Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit

Á sunnudaginn heimsótti ég Fuglasafn Sigurgeirs Stefánssonar í Ytri-Neslöndum í Mývatnssveit sem opnað hafði verið viku áður í stórglæsilegu nýju húsi á bakka Mývatns rétt við bæinn. Geiri í Neslöndum byrjaði ungur að safna eggjum og síðar lét stoppa upp fugla og kom upp stóru safni í litlum skúr sem margir fengu að skoða, heimsótti ég safnið sumarið 1998, sem reyndist eitt af síðustu skiptunum sem ég hitti Sigurgeir því að hann fórst í slysi á Mývatni haustið 1999. Sigurgeir hafði þá eignast eintök af nær öllum fuglum Íslands, auk margra erlendra fugla og tveggja af sumum tegundum.

Fjölskylda hans og vinir hafa nú látið rætast þann draum Sigurgeirs að koma safninu fyrir í góðum húsakynnum. Og það eru heldur betur húsakynnin, skal ég segja ykkur. Manfreð Vilhjálmsson arkitekt sem líka teiknaði Stórutjarnaskóla og Þjóðarbókhlöðuna, ef ég veit rétt, teiknaði hús sem mjög lítið ber á á vatnsbakkanum, en þegar inn er komið, er þar glergluggi með stórkostlegu útsýni út Neslandavíkina og fuglalífið þar. Safnið sjálft er í myrkvuðu rými, eins konar helli, og nýtur sín afar vel. Eitt af innri einkennum hússins er vatnsgjá, þema tekið úr náttúru Mývatns; hún liggur í geisla innan úr fuglasafnshellinum út á stétt vatnsmegin hússins. Stórglæsileg hugmynd. Við hlið safnsins er minna hús sem hýsir frægan bát sem var notaður til flutninga á Mývatni, bæði á fólki og varningi, skilst mér. Í Fuglasafninu er líka hægt að njóta veitinga og það er hægt að detta í vatnsgjána góðu sem að vísu er afar grunn.


Sóknargjöld til lífsskoðunarfélaga

Eitt af þeim mörgu málum sem fór fram hjá mér í störfum Alþingis í vetur er tillaga Kristjáns Þórs Júlíussonar til þingsályktunar á þingskjali 582 (346. mál) þar sem hann leggur til að við sem erum utan trúfélaga höfum aukið val um hvert sóknargjöld í okkar nafni renna. Sóknargjöld eru þannig greidd að ríkið leggur til lága upphæð í nafni allra einstaklinga sem voru „16 ára eða eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári“, eins og það er orðað í lögum nr 91/1987. Gjaldið var tæpar 9500 kr. á árinu 2007 og breytist (hækkar) árlega skv. flóknu útreikningskerfi, og greiðir hana til trúfélags viðkomandi skv. þjóðskrá. 

Sóknargjald í nafni okkar sem tilheyrum ekki trúfélögum rennur til Háskóla Íslands. Sú upphæð var orðin margir tugir milljóna síðasta þegar ég vissi og er varið til margvíslegra þarfra mála innan Háskólans. Við sem greiðum þetta gjald höfum litið eins vel og við getum eftir því að þessir fjármunir renni ekki til guðfræðideildar, eins og margir óttuðust, eða almennrar starfsemi þeirra stofnana sem hún ræður á einhvern hátt yfir og höfum notið fulltingis Umboðsmanns Alþingis í þeim efnum. Gjaldstofn þessi mun vera orðinn svo hár að það gæti skaðað Háskólann að fella með öllu niður án þess að til komi jafnhá upphæð. 

Tillaga Kristjáns er að „einstaklingar utan trúfélaga hafi aukið val um það hvert sóknargjöld þeirra renna“ og Alþingi feli kirkjumálaráðherra að endurskoða ákvæði laga um sóknargjöld. Kristján leggur svo til í greinargerð sinni að einstaklingum sem standa utan trúfélaga geti verið gefinn kostur á að velja annan háskóla en þann sem tilgreindur er í núgildandi lögum. Jafnframt er mælst til að kannað verði hvort einstaklingar utan trúfélaga geti óskað eftir því að gjöld þeirra renni til ákveðinna líknarfélaga.“ 

Auðvitað eigum við sem ekki tilheyrum trúfélagi að fá að ráða því hvernig sóknargjöldum okkar er varið, eins og þeir sem tilheyra kirkjudeildum og taka þátt í safnaðarstarfi gera. Ég er reyndar ekki sérlega hlynntur því að gjaldstofn af þessum toga fjármagni háskólastarf og sé ekki góð rök til þess heldur vil ég að gjaldið geti runnið til lífsskoðunarfélaga á borð við Siðmennt eða annarra félaga sem vinna á grunni manngildishugmynda, svo sem Amnesty eða Rauða Krossins. Þá sé ég ekki neitt því til fyrirstöðu að náttúru- og umhverfisverndarsamtök ættu að eiga tilkall til þess að geta kallast lífsskoðunarfélög og geti sótt um að vera á skrá sem hægt er að merkja við á skattframtalinu. Jafnframt tel ég hæpið að trúfélög sem mismuna fólki eftir kynhneigð, ef einhver eru, fái fjármuni úr ríkissjóði í nafni sóknargjalda. 

Þegar á allt er litið er tillaga Kristjáns hins vegar mjög góð og jafnvel líkleg til lausnar á leiðinlegu máli þar sem borgurum landsins hefur verið mismunað með lögum. Ég fæ ekki séð að tillagan hafi verið rædd í þinginu og ég hvet hann sterklega til að taka málið upp að nýju með þeirri breytingu að hugtakið líknarfélög verði lífsskoðunarfélög.


Landsskipulag og lýðræði

Ég las í 24 stundum í morgun að varaformaður umhverfisnefndar Alþingis kærði sig ekki um ákvæði í frumvarpi til laga um skipulag - ákvæði um landsskipulag.

En hvað er landsskipulag? Í frumvarpinu kemur fram að umhverfisráðherra eigi að leggja fram á Alþingi sem tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsáætlun. Hún skal marka stefnu stjórnvalda í skipulagsmálum og fjalla um mál sem varða almannahagsmuni. Landsskipulagsáætlun er eftir þörfum ætlað að samræma stefnu stjórnvalda í ólíkum málaflokkum sem snerta skipulagsgerð sveitarfélaga og í henni er stefna stjórnvalda um sjálfbæra þróun útfærð. Sérstaklega er tekið fram að mikilvægt sé að landsskipulagsáætlun sé kynnt opinberlega enda er í henni fjallað um almannahagsmuni og fá þannig fram sjónarmið íbúa og hagsmunaaðila. Mæla á fyrir um að tillaga að landsskipulagsáætlun skuli auglýst opinberlega til að tryggja að hún sé aðgengileg öllum og að almenningi verði gefið tækifæri til að koma með athugasemdir sínar við tillöguna innan átta vikna frá því að hún var birt. Jafnframt er lagt til að tillagan sé send til umsagnar sveitarfélaga og hagsmunasamtaka, sbr. 3. mgr.

Ég sé því ekki beinlínis hvað á að vera á móti slíkri áætlun. Þvert á móti, ég sé fátt mæla gegn henni af sjónarhóli almennings og langtímahagsmuna. Og hagsmunir almennings er miklu oftar langtíma- en skammtímahagsmunir. Meðan hagsmunir verktaka og stjórnmálamanna kunna að vera skammtímahagsmunir og ættu ekki að sitja í fyrirrúmi. Ég hvet Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, til að láta ekki undan með landsskipulagið, og aðra stjórnmálamenn og -flokka til að styðja þessa mikilvægu lagabreytingu.


Árleg busunartíð í framhaldsskólum nálgast

Bráðlega mun starf framhaldsskóla landsins hefjast, og um leið áhyggjur margra nýliða af svokölluðum busavígslum, sem fara fram í flestum eða öllum framhaldsskólum. Busavígslurnar eru margar hverjar niðurlægjandi og það er tilhneiging til að gera lítið úr nýliðunum. Sumar eru jafnvel ofbeldisfullar en talið er að dregið hafi úr hvoru tveggja á síðustu árum þar sem skólayfirvöld og nemendur hafa tekið höndum saman. Þó er hætt við að þeim verði síður ágengt gegn "meinlausari" aðferðum við niðurlæginguna, m.a. vegna þess að eldri nemendur eru ógagnrýnir á eða afskiptalausir um busunina.

Eftir að hafa séð myndir af busavígslu Menntaskólans af Egilsstöðum í þættinum Gettu betur í Sjónvarpinu í febrúarlok fyrir þremur árum var mér meira en nóg boðið. Þessi "athöfn", sem var valin af menntskælingum sjálfum sem sýnishorn úr skólastarfinu, fólst m.a. í því að nýliðarnir voru látnir skríða í drullupollum. Ég átti samtal við þáverandi umboðsmann barna um málið og í framhaldinu skrifaði ég umboðsmanninum og menntamálaráðuneytinu bréf. Mér er kunnugt um að menntamálaráðuneytið skrifaði skólameisturum bréf í kjölfarið og nú hefur Umboðsmaður barna skrifað framhaldsskólunum bréf um efnið. Sjá einnig blogg mitt frá fyrra ári.


Verður ákvörðun um Helguvík endurskoðuð?

Bergur Sigurðsson hjá Landvernd telur í þessari frétt mögulegt að ákvörðunin um Helguvík verði tekin upp. Spurning hvort það verður gert formlega eða hvort það verður gert þannig að orkuflutningar og orkuöflun verði sett í einn pakka, því að þar er mikil óvissa um hvaða virkjanir á að smíða til að fá orku. Nema auðvitað rafmagnið komi úr raflínum eins og bæði bæjarstjórinn í Reykjanesbæ og talsmaður Alcoa á Norðurlandi hafa látið hafa eftir sér (sjá bloggfærslu í júlí).


mbl.is Formsatriði ráða niðurstöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrögð Sjálfstæðisþingmanna, ráðherra og verkalýðsforingja

Það hefur verið nokkuð ótrúlegt að fylgjast með því sem margir ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hafa sagt um málið í fjölmiðlum. Illugi Gunnarsson telur til dæmis að úrskurðurinn grafi undan trúverðugleika ríkisstjórnarinnar við að fást við efnahagsvandann sem nú er (Fréttablaðið 2. ág. 2008, bls. 4). En ég spyr hvernig undan trúverðugleika ríkisstjórnarinnar sé hægt að grafa úr því að hún hefur framkvæmd á borð við þessa sem ráð. Kjartan Ólafsson óttast að úrskurðurinn fæli erlenda fjárfesta frá landinu (RÚV, kvöldfréttir, 3. ág.). Kjartan er varaformaður umhverfisnefndar Alþingis en hefur samt meiri áhyggjur af hagsmunum erlendra fjárfesta sem vilja nýta sér flýtileiðir inn í íslenskt samfélag en því að náttúru landsins sé hlíft. Aðalsteinn Baldursson verkalýðsforingi á Húsavík fer ekki síður mikinn en Sjálfstæðisþingmennirnir tveir og talar um svik og rýting í bakið (sami staður og Illugi). Fyrir utan þau ummæli Kristjáns Þórs Júlíussonar sem vísað er í í þessari frétt og ummæli iðnaðarráðherra að það væri óþarfi að setja framkvæmdirnar í sameiginlegt mat sem mig minnir að væru í Ríkisútvarpinu einhvern tíma í gær. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur eflaust vitað að það þyrfti kjark til að taka ákvörðun sína, að hún myndi mæta andstreymi víða í valdahópum - en tók ákvörðunina samt og á heiður skilinn fyrir vikið.

Auðvitað er úrskurður umhverfisráðherra pólitískur úrskurður en ekki bara lagatæknilegur gjörningur. Hann er túlkun á þeim lögum sem gilda um mat á umhverfisáhrifum, túlkun sem ber að fagna því að hún hlýtur að hafa fordæmisgildi. Úrskurðurinn kemur því miður ekki í veg fyrir að álverið verði reist, jafnvel ekki þótt í ljós komi að af framkvæmdunum í heild verði umtalsverð og óásættanleg umhverfisáhrif, því að sveitarfélög fara ekki eftir áliti Skipulagsstofnunar ef þau komast hjá því, sbr. svokallaðan Dettifossveg frá Dettifossi upp á Hringveg þar sem gefið var út framkvæmdaleyfi.

Úrskurðurinn nú um matið á álverinu kemur samt í veg fyrir að hægt sé að búta framkvæmdirnar niður í parta sem hver og einn veldur ekki skaðlegum áhrifum. Og hann stuðlar að því að það ætti að verða auðveldara fyrir almenning að henda reiður á ýmsum skýrslum og úrskurðum á ólíkum stigum, sem hefur verið býsna örðugt að gera undanfarið. Úrskurðurinn verður líka vonandi til þess að fá fram hin raunverulegu áform Alcoa um orkuöflun til viðbótar því sem fæst frá Þeistareykjum, Kröflu og Bjarnarflagi. Á að fara í Skjálfandafljót eða Jökulsárnar í Skagafirði? Eða Jökulsá á Fjöllum eða Laxá? Eða flytja orku úr Þjórsá norður?


mbl.is Ákvörðun ráðherra kom mjög á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband