Hvað verður um jafnréttismál í aðalnámskrá grunnskóla?

Það hefur vakið mikla athygli mína að í viðmiðunarstundaskrá er tilgreint að jafnréttismál (námsgreinin í grunnskóla) falli undir samfélagsgreinar, sem samt er líka sjálfstæð námsgrein í grunnskóla.  

Nú er búið að birta drög um námskrá fyrir samfélagsgreinar á netinu - http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/namskrardrog/- og þar eru taldar upp nokkrar námsgreinar (t.d. hinar hefðbundnu saga og landafræði) og óhefðbundnari sem þó eiga sér stað í lagagreininni (trúarbragðafræði, lífsleikni):

„Samfélagsgreinar í þessari aðalnámskrá fela í sér víðara svið og fleiri námsgreinar og efnisþætti en verið hefur áður. Undir samfélagsgreinar heyra nú meðal annars námsgreinar sem kenndar hafa verið í íslenskum skólum undir samheiti samfélagsgreina eða samfélagsfræði eða sem afmarkaðir námsþættir. Þar er einkum um að ræða sögu, landafræði, þjóðfélagsfræði, trúarbragðafræði, lífsleikni og siðfræði. Þær byggja einnig á þekkingu og stefjum úr öðrum fræðigreinum eins og heimspeki, kynjafræði, sálfræði, stjórnmálafræði og hagfræði. Þessar greinar og námsþættir eru ekki aðgreind í aðalnámskránni en skólunum látið eftir að haga greinaskiptingu eftir því sem skynsamlegast, hentugast og árangursríkast er við hverjar aðstæður  meðan öll hæfniviðmið eru höfð í huga innan þess ramma sem námssviðinu er markaður í viðmiðunarstundaskrá sem birt er í almennum hluta aðalnámskrár.“

Nú átta ég mig ekki á því hvernig tvær upptalningar í klausunni hafa orðið til. Sú fyrri gæti haft skírskotun til sögunnar að því leyti að fyrst eru taldar elstu námsgreinarnar og síðar þær yngri, svo sem lífsleikni. En ekki er talin sú nýjasta, jafnréttismál, og ekki ljóst af þessum texta hvers vegna þeim er sleppt.

Mér virðist að í þessum texta sé alveg nauðsynlegt að taka það sérstaklega fram hvaða greinar koma fram í lögum. Einnig gæti verið rökrétt að telja „gamlar“ greinar úr fyrri lögum sem eiga sér hefð, svo sem sögu og landafræði.

Svo er önnur upptalning nokkurra fræðigreina. Ég sé enga sérstaka röð eða rök fyrir þeirri röð; hér hefði líklega stafrófsröð átt verulega mikið betur við nema . Hér myndi ég líka vilja sjá fleiri af þeim fræðigreinum sem eru taldar upp þegar grunnþættinum jafnrétti er lýst. Kynjafræðin er hér með, en ekki hinseginfræði, fötlunarfræði og fjölmenningarfræði sem eiga líklega hvergi meira erindi en inn í samfélagsgreinarnar. Ég myndi reyndar alveg vilja fá fleiri greinanöfn inn í þessa upptalningu úr því þarna er einhver upptalning, greinar sem eru kenndar við íslenska háskóla, svo sem mannfræði, þjóðfræði, menningarfræði, fjölmiðlafræði og nútímafræði. Fyrst skólum er á annað borð látin eftir greinaskiptingin er best að hún sé sem óbundnust og að kennarar sem t.d. hafa menntun í einhverri grein geti þá beinlínis nýtt sér hana og kennt með sérstakri hliðsjón af henni.

(Bréf sent menntamálaráðuneytinu sem ábending við aðalnámskrá samfélagsgreina fyrir grunnskóla – drög birt á netinu – þann 31. júlí 2012.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband