Færsluflokkur: Bloggar

Rannsóknarboranir, rannsóknarboranir í Gjástykki

SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, hafa þá stefnu að friðlýsa beri Gjástykki og þegar iðnaðarráðherra sagði á þingi sl. haust: "Virðulegi forseti. Við skulum hafa í huga að ríkisstjórnin er að skoða það að friða Gjástykki algerlega." hefði maður haldið að ríkisstjórnin yrði sammála um þetta. Enda kann að vera að hún sé það.

Í ljósi orða iðnaðarráðherra og fyrri yfirlýsinga umhverfisráðherra verður að ætla að stefna ríkisstjórnar Íslands sé sú að friðlýsa Gjástykki. Leyfisveiting Orkustofnunar stangast vitaskuld á við stefnu ríkisstjórnarinnar þvi nú hafa þau undur gerst að iðnaðar- og umhverfisráðherra virðast samtaka um að skoða friðlýsingu Gjástykkis alvarlega. Á meðan slík skoðun fer fram er óskiljanlegt hvernig hægt er að leyfa rannsóknarboranir í Gjástykki.

Er Orkustofnun æðsta vald landsins?

Hér eru fyrri færslur: http://ingolfurasgeirjohannesson.blog.is/blog/ingolfurasgeirjohannesson/entry/915167/


Skoðanamismunun iðnaðarráðuneytisins afhjúpuð

Það er gott að fá úrskurð um að það sé algerlega óheimilt að mismuna fólki út frá skoðunum þess. Þessi úrskurður sýnir svo ekki er um villst að vinnan við Rammaáætlun hefur það að markmiði að finna sem flest svæði til að virkja á en ekki til efla náttúruvernd. Þannig voru skoðanir vísindamanns sem sótti um vinnu sem starfsmaður taldar vera þess eðlis að ekki væri hægt að treysta vísindamanninum til að vera nægilega hliðhollur duldum markmiðum Rammaáætlunar. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/01/06/segir_idnadarraduneytid_hafa_brotid_a_umsaekjanda/


Aka, skjóta og ríða í Vatnajökulsþjóðgarði

Fyrirsögninni er viljandi ætla að minna á bókarheitið Eats, Shoots and Leaves sem misritaðist og varð að Eats Shoots and Leaves. Eða var hið síðara rétta bókarheitið?

Ég hef núna í tvo daga verið að hugsa um grein sem forsvarsmenn níu samtaka, allt karlar, skrifuðu í Fréttablaðið: http://www.visir.is/stjorn-vatnajokulsthjodgards-hlusti-betur-a-almenning/article/2010120774995. Í greininni enn og aftur er því að haldið fram að tillaga að verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs sé ósanngjörn í garða jeppafólks, vélsleðamanna, skotveiðimanna og hestafólks. 

Ég er hættur að velta fyrir mér rangfærslum sem koma úr þessu heygarðshorni en tók núna allt í einu eftir því að það voru tómir karlar sem skrifuðu greinina, níu karlar sem vilja fá að aka víðar, skjóta á fleiri stöðum og ríða víðar í Vatnajökulsþjóðgarði.

Ég velti því fyrir mér hvort engar konur séu í samtökunum þeirra, eða af hverju þær veljist síður til forystu fyrir því að að vilja aka, skjóta og ríða. Og ég velti því fyrir mér, sem fulltrúi í einu af svæðisráðum þjóðgarðsins og fulltrúi í varastjórn, hvort það sé hugsanlegt að kynjasjónarmiða hafi ekki verið gætt á nægilega ríkan hátt við mótun áætlunarinnar. Hvort níðst sé á áhugamálum karla umfram áhugamálum kvenna. Ég fæ ekki betur séð en ég sem kynjajafnréttissinni neyðist til að taka þennan vinkil málsins upp á réttum vettvangi. Þar sem það er lögbundið að gæta eigi kynjasjónarmiðar við hvers konar stefnumótun?


Klám, kvenfyrirlitning, karlfyrirlitning

Klám, kvenfyrirlitning, karlfyrirlitning – hugleiðingar á jafnréttisdögum Háskóla Íslands Framsaga á umræðufundi með heitinu Allt sem þú vildir ekki vita um klámvæðingu föstudaginn 24. september 2010 kl. 14–16 í Hátíðarsal HÍ. Jafnréttisnefndir HÍ, SHÍ og fræðasviðanna fimm í HÍ stóðu að fundinum. Sjá: http://www.ismennt.is/not/ingo/klam.htm


„Skólinn á ekki að sinna trúboði"

Endurbirti hér grein mína úr Morgunblaðinu frá 2. apríl 2005, bls. 36.

Ofangreind orð [heiti greinarinnar] eru tilvitnun í páskapredikun sr. Karls Sigurbjörnssonar biskups (sjá frétt Morgunblaðsins 29. mars sl.). Í predikuninni sem útdráttur var fluttur úr í ýmsum ljósvakamiðlum um helgina kvartaði hann undan því að fámennur þrýstihópur vildi koma fræðslu um kristni út úr skólum.

Trúboð eða fræðsla?

Nú veit ég ekki „þrýstihóp" sr. Karl á við, en tel þó líklegt að hann vísi m.a. til mikillar umræðu sem varð fyrir skömmu um trúarbragðafræðslu og trúboð í skólum, m.a. í kjölfar málþings sem vinstri grænir stóðu fyrir um miðjan febrúar sl. Á málþinginu og umræðum í kjölfarið komu fram alvarlegar upplýsingar um umfang trúboðs í opinberum skólum, m.a. um kristið bænahald. Ég minnist sérstaklega samtals við grunnskólastjóra í Keflavík sem sá hreint ekkert athugavert við bænahald í skólanum hjá henni.

Í ljósvakamiðlunum, sem ég fylgdist með um páskana, var ekki birtur sá hluti predikunar sr. Karls sem ég setti í fyrirsögnina. Hún er þó lykill málsins: „Skólinn á ekki að sinna trúboði". Hvorki leik-, grunn-, framhalds- né kennaraskólar eiga að boða trú. Hins er það einmitt trúboð í skólum, ógagnrýnar kirkjuferðir og bænahald sem valda því að baráttufólk fyrir trúfrelsi og frelsi til trúleysis treystir ekki skólum til að stunda hlutlaust fræðslustarf um trúarbrögð. Gagnrýni á slíkar tilhneigingar til trúboðs, þ.e. rugling á trúboði og fræðslu, kom fram á nefndu málþingi, m.a. í máli sr. Sigurðar Pálssonar, en hann var um alllangt skeið námstjóri í menntamálaráðuneytinu og þekkir e.t.v. manna best stöðu þessara mála. Sr. Karl þarf því ekki að vera undrandi á að kristindómsfræðslan sé gagnrýnd. Hverjir skyldu stunda slíkt trúboð? Eru það kristnir kennarar sem þekkja ekki muninn á trúboði og fræðslu? Eða er prestum án kennaramenntunar enn þá falin kristindómsfræðslan í einhverjum skólum?

Kristindómur og ásatrú í sögu þjóðar

Að mínum dómi er ekkert óeðlilegt við talsvert mikla kristindómsfræðslu en hún ætti ekki að vera sérstök námsgrein heldur hluti af menningarfræði, lífsleikni, siðfræði eða samfélagsfræði, og ef fólk vill, trúarbragðafræði. Sérstaklega er þetta mikilvægt vegna þess að íslensk menning verður tæpast skilin án umtalsverðrar þekkingar á tvennum trúarbrögðum umfram önnur, þ.e. kristinni trú og ásatrú. En mörg önnur trúarbrögð eru þó vissulega samofin sögu okkar og nágrannalanda okkar, ekki síst íslam. Þar að auki er kristni ein af meginstoðum íslenskrar löggjafar og þess siðgæðis sem flestir vilja rækta með ungu fólki. Síst af öllu gæti ég, sem er menntaður sem sögukennari, borið á móti slíkum staðreyndum.

Það hlýtur því að vera til vansa að trúlaust fólk og fólk af minnihlutatrúarbrögðum telji sig knúið til að taka börn sín úr kristindómstímum - vegna trúboðs - þannig að þau fari á mis við mikilvæga fræðslu. Eða einstaklingar í hópi kennara sem ekki tilheyra lútersku þjóðkirkjunni treysti sér ekki til að kenna kristin fræði, einmitt kannski af því að þau heita kristin fræði og „önnur trúarbrögð" eru þar sem einhvers konar viðhengi. Að ógleymdum rétti fólks til að aðhyllast engin trúarbrögð.

Hins vegar veldur það óþörfum ruglingi að kalla námsgreinina kristin fræði og mér finnst að lúterska þjóðkirkjan þurfi að sætta sig við að setja innihaldið ofar forminu. Eða vill kirkjan kannski njóta forréttinda í opinberum skólum? Það er alls ekki hægt að verjast þeirri hugsun eftir að hafa lesið fréttir af predikuninni og heyrt þungann í rödd sr. Karls í því sem var tekið upp í fréttum Ríkisútvarpsins.

Frelsi til trúleysis

Sr. Karl óttast að skólar komi til með að láta „sem trú skipti ekki máli" og e.t.v. er það rétt að einhver skoðanasystkina minna í baráttu fyrir trúfrelsi og frelsi til trúleysis telji svo vera og vilji veg trúar og rétt þeirra sem aðhyllast trú sem minnstan. Ég hef bara ekki orðið var við þetta sjónarmið í þeim hópi fólks sem ég umgengst heldur þvert á móti að fjölmargir þeirra sem berjast fyrir þess háttar frelsi telja að trú skipti mjög miklu máli - væri ekki annað að lemja höfðinu við steininn? En við gerum þá réttlætiskröfu að trúleysi sé virt jafnt og trúarbrögð í opinberum skólum - annað væri mismunun.

Aðskilnaður leik- og grunnskólastarfs frá kirkjustarfi og trúboði er bersýnilega afar brýnt verkefni miðað við þær upplýsingar sem komu fram á málþingi vinstri grænna og í umræðum í samfélaginu í kjölfar þess. Að þessu þarf að huga í yfirstandandi námskrárvinnu á vegum menntamálaráðuneytis. Um þetta erum við sr. Karl greinilega alveg sammála ef ég skil orð hans rétt, þótt vera kunni að okkur greini á um leiðir til þess. Þannig vill hann að Kennaraháskólinn (og væntanlega þá einnig aðrir kennaraskólar) skipi kristni og öðrum trúarbrögðum meðal kjarnagreina. Ég tek undir að það þurfi að efla þekkingu kennara á því hvernig á að kenna um trú og trúarbrögð en efast stórlega um að pláss sé fyrir kristin fræði sem skyldugrein í kennaranámi meðan bitist er um hverja vinnuviku í því námi. Kannski sameining trúarbragðafræða við menningarfræði eða lífsleikni og siðfræði gæti aukið það rými?


Ný stefna í menntamálum

Ný stefna í menntamálum - Ársþing Samtaka áhugafólks um skólaþróun: 

í Sjálandsskóla, Garðabæ 5.-6. nóvember

Efni: Ný stefna í menntamálum: Hvernig hrindum við henni í framkvæmd?
Læsi – Lýðræði – Jafnrétti - Menntun til sjálfbærni – Skapandi starf

Föstudaginn 5. nóvember hefst dagskrá kl. 14.00.

Þá verða stutt, fjölbreytt erindi um lykilhugtökin (grunnþættina) fimm.

Fyrirlesarar:

Guðrún Pétursdóttir félagsfræðingur:

Lýðræði í skólastarfi og fjölmenningarleg kennsla

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir framhaldsskólakennari:

„Hæ! Erum við að tala saman hérna!“ Jafnrétti í skólastarfi!  

Kristín Vala Ragnarsdóttir forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands:

Menntun til sjálfbærni

Ólöf Þórhildur Ólafsdóttir framkvæmdastjóri hjá Evrópuráðinu: 

Lýðræði og mannréttindi í menntun og skólastarfi: stefna Evrópuráðsins

Rósa Gunnarsdóttir sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu:

Skapandi skólastarf

Stefán Jökulsson lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands:

Hvað er læsi?

Nánari upplýsingar: http://skolathroun.is/?pageid=80


Þjóðkirkjan um tengsl kirkju og skóla

Hér er þriðji kafli úr fræðslustefnu Þjóðkirkjunnar. Ég sé ekki betur en Þjóðkirkjan ætli sér umtalsvert hlutverk. Ég spyr sérstaklega hvort„umburðarlyndi" gagnvart börnum, sem taka ekki þátt í trúarlegum athöfnum á skólatíma, sé nóg? Ekki ætlast kirkja, sem starfar í anda Jesú Krists, til að þeim verði fengin  „önnur verkefni" eins og ritstjóri Fréttablaðsins lagði til í forystugrein nú í vikunni? Skólastarfið verður að vera þannig að börn taki þátt í því sem er á dagskrá, annað er engu barni boðlegt. Skólarnir þurfa að taka ábyrgð á þessu, en ekki kirkjan. Þess vegna tel ég að menntamálaráðuneytið eigi að taka forystu í því að setja reglur, en ekki láta hana eftir einni kirkjustofnun sem hefur áróðurshagsmuni eða trúboðshagsmuni. Róttæk tillaga mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar hefur þegar þjónað því hlutverki að hreyfa við málinu.

 

III. Kafli: Kirkja og skóli

Markmið: 

  • Koma skal til móts við kennara í kristnum fræðum svo þeir geti betur sinnt því starfi sem skólinn hefur falið þeim, að miðla þekkingu á kristnum trúar- og menningararfi.
  • Styðja þarf kennara við að temja börnum og ungmennum umburðarlyndi gagnvart þeim sem hafa önnur lífsviðhorf. Koma að umræðu um mótun menntastefnu þjóðarinnar með skýrum hætti.

Verkefni:

  • Sóknir og stofnanir Þjóðkirkjunnar eigi samstarf við leikskóla/skóla um heimsóknir og fræðslu, sálgæslu, áfallahjálp og kærleiksþjónustu.
  • Þjónusta í kringum hátíðir kirkjuársins
  • Fræðsla og námskeið fyrir kennara í kristinfræði
  • Gerð ítarefnis um kristinfræði og trúarbragðafræði, t.d. um kirkjulegar athafnir
  • Fræðsla og fyrirlestrar hjá foreldrafélögum, m.a. um áföll og gildismat
  • Sjálfstyrking fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla
  • Lífsleikni fyrir framhaldsskóla þar sem áhersla er á tilvistarspurningar.

http://kirkjan.is/stjornsysla/stefnumal/fraedslustefna


Sjónarhorn um menntun til sjálfbærni

Á ráðstefnu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands á föstudaginn, 22. okt. nk., er gríðarlega fjölbreytilegt efni. Rannsóknarhópurinn GETA mun segja frá rannsókn á sýn kennara til menntunar til sjálfbærni og fleiru úr rannsóknar- og þróunarstarfi sínu núna á föstudaginn. Þessi málstofa hefst kl. 11 og lýkur kl. 12:30 og er í stofu E303 sem er í elstu og hæstu byggingunni við Stakkahlíð, miðstiganum upp. Við ætlum góðan tíma til umræðna á eftir stuttum erindum. Málstofan heitir GETA – til sjálfbærni– menntun til aðgerða.
Allyson Macdonald, prófessor, HÍ
Meðhöfundur: Auður Pálsdóttir - sem flytur erindið
Sýn kennara á menntun til sjálfbærni

Stefán Bergmann, dósent, HÍ
Meðhöfundur: Eygló Björnsdóttir, HA
Samfélag og sjálfbærni í menntun barna og unglinga

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor, HÍ / HA
„Menntun til sjálfbærni verði merkjanleg í kennaramenntun" - (tilvitnun tekin úr nýjustu stefnu ríkisstjórnarinnar um Velferð til framtíðar).

Sjá nánar: http://vefsetur.hi.is/menntakvika/dagskra_1100_1230


Heterosexismi og hinsegin nemendur

Á dagskrá Menntakviku, ráðstefnu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands á föstudaginn kemur, þann 22. október er margt á dagskrá. Hér er dagskrá RANNKYN, Rannsóknarstofu um jafnrétti, kyngervi og menntun, sem er frá Kl. 9.00 - 10.30 í stofu K102 í húsi HÍ við Stakkahlíð (sjá nánar http://vefsetur.hi.is/menntakvika/dagskra_0)

Steinunn Helga Lárusdóttir, lektor, HÍ
Mýtan um jafna stöðu kynjanna. Sama sýn – ólík staða

Þórdís Þórðardóttir, lektor, HÍ
Hugmyndir leikskólabarna um kvenleika og karlmennsku

Jón Ingvar Kjaran, doktorsnemi, HÍ
Meðhöfundur: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor, HÍ/HA
„ ... ég myndi alltaf enda með einhverri stelpu ...“
Heterósexismi og hinsegin nemendur

Bjargey Gígja Gísladóttir, skólastjóri Upplýsingatækniskóla Tækniskólans
Kynlægar hindranir í vegi fyrir atvinnuáformum og framtíðardraumum:
Hentar námsframboð framhaldsskólanna öllum stúlkum?

Víbeka Svala Kristinsdóttir, meistaranemi, HÍ
Meðhöfundur: Guðný Guðbjörnsdóttir, prófessor, HÍ
Brotið hjarta: Upplifun stúlkna af samskiptaárásarhneigð á grunnskólaaldri


Eiga nemendur að skilja tilfinningarnar eftir heima?

Afskaplega áhugaverð ráðstefna til heiðurs Erlu Kristjánsdóttur lektors sem varð sjötug nú í vikunni, haldin í húsnæði HÍ á Rauðarárholti, gengið inn frá Háteigsvegi. Um 220 manns hafa skráð sig, en ég vona að það sé enn þá pláss. Upplýsingar á http://www.skolathroun.is/?pageid=79 og dagskrá: http://starfsfolk.khi.is/ingvar/EK/


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband