Busunartíð

Framhaldsskólarnir hefja nú störf hver af öðrum, trúlega flestir eða allir með einhvers konar nýliða- eða svokölluðum busavígslum. Þessar busavígslur er því miður oft á tíðum niðurlægjandi, það er tilhneiging til að gera lítið úr nýliðunum. Margar hverjar eru ofbeldisfullar, þótt vissulega sé líklegt að þær svæsnustu rati fremur í fjölmiðla en aðrar. Þá veit ég að í mörgum skólum freista yfirvöld þess að draga úr ofbeldi og hættu á meiðslum, en verður e.t.v. síður ágengt gegn "meinlausari" aðferðum við niðurlæginguna.

Eftir að hafa séð myndir af busavígslu Menntaskólans af Egilsstöðum í þættinum Gettu betur í Sjónvarpinu í febrúarlok fyrir tveimur árum var mér meira en nóg boðið. Þessi "athöfn", sem var valin af menntskælingum sjálfum sem sýnishorn úr skólastarfinu, fólst m.a. í því að nýliðarnir voru látnir skríða í drullupollum. Ég átti samtal við þáverandi umboðsmann barna um málið og í framhaldinu skrifaði ég umboðsmanninum og menntamálaráðuneytinu bréf. Mér er kunnugt um að menntamálaráðuneytið skrifaði skólameisturum bréf í kjölfarið.

Í Sögu Reykjavíkurskóla, II. bindi (Reykjavík 1978, bls. 11) segir Heimir Þorleifsson frá því að tollering sé með elstu skólavenjum. Elstu heimildir um hana eru þó aðeins frá 1888 og svo virðist sem vatn hafi fremur verið notað við vígsluathafnir Bessastaðaskóla og Hólavallarskóla. Heimir bendir á að talið sé að vatnsvígslur hafi tíðkast í Skálholti og á Hólum. Athöfnin er ættuð úr drengjaskólum en niðurlæging drengja og stúlkna er þó ábyggilega ámóta mikil. Busavígslur þrífast á því að nýliðarnir séu settir í goggunarröð á þann veg að þeir viti að þeir fái að niðurlægja aðra að nokkrum árum liðnum.

Við leit með google.com komu upp 19 síður fyrir tveimur og hálfu ári, þ.e. ef slegið er orðið „busavígslur", en 38 síður við leit fyrr í kvöld. Þar á meðal eru fundargerðir skólaráða, bloggsíður nemenda, umræðuvefir skóla og brot úr sögu VMA. Þessar heimildir benda til þess að margir í skólunum, nemendur sem skólayfirvöld, hafi verulegar áhyggjur af busavígslum, og fram kemur að nokkrir skólar hafa sett nýjar reglur. Flestar busavígslur virðast felast í því að nýliðum er smalað á ákveðinn stað og þar geta hlutir hæglega farið úr böndum.

Nokkur dæmi af vefsíðunum (stafvillur leiðréttar en málfari ekki breytt):

Bloggsíða einstaklings: 'Ég held að busavígslur hafi orðið miklu siðmenntaðari og þægilegri síðastliðin ár. Mér skilst að um 1990 hafi busaböðlar jafnvel verið undir áhrifum áfengis þegar busavíglan sjálf fór fram en það var hætt þegar ég byrjaði í MA. Nú er það orðið svo að busar eru ekki lengur tolleraðir og einnig er hætt að hafa draugahús sem busar eru leiddir í gegnum. Tolleringarnar hættu vegna þess að slys höfðu átt sér stað og draugahúsin voru lögð niður vegna þess að einstaklingar meðal fjórðu bekkinga virtust fá "flakkandi hendur" þegar busastelpurnar voru leiddar í gegn.'

Úr fundargerð 4. fundar vorannar, Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu: &#39;Móttaka nýnema í haust. Síðastliðið haust var móttaka nemenda tvíþætt. Annars vegar fyrsti kennsludagurinn þar sem m.a. var grillað og hins vegar busun. Nokkur umræða hefur verið í tengslum við busunina og þá helst að nýnemar þurfi að gera eitthvað til að lítillækka sig. Farið verður fram á að mótaðar verði nýjar reglur í tengslum við busavígslur.&#39; <www.fas.is/skolinn/stjornun/fundir_skolarads/+%22busav%C3%ADgslur%22&hl=is> [14. apríl 2005]

Umræðuvefur Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi haustið 2003: &#39;Hver er tilgangurinn með busavígslu? ... Ég get séð að það sé einhver tilgangur í einhverskonar ,,manndómsvígslu" en þetta er hrein og klár niðurlæging og ég get ekki skilið hverjum þykir þetta skemmtilegt. Nema þá kannski helst þeim böðlum sem hafa slæma reynslu af sinni eigin vígslu. Ég ber nógu mikla virðingu fyrir sjálfri og mér og öðrum til að fara ekki í sal þennan dag. Gerði það einu sinni og fór út með frosið bros. Skora á nemendur til að breyta hressilega til næst. Bjóða nýnemum í gönguferð á Akrafjall, útileiki, gefa þeim koss á kinn og rauða rós ;) eða bara hvað sem er annað en þetta ... Fyrir mína parta var busadagurinn einn af skemmtilegustu dögum sem ég hef upplifað í FVA. Svo auðvitað spurning um hvað er sniðugt og hvað ekki, það er eiginlega bara háð hverjum tíma fyrir sig, en eins og t.d. hluti af busavígslunni í MA er að ganga "menntaveginn" sem er orðin hefð, það finnst mér mjög sniðugt og þá er kannski komin spurning "hvar eru allar hefðirnar í FVA?"&#39; <http://www.fva.is/tolvur/umraedur/skoda.php?tradur_id_svar=53&umraedu_id=15&efni=L%C3%A1ti%C3%B0%20lj%C3%B3s%20ykkar%20sk%C3%Adna> [14. apríl 2005]

Þessi dæmi tala sínu máli um að það kann víða að vera pottur brotinn þótt ástandið kunni líka að hafa batnað. Í dæmunum kemur fram að busavígslur hafa orðið tilefni til kynferðislegrar niðurlægingar auk annars ofbeldis. Einn af þeim sem gefur álit sitt skilur tæpast að nokkur geti haft gaman af því að niðurlægja aðra - nema þá sem hefnd fyrir eigin niðurlægingu áður. Ánægjulegt er að sjá kallað eftir fallegri móttökum nýliðanna - en um leið sýnist ljóst að margir hafa gaman af þessu ati.

Mér sýnist á samtölum við skólafólk undanfarna daga að það sé full ástæða til þess að menntamálaráðuneytið eða umboðsmaður kanni hvernig slíkum vígslum er háttað í framhaldsskólum landsins. Meðal annarra ástæðna er að hér er tvímælalaust um barnaverndarmál að ræða eftir að lögræðisaldur var hækkaður. Slík könnun myndi líka styðja skólafólk í viðleitni sinni til að vinna gegn slæmum venjum í kringum busavígslur. Og það er líka ástæða til að grípa inn í málin þar sem þau eru verst


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband