Háskóli á Ísafirði? - hugleiðingar

Mér skilst að lagt hafi verið fram á Alþingi frumvarp til laga um Háskóla á Ísafirði. Ætla má að efling menntunar á landsbyggðinni, m.a. með meira framboði af háskólamenntun, sé langskynsamlegasta byggðaaðgerðin, sem nú heitir "mótvægisaðgerð" vegna kvótaniðurskurðar. Framhaldsskólarnir efldu mjög kjarnastaði á landsbyggðinni og nú sækjast fleiri eftir þeim, t.d. hér út með firðinum. Ég man þá tíð að hafa verið tortrygginn í garð nýrra framhaldsskóla, var í MA á sínum tíma og þótti hann afskaplega góður - og víst reyndist mér félagsfræðadeildin hjá þeim Gunnari Frímannssyni og Ole Lindquist og gríðarlega metnaðarfullu brautryðjendastarfi óskaplega gott veganesti í háskólanámi hérlendis og erlendis. Mér hins vegar yfirsást sú staðreynd að eftir því sem er styttra að fara í skóla, þá fara fleiri í skóla. En í dag þykist ég vita að menntun, næstum því sama hver hún er, eykur möguleika fólks, ekki bara í því sem maður menntar sig til fyrst, heldur líka í mörgu öðru. Þannig verður góður iðnaðarmaður í einu fagi líka góður í öðru ef hann á annað borð leggur það fyrir sig. Menntun eykur bæði félagslegan og landfræðilegan hreyfanleika fólks - hvort tveggja af hinu góða í heimi sem á vissan hátt fer sísmækkandi með miklum fólksflutningum. Greiðum fólki, sem missir atvinnu ekki flutningsstyrki til að flytjast á brott, fremur menntunarstyrki sem það ræður hvort það notar til fjarnáms eða fer.

Aftur að háskóla á Ísafirði: Ég óttast að frumvarpið muni eiga erfitt uppdráttar. Ég óttast það vegna þeirrar tilhneigingar hérlendis og erlendis að stækka stofnanirnar, lengja boðleiðirnar. Eða hvað? Kannski á það líka erfitt uppdráttar vegna þess að ríkisstjórnin sem nú gumar af því að ætla að láta ríkissjóð safna til "mögru áranna" er ekki til í að efla byggð annars staðar en á suðvesturhorninu. Um stóra háskóla og litla: Kannski væri Háskólinn á Akureyri betur settur núna sem hluti stærri háskóla, en hann hefði aldrei fengið að verða það sem hann er í dag hefði hann ekki í upphafi verið sjálfstæður. Þetta vita Ísfirðingar þegar þeir vilja fá sjálfstæðan háskóla. Það er líka nauðsynlegt að búa til eitthvert fjárveitingalíkan fyrir bæði framhalds- og háskóla sem tekur tillit til þess að það búa færri í dreifbýli en í Reykjavík og nágrenni. Og nauðsynlegt er að efla iðnmenntun utan höfuðborgarsvæðisins. Allt þetta kostar þó bara brot af þeim ógnarkostnaði í beinhörðum peningum sem álversstefnan kostar. Hafið það gott um helgina Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér dettur nú alltaf í hug frasinn sem hafður er eftir honum Pétri Þorsteinssyni á Kópaskeri: "Það virðist vera skollin á keppni meðal skólastjóra um að mennta börnin burt".

Það má t.d. skoða samsetningu vinnuaflsins á svæðinu í kringum HA m.t.t. menntunar og sjá hvort það hafi breyst með tilkomu hans. Er hann að skila sér í öflugra atvinnulífi á svæðinu í kring með hærra menntunarstig? Það er samt óumdeilt að það eru ýmis bein og óbein jákvæð áhrif af menntastofnunum, verst að það geta ekki allir sem útskrifast frá þeim unnið við þær ;)

 Góða helgi.

Tryggvi R. Jónsson 5.10.2007 kl. 16:25

2 Smámynd: Halla Rut

Háskóli á Ísafjörð "Já Takk". Gott frumvarp sem ég vona að komist í gegn.

Halla Rut , 5.10.2007 kl. 20:48

3 identicon

Heill og sæll, Ingólfur minn; og aðrir skrifarar !

Ingólfur og Halla Rut ! Er ekki nóg komið; af helvítis pappíra   fræðingunum ? Okkur vantar meira, af handverksfólki, sem nennir að vinna, með lúkunum.

Nóg komið, af andskotans pempíufarganinu.

Ágætir punktar, hjá Tryggva R.

Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason 5.10.2007 kl. 23:55

4 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Óskar, "pappírafræðingar", er það nýtt heiti á þeim sem sýsla við verðbréf? Eða er þetta andmenntasnobb? Vona þú hafir tekið eftir því að ég minntist á iðnmenntun utan höfuðborgarsvæðisins, sem raunar myndi verðskulda meira en eina málsgrein!

Tryggvi: Hugleiðingar Péturs eru alltaf þess virði að taka eftir þeim en staðir sem hafa góða skóla mennta alla sem fara eða eru kyrrir - og fólk í dreifbýli á bara að eiga jafnan rétt og höfuðborgarbúar á menntun af eins fjölbreytilegu tæi og kostur er. Og ráða því hvert vegur þess liggur.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 6.10.2007 kl. 00:40

5 Smámynd: Einar Þór Strand

Ingólfur

Háskólar í dag útskrifa mun fleiri en áður með einhverjar gráður, en menntuðu fólki sem frá þeim kemur hefur lítið ef nokkuð fjölgað.  Fólki er allt of oft kenndar "staðreyndir" þar sem hver étur upp eftir öðrum, en allt of lítil gangrýnin hugsun.  Þetta sjáum við vel til dæmis í umræðunni um hnattræna hlýnun þar sem ekkert kemst að nema CO2 og í umræðunni um hnattvæðinu efnahagslífsins þar sem ekkert kemst að nema skjóttekinn gróði.

Ástæða þess að háskólum hrakar svona er viðskiptavæðing þeirra, þeir verða að sýna "árangur" það er viðskiptalegan en ekki fræðilegan og hvað þá að vera gagnrýnendur á stjórnmálamenn, viðskiptalífið, fjölmiðla, þjóðfélagið né sjálfan sig.

Einar Þór Strand, 6.10.2007 kl. 13:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband