Raunalegur Vörður

Heldur var raunalegt að hlusta á Vörð Leví Traustason, forstöðumann Fíladelfíusafnaðarins, í Sjónvarpinu í gær þegar hann ræddi hvort listamaðurinn Friðrik Ómar Hjörleifsson gæti komið fram í húsnæði safnaðarins ásamt öðru listafólki til að syngja fjörlega tónlist af því tæi sem Friðrik Ómar gerir mjög vel. Ég gat ekki betur heyrt en að Vörður segðist elska samkynhneigt fólk eins og annað fólk – en er ekki tilbúinn til að viðurkenna „líferni“ þess og vill „hjálpa því“ og líkir líferni samkynhneigðra við framhjáhald og baktal. Ég skil þetta ekki: Er líferni homma og lesbía öðruvísi en annars fólks? Halda hommar og lesbíur oftar framhjá mökum sínum en aðrir og baktala þau oftar en aðrir? Eða er Vörður í orði að viðurkenna fólk, af því að hann var nú í Sjónvarpinu, sjónvarpi allra landsmanna sem hann fær líka að koma fram í, en í reynd að dæma heilan hóp af fólki sem hann þekkir ugglaust aðeins lítið brot af. Ef hann þekkir þá nokkurn einasta homma eða einustu lesbíu, sem ég efast um ef viðhorfið er af þessum toga. Hitt er svo annað mál að Friðrik Ómar má eflaust hugsa sig tvívegis um hvort hann eigi að sækjast eftir því að syngja með þeim sem fyrirlíta hann fyrir kynhneigð – eða „líferni“ eins og Vörður orðaði það.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér fannst spyrill í viðtalinu fara silkihönskum um Vörð. "Hjálpa þeim", væntanlega þýðir það að þeir samþykkja ekki praktíserandi homma heldur aðeins þá sem afneita eðli sínu. Fauskurinn fékk að komast óáreittur upp með undanskot.

Vitaskuld er skrýtið að Friðrik Ómar skuli sækjast eftir að syngja þarna. En söngur og söngást er undarlegt fyrirbæri. Ég hef sjálfur furðu gaman af klassískri kirkjutónlist og hef farið á marga "requiem" tónleika. Er þó gersamlega trúlaus. Sömuleiðis hef ég þekkt hatramma trúleysingja sem sækja í gospelsöng. En einmitt þess vegna finnst mér afstaða fíladelfíumanna andstyggileg og í andstöðu við raunverulegt dálæti á músík.

Ómar Harðarson 27.11.2009 kl. 19:11

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Það er hárrétt hjá þér, Ómar, að spyrill Kastljóss fór silkihönskum um Vörð og má líka að ég hafi gert það í mínum ummælum hér að ofan. En þetta er nú samt það sem mér fannst að hann væri fyrst og fremst raunalegur í því hvernig hann var að reyna að tala þannig fordómar og fyrirlitning skinu ekki í gegn.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 29.11.2009 kl. 09:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband