Og hvað ef lögin verða felld í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Ég vona að þeir sem vilja fella Icesavelögin hafi góð ráð ef lögin verða felld. Það er skárra að semja strax um Icesave en láta alla óvissuna hanga yfir sér. Það er fásinna að halda að Bretar og Hollendingar gefi mikið meira eftir en þeir hafa gert.

Enn hef ég engan hitt sem skrifaði undir áskorun til forsetans, en hef þó hitt fólk sem þekkir fólk sem skrifaði undir. Ég hef heldur engan hitt sem langar til að borga Bretum og Hollendingum og heldur ekki hitt fólk sem þekkir fólk sem langar til að borga skuldina. Ég get heldur ekki sagt að mig langi til að borga ótilteknar skuldir, en ég sé ekki hvernig ég kemst hjá því að borga þær.

Sama er með Icesavelögin: Við sem höldum að forsetinn hafi tekið fáránlega vitlausa ákvörðun erum eðli málsins samkvæmt slakir talsmenn Icesavelaganna - en gerum okkur þó grein fyrir því að við erum hluti af samfélagi þjóða þar sem skuldir þarf að greiða. Já, og hver var það sem setti Icesave á stofn? Jú, íslenskt fyrirtæki með fulltingi stjórnvalda. Þannig að þjóðernisremban sem ég verð var þegar ég les fjölmiðla og blogg um málið ætti að beinast að þeim sem ábyrgð bera hér innanlands. Því miður er málið þannig vaxið að við komumst ekki undan því að borga.


mbl.is Mikil óvissa á næstunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að hafa eitthvað að gera

Mér finnst hárrétt hjá forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, að taka sér íhugunarfrest áður en hann skrifar undir Icesave-lögin. Það er svo sjaldan sem forsetinn hefur eitthvert raunverulegt hlutverk í stjórnskipuninni að því ber að fagna að hann fái verðug verkefni.
mbl.is Forseti tekur sér frest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vernharður Linnet alltaf jafn frábær

Ríkisútvarpið hefur á að skipa frábæru fólki í mörgum útvarpsþáttum. Einn af þeim bestu er Vernharður Linnet sem einmitt núna er að spila jólalög í djassbúningi.

Græðum við á því að gera sjálfbæra þróun að sýnilegu viðmiði?

Út er komin, í Netlu – Veftímariti um uppeldi og menntun, greinin Hvað græðum við á því að gera sjálfbæra þróun að sýnilegu viðmiði í grunnskólastarfi? (Sjá http://netla.khi.is.)

Höfundar hennar eru: Auður Pálsdóttir, Allyson Macdonald og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Útdráttur: "Í nútíma samfélögum er lögð vaxandi áhersla á sjálfbærni og samkvæmt stefnu Sameinuðu þjóðanna um menntun til sjálfbærrar þróunar gegna fjöldi stofnana og samtaka mikilvægu hlutverki, þar á meðal skólar. Þegar aðalnámskrá grunnskóla á Íslandi er athuguð með tilliti til sjálfbærrar þróunar koma í ljós mörg teikn. Í greininni er rætt hvernig hægt er að þróa skólastarf þannig að það þjóni markmiðum sjálfbærni. Menntun til sjálfbærrar þróunar dafnar ekki þegar viðfangsefni eru slitin í sundur eftir margskiptri stundaskrá eða þar sem þröng sjónarmið einstakra fræðigreina ráða ferðinni. Þegar einkenni sjálfbærrar þróunar eru gerð að viðmiðum við val á viðfangsefnum í mörgum námsgreinum og í skólastarfi er mögulegt að árangur náist. Markmiðið er að skapa heildstæða sýn á menntun sem er til sjálfbærrar þróunar, menntun sem skapar réttlátara samfélag, menntun sem leiðir til þekkingar, virðingar og ábyrgðar, ekki bara einhvern tíma í framtíðinni heldur strax í dag"


Skjálfandafljót friðað eða friðlýst

Það eru góðar fréttir að Þingeyjarsveit ætli sér að leggja fram aðalskipulag þar sem ekki er gert ráð fyrir virkjunum í Skjálfandafljóti. Ég fagna því og vona að Þingeyjarsveit geti staðið við það. En verði haldið áfram með álversáformin á Húsavík eru samt sem áður öll vatnsföll fyrir norðan í hættu, munum það, því að það er ekki næg orka á Þeistareykjum og við Kröflu. Ég get alveg tekið undir með Þingeyjarsveit að það sé ljómandi gott að frumkvæði að friðun þess komi úr sveitinni - en með lögformlegri friðlýsingu mun samfélagið allt taka ábyrgð á því að Skjálfandafljót verði ekki skemmt fyrir skammtímagróða. Sem sé: Ég fagna frumkvæði Þingeyjarsveitar og vil að samfélagið taki ábyrgð á Skjálfandafljóti.
mbl.is Leggjast gegn friðun alls Skjálfandafljóts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki-frétt um skoðanir Birgis Ármannssonar

Miklu fremur væri það nú frétt ef Birgir hefði verið þeirrar skoðunar Icesavefrumvarp stæðist stjórnarskrá. En samt hvarflar nú að mér að ef Birgir hefði verið í stjórnarflokki sæi hann litla ástæðu til að láta þetta sjónarmið í ljósi, því að ekki man ég heyrðist múkk í kauða þegar stjórn Geirs Haardes samdi við Breta um að það yrði samið við þá.
mbl.is Telur Icesave-frumvarp brjóta gegn stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draugasögur í björtu? Reglur um atvinnustarfsemi í kirkjugörðum

Voru þessar "draugasögur" sagðar í björtu? Þeir sem fara um kirkjugarðana til að leiðsegja eru náttúrlega ekki einu leiðsögumenn landsins sem segja uppdiktaðar sögur um fólk hvort sem sú iðja nær inn í raðir þjálfaðra leiðsögumanna sem fara eftir siðareglum.

Nú hefur örugglega engum dottið í hug að það þyrfti reglur um hvaða atvinnustarfsemi má fara fram í kirkjugörðum önnur en sú sem snýst um að hirða þá og um þjónustu við afkomendur látins fólks. Kirkjugarðar eru staðir friðar og virðingar fyrir látnu fólki - og ég vona að þeir fái að vera það áfram, jafnvel þótt ég sjái svo sem ekkert gegn því að komið sé á leiðsögn um kirkjugarða. Ef frásögnin af "draugaferðunum" er rétt, þá er þó ljóst að ef einhverjir ætla að taka gjald fyrir að leiðsegja um kirkjugarða þurfa þeir sem fyrir slíku standa að sýna tilhlýðilega virðingu. Leiðsögn um kirkjugarða þarf að fylgja virðingu og góðum siðum. Ef siðareglur Félags leiðsögumanna koma að notum við það er það gott.


mbl.is Falsaðar sögur af látnum ekki líðandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umferðarhættur við Sundlaugaveg og Reykjaveg

Á þriðjudaginn fóru kennarar og nemendur Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla ásamt nokkrum foreldrum og velunnurum og slógu skjaldborg um Sundlaugaveg og Reykjaveg, en um þessar götur er gríðarmikil umferð á leið sund eða World Class - eða jafnvel að stytta sér leið í gegnum hverfið.

Umferðarátak 1. desember 2009

Myndin hér til hliðar er af nokkrum nemendum Laugalækjarskóla við Sundalaugaveginn - nemendur Laugarnesskóla voru svo við Reykjaveginn. Sorglegt var að sjá suma bílstjóra gefa í og aka hraðar þegar svona mörg börn og unglingar voru á svæðinu. En jafngleðilegt að sjá meiri hluta bílstjóranna hægja sérstaklega á sér og aka gætilega.

Foreldrar í hverfinu fara fram á margvíslegar úrbætur til að auka umferðaröryggi barna og annarra gangandi og hjólandi vegfarenda.


Kynhneigðarskápar Fíladelfíukirkjunnar

Fíladelfía hefur upplýst að fólk sé ekki sett á bása þar á bæ, hvorki vegna kynhneigðar né annars. En í viðtalinu við Kastljósið heyrðist mér nú samt Vörður Leví Traustason forstöðumaður tala um fólk sem kæmi út úr skápnum. Hvers konar skápar skyldu það vera? Er einhver furða þótt spurt sé hvort það séu kynhneigðarskápar?
mbl.is Vilja ekki að Rúv verðlauni fordóma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynhneigðarbásar

Gott að vita að það séu ekki kynhneigðarbásar í Fíladelfíu.


mbl.is Hommar velkomnir í Fíladelfíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunalegur Vörður

Heldur var raunalegt að hlusta á Vörð Leví Traustason, forstöðumann Fíladelfíusafnaðarins, í Sjónvarpinu í gær þegar hann ræddi hvort listamaðurinn Friðrik Ómar Hjörleifsson gæti komið fram í húsnæði safnaðarins ásamt öðru listafólki til að syngja fjörlega tónlist af því tæi sem Friðrik Ómar gerir mjög vel. Ég gat ekki betur heyrt en að Vörður segðist elska samkynhneigt fólk eins og annað fólk – en er ekki tilbúinn til að viðurkenna „líferni“ þess og vill „hjálpa því“ og líkir líferni samkynhneigðra við framhjáhald og baktal. Ég skil þetta ekki: Er líferni homma og lesbía öðruvísi en annars fólks? Halda hommar og lesbíur oftar framhjá mökum sínum en aðrir og baktala þau oftar en aðrir? Eða er Vörður í orði að viðurkenna fólk, af því að hann var nú í Sjónvarpinu, sjónvarpi allra landsmanna sem hann fær líka að koma fram í, en í reynd að dæma heilan hóp af fólki sem hann þekkir ugglaust aðeins lítið brot af. Ef hann þekkir þá nokkurn einasta homma eða einustu lesbíu, sem ég efast um ef viðhorfið er af þessum toga. Hitt er svo annað mál að Friðrik Ómar má eflaust hugsa sig tvívegis um hvort hann eigi að sækjast eftir því að syngja með þeim sem fyrirlíta hann fyrir kynhneigð – eða „líferni“ eins og Vörður orðaði það.

Er áróðurinn gegn umhverfisráðherra linnulaus?

Óhætt er að taka undir með Mogganum að Skúli Thoroddsen sendi Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, tóninn í grein á vef Starfsgreinasambandsins. Hroki og gífuryrði í garð Svandísar eru þó ekki sæmandi starfsmanni stéttarfélags, sem væntanlega talar í nafni þess þegar hann skrifar á vef þess, eða hvað? Talað er um að Svandís hafi ekki samúð með atvinnulausu fólki. Skúli segir: "Eitt sýnist næsta víst að umhverfisráðherra hefur enga samúð með því atvinnulausa fólki sem mælir göturnar þessa dagana og virðist því miður einnig hafa takmarkaðan skilning á því umhverfismeðvitaða samspili atvinnulífs og náttúru sem efst eru á baugi þeirra aðila sem leggja áherslu á sjálfbæra þróun og umhverfisvernd". Já Skúli, eru stórvirkjanir og álver kannski sjálfbær þróun? Og enn má spyrja: Hvaða hindranir eru þetta sem á að ryðja úr vegi? Er það náttúran sem verður fyrir virkjunum og raflínum sem er hindranirnar?


mbl.is Svandís veruleikafirrt eða vanhæf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farið yfir hvað sem er - eða varhugavert líkingamál?

Nú hlustaði ég ekki á Jóhönnu og get því ekki farið með hvað hún sagði nákvæmlega. En ef þetta er tekið bókstaflega, á maður þá að skilja að þessi lína fari yfir hvað sem er, hvað sem það kostar? Eða notar forsætisráðherra óheppilegt líkingamál? Deilan um Suðvesturlínu snýst nefnilega ekki bara um atvinnumál á Suðurnesjum heldur hvort og þá hvernig með henni yrðu færðar óásættanlegar umhverfisfórnir. Líka hvort skuli meta sameiginlega þau spjöll sem línan sjálf veldur og þau spjöll unnin með virkjunum tengdum línunni. Það er nefnilega svo að línan er nokkuð gagnslítil nema til sé rafmagn sem um hana fer. Því að rafmagn kemur ekki úr virkjunum en ekki rafmagnslínum.
mbl.is Hindrunum rutt úr vegi Suðvesturlínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirlýsing um auglýsingaherferð fyrirtækja á Suðurnesjum

Eftirtalin samtök lýsa vanþóknun á ómálefnalegri auglýsingaherferð fyrirtækja á Suðurnesjum gegn ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínur. Álver í Helguvík með allt að 360 þúsund tonna ársframleiðslu með tilheyrandi orkuöflun og umhverfisáhrifum er ekki einkamál Suðurnesjamanna. Ekki er útséð með að hægt verði að útvega alla þá orku sem fyrirtækið telur sig þurfa, auk þess sem orkuþörf Norðuráls í Helguvík hefur verið ranglega metin í opinberum gögnum.
  • Álverið myndi taka til sín nær alla háhitaorku sem fyrirséð er að aflað verði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, auk virkjana í neðri Þjórsá.
  • Jarðvarmavirkjanir sem álverið þarf mundu auka á brennisteinsmengun á höfuðborgarsvæðinu en hún fer nú þegar yfir heilbrigðismörk við ákveðnar aðstæður.
  • Línulagnir hefðu víða áhrif, m.a. á vatnsverndarsvæði höfuðborgarbúa.
  • Með Urriðafossvirkjun væri framtíð eins stærsta villta laxastofns Íslands stefnt í voða, en sá stofn býr í Þjórsá.
  • Krafa fyrirtækja á Suðurnesjum um orku til álvers í Helguvík er á við heila Kárahnjúkavirkjun á 100% láni á ábyrgð orkufyrirtækja í eigu þjóðarinnar.
Íslendingar hafa horft upp á skammsýni, græðgi og heimsku í aðdraganda hruns hins íslenska efnahagskerfis. Stafar það af fúski, agaleysi og veikburða stjórnmála- og eftirlitsstofnunum gagnvart yfirgangi hagsmunahópa. Herferð fyrirtækja á Suðurnesjum í þágu alþjóðlegra stórfyrirtækja er ábyrgðarlaus og ómálefnalegt innlegg í umræðuna.

Náttúruverndarsamtök Vestfjarða
Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST)
SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi
Sól á Suðurnesjum
Sól á Suðurlandi
Framtíðarlandið
Sól í Straumi
Náttúruverndarsamtök Suðurlands
Náttúruverndarsamtök Íslands
 

Furðufrétt: Skólamatur í baráttu við umhverfisráðherra

Hvað eiga fyrirtækið Skólamatur, sem býr til matarmiklar og bragðgóðar pítsur skv. eigin vefsíðu, og trésmiðjan Víkurás sameiginlegt? Jú, að hafa auglýst að þau styðji Samtök atvinnulífsins í baráttu við umhverfisráðherra um svokallaðar Suðvesturlínur, fyrirbrigði sem umhverfisráðherra ákvað nýlega að Skipulagsstofnun þyrfti að endurskoða úrskurð sinn um að línurnar þyrfti ekki að meta með tengdum framkvæmdum, svo sem orkuöflun. Skipulagsstofnun hefur svo endurskoðað úrskurðinn og komist að sömu niðurstöðu um að ekki þurfi að meta með öðrum framkvæmdum. Málið verður örugglega kært til umhverfisráðherra, segja Náttúruverndarsamtök Íslands, svo að "baráttan" getur eflaust haldið áfram.

Þessi fyrirtæki eru í hópi fjölmargra sem hafa auglýst á undanförnum vikum. Ég hygg að þau séu flest á Suðurnesjum. Þar sem ég á fremur sjaldan leið til Suðurnesja hef ég ekki lagt mig sérstaklega eftir því að taka eftir því hvaða fyrirtæki þetta eru svo að ég gæti beint mögulegum viðskiptum til annarra fyrirtækja. En ég komst ekki hjá því að taka eftir því að Skólamatur væri eitt af þessum fyrirtækjum; mér fannst það svo furðulegt að fyrirtæki sem býr til mat handa skólum á Suðurnesjum og nokkrum skólum í Kópavogi og Reykjavík skuli hafa það áhugamál að styðja "baráttu" við umhverfisráðherra. Mér finnst það eiginlega furðufrétt!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband