þjórsárvera, Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands  til afmælisdagskrár í félagsheimilinu Árnesi.  Skyggnst verður inn í tíðarandann í Gnúpverjahreppi fyrir fjörutíu árum,  litið yfir farinn veg og horft til framtíðar.

Meðal framsögumanna eru Birgir Sigurðsson rithöfundur, sem var einn þeirra sem stóðu fyrir fundinum árið 1972, Gísli Már Gíslason prófessor og formaður Þjórsárveranefndar og Helga Ögmundardóttir mannfræðingur sem hefur rannsakað bakgrunn þess að Gnúpverjar tóku sér svo afgerandi stöðu með
náttúrunni, óbyggðunum og fuglum himinsins. Flutt verður tónlist og kaffiveitingar verða á boðstólum.

MEÐ RÚTU Í ÁRNES ?: Ef nægur fjöldi næst til að leigja rútu, þá verður það gert. Við biðjum þau sem hyggjast ferðast með rútu að láta vita á netfangið: axel@axel.is í síðasta lagi á miðvikudagskvöld, 14. marsVerð er 2000-2500,- krónur eftir þátttöku. Rútan mun fara frá
BSÍ kl. 12:00 þann 17. mars og stoppa á bensínstöðinni við Kringluna (12:05), á N1 í Árntúnshöfðanum (12:10) og á Olís við Rauðavatn (12:15). Einnig er mögulegt að stoppa í Hveragerði og á Selfossi ef áhugi er fyrir því (látið bara vita). Farið verður aftur til Reykjavíkur í síðasta lagi um 16:30. Þeir sem hafa samband og vilja fara með rútu verða látnir vita ef ekki verður næg þátttaka til að leigja rútu.


Kynjajafnréttisfræðsla í skólum. Hindranir og tækifæri

Hér birti ég útdrátt úr grein okkar Þorgerðar Einarsdóttur í sérriti veftímaritsins Netlu, það er greinum í ritrýndum ráðstefnuriti Menntakviku 2011:

"Staða kynjajafnréttisfræðslu í íslenska skólakerfinu er veik þrátt fyrir áratugagamalt ákvæði jafnréttislaga um jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum. Í greininni er grafist fyrir um ástæður þessa og staðan metin. Því er haldið fram að margir þættir hafi virkað hamlandi á jafnréttisfræðslu, svo sem óskýr markmið, áhugaleysi, veikburða aðalnámskrár og sterk námsgreinaskipting. Þá hefur ofmat á stöðu jafnréttis almennt á Íslandi aukið á tregðuna. Jafnréttisfræðsla í skólum hefur aðallega byggst á frumkvæði einstaklinga án stofnanalegrar ábyrgðar. Áhrif átaksverkefna hafa reynst skammvinn og oft á tíðum er áhugi á kynjajafnrétti sprottinn af áhyggjum af slakri stöðu drengja. Í lögum um grunnskóla frá 2008 og nýjum aðalnámskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla er kveðið á um jafnrétti í víðum skilningi en jafnframt er lögð áhersla á að kyn fléttist saman við alla aðra þætti mismununar. Niðurstaða greinarhöfunda er sú að ef kynjajafnrétti verði miðlægur þáttur í jafnréttismenntun í skólakerfinu geti staðan falið í sér sóknarfæri."

Og á ensku:

Gender equality education in Iceland: Obstacles and opportunities

Abstract: In Iceland, legal requirements about education on gender equality have been in place for decades without being fulfilled. The article explores the reasons for this and evaluates the prospects for education on gender equality. The current situation is due to many causes, such as a vague legal framework, lack of interest and overestimation of gender equality in society. Education on gender equality has relied on individual initiative without institutional responsibility. The impact of positive action measures has been short-lived, and the most visible interests have been worries about boys. The Compulsory School Act from 2008 and the new national curricula contain clauses on education about equality. The term refers to equality in a broad sense while gender is assumed to be intertwined with other diversity markers. The authors conclude that the current situation contains opportunities if gender equality will be established as the core of equality education.

Þorgerður Einarsdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson. (2011). Kynjajafnréttisfræðsla í skólum: Hindranir og tækifæri.

Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2011. Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Sótt af http://netla.hi.is/menntakvika2011/030.pdf


Nám fyrir alla - í skóla margbreytileikans.

Er að fletta núna afskaplega áhugaverðri bók sem heitir Nám fyrir alla. Undirbúningur, kennsla og mat í skóla margbreytileikans. Hún er skrifuð af Dianne L. Ferguson og samstarfsfólki hennar í Oregonháskóla rétt um síðustu aldamót og upphaflega gefin út árið 2001 í Bandaríkjunum. Meðal höfunda bókarinnar er Hafdís Guðjónsdóttir sem um þær mundir var í doktorsnám þar í landi. Ásta Björk Björnsdóttir þýddi bókina og að mér sýnist á lipurt mál og aðgengilegt. Háskólaútgáfan gaf bókina út í síðustu viku.


Hugvísindalegar menntarannsóknir og fleira góðmeti

Má til með að segja lesendum bloggsins frá áhugaverðri dagskrá sem ég hef verið að setja saman og er hluti af Dagskrá doktorsskóla Menntavísindasviðs Háskóla Íslands - og verður þann 29. febrúar 2012 kl. 13–15:45 í húsnæði HÍ í Stakkahlíð – stofa kynnt á skjá í anddyri

Þema: Rannsóknafjölbreytni og rannsóknapólitík

13:00 Inngangsorð frá doktorsskóla Menntavísindasviðs

13:10 Rannsóknafjölbreytni – rannsóknapólitík menntarannsókna – Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor segir frá viðmiðum Bandarísku menntarannsóknasamtakanna (AERA) um menntarannsóknir byggðar á hugvísindalegum rannsóknaraðferðum (humanities-oriented research), en þau eru birt í ágústhefti tímaritsins Educational Researcher 2009 (38. árgangur, bls. 481486): http://edr.sagepub.com/content/38/6/481.full.pdf+html. Einnig segi ég frá bók Lyn Yates, What does good education research look like?, frá 2005.

13:50 Þekkingarsköpun með aðferðum listrannsókna – Gunnhildur Una Jónsdóttir doktorsnemi ræðir um rannsóknir með aðferðum lista, einkum hvaða eða hvers konar þekkingu má ná fram með þess háttar aðferðum. Hún segir meðal annars frá hugmyndum finnska fræðimannsins Juha Vartu og CAVIC-rannsóknarnetinu (CAVIC stendur fyrir contemporary art and visual culture education). Vefslóð þess er http://www.cavic.dk/. 

KAFFIHLÉ

14:30 Er rýmið í íslenskum framhaldsskólum gagnkynhneigt? – Jón Ingvar Kjaran doktorsnemi segir frá erindi sínu á ráðstefnu Bandarísku menntarannsóknasamtakanna (AERA) í Vancouver í apríl nk. Erindið er byggt á afmörkuðum þáttum úr doktorsrannsókn hans. Hann ræðir sérstaklega nokkrar af þeim áskorunum sem felast í því að rannsaka vettvang sem hann sjálfur starfar á og hvernig hann notar fjölbreytt gögn af vettvangi.

15:00 Hugmyndir barna um útiumhverfi sitt – Kristín Norðdahl lektor og doktorsnemi segir frá öðru af tveimur erindum sínum á ráðstefnu Bandarísku menntarannsóknasamtakanna (AERA) í Vancouver í apríl nk. Hún mun ræða áskoranir sem felast í rannsóknum með ungum börnum, meðal annars þær sem felast í því að hafa áhrif á breytingar með slíkri rannsókn.


Málstofur um rannsóknir á framhaldsskólastarfi

Námsbraut um kennslu í framhaldskólum og Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs boða til funda (málstofa) um rannsóknir á framhaldsskólastarfi. Málstofurnar verða í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð í stofu K207 kl. 16:20–17:05 á miðvikudögum í febrúar og mars 2011.


Næstu málstofur:

29. febrúar 2012 fellur niður fyrirlestur Gests Guðmundssonar

7. mars 2012: Þorlákur Axel Jónsson, kennari við Menntaskólann á Akureyri og doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Hvað einkennir nýnema sem bæta sig í upphafi framhaldsskólagöngu?

Lýsing: Kynntar verða niðurstöður spurningakönnunar sem gerð var í tveimur framhaldsskólum á því hvað einkennir þá nýnema sem bæta námsárangur sinn í upphafi skólagöngunnar. Spurningalisti var lagður fyrir 145 nemendur sem flestir voru 16 ára. Könnunin er af ætt skilvirknirannsókna. Spurt var ma. um bakgrunn nemenda, námsáhuga, tengsl við mikilvæga fullorðna í umhverfi þeirra og framtíðarsýn. Rætt verður um hvaða lærdóm skólafólk megi draga af niðurstöðunum um þá kennslufræði sem geti haft áhrif á þá þætti sem virðast segja til um það hvort nýnemar bæta námsárangur sinn. Einnig hvort sjónarhorn „umbótaverkfræði“ sé vænlegur grunnur frekari rannsókna.

21. mars 2012: Þórunn Blöndal, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Um rannsóknir á íslenskukennslu í framhaldsskólum

Lýsing: Athugunin sem hér er greint frá er unnin út frá spurningunum: Hvaða þættir íslenskukennslu í framhaldsskólum hafa verið rannsakaðir? Hvaða þáttum kennslunnar hefur lítill gaumur verið gefinn? Hvaða þróunarverkefni hafa verið unnin í tengslum við íslenskukennslu á skólastiginu? Hafa niðurstöður rannsókna og þróunarstarfs haft áhrif á íslenskukennslu í framhaldsskólum? Til að svara spurningunum er leitað fanga í háskólaritgerðum, greinaskrifum og skýrslum um niðurstöður þróunarstarfs auk þess sem lagt er út af nýlegri skýrslu, Úttekt á íslenskukennslu í framhaldsskólum, sem unnin var fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið á síðasta ári.

28. mars 2012: Anna Sigríður Ólafsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Heilsueflandi framhaldsskólar – líkamsástand og fæðuval 16 ára unglinga

Lýsing: Undir stjórn Lýðheilsustöðvar/Landlæknis hefur verið innleitt verkefnið Heilsueflandi framhaldsskólar í flestum framhaldsskólum landsins. Hér verða kynntar helstu niðurstöður sem snúa að mælingum á líkamsástandi og fæðuvali við upphaf verkefnisins í einum íhlutunarskóla og samanburðarskóla, en rannsóknarhópurinn er annars vegar að meta verkefnið sem slíkt og hins vegar að safna upplýsingum um heilsuhegðun unglinga og þeim breytingum sem verða á aldursbilinu 16–20 ára.

Haustið 2011 voru fluttir nokkrir fyrirlestrar í sömu röð af málstofum. Upptökur frá fjórum þeirra eru nú aðgengilegar á slóðinni: http://www.hi.is/menntavisindasvid/upptokur_fra_radstefnum_og_fyrirlestr.... Þar verða jafnframt birtar upptökur af völdum fyrirlestrum úr þessari málstofuröð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband