Færsluflokkur: Bloggar

Atli Gíslason og baráttan gegn eyðileggingu náttúrunnar

Ég vona að þeir vinstri grænir sem hvetja Atla Gíslason til að víkja af þingi muni halda uppi ótrauðir baráttu gegn virkjunum sem myndu skemma náttúru Suðurlands og Reykjanesskagans. Atli hefur fullt umboð mitt til að standa í þeirri baráttu. Fáir stjórnmálamenn hafa staðið sig betur en Atli í þessum málaflokki. Að hinum ólöstuðum.

Ég er samt ekki ánægður með þá framgöngu að Atla að segja sig úr þingflokknum. Nú er fyrir okkar ágæta þingflokk að standa sig í náttúruverndarmálum. Ég vona að Atli og þingflokkurinn geti unnið saman í þeim málaflokki.


Engin afsökun!

„Engin afsökun fyrir þvermóðsku og heimóttarskap að  vera úr Mývatnssveit“: Um skrif Öðlingskarlanna í Fréttablaðið

Ávarp á málþinginu STAÐA KONUNNAR ER LAUS TIL UMSÓKNAR sem haldið var á Grand Hótel af samtökum stéttarfélaga, Jafnréttisráði og Jafnréttisstofu í hádeginu 8. mars 2011 – birt lítið breytt en án styttingar sem var 

Ég varð fyrst var við blaðagreinaherferðina „Öðlingurinn“ á Facebook, fljótlega eftir að hún hófst. Þar birtust annars vegar stöðuuppfærslur þar sem Facebook-vinir tjáðu aðdáun sína á efni greinanna og hins vegar ábendingar um það að konur hefðu fyrir löngu sagt það sem viðkomandi karl sagði, en þá hefði enginn hlustað. Ég lagði við hlustir, ef svo má að orði komast um blaðagreinar sem birtast á prenti og á vefsíðu. Og fór að lesa. Ekki það að ég hefði ekki lesið fjöldann allan af blaðagreinum um jafnréttismál eftir margar konur og nokkra karla.  

Ég var síðan af aðstandendum þessa fundar beðinn um að tala í dag um orðræðu karla í tengslum við jafnréttismál. Fyrirspurnin snerist um hvort hægt væri að draga saman og greina pistlana sem birtast undir yfirskriftinni Öðlingur.  

En hvað er Öðlingurinn? Á visir.is stendur þetta: Öðlingurinn 2011 er vitundarvakning. Átakið stendur yfir í mánuð, frá bóndadeginum (21. janúar) til konudagsins (20. febrúar).  Markmið þess er að stuðla að opinni umræðu um jafnrétti kynjanna á Íslandi. Nánar á heimasíðu átaksins, odlingurinn.is. Og hvað kemur þá fram á þeirri síðu: „Öðlingsátakið var stofnað árið 2011 af Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur, höfundi bókarinnar Á mannamáli. Söluágóði bókarinnar rann beint í baráttuna gegn kynferðisofbeldi, sem liður í Öðlingsátakinu. Öðlingar ársins 2010 unnu margvísleg sjálfboðastörf og héldu m.a. uppboð til styrkar Neyðarmóttöku vegna nauðgana. Á mannamáli og Öðlingsátakið leiddu til þess að Þórdís Elva var tilnefnd til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins 2010“ (sjá odlingurinn.is). Enn fremur: „Röksemdafærslan fyrir því að einungis karlmenn voru beðnir um að skrifa … pistla er sú að raddir kvenna hafa verið sterkari en raddir karla í umræðunni um kynbundið misrétti.

Öðlingsátakið er því tilraun til að rétta hlut karla og ljá þeim rödd – ekki síst til að sýna að allir eru velkomnir í umræðuna um þetta mikilvæga málefni.“ Fram kemur að öðlingar ársins séu m.a. úr röðum rithöfunda, feðra, slagorðasmiða, plötusnúða, leikskólakennara, tónlistarmanna, sjómanna, heimspekinga, nema, unglinga, viðskiptafræðinga, leikara, presta, guðfræðinga, leikstjóra, dagskrárgerðarmanna, skálda og líkamsræktarþjálfara (sjá vefsíðuna http://odlingurinn.is/odlingsatakid.html)

Mig langar að velta tvennu fyrir mér: Annars vegar hver sé umgjörð þessa átaks og af hverju þarf að „rétta hlut karla og ljá þeim rödd …“, af hverju þurfi að sýna körlum sérstaklega að þeir séu velkomnir í jafnréttisumræðuna. Hins vegar að skoða svolítið greinarnar og velta fyrir mér innihaldi þeirra. 

Umgjörð 

Ég velti fyrir mér forsendunni: Af hverju þarf að sýna körlum að þeir séu velkomnir? Hafa dagblöðin – eða vefsíðurnar – verið eitthvað sérstaklega lokuð karlmönnum til að skrifa í? Ekki kannast ég nú beinlínis við það, byrjaði að skrifa í dagblöðin fyrir meira en 30 árum og held að mér hafi aldrei verið meinað að skrifa þar, en þori þó ekki alveg að fullyrða að það. 

Eru karlmenn ekki velkomnir í jafnréttisumræðuna? Ég hef persónulega reynslu af allt öðru. Ég kannast ekki við annað en ég hafi verið velkominn í jafnréttisumræðuna, jafnvel sóst eftir mér. Ég held að karlar sem hafa viljað tjá sjónarmið sín um jafnréttismál kynjanna hafi ekki átt neitt erfitt með að koma sjónarmiðum sínum að. Ég er eiginlega sannfærður um að við fáum stundum ríkari hljómgrunn en kvenkyns femínistar. Það hefur komið fyrir að eitthvað sem ég sagði virtist vega þyngra í mínum munni en kvenna. Þetta á einkum við ef ég greini frá dæmum um ójafnt valdajafnvægi karla og kvenna í samfélaginu. Ég fæ hroll þegar það kemur fyrir. Ég vil auðvitað að eftir mínum orðum sé tekið – en ekki á kostnað annarra. Og ekki á þeim grundvelli að sjónarmið mín séu óhlutdrægari en sjónarmið kvenna og kvenkyns femínista.  

Er körlum hampað með þessu átaki? Er tilteknum körlum hampað? Það kann vel að vera að það þurfi „átak“ til að fá karla til að skrifa svona margar greinar um jafnréttismál á stuttum tíma. Ég hugsa að það þyrfti líka átak til þess að fá 31 konu til þess arna. Það er talsvert verk og alls ekki ómerkilegt að skipuleggja greinaskrif af þessum toga. 

Líklega er stærsti kosturinn við þessar greinar er liðskönnunin. Eftir þessa könnun vitum við af a.m.k. 31 karli, og þótt ég hafi vitað um allmarga þeirra að þeir væru liðsmenn femínismans – þá vissi ég ekki að sumir þeirra væru það. Ég vissi jafnvel ekki að fjórir þessara karla væru yfirleitt til, það er Darri Johansen viðskiptafræðingur, Bjartmar Þórðarson leikhúslistamaður, Karvel A. Jónsson félagsfræðingur og Sigurður Páll Pálsson geðlæknir. Níu aðrir mér ókunnir sem liðsmenn femínískrar baráttu, t.d. vissi ég hvorki um Margeir St. Ingólfsson plötuspilara né Berg Ebba Benediktsson lögfræðing að þeir væru í mínu liði. Vonandi munu allir þessir sem ég nefnt og hinir 25 líka leggjast enn harðar á sveifina með öðrum körlum sem hafa verið nokkuð virkir í skrifum og rannsóknum. Að ógleymdum tugum, hundruðum og þúsundum kvenna. Ég spyr: Koma svo greinar eftir 31 kvenskörung? 

Innihald 

Hvað er í greinunum? Um hvað eru greinarnar? Stíll þeirra tilheyrir líka innihaldi þeirra í tilviki eins og þessu, það er hvernig þær eru skrifaðar. 

Ég settist niður með greinarnar og las – fyrst þær 20 fyrstu. Ég reyndi að átta mig annars vegar á hvert væri megininntak greinanna, helsta eða helstu þrástef hverrar. (Þrástef er greiningarhugtak sem ég nota gjarna og merkir einfaldlega það sem þráfaldlega kemur fyrir eða er sérstakt áhersluatriði sem sker sig úr í málflutningnum eða orðræðunni.) Ég reyndi að finna það stef eða þau stef sem einkenndu málflutninginn. Ég reyndi auðvitað að máta þessi þrástef við þrástefin í kynjajafnréttisbaráttunni.  Ég las síðustu 11 greinarnar nokkurn veginn jafnóðum og svo allar, það er 31 grein, í einum rykk skömmu síðar og freistaði þess þá að flokka hverja aðeins í einn eða tvo flokka eða í mesta lagi þrjá, eftir inntaki. Ég skráði 59 þrástef – eitt í sumum greinum og tvö og þrjú í öðrum. Erfiðara er að átta sig á stílbrigðum þeirra og hvað má lesa út úr þeim. Reyndi þó að átta mig á því sérstaklega hvort og hvernig einhverjar þeirra væru skrifaðar í hálfkæringi og hvort háði væri markvisst beitt og hvernig. Háð og hálfkæringur eru því eitt þrástefið. 

Aðrir helstu efnisflokkar – eða þrástef – reyndust vera staðalímyndir, laun, ofbeldi, málnotkun, klám og hlutgerving, hvatning til karla um ábyrgð, vald og valdajafnvægi, að konur skiptist í hópa, femínistahatur gert að umtalsefni og kvennabaráttan sem fordæmi. Loks sá ég að einn greinarhöfundanna skrifaði meira um réttindi feðra en annað. Við endurlesturinn bættust við þemun gagnrýni á þögn, ábyrgð kvenna á gangverki fjölskyldna og gagnkynhneigt forræði. Gagnrýni á þögn og þegjandi samþykki gagnvart misréttinu var eitt slíkt meginstef hjá þremur höfundum en ábyrgð kvenna á gangverki fjölskyldna aðeins hjá einum. Þá held ég að aðeins einn höfundur hafi nefnt gagnkynhneigt forræði í samfélaginu. Mér sýndist reyndar að fleiri þemu gætu komið í ljós, svo sem eins og virðing fyrir konum, næstum því upphafin virðing. En ákvað lesa þær ekki einu sinni enn heldur láta þessa greiningu duga að sinni. (Það væri reyndar gaman að fá aðra til að lesa þær með hliðstæðum greiningarlykli.) 

Þau þrástef sem koma oftast fyrir reyndust vera, í fyrsta sæti háðið og hálfkæringurinn sem stíll greinarinnar eða sem áberandi stílbragð með öðrum þemum. Önnur stef sem komu fyrir a.m.k. fimm sinnum eða oftar sem eitt af einu, tveimur eða þremur meginstefjum voru vald og valdajafnvægi, staðalímyndir, laun, ofbeldi og hvatning til karla um ábyrgð. Önnur stef komu sjaldnar fyrir og mest var ég reyndar hissa á því hversu klámið, hlutgerving á konum og klámvæðingin voru sjaldan þess háttar meginstef.

Hatur gagnvart femínistum var meginstef í fjórum greinum og kvennabaráttan sem fordæmi í þremur greinum. Sigurður Magnússon matreiðslumaður, Öðlingurinn sem talaði við á Jafnréttisþinginu, ræddi sérstaklega hag karla af kvennabaráttunni, þema sem mér hefur lengi verið hugleikið. 

Í meira og minna öllum greinunum kemur vel fram að kynjakerfið – þótt það orð sé sjaldnast notað – er óréttlátt í garða kvenna og að karlar geti hagnast á því að svo sé og að þessu þurfi að breyta. Snæbjörn Ragnarsson, án atvinnutitils, leggur þó til að fest verði á einhvern hátt í sáttmálum samfélagins að konur fái 80% af meðallaunum karla í hverju starfi fyrir sig og að 20% kvenna verði fyrir kynferðislegri misnotkun áður en þær verða 20 ára ásamt fleiru slíku (29. janúar). Hann bendir á að flest okkar hafi samþykkt þetta í reynd nú þegar. 

Lokaorð 

Þórdís Elva, frumkvöðull greinanna, var í viðtali í útvarpsþætti á Rás 1 þann 21. febrúar sl., daginn eftir að átakinu lauk. Hún viðurkennir að rithöfundaslagsíða hafi verið á greinunum enda skrifi rithöfundar betur en aðrir og séu skilvirkari en aðrir, væntanlega við að skila af sér því sem beðið er um að sé skrifað. Að þeir Hugleikur og Andri Snær hafi verið mest lesnir. Þeir reyndar notuðu klámið sem þema. Báðir gerðu reyndar hatur gagnvart femínistum að umtalsefni og Hugleikur gerir kynhegðun femínistastúlkna skil. Mögulega er hið síðastnefnda þó stílbragð. 

Greinarnar sem slíkar bæta ekki miklu við þekkingu í jafnréttismálum, og í mörgum er ekki vísað í neinar rannsóknir eða aðrar haldbærar upplýsingar, þótt aðrir vísi í rannsóknir, bæði út og suður. Líklegt – ég veit ekki hversu líklegt er – að einhverjar greinanna hafi opnað augu annarra fyrir hinu órökrétta í valdajafnvægi karla og kvenna, augu sem annars hefðu haldið áfram að vera lokuð. Slíkt er að sjálfsögðu jákvætt. Einhverjar staðreyndir voru mér áreiðanlega áður ókunnar; einhver hnyttni kemur fram sem ég hafði ekki séð áður. Einmitt þess vegna er mikilvægt að liðsmaðurinn 31 láti ekki staðar numið eftir að hafa verið „ljáð rödd“, svo ég vitni aftur í orð Þórdísar Elvu þegar átakið var kynnt. Einmitt þess vegna er mikilvægt að „átakið“ haldi áfram með þátttöku beggja kynjanna. 

Yfirskrift erindisins er sótt í fyrri hluta lokamálsgreinar Svavars Knúts, tónlistarmanns, í öðlingsátakinu (12. febrúar 2011). Ekki veit ég hvort hann er ættaður úr Mývatnssveit, eða hvort hann virkilega heldur að Mývetningar séu þvermóðskufyllri og heimóttarlegri en aðrir Íslendingar. Mér fannst þetta bara tilvalinn titill fyrir mig, drenginn úr Mývatnssveit, sveitadrenginn sem upplifði róttæka pólitík Kvennalistans á þeim tíma sem ég varð þrítugur og lærði svo femínísk fræði í Bandaríkjunum. Lokaorð Svavars Knúts voru þannig . Ég endurtek þau: „Rétt eins og það er engin afsökun fyrir þvermóðsku og heimóttarskap að vera úr Mývatnssveit, þá er engin afsökun fyrir að líða eða ástunda ofbeldi, bara af því við erum mennsk.“


Staða konunnar er laus til umsóknar

Í tilefni af 8. mars er fundur, sem heitir Staða konunnar er laus til umsóknar, á Grand Hótel í Reykjavík, dagskrá, matur og erindi frá 11:45-13:00. Þetta eru erindin:  
  • Löggjöf um mismunun og fjölþætt mismunun - Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands 
  • Konur í kreppu? – Niðurstöður athugunar á velferð kvenna fyrir og eftir efnahagshrun - Eygló Árnadóttir, sjálfstætt starfandi fræðikona -
  • „Engin afsökun fyrir þvermóðsku og heimóttarskap að vera úr Mývatnssveit“ – Um skrif Öðlingskarlanna í Fréttablaðið - Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands

Lífrænir neytendur

Fékk þetta sent í facebook-pósti TímiStaður
7. mars · 19:30 - 21:30
Norræna húsinu - stóra salnum
Sturlugötu 5
 
DAGSKRÁ
19:30 - Inngangsorð: Oddný Anna Björnsdóttir
19:40 - Kjör fundarstjóra og ritara
19:45 - Fundurinn formlega settur
19:50 - Erindi um mat og heilsu í iðnvæddum heimi: Dr. Kristín Vala
Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ
20:10 - Tillögur og umræður um fyrirkomulag samtakanna
20:40 - Hlé, skráning í framkvæmdanefnd og faghópa
21:10 - Kynning á framkvæmdanefnd og faghópum
21:20 - Almennar umræður
21:30 - Fundi slitið

Boðið verður upp á léttar lífrænt vottaðar veitingar/smakk.

Á staðnum verður upplýsingamiðstöð um lífrænan landbúnað og framleiðsluaðferðir.

Tilgangur samtakanna: Stuðla að aukinni framleiðslu og neyslu vottaðra lífrænna vara á Íslandi með velferð almennings, búfjár og umhverfisins að leiðarljósi.

Markmið samtakanna: Efla miðlun upplýsinga um lífrænar afurðir og framleiðslu þeirra, hvetja til aukinnar neyslu á vottuðum lífrænum vörum, vekja athygli á kostum lífrænna aðferða og nauðsyn bættrar meðferðar búfjár, veita markaðinum aðhald um bættar merkingar og aukið framboð lífrænna afurða, og stuðla þannig að heilbrigðum lífsstíl og heilnæmu umhverfi.

Í undirbúningsnefnd stofnfundarins eru:

Björg Stefánsdóttir: Skrifstofustjóri NLFÍ
Dominique Plédel Jónsson: Formaður Slow Food
Eygló Björk Ólafsdóttir: Slow Food og Vallanes/Móðir Jörð
Guðmundur R. Guðmundsson: Nefnd um Græna hagkerfið
Guðrún Helga Guðbjörnsd: Brautarstjóri garðyrkjuframleiðslu hjá LBHÍ
Guðrún Hallgrímsdóttir: Stjórnarmaður og formaður vottunarnefndar Túns
Guðrún Tryggvadóttir og Einar Bergmundur: Náttúran.is
Gunnar Á Gunnarsson: Framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns
Kristín Vala Ragnarsdóttir: Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ
Ólafur Dýrmundsson: Landsráðunautur í lífrænum landbúnaði
Oddný Anna Björnsdóttir: Stjfm Lifandi ehf og stofnandi SLN á FB
Sirrý Svöludóttir: Lífrænn bloggari og markaðsstjóri Yggdrasils

Hafa kennarar lítið hlutverk í framhaldsskólum?

Til hvers er ætlast af kennurum framhaldsskóla? Til hvers ætlast kennarar framhaldsskóla?

Erindi Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar prófessors við Háskólann á Akureyri og prófessors og brautarstjóra framhaldsskólakennslufræði við Háskóla Íslands á Málþingi um stöðu innleiðingar laga um framhaldsskóla, sem haldið var í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins þann 11. febrúar 2011 [frágengið því sem næst óbreytt frá textanum sem stuðst var við þegar erindið var flutt]

Sá sem talar núna hefur starfað sem framhaldsskólakennari, reyndar um fárra ára skeið fyrir aldarfjórðungi. Miklu lengur, eða í hartnær 20 ár, hef ég tekið þátt í að mennta framhaldsskólakennara og lengst af þeim tíma átt þátt í að móta hvað fólst í menntun þeirra, fyrst við Háskólann á Akureyri og nú við Háskóla Íslands. Það er að segja þann hluta námsins sem tilheyrir sjálfum starfsvettvangi kennara, þeim hluta sem oft er nefndur kennslufræði til kennsluréttinda og enn oftar kennsluréttindanám fyrir háskólafólk og iðnmeistara.

I.

Þegar ég fékk verkefnið að ræða til hvers er ætlast af kennurum í lögum um framhaldsskóla gáði ég í lögin (frá 2008). Ég komst að því í þeim segir mjög lítið um kennara og kennslu. Í fyrsta skiptið sem kennari er nefndur þá er tekið fram að „kennari, sem skipaður er skólameistari, skal fá leyfi frá kennarastarfi sínu þann tíma sem hann gegnir embætti skólameistara" (6. gr.).

Næst er tekið fram að kennarar eigi fulltrúa í skólaráði (7. gr.) og í þriðja skiptið sem kennarar eru nefndir er tekið fram að skólameistarar ráði þá og þeir séu ráðnir í samræmi við lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda (8. gr.).

Flest önnur ákvæði eru um formsatriði, svo sem um kennarafundi sem allir kennarar eiga seturétt á (10. gr.), áheyrnarfulltrúa kennara í skólanefndum (10. gr.) og námsorlof (11. gr.). Orlofið sjálft og það markmið þess að kennarar geti óskað eftir því „til að efla þekkingu sína og kennarahæfni", eins og það er orðað, eru reyndar engin léttvæg formsatriði en lagagreinin fjallar þó að mestu um formsatriðin við að sækja um orlof og að fá því úthluta.

Menntunarkröfur til kennara eru nefndar í þremur línum en greinin sem kveður á um undanþágu frá menntunarkröfum er fjórar línur (13. gr.).

Sú grein sem mér sýnist segja einna mest um kennarana er greinin um námsmat sem er „í höndum kennara, undir umsjón skólameistara" (30. gr.). Tekið er fram að „matið byggist á markmiðum skólastarfs sem kveðið er á um í aðalnámskrá og skólanámskrá". Í sömu grein kemur fram að „hlutverk skólasafns [sé] að vera upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara."

Loks er minnst á kjarasamninga kennara í grein um reiknilíkan (43. gr.).

II.

Er það gott eða slæmt að lögin um framhaldsskóla skuli ekki segja meira um kennara? Eykur það frelsi framhaldsskólakennara - eða veitir það kennurum lakari leiðsögn?

Ef ráða má af lögunum er það meginverksvið framhaldsskólakennara að gefa nemendum einkunnir. Og þótt mér finnist það þröngur skilningur, og þótt þetta kunni að vera útúrsnúningur, er þessi grein þó nokkuð afgerandi, a.m.k. svo lengi sem „undir umsjón skólameistara" er aðallega formsatriði.

III.

Lögin um framhaldsskóla eru ný - og það eru líka tímamót þegar meistaraprófs verður frá og með næsta sumri krafist af framhaldsskólakennurum. Og þótt skyldur kennara virðist, samkvæmt lögunum, ekki svo miklar má lesa miklu meira út úr almennum ákvæðum. Þær kröfur fara mjög saman við almennar tilhneigingar um hvers er krafist af fagmennsku allra kennara. Í grundvallaratriðum: Kennarar í framhaldsskólum eiga að gera meira en að kenna námsgreinina sína á hefðbundinn hátt. Þeir þurfa að skilja skólastarfið sem heild og þeir þurfa að mæta margvíslegum þörfum ólíkra nemenda með alls konar vonir og væntingar, þarfir og þrár.

Ég hef valið fjögur atriði úr lögunum til að nefna í þessu samhengi:

Í fyrsta lagi námskrárgerð og skólaþróun. Nú eiga skólar að semja eigin námskrár og fá þær staðfestar af menntamálaráðuneytinu. Og hver gerir það? Skólameistarinn sem ræður til þess námskrársérfræðinga? Nei, skólaþróun fer fram á heimavelli. Þetta er jákvætt við lögin - en mér sýnist það sannarlega geta krafist breyttra vinnubragða, meiri þekkingar og þjálfunar í námskrárgerð og mati á því hvernig breytingastarf tekst. Því auðvitað þarf að endurskoða námskrána reglulega. Við sem vinnum í kennaraháskólunum þurfum auðvitað að mæta þessum kröfum bæði í kennaranáminu og í tilboðum um símenntun og aðstoð við skólaþróun.

Í öðru lagi vil ég nefna þá kröfu laganna að nemendur með fötlun stundi nám við hlið annarra. Mér sýnist þetta gera kröfur um meiri fjölbreytni í kennsluaðferðum, meiri einstaklingsmiðun námsins og aukna þjálfun í samvinnu við annað fagfólk, svo sem þroskaþjálfa. Það getur vel verið að það verði ekki verkefni allra kennara að taka á móti nemendum með þroskahömlun inn í alla námshópa - en það verður líka mikilvægt að allir kennarar hafi þekkingu og áhuga á því að gera framhaldsskólann að skóla fyrir alla, án aðgreiningar.

Í þriðja lagi nefni ég móttökuáætlanir skóla fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku og undir sama hatti fjölmenningu. Undanfarnar vikur hef ég heimsótt sjö framhaldsskóla sem kennaradeild Háskóla Íslands hefur samstarf við. Í þessum heimsóknum hef ég kynnst mjög áhugaverðu starfi og aðlögun nemenda að því að stunda nám í íslenskum skóla og á íslensku. Í þeim skólum þar sem ég hef kynnst þessu starfi sérstaklega hafa tilteknir kennarar tekið að sér verkefni af þessum toga - og ég á von á því að það sé skynsamlegt. En um leið veita þeir öðrum kennurum ráðgjöf þannig að í senn snertir aukinn fjöldi innflytjenda á framhaldskólaaldri suma kennara meira en aðra en alla kennara eitthvað.

Allir framhaldsskólakennarar þurfa því þekkingu á íslenskunámi fyrir útlendinga og á fjölmenningu. Þess vegna ákvað Háskólinn á Akureyri að námskeið um fjölmenningu sem skyldu fyrir verðandi framhaldsskólakennara og þess vegna verður í boði námssvið innan meistaranáms í kennslufræði Háskóla Íslands þar sem verðandi framhaldsskólakennarar, sem mæta með bakkalárpróf í ólíkum greinum upp á vasann, geta sérhæft sig í fjölmenningarlegri kennslu sem auðvitað fer fram í skóla án aðgreiningar. Þessi námssvið, þvert á námsgreinar og skólastig, eru valkostur í samræmi við ákvæði í reglugerð númer 872 frá 2009 þar sem fjallað er um inntak menntunar kennara.

Loks vil ég nefna sjálfræðisaldurinn sem að vísu er nokkuð síðan hækkaði úr 16 árum í 18 ár. Sú breyting hefur krafist meira foreldrasamstarfs af skólunum - en ég tel að hún undirstriki að umhyggja er og verður alltaf hluti af starfi kennara. Umhyggja er reyndar líka hluti af starfi háskólakennara, grunnskólakennara og leikskólakennara (sjá nánari umfjöllun mína í fyrirlestri á málþingi Kennaraháskóla Íslands 2007: http://www.ismennt.is/not/ingo/umhy.htm).

Hækkaður sjálfræðisaldur tengist fræðsluskyldunni sem nú hefur verið lögð á skólana. Það gæti breytt því hvers konar umhyggja þarf að vera í öndvegi, ekki bara umhyggja fyrir góðu námi í eigin fagi, sem langflestir framhaldsskólakennarar hafa í ríkum mæli, heldur umhyggja fyrir nemandanum sem manneskju. Hér koma líka til auknar kröfur um foreldrasamstarf, sem vissulega getur orðið streituvaldur hjá öllum framhaldsskólakennurum eins og foreldrasamstarfið er oft á tíðum hjá nýbyrjuðum grunnskólakennurum.

IV.

Flest af því sem ég hef nefnt breytir kröfum til framhaldsskólakennara og þar með auðvitað til menntunar og undirbúnings þeirra. Ég hef um árabil í minni háskólakennslu til framhaldsskólakennaranema skotið inn, þar sem ég hef getað, litlum þætti um það sem ég kalla samfagleg sjónarmið. Á ensku er þetta cross-curricular - þvert námskrár.

Nú fer hugtakið „þvert" á eitthvað, í þessu sambandi, í taugarnar á mér því að mér virðist mikilvægara að leggja áherslu á að jafnrétti kynja, fjölmenning, upplýsingatækni, sjálfbær þróun, lýðræði og mannréttindi eru allt saman málefni sem varða allt skólastarf - ekki bara þvert á námsgreinar og skólastig heldur eru þetta sameiginleg verkefni. Þar með geri ég ekki lítið úr því sem einstakir sögukennarar eða náttúrufræðikennarar eru að gera, svo að ég nefni dæmi, heldur legg ég áherslu á að þessi viðfangsefni eru ekki einkamál neins kennarahóps. Rétt eins og flestir af hinum 18 viðmælendum Atla Harðarsonar úr hópi raungreina-, sögu- og stærðfræðikennara í framhaldsskólum telja sig að einhverju marki sinna almennum markmiðum og að kennslugreinar þeirra séu til þess fallnar að vinna að framgangi þeirra (nýbirt rannsókn í Tímariti um menntamál, 2010).

Í eldri námskrám var að því er ég best man líka tekið fram eitthvað í þá veruna að allir kennarar væru íslenskukennarar og ef það er rétt þá er íslenskan samfaglegs eðlis og ætti kannski ekki að kenna hana sem sérnámsgrein heldur samþætta hana stærðfræði, sögu, smíðum, hárgreiðslu og náttúrufræði. Slíkt er hlutskipti flestra annarra samfaglegra málefna að vera samþætt við námsgreinarnar - eða sleppt, eins og franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu varar við í viðmiðum sem hann vann að um námskrárgerð fyrir franska menntamálaráðherrann fyrir rúmlega 20 árum (Sjá greinina Principles for reflecting on the curriculum sem birtist á ensku í tímaritinu The Curriculum Journal, 1. árgangi, 3, hefti, bls. 307-314.)

Viðfangsefni mitt með kennaranemum, sem ég nefndi áðan, hefur falist í því að biðja þá að hugsa um tvennt: Hvað getur greinin mín lagt af mörkum við að stuðla að jafnrétti kynja eða sjálfbærri þróun - svo ég taki dæmi af þeim málefnum sem ég hef kynnt mér best? Hin spurningin hljóðar svo: Hvernig getur það að taka tillit til kynjajafnréttis og hugmynda um sjálfbæra þróun bætt námsgreinina og kennslu í henni? Raunar hef ég iðulega beitt spurningunum á lýðræði, fjölmenningu, upplýsingatækni og jafnvel íslenskuna.

V.

Í ljósi þessara samfaglegu þátta, sem ég hafði um árabil lagt áherslu á að faggreinakennarar hugsuðu um, fagnaði ég auðvitað skilgreiningu mennta- og menningarmálaráðherra, sem ég heyrði fyrst af í september 2009 á málþingi um menntun til sjálfbærni, á fimm grunnþáttum menntunar er námskrá og kennsla í leik-, grunn- og framhaldsskólum skyldi taka mið af. Það er læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, lýðræði og mannrétti, jafnrétti og sköpun. Segja má að þessi ákvörðun sé eins konar framlenging af löggjöfinni með því að taka tillit til annarrar löggjafar, svo sem til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og til alþjóðlegra sáttmála sem við höfum skuldbundið okkur með. Í nýjum sameiginlegum hluta aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla er þetta undirstrikað.

VI.

Einn af þessum þáttum eða í rauninni hluti af einum þættinum, jafnrétti kynjanna, er áhersluatriði í þingsályktunartillögu um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ári sem nú liggur fyrir Alþingi (Þskj. 401 - 334. mál). Í E-lið áætlunarinnar og atriði númer 27 er gert ráð fyrir að áföngum í kynja- og jafnréttisfræðum verði komið inn í framhaldsskóla og árin 2013 og 2014 verði veitt jafnréttisverðlaun til þeirra þátttakenda sem hafa sýnt mestan árangur. Ég geri ráð fyrir að það sé til þeirra skóla sem hafa sýnt sterkasta litinn í jafnréttismálum.

Atriði númer 28 fjallar um félagslíf í framhaldsskólum og skoðað verði hverjar birtingarmyndir framhaldsskóla séu í Ríkisútvarpinu. Atriði númer 29 snýst um samstillt átak starfsgreinaráða, skóla og atvinnufyrirtækja til að opna aðgang „hins kynsins" að starfsgreinum sem teljast annaðhvort kvennagreinar eða karlagreinar „samkvæmt hefð", eins og það er orðað.

Svo er í atriði 30 það sem varðar okkur í kennaraháskólunum: Hvetja á okkur til að innleiða námskeið í kynjafræði fyrir alla nemendur.

VII.

Hitt séráhugamálið mitt af samfaglegu málefnunum er sjálfbær þróun - það er að segja þetta málefni sem ég hef sett mig betur inn í en mörg af hinum samfaglegu málefnunum. Ríkisstjórnin gefur reglulega út ritið Velferð til framtíðar. Það var gefið út í þriðja sinn sl. sumar, það er sumarið 2010. Þar er sjálfbærnimenntun nefnd sem áhersluþáttur - í fyrsta skipti.

VIII.

Eigum við þá í kennaraháskólunum að hlaupa til ef það kemur slíkur pólitískur þrýstingur, eins og ég hef tilgreint, og birtist í grunnþáttunum, framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og stefnu ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun? Ef rannsóknir styðja þessa stefnu þá er svar mitt já - ekki að vísu við því að „hlaupa" heldur hlusta og taka tillit til.. Það er gríðarmikil þörf til þess að þjálfa kennara þannig þeir geti kennt um jafnrétti og mismunun og leiðbeint nemendum í leik-, grunn- og framhaldsskólum í átt til lýðræðis og sjálfbærni

Á að taka fram fyrir hendur kennara? Á ráðherra að neita að samþykkja námskrár framhaldsskóla nema þar séu áfangar um kynjafræði - eða sjálfbærnimenntun sé sýnileg sem þungamiðja skólastarfsins?

IX.

Á þessum nótum lýk ég erindinu. Það er bara hollt að það séu ekki allir sammála um hvort samfagleg málefni eigi að vera þungamiðja skólastarfsins. Samfaglegu málefnunum, eins og jafnrétti kynjanna, verður þó varla sinnt í hjáverkum eða þannig að kennarar geti bara vona að eitthvað komi út úr því sem þeir gera þegar þeir eru að kenna hefðbundnar námsgreinar. (Sjá meira um samfagleg málefni sem þungamiðju skólastarfs í fyrirlestri mínum á ráðstefnu skólaþróunarsviðs Háskólans á Akureyri 2009: http://www.ismennt.is/not/ingo/Sjalftung.htm).


Stjórnlagaþing, helst strax!

Ég lagði aldrei neina áherslu á að það yrði haldið stjórnlagaþing og var hvorki hrifinn né ekki hrifinn af kosningafyrirkomulaginu. Áttaði mig á því að flækjustig þess ylli tortryggni, en þóttist skilja að það væri að mörgu leyti gott að kjósa bara eitt nafn og hafa kost á að kjósa 24 til vara sem gætu þar að auki notað hluta af atkvæðinu mínu ef sá sem ég kysi hefði þegar fengið nógu mörg atkvæði.

En eftir dóm Hæstaréttar er mér ljóst að það verður að halda stjórnlagaþing. Ég get alveg sætt mig við að Alþingi tilnefni þau 25 sem kjöri náðu í starfshóp, sem fengi nafnið stjórnlagaþing, og svo yrðu greidd atkvæði meðal þjóðarinnar um niðurstöðu. Sennilega er þó rökréttara að ganga fljótt frá því að það verði haldnar aðrar kosningar og þá megi hvert og eitt okkar kjósa á bilinu 5-25 manns og við sameinumst um að kjósa tuttuguogfimm-menningana eða sem flesta úr þeirra hópi. Aðalatriðið er þó að fá að greiða atkvæði um niðurstöðu þingsins áður en Alþingi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er alltof sterkur fengi að fikta í niðurstöðunni.


Fylgjum fjármagninu: Skipulagsbreytingar í dönskum háskólum

Áhugaverður fyrirlestur þann 28. janúar kl. 10.15-11.30 í stofu H-206 í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð - gengið inn frá HáteigsvegiRebeccaBoden, prófessor við Cardiff-háskóla í Wales, flytur fyrirlestur í boði Rannsóknarstofu um menntastjórnun, nýsköpun og mat á skólastarfi og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Háskólamenntun hefur tekið gagngerum skipulagsbreytingum síðustu 25 ár. Þessar breytingar einkennast afaukinni áherslu á markaðsvæðingu, samkeppni, fjármögnun og viðskipti. Háskólar hafa orðið líkari markaðsfyrirtækjum og nýtt sér stjórnunar-og viðskiptahugmyndir atvinnulífsins. Vísbendingar eru um að þótt England hafi verið talið í fararbroddi í þessum efnum,sé þróunin í Danmörku á sama veg.Í fyrirlestrinum verður þróunin í dönskum háskólum rakin og kynntar niðurstöður rannsóknar sem ber heitið Fylgjum fjármagninu og er unnin fyrir Dansk Magisterforeningí samstarfi við SusanWright, prófessor við DPU (Danmarks PædagogiskeUniversitet). Í rannsókninni er gerð grein fyrir ástæðum þess að aukið fjármagn til danskra háskóla hefur ekki skilað sér hlutfallslega til kennslu og rannsókna. Rannsóknin sýnir aukinn kostnað við stjórnun og hér er það rakið til breyttrar hugmyndafræði og skipulags í háskólunum. Í lok fyrirlestrarins er lagt mat á hversu skynsamleg þessi þróun er og hver gæti verið önnur og sjálfbærari leið í þróun háskólastigsins.Fyrir okkur hér á landi er áhugavert að heyra af þessum rannsóknum og velta fyrir okkurhvortbreytingarnar í Danmörku séu á einhvern hátt hliðstæðar breytingum á íslenskum háskólum.Fyrirlesturinn er fluttur á ensku. Allir velkomnir.

Follow the Money: Organisational reform in Danish universities

Higher education has been in a global tumult of organisational reform for the last 25 years. These changes are characterised by increased marketisation, commercialisation, financialisation and commodification of universities. As universities have become more ‘business-like’, so they have adopted the managerial and financial tools and techniques of business. Evidence suggests that, whilst the UK was in the vanguard of these trends, Denmark is now keenly following this reform agenda.
This paper charts the reform process in Denmark and presents the results of a recent study undertaken with Susan Wright for Dansk Magisterforening (the Danish academics trade union) entitled Follow the Money. This study explored the reasons why significant recent increases in Danish universities’ income had not apparently translated into commensurate increases in teaching and research funding. The study found, rather, significant increases in the cost of management and this paper argues that this is the result of the ideological and organisational reforms to which Denmark had been subject. The paper concludes by considering both the wisdom of this reform trajectory and the prospects for an alternative (and more sustainable) future for higher education."
 
The weblink to the Dansk Magisterforening report is:
http://www.forskeren.dk/wp-content/uploads/follow-the-money.pdf

Bolognaferlið og íslenskir háskólar

"Undanfarinn áratug hefur íslenskum háskólum fjölgað og síðan aftur fækkað með sameiningu. Nemendum hefur fjölgað úr rúmlega 12.000 haustið 2001 í um 19.000 haustið 2009. Fræðimönnum og öðru starfsfólki hefur fjölgað og faglegt umhverfi hefur breyst. Líklega náði breytingaferlið hápunkti sínum á árinu 2007 þegar öllum háskólum landsins var gert að sækja um viðurkenningu á fræðasviðum í samræmi við ný lög um háskóla nr. 63/2006. Umræðuefnið í þessu hefti er þó hvorki útþensla háskólanna né viðurkenningarferlið sem slíkt heldur þátttaka Íslands í evrópsku háskólasamstarfi sem hefur verið nefnt Bolognaferlið.

Upphaf Bolognaferlisins má rekja til ársins 1999 þegar menntamálayfirvöld Evrópuríkja gáfu út yfirlýsingu um að þau myndu vinna sameiginlega að því að styrkja Evrópu með því að skapa sameiginlegt menntasvæði æðri menntunar fyrir 2010 (sjá nánar í grein Þórðar Kristinssonar, Bolognaferlið: Saga og tilgangur, í þessu hefti). Ísland var eitt af þeim ríkjum sem skrifuðu undir Bolognayfirlýsinguna og hefur verið unnið að því að innleiða þetta ferli á ýmsan máta. (Hér er fylgt þeirri málvenju sem hefur skapast, að „innleiða ferli“.)"

Þetta er upphaf greinar okkar Guðrúnar Geirsdóttur í nýjasta hefti að Uppeldi og menntun: http://vefsetur.hi.is/uppeldi_og_menntun/sites/files/uppeldi_og_menntun/U%26M_2010_1_2_bls179_216.pdf


Eru framhaldsskólar á Íslandi gagnkynhneigðir?

Birst hefur grein okkars Jóns Ingvars Kjarans sem ber heitið: „Ég myndi alltaf enda með einhverri stelpu“: Eru framhaldsskólar á Íslandi gagnkynhneigðir? Hún er í veftímaritinu Netlu: http://netla.khi.is/menntakvika2010/017.pdf

Útdráttur: Í greininni er fjallað um hugtakið heterósexisma og gerð grein fyrir efni úr fyrsta hluta rannsóknar á heterósexisma í íslenskum framhaldsskóla. Við rökræðum skilning okkar á hugtakinu í því augnamiði að meta á hvern hátt það henti til að greina stöðu hinsegin nemenda innan íslenska skólakerfisins. Við spyrjum hvort og hvernig megi skýra upplifanir þriggja ungra homma í hefðbundnum íslenskum framhaldsskóla með því að horfa á stofnanabundinn heterósexisma. Af gögnum úr fyrsta hluta rannsóknar á stofnanabundnum heterósexisma í framhaldsskóla má greina að hann sé kerfislægur í formgerð og menningu skólanna. Hinsegin ungmenni upplifa stofnanabundinn heterósexisma í daglegum samskiptum við starfsfólk og samnemendur og birtist hann m.a. í skilningsleysi, óþægilegum spurningum og gagnkynhneigðri orðræðu. Skýringa á þessu má að okkar mati einkum leita í því hve ósýnilegir hinsegin nemendur eru í skólanum og í kerfisbundinni þöggun, hvort sem hún er meðvituð eða ómeðvituð, um málefni þeirra og hagsmuni.
Á ensku: 

Titill: „I would always end up with some girl“: Are Icelandic upper secondary schools heterosexual?

Útdráttur: This article discusses the concept heterosexism and gives the first results of a study of institutionalized heterosexism in an Icelandic upper secondary school. We discuss our understanding of the concept in order to assess the manner in which it can be useful to analyze the status of queer students in the Icelandic school system. We ask how to explain the experiences of three young gay men in a traditional Icelandic upper secondary school by looking at institutionalized heterosexism. Results indicate that institutionalized he-terosexism prevails in the structure and culture of the school under investiga-tion. Queer youth experience institutionalized heterosexism daily in their dealings with faculty and fellow students, for instance in lack of understand-ing, uncomfortable questions they are asked and heterosexual discourse. Possible explanations for this can be found in the low visibility of queer students and systematic exclusion and silencing, whether aware or unaware, of their issues and interests.

Gagn-, sam- eða hinsegin?

Gagn-, sam- eða hinsegin? Kynferði og kynverund í breskum háskólum 1990–2010. Fyrirlestur fimmtudaginn 27. janúar kl. 15.00 í Bratta fyrirlestrasal  í húsnæði Menntavísindasviðs - við Stakkahlíð, gengið inn frá Háteigsvegi (info in English below)

Debbie Epstein, prófessor við Cardiff-háskóla í Wales, flytur fyrirlestur í boði Rannsóknarstofu um jafnrétti, kyngervi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn er fluttur á ensku.

Prófessor Epstein mun í fyrirlestrinum byggja á rannsóknum sem gerðar voru með áratugar millibili í kringum síðustu aldamót. Þessar rannsóknir miðuðu að því skoða hvers konar kynverund eða kynhneigðargervi var í boði fyrir nemendur og starfsfólk háskóla í Bretlandi sem ekki fellur að hinum gagnkynhneigðu viðmiðum samfélagsins. Þrátt fyrir miklar breytingar sem urðu í Bretlandi á þessu tímabili kom í ljós að sá heterósexismi (gagnkynhneigðarhyggja), sem ríkti á meðan fyrri rannsóknirnar fóru fram, voru enn þá mjög ríkjandi. Þetta hefur þau áhrif að nemendur, sem laga sig ekki að gagnkynhneigðum viðmiðum, þurfa í fjölmörgum aðstæðum að laga hátterni sitt að ríkjandi viðmiðum til að forðast stimplun og útilokun. Epstein mun ræða hvernig flestum háskólum hefur ekki tekist að stuðla að því að önnur kynhneigð en gagnkynhneigð sé viðurkennd, jafnvel þótt verðlaun séu veitt þeim atvinnurekendum sem hafa stuðlað að vinsamlegra vinnuumhverfi fyrir lesbíur og homma.
Prófessor Epstein er meðal þeirra fremstu í heiminum á sviði rannsókna innan hinseginfræða og menntunar.  Hún hefur einnig rannsakað fjölbreytileg önnur svið menntunar- og menningarfræða, t.d. karlmennsku og einelti, m.a. í Suður-Afríku, auk Bretlands. Það er mikill fengur að fá hana hingað til lands og hlýða á erindi hennar. Vefsvæði hennar er: http://www.cardiff.ac.uk/socsi/contactsandpeople/academicstaff/E-F/professor-debbie-epstein-overview.html
Allir velkomnir
 

Upplýsingar á ensku

Title: Hetero, Homo or Queer - Sexualities in UK Universities 1990-2010Abstract: In The World We have Won, Jeffrey Weeks (2007) traces the changes in erotic and intimate life in the UK since 1945. He aims to provide what he terms a ‘balance sheet of the changes that have transformed our ways of being sexual, intimate and familial’ (x). In this presentation, I draw primarily on the fieldwork, done nearly ten years apart, of two of my former doctoral students – David Telford (Epstein et al. 2003 and various unpublished doctoral studies work) and Richard Taulke-Johnson (2006, 2009) as well as other published work – in order to explore the field of sexual possibility for non-heterosexual students and staff in the university context. I will argue that much has changed in the UK over this period and yet that the heterosexual presumption (Epstein and Johnson 1993) largely persists even in this context and that non-heterosexual students continue to modify their behaviours to avoid stigmatisation in certain settings. At the same time, drawing on the Stonewall awards for lesbian and gay-friendly employers, I will point to the failure of most universities to recognise or make provision for non-heterosexuality in the workplace, even as some receive these awards.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband