Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
20.10.2007 | 21:44
Sauðkindinni fagnað
Akureyrarakademían stendur fyrir haustþingi til heiðurs sauðkindinni þann 3. nóvember nk. kl.13-19 í Húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti. Þetta hús er rétt hjá húsi kennaradeildar Háskólans á Akureyri, eða á hinu alræmda og nú víggirta tjaldstæði Akureyrarbæjar. Þingið er fræðaflétta, þar sem saman tvinnast hugvísindi, búvísindi, listir og matarmenning. Skv. tilkynningu er forystusauður Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur og bóndasonur úr Eyjafirði.
Þarna verða nokkrir fyrirlestrar:13:15 Íslenska ókindin: Bar sauðféð ábyrgð á landeyðingunni? - Árni Daníel Júlíusson, sagnfræðingur (mig minnir að Árni Daníel efist um það, en komið til að fullvissa ykkur)
14:00 Sauðfé og seiður - Jón Jónsson, þjóðfræðingur
14:30 Blessuð sauðkindin - Guðrún Hadda Bjarnadóttir, listakona og formaður Laufáshópsins. Svo verður kaffihlé og handverkssýning
15:45 Óður til sauðkindarinnar - Guðríður Baldvinsdóttir, sauðfjárbóndi
16:15 Fólk og fénaður til framtíðar - Jóhanna Pálmadóttir, varaformaður félags sauðfjárbænda.
Loks verður pallborð með þátttöku fyrirlesara og almennar umræður. Ja, reyndar á þessu að ljúka með haustblóti - næringu sem verður seidd fram úr sauðfé, í umsjá Halastjörnunnar. Upplýsingar bárust með tölvupósti frá Reykjavíkurakademíunni.
Þetta er bersýnilega AFAR áhugavert.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.10.2007 | 20:47
Chic Laugavegur
Bloggar | Breytt 20.10.2007 kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.10.2007 | 19:12
Endurómur úr Evrópu - djassþáttur Lönu Kolbrúnar
Ríkisútvarpið er búið að stokka heilmiklu upp í dagskránni. Fyrir vanabundið fólk eins og mig er þetta ekki gott - þá er betra að ganga að laugardeginum nákvæmlega eins og hann var á doble-jú ó ar tí, útvarpsstöðinni "minni" í Madison, Wisconsin, fimmtán árum eftir ég flutti þaðan. Sömu þættirnir á sömu tímum, flesta daga vikunnar, reyndar aðeins búið að auka við pólitíska fréttaskýringarþætti og það er ekki verra. WORT er reyndar núna komið á netið og ég get kannski farið að laga mig að stöðinni, en einhvern veginn er það samt ekki það sama, t.d. bara það að það er fimm eða sex tíma munur (eftir árstíma). Jæja, en svo þegar maður lærir á nýju dagskrána í RÚV er þetta ekki allt sem verst. Kl. 7 á kvöldin er t.d. tónlistarþáttur á rás 1 sem heitir Endurómur úr Evrópu. Ég er ekki búinn að komast að því hvort hann er á hverju kvöldi, en akkúrat núna er djassþáttur Lönu Kolbrúnar, tónleikar í Tékklandi, byrja alveg frábærlega vel. Ég vona svo sannarlega að þessi þáttur sé á hverju föstudagskvöldi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2007 | 06:55
Mislögð gatnamót algjör steypa
Nú er lag að minna nýja borgarstjórnarmeirihlutann á samgöngumálin sem líklega eru lykillinn að framförum í Reykjavík. Gamli R-listinn fylgdi áratugagamalli samgöngustefnu með því að byggja fjöldann allan af mislögðum gatnamótum þótt reyndar megi hvorki lasta allt sem hann gerði eða gleyma að hæla göngustígum sem voru gerðir. Skammlífur meirihluti DB tók upp ókeypis strætóferðir fyrir námsfólk, og nú fréttir maður af því að strætisvagnarnir séu troðfullir. Taka þarf á forgangi fyrir strætó þannig að þeir komist hraðar yfir. Hvernig væri að loka einni af akreinum Miklubrautar fyrir öðrum en strætó og leigubílum á álagstímum, sérstaklega á morgnana? Já, loka annarri akreininni þegar þær eru bara tvær.
En það þarf að stíga róttækari skref eins og ég minntist á í bloggi þegar ég efaðist um grænu skref DB. Ég tel að það þurfi að hætta þeirri stefnu að misleggja gatnamót og byrja á því að taka frá land fyrir lestarsamgöngur. Ef gerðir verða stokkar og göng þarf að tryggja að í þeim geti verið teinar fyrir lestina sem þarf innan 15-20 ára. Og ef flokkssystkini mín í Reykjavík langar til að losna við flugvöllinn úr Vatnsmýrinni og Dagur ætlar að rabba um flugvöllinn við Kristján Möller ættu þau að huga að lestarsamgöngum. Ekki síst eru lestarsamgöngur nauðsynlegar í baráttu gegn mengun og fyrir betra mannlífi.
ES: Það má auðvitað ekki gleyma því að það er talsvert mikið járn í steypunni í mislögðum gatnamótum!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.10.2007 | 13:30
Umhyggja og samábyrgð í skólum
Á fimmtudaginn kemur kl. 14 hefst árlegt tveggja daga málþing Kennaraháskóla Íslands þar sem fjallað verður um samskipti, umhyggju og samábyrgð í skólum. Málþingið hefst með stuttum ávörpum frá Ólafi Proppé rektor, Svanhildi Kaaber formanni afmælisnefndar kennaramenntunar á Íslandi, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra og Vilborgu Dagbjartsdóttur skáldkonu og grunnskólakennara. Bók með viðtölum við Vilborgu, Mynd af konu, er einmitt ein af mínum uppáhaldsbókum; ég hef það fyrir venju að lesa stuttan kafla úr henni þegar ég tek á móti nemendahópum.
Mér hefur verið falið að flytja upphafserindi málþingsins. Í því ætla ég að tala um hlutverk, viðfangsefni og sjálfsmynd kennara og breytingar á kröfum og viðhorfum til kennara. Ég legg áherslu á að umhyggja í starfi kennara er faglegt gildi en ekki bara persónulegur eiginleiki einstaklinga - kennarar geta lært umhyggjusöm vinnubrögð. Ég ætla líka að leggja út af kenningum bandaríska heimspekingsins Jane Roland Martin um að umhyggja, áhugi og tengsl (care, concern, connection) séu hluti menningararfsins - sem ekki megi detta upp fyrir í áherslu okkar á þekkingu í íslensku, ensku eða eðlisfræði.
Um 70-80 önnur erindi verða flutt á málþinginu og það mun ekki kosta neitt að sækja þingið hvort heldur sóttir eru stakir fyrirlestrar eða málstofur eða þingið allt. Fyrirlestrinum mun verða sjónvarpað á vef KHÍ: http://sjonvarp.khi.is/.
Og nú á föstudegi, degi eftir þingið, fyrirlesturinn kominn á vefsíðuna mína: www.ismennt.is/not/ingo/umhy.htm.Bloggar | Breytt 19.10.2007 kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.10.2007 | 15:32
Ábyrgðin á álkunni og Hamskiptin
Ég var á umhverfisþingi sem umhverfisráðuneytið gengst fyrir annað hvort ár. Skemmst er frá að segja að þetta var ánægjulegt þing og talsvert annar tónn í náttúruverndarsinnum en áður vegna jákvæðrar afstöðu Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra sem hóf þingið með hverju loforðinu á fætur öðru, bæði í inngangsorðum sínum og litlu brúnleitu riti. Stóra loforðið sem vissulega er ekki jafn áþreifanlegt og sum hinna er að hún ætlar sér að rétta hlut náttúruverndar sem hefur farið halloka gegn ótal skammtímahagsmunum orkufyrirtækja og margra annarra: "Tímabært er að rétta hlut náttúruverndar sem farið hefur halloka gagnvart hagsmunum stóriðju", segir í ritinu Áherslur umhverfisráðherra.
Næstur á eftir Þórunni talaði Achim Steiner, forstjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Frábær ræðumaður sem hefur komið víða við í umhverfismálum, m.a. annars í sérstakri World Commission on Dams. Gríðarleg þekking - áheyrilegt en ekki langt erindi, reyndar held ég fullkomlega blaðalaust. Spurningum svarað í stuttu máli.
Eftir hina ágætu tóna sem Þórunn og Steiner byrjuðu á er margt sem væri hægt að rekja hér og nefni ég fáein atriði: Tryggvi Felixson hjá Norrænu ráðherranefndinni ræddi hugtakið "þjónusta náttúrunnar" og Hugi Ólafsson í umhverfisráðuneytinu ræddi þá ábyrgð sem við berum gagnvart náttúrunni af því að svo margt er sérstakt hér. Hann nefndi t.d. að hér væri svo stór hluti álkustofnsins að við bærum sérstaka ábyrgð á henni. Friðrik Dagur Arnarson landfræðingur og lengi landvörður í Mývatnssveit ræddi náttúruverndarpólitík um Mývatnssveit og sýndi frábærar myndir úr sveitinni af náttúru og náttúru í bland við mannlíf; á einni myndinni var sá sem hér skrifar að sýna sonum hans hvernig ætti að umgangast andavarpið . Jón Ingi Cæsarsson Samfylkingarmaður á Akureyri með meiru flutti erindi um hvað bærinn gerir í umhverfismálum; hið athyglisverðasta í máli hans var sú áhætta sem er tekin með því að staða umhverfismála fer í mörgum sveitarfélögum eftir persónulegum áhuga sveitarstjórnarmanna hverju sinni. Þetta er auðvitað algerlega óþolandi og viðgengst í fáum málaflokkum öðrum. Umhverfismál eru lögboðin mál og samt er þetta því miður alveg rétt hjá honum. Ólafur Páll Jónsson heimspekilektor við Kennaraháskóla Íslands ræddi um hugtökin réttlæti og hagkvæmni og hvort þess væri von að réttlæti næði nokkru sinni sömu hæðum og hagkvæmnin þegar kemur að ákvörðunum sem snerta umhverfið. Mikið af efni þingsins er hægt að nálgast á vefsíðu umhverfisráðuneytisins.
Svo var líka gaman að hitta gamla kunningja, fyrrum vinnufélaga, núverandi baráttufélaga og fólk sem ég hef aldrei hitt fyrr. Mikils virði að hittast og mikils virði að umhverfisráðherra tók róttæka afstöðu MEÐ okkur og MEÐ náttúrunni. Nú að lokum fór ég í Þjóðleikhúsið á hreint ótrúlega áhugavert verk: Hamskiptin í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar. Hreint augnayndi að upplifa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.10.2007 | 21:01
500 megawött?
Eru 500 megawött í háhitasvæðunum Bjarnarflagi, Þeistareykjum, Kröflu og Gjástykki?
Í gærkvöldi fór ég ásamt Bergi Sigurðssyni framkvæmdastjóra Landverndar á fund á Breiðumýri í Reykjadal þar sem Samvinnunefnd um skipulag háhitasvæða boðaði til fundar til að kynna afurð sína. Samvinnunefndin starfar á vegum Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar, Aðaldælahrepps og Norðurþings. Í auglýsingu um skipulagið segir: Skipulagssvæðið er allt land sveitarfélaganna sem liggur utan afmörkunar svæðisskipulags miðhálendisins. Í skipulagstillögunni er sett fram stefna um verndun og nýtingu háhitasvæða og flutningslínur rafmagns á öllu skipulagssvæðinu en meginviðfangsefni hennar er afmarkað svæði, sem nær yfir land Þeistareykja, Gjástykki, Kröflu og Bjarnarflag. Þar eru sett fram skipulagsákvæði um orkuvinnslu og mannvirki, vegi, línur og aðrar lagnir annars vegar og verndarákvæði vegna náttúrufars og minja hins vegar."
Þetta var ágætis fundur þar sem starfsmenn nefndarinnar gerðu skýra grein fyrir því hvernig lagt er til að nánast allt svæðið verði orkuvinnslusvæði, vegir og raflínur en reynt verði að friða lítinn blett við Leirhnjúk og norður af honum að Gæsafjöllum og áleiðis út í Gjástykki. Og enda þótt reynt verði að lágmarka áhrif af raflínunum er einfaldlega ekki hægt að koma í veg fyrir að stórfelld spjöll verði af Kröflulínu vegna þess að hún þarf að fara yfir eldhraunið frá Kröflu.
Vandinn liggur í þeirri ákvörðun yfirleitt að ætla sér að taka öll þessi svæði undir orkuvinnslu vegna álvers. Verður hætt við álverið ef menn verða úrkula vonar um að þarna fáist 500 megawött, nokkuð sem enn er ekki ljóst að fáist. Verður viðbótarorka sótt í Skjálfandafljót eða Héraðsvötn? Eða háhitasvæði nær hálendinu eða inni á því? Vonandi verður Jökulsá sem nú á að verða hluti af Vatnajökulsþjóðgarði ekki af-friðlýst eins og hluti Kringilsárrana þegar Kárahnjúkavirkjun var ákveðin! Ég hefði auk þess viljað að dokað yrði við eftir rammaáætlun þar sem virkjanakostir eru bornir saman, en vinna við hana hófst á ný fyrir skemmstu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.10.2007 | 19:10
Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga
Síðan fjárlagafrumvarpið var lagt fram hefur verið skeggrætt um meintan tekjuafgang ríkisins, sem reyndar einhverjir hafa efast um að verði svo mikill. Skattalækkun, segir Sjálfstæðisflokkurinn! Hækka skattleysismörkin, segja margir. Nú get ég fallist á hækkun skattleysismarka en minni á að meðal- og hátekjufólk hagnast um alveg jafnmargar krónur og þeir sem eru núna skammt yfir þeim. Ef hækka á skattleysismörk til hagsbóta launafólki sem hefur milli hundrað og tvö hundrað þúsund krónur er eðlilegt að hækka skattprósentuna þannig að þeir sem nú hafa fjögur eða fimm hundruð þúsund og meira borgi eilítið hærri prósentu. Hafa þannig tekjurnar óbreyttar.
Ég vil láta færa brot af tekjum ríkis til sveitarfélaga með því að hækka útsvarsprósentuna sem núna má mest vera 13,04. Flest sveitarfélög eiga í erfiðleikum með að kosta þá grunnþjónustu sem þau bera ábyrgð á og veitir ekki af meiri tekjum. Nú virðist lag. Ég held að þetta komi flestum meira til góða en minni háttar lækkun gjalda. Efling opinberrar þjónustu eykur lífsgæði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.10.2007 | 15:35
Háskóli á Ísafirði? - hugleiðingar
Mér skilst að lagt hafi verið fram á Alþingi frumvarp til laga um Háskóla á Ísafirði. Ætla má að efling menntunar á landsbyggðinni, m.a. með meira framboði af háskólamenntun, sé langskynsamlegasta byggðaaðgerðin, sem nú heitir "mótvægisaðgerð" vegna kvótaniðurskurðar. Framhaldsskólarnir efldu mjög kjarnastaði á landsbyggðinni og nú sækjast fleiri eftir þeim, t.d. hér út með firðinum. Ég man þá tíð að hafa verið tortrygginn í garð nýrra framhaldsskóla, var í MA á sínum tíma og þótti hann afskaplega góður - og víst reyndist mér félagsfræðadeildin hjá þeim Gunnari Frímannssyni og Ole Lindquist og gríðarlega metnaðarfullu brautryðjendastarfi óskaplega gott veganesti í háskólanámi hérlendis og erlendis. Mér hins vegar yfirsást sú staðreynd að eftir því sem er styttra að fara í skóla, þá fara fleiri í skóla. En í dag þykist ég vita að menntun, næstum því sama hver hún er, eykur möguleika fólks, ekki bara í því sem maður menntar sig til fyrst, heldur líka í mörgu öðru. Þannig verður góður iðnaðarmaður í einu fagi líka góður í öðru ef hann á annað borð leggur það fyrir sig. Menntun eykur bæði félagslegan og landfræðilegan hreyfanleika fólks - hvort tveggja af hinu góða í heimi sem á vissan hátt fer sísmækkandi með miklum fólksflutningum. Greiðum fólki, sem missir atvinnu ekki flutningsstyrki til að flytjast á brott, fremur menntunarstyrki sem það ræður hvort það notar til fjarnáms eða fer.
Aftur að háskóla á Ísafirði: Ég óttast að frumvarpið muni eiga erfitt uppdráttar. Ég óttast það vegna þeirrar tilhneigingar hérlendis og erlendis að stækka stofnanirnar, lengja boðleiðirnar. Eða hvað? Kannski á það líka erfitt uppdráttar vegna þess að ríkisstjórnin sem nú gumar af því að ætla að láta ríkissjóð safna til "mögru áranna" er ekki til í að efla byggð annars staðar en á suðvesturhorninu. Um stóra háskóla og litla: Kannski væri Háskólinn á Akureyri betur settur núna sem hluti stærri háskóla, en hann hefði aldrei fengið að verða það sem hann er í dag hefði hann ekki í upphafi verið sjálfstæður. Þetta vita Ísfirðingar þegar þeir vilja fá sjálfstæðan háskóla. Það er líka nauðsynlegt að búa til eitthvert fjárveitingalíkan fyrir bæði framhalds- og háskóla sem tekur tillit til þess að það búa færri í dreifbýli en í Reykjavík og nágrenni. Og nauðsynlegt er að efla iðnmenntun utan höfuðborgarsvæðisins. Allt þetta kostar þó bara brot af þeim ógnarkostnaði í beinhörðum peningum sem álversstefnan kostar. Hafið það gott um helgina
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)