Nýmarxísk kennslufræði

Ágrip greinarinnar Capable of Resisting and Entitled to Lead: On the Historical Conditions of the Neo-Marxist Educational Discourse frá 1992:

This article examines the assumptions about resistance and leadership in selected literature on critical pedagogy and argues that the idea of resistance in critical pedagogy (as well as its siblings empowerment and voice) is rooted in traditional notions of Marxist vanguard politics that consider the trade-unionized White male working class as the entitled leaders of the revolutionary movement. The article records a "pre-history" of the ways that resistance and leadership were conceived before they were taken up in critical pedagogy and traces out how European traditions and practices that have influenced the production of neo-Marxist educational theory are perpetuated in North American academia. The article draws not only on written sources but on the author's knowledge of the European Marxist-Leninist movement itself. Further, the bases for central concepts in critical pedagogy, such as counter hegemony and transformative intellectuals, are examined. Then, attention is paid to aspects of leadership practices in the field of critical pedagogy. It is argued that inside Marxism there is a theory and practice of elitist leadership notions and that this practice is replicated among contemporary critical pedagogues. The article insists that this practice needs to be recognized, abandoned, and retheorized. Birt í tímaritinu Educational Policy, 6 (3. hefti), bls. 298-318. Það var sérlega gaman að rekast á ágripið á netinu því að netfangið mitt á þessum tíma var ingo@kopasker.is.


Uppeldi og menntun - 1. hefti 2011

Út er komið vorhefti tímaritsins Uppeldis og menntunar með fjölbreyttu efni. Fyrsti hluti þess er viðtal við Jón Torfa Jónasson sem tók við starfi forseta Menntavísindasviðs þegar Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands sameinuðust. Í viðtalinu lýsir Jón Torfi sjónarmiðum sínum til menntunar og spyr gagnrýninna spurninga um helstu viðfangsefni nútímans og úrlausnarefni framtíðarinnar. Sjá efnisyfirlit.

Í heftinu eru fjórar ritrýndar greinar og fimm ritdómar um sex rit úr flokkum námsefnis og rannsókna. Ritrýndu greinarnar spanna ólík viðfangsefni á sviði menntunarfræða og fjalla um orðaforða, leikskólastefnur, námskrá hönnunar og smíði og loks námsmat í grunnskólum. Þrír dómanna eru um nýjar bækur og námsefni á sviði kynjajafnréttis ætlaðar þremur ólíkum skólastigum, einn dómur er um tvær bækur um tónlistarkennslu og einn er um bók sem lýsir rannsókn um aðstæður nemenda með þroskahömlun.

Tímaritið uppfyllir núna 17 skilyrði af 18 sem tímarit eru metin eftir í stigakerfi fræðimanna í háskólunum og telst þannig standa jafnfætis mörgum erlendum tímaritum að gæðum og höfundur fær 15 stig í launakerfi háskólafólks fyrir birtingu greinar í tímaritinu. Leiðbeiningar fyrir greinarhöfunda eru á netinu, bæði á íslensku og ensku.

Hægt er að panta áskrift og einstök tölublöð hjá SRR í síma 525 5980 eða á netfangið mvs-simennt@hi.is. Nýjum áskrifendum gefst kostur á að kaupa eldri rit á afsláttarverði. Uppeldi og menntun er einnig fáanlegt í Bóksölu kennaranema, Stakkahlíð, Bóksölu stúdenta, Hringbraut og í öllum stærri bókaverslunum. Eldri árgangar tímaritsins eru nú komnir á vefinn timarit.is og yngri árgangar eru birtir á vef tímaritsins, með eins árs birtingartöf.


Ályktun um Vatnajökulsþjóðgarð

Ályktun um Vatnajökulsþjóðgarð frá Náttúruverndarsamtökum Suðurlands

"Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka  Suðurlands haldinn á Selfossi  5. maí 2011 fagnar framsýnni  Stjórnunar-  og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs, sem ráðherra umhverfismála staðfesti í febrúar sl.  Mikilvægast er að nú gefst tækifæri til að hlú að framsýnum markmiðum stærsta þjóðgarðs í Evrópu, þar sem horft er til framtíðar varðandi náttúruvernd, skipulagningu göngu- og umferðarleiða gesta og móttöku ferðamanna, svo koma megi í veg fyrir frekara tjón náttúrunnar  vegna óheftrar og óskipulagðrar umferðar ökutækja og mannvirkjagerðar sem allt of víða blasir við. Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Suðurlands  skorar á umhverfisráðherra og stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs að standa vörð um metnaðarfulla, nýstaðfesta Verndaráætlun þessa stærsta þjóðgarðs Evrópu.  Greinargerð:

Mikilvægt er að að horfa til langrar framtíðar varðandi hálendi Íslands, víðerni, mannvirkjagerð og að vélvæddri útivist verður að setja skorður, rétt göngufólks á fáförnum opnum landsvæðum skal virða. Akstur utan vega er verulegt vandamál á hálendi Íslands. Á hverju sumri koma hópar fólks á óskráðum vélhjólum og aka án hiks um viðkvæm gróðursvæði á suðurhálendinu. Uppi eru áform um að láta undan skammsýnum kröfum fámenns hóps jeppafólks um að aka megi um Vonarskarð og að þeir fái að aka leið sem þeir bjuggu til norðan Dyngjufjalla. Líklegt er að ef gefið verður eftir hvað varðar framangreindar umferðarleiðir og þær opnaðar aftur, þá muni í kjölfarið verða sótt í að gerð verði ökuleið um Þjórsárver og Arnarfellsmúla og víðar. Því er afar mikilvægt að hvergi verði bakkað frá ákvæðum Stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs um umferðarleiðir ökutækja og veiðifriðland við Snæfell og Eyjabakka.

Ég geri þá athugasemd við þessa greinargerð að ég veit ekki til þess að það séu uppi nein "áform um að láta undan" kröfum sem ég vissulega tek undir að séu skammsýnar. Það er hins vegar verið að ræða við fulltrúa fjölmennra hópa útivistarfólks um samgöngur í garðinum, og þar er ekkert sérstakt undanskilið til umræðu. Ég segi þetta af því ég hef setið fundi í stjórn þjóðgarðsins undanfarið hálft ár.

Eðlilegt að er náttúruverndarsamtök láti nú í sér heyra um þetta mál og ég tek undir sjónarmiðin sem í áætluninni birtast að öðru leyti en því að það séu uppi áform um að opna á ný einhverjar leiðir. Reyndar er rangt hjá Náttúruverndarsamtökum Suðurlands að einhvern tíma hafi verið opin leið norðan Dyngjufjalla - en það er nú kannski útúrsnúningur hjá mér að benda á það. Það var tekin ákvörðun í Stjórnunar- og verndaráætluninni að opna ekki slíka leið og engin sérstök eftirspurn var eftir henni þegar unnið var að áætluninni.

Það kunna að vera fleiri staðir sem kemur til álita að opna akstur um með ströngum skilyrðum. En vonandi koma fram markvissar tillögur frá samráðshópnum á vegum þjóðgarðsins.


Sjálfbærni í aðalnámskrám

Birt hefur verið greinin Curriculum analysis and education for sustainable development in Iceland í tímaritinu Environmental Education Research, 17(3), 375-391. Höfundar eru Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Kristín Norðdahl, Gunnhildur Óskarsdóttir, Auður Pálsdóttir og Björg Pétursdóttir. Greinin er ein af afurðum verkefnisins GETA til sjálfbærni - menntun til aðgerða á vef GETU: skrif.hi.is/geta 

Abstract The article explores how the Icelandic public school curriculum for early childhood, compulsory and upper secondary school deals with education for sustainable development. As the curriculum does not often mention the term sustainability, a key with which to investigate signs of education for sustainable development in the three curricula was created. The key encourages a holistic view of sustainable development, where economic, environmental and social factors are not treated as separate entities. It was designed to reflect the goals of the United Nations Decade of Education for Sustainable Development (2005-2014) with research on environmental education and education for sustainable development in mind. The key has seven characteristics: values, opinions and emotions about nature and environment; knowledge contributing to a sensible use of nature; welfare and public health; democracy, participation, and action competence; equality and multicultural issues; global awareness; and finally, economic development and future prospects. Using the key, a variety of signs and indicators that provide a space for teachers and schools to deal with issues of sustainable development were identified.

To link to this Article: DOI: 10.1080/13504622.2010.545872

URL: http://dx.doi.org/10.1080/13504622.2010.545872


Sjálfbærnimenntun - þekking og hugarfar

Málfundur á vegum GETU-verkefnisins sem ber yfirskriftina Þekking og hugarfar: Geta til aðgerða – Menntun til sjálfbærni verður haldinn föstudaginn 20. maí í stofu H207 í húsnæði Menntavísindasviðs HÍ við Háteigsveg. Málþingið hefst klukkan 12:45 og lýkur klukkan 17:00.

Sjá nánari dagskrá.


Geta grasafræðiteikningar verið listaverk?

Ég hef fylgst með fáránlegri deilu um hvort hafi verið rétt af útgefanda bókar með teikningum Eggerts Péturssonar að krefjast þess að það að drullumalla eintak af bókinni og sýna það sem listaverk annars fólks væri brot á sæmdarrétti höfunda. Hef verið þeirrar skoðunar að útgefandi og höfundur hafi dregið óþarfa athygli að drullumölluninni og e.t.v. gert það að því "verki" (eða gjörningi - ég læt listgildið algerlega liggja milli hluta, plagar mig hvorki til né frá) sem það hlýtur að vera orðið núna.

Ég fylgdist svo höfundi "nýja verksins" í Kastljósinu í gærkvöldi kalla verk Eggerts grasafræðiteikningar og þess vegna líklega engin listaverk. Ég man til þess að ég hreifst af teikningum Eggerts á sínum en tókst aldrei að "nota" þær til að þekkja í sundur jurtir. Þetta var löngu áður en Eggert varð jafnþekktur fyrir málverk sín og hann er í dag. En skyldi Hannesi Lárussyni, sem var langt frá að vera auðmjúkur eða hógvær í Kastljósinu, hafa tekist það?


Alþjóðleg kynjafræðiráðstefna í Reykjavík

RÁÐSTEFNUKALL KALLAÐ EFTIR TILLÖGUM AÐ FYRIRLESTRUM OG MÁLSTOFUM Alþjóðleg afmælisráðstefnaRannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK)Háskóla Íslands, 4.–5. nóvember 2011 Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK) boðar til alþjóðlegrar ráðstefnu dagana 4.–5. nóvember 2011 í tilefni af 20 ára afmæli stofnunarinnar og 100 ára afmælis Háskóla Íslands. Afmælisráðstefnan er fimmta yfirlitsráðstefnan um kvenna- og kynjarannsóknir sem hefur verið haldin við Háskóla Íslands. Áhugahópur um íslenskar kvennarannsóknir skipulagði fyrstu ráðstefnuna árið 1985, en hann stóð einnig að stofnun Rannsóknastofu í kvennafræðum (nú RIKK) árið 1991. Í tilefni aldarafmælisins verða í öndvegi málstofur helgaðar því að 100 ár eru liðin síðan lög voru sett um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og embætta og svo um framlag kvenna til stofnunar Háskóla Íslands. Á ráðstefnunni verður einnig sérstök áhersla lögð á umhverfismál.  Á meðal erlendra gesta verða Joni Seager, prófessor í hnattrænum fræðum við Bentley-háskóla í Bandaríkjunum sem mun halda lykilfyrirlestur um loftslags- og umhverfismál; Cynthia Enloe, rannsóknaprófessor í alþjóðastjórnmálum við Clark-háskóla í Bandaríkjunum sem mun flytja fyrirlestur um kynjuð öryggismál; og þátttakendur í norrænu netverki um kyngervi, líkama og heilsu (e. Gender, Body, Health). Hér með er kallað eftir tillögum að málstofum og fyrirlestrum á  öllum fræða- og rannsóknasviðum.  Eftirfarandi tillögur að málstofum eru þegar komnar fram: Þáttur kvenna í stofnun Háskóla Íslands og aldarafmæli laga um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og embætta; Umhverfi, sjálfbærni og loftslagsbreytingar; Alþjóðastjórnmál, öryggi og ófriður; Landafræði hreyfanleika og einangrunar Ísland, Evrópa og fjölmenning; Menntun og störf; Kreppa, uppgjör og uppbygging; Heilsa og  líkami. Ráðstefnan er þverfagleg og margar málstofanna verða þverfræðilegar. Athugið að velkomið er að senda inn tillögur um bæði skyld efni og önnur efni. Útdráttum skal skila ekki síðar en 15. ágúst 2011. Vinsamlega sendið útdrætti á rikk@hi.is. Sjá frekari upplýsingar á www.rikk.hi.is.  Í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar sitja: Annadís G. Rúdólfsdóttir, námsstjóri Alþjóðlegs jafnréttisskóla við Háskóla Íslands og doktor í félagssálfræði, Anna Karlsdóttir, lektor í landafræði og ferðamálafræði, Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor í menntunarfræðum, Irma Erlingsdóttir forstöðumaður RIKK og framkvæmdastjóri EDDU - öndvegisseturs, og Kristín Björnsdóttir prófessor í hjúkrunarfræði. Hildur Fjóla Antonsdóttir (hildurfa@hi.is), verkefnisstóri hjá RIKK, stýrir undirbúningi ráðstefnunnar.  Á meðal samstarfsaðila við skipulagningu ráðstefnunnar eru Jafnréttisstofa, Kvennasögusafnið, Stofnun Sæmundar fróða, Alþjóðamálastofnun, EDDA - öndvegissetur og Alþjóðlegur jafnréttisskóli við Háskóla Íslands.   CALL FOR PAPERS AND/OR PANELS International Anniversary ConferenceCentre for Women‘s and Gender Research (RIKK)University of Iceland, 4–5 November 2011 The Centre for Women’s and Gender Research (RIKK) at the University of Iceland will host an International Conference on 4-5 November to celebrate RIKK’s 20th anniversary and the University’s centennial. RIKK’s Anniversary Conference is the fifth conference on women’s and gender research to be convened at the University of Iceland. The first conference was organized in 1985 by a group of feminist academics interested in women’s research in Iceland. They later went on to found the Center for Women’s Research (now RIKK) at the University in 1991. To mark the occasion of the University’s centennial, panels will be held dedicated to the 100th anniversary of women’s rights to higher education and to hold public offices and to women’s contribution to the founding of the University of Iceland. The conference will further include a special focus on gender and the environment. Amongst visiting scholars will be Joni Seager, professor of Global Studies at Bentley University in the United States, who will give a keynote address on gender, climate change and environmental issues; Cynthia Enloe, Research Professor at the Department of International Development, Community, and Environment and Women’s Studies at Clark University in the United States, who will give a lecture on gender and security; and participants in the Nordic Network Gender, Body and Health. Submissions for papers and/or panels from a broad range of disciplines and fields of research are welcome. Topics can include, but are not limited to: The 100th Anniversary of Women’s Rights to Higher Education and to hold Public Offices as well as Women’s Contribution to the founding of the University of Iceland; Environment, Sustainability and Climate Change; International Relations, Security and Conflict; Geography of Mobility and Isolation; Europe and Multiculturalism; Education and Employment; Crisis, Reform and Reconstruction; Health and Body. The conference is interdisciplinary and many of the panels will be interdisciplinary as well.  One page abstracts are due 15 August 2011. Please submit your abstracts to rikk@hi.is. More information will be available at www.rikk.hi.is.  Preparation Committee: Kristín Björnsdóttir, Professor of Health Sciences, Guðni Elísson, Professor of Comparative Literature, Irma Erlingsdóttir, Director of RIKK and Director of EDDA – Center of Excellence, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Professor of Educational Studies, Anna Karlsdóttir, Assistant Professor of Human Geography and Tourism Studies and Annadís G. Rúdólfsdóttir, Studies Director for the Gender Equality Studies and Training Programme and Doctor of Social Psychology. Hildur Fjóla Antonsdóttir, Project Manager at RIKK, is in charge of the conference management.   The conference is hosted in collaboration with The Center for Equality, Women's History Archives, Institute of International Affairs, Institute for Sustainable Development, EDDA – Center of Excellence and the GEST – Gender Equality Studies and Training Programme at the University of Iceland. 

Faglegar mannaráðningar og kynjagleraugu

Nú eru nokkrir dagar liðnir síðan Kærunefnd jafnréttismála birti úrskurð sinn þar sem fram kom að forsætisráðuneytið hefði brotið lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá árinu 2008. Mikið hefur málið verið rökrætt og mannauðsráðgjafi forsætisráðuneytisins jafnvel haldið því fram að þau skilaboð felist í úrskurði Kærunefndar að það "eigi ekki að vinna faglega að undirbúningi ráðninga hjá hinu opinbera" (sjá frétt Morgunblaðsins og greinargerð mannauðsráðgjafans) á http://www.mbl.is/media/02/2802.pdf). - Það er svo sem alveg óhætt að nefna nafn mannauðsráðgjafans; hún heitir Arndís Ósk Jónsdóttir.-

Það er mikil reginfirra hjá Arndísi að slík skilaboð felist í úrskurðinum, rétt eins og við lestur gagna málsins, þ.m.t. úrskurðar Kærunefndar, má líka sjá að "faglega" hefur verið staðið að þessu hjá henni; Arndís, ráðuneytisstjórinn og aðrir ætluðu að vanda sig. Hvort var búið að ákveða að sá sem var ráðinn fengi starfið er ekki augljóst þótt ég hafi séð ýjað að því (sjá frétt Morgunblaðins þar sem vísað er til orða Ólafs Þórs Gunnarssonar varaþingmanns vinstri grænna, og minnir reyndar endilega að ég hafi séð hið sama í fréttaskýringu blaðamanns Moggans en finn ekki núna á Netinu). Mér dettur ekki einu sinni í hug að Arndís hafi verið þátttakandi í því.

Miklu augljósara er af greinargerð mannauðsráðgjafans, út frá algerri þögn um kyn í þeirri greinargerð, að hún og ráðuneytið "gleymdu" lögunum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það er ekki smekksatriði hvort kyn er meginbreyta við ráðningar heldur lagaskylda. Það hefur bersýnilega ekki verið farið yfir gögnin í ráðningarferlinu út frá því hvort einhver af konunum sem sótti um yrði kannski metin hæfari eða jafnhæf ef til kasta úrskurðarnefndar kæmi. Eða var haldið að það væri nóg að Anna Kristín væri númer 5 í því mati til að svo einfaldlega yrði hægt að ganga fram hjá henni? 

Ég sé ekki betur en að lærdómurinn af þessu máli hljóti vera sá að kynjagleraugu sé meðal faglegra tækja og vinnubrögð við ráðningar, án kynjagleraugna, sé ófullnægjandi, faglega séð. En ella beiti forsætisráðherra sér fyrir breytingu á löggjöfinni. Ef notkun kynjagleraugnanna fjölgar ráðningum kvenna í störf þar sem karlar eru í meirihluta er það vegna þess að þau þarf meðal faglegra tóla og tækja; ef þau breyta engu í því efni, þá skaða þau heldur ekki önnur fagleg tól og tæki - en lagaskyldum hefur verið fylgt.

[Fann frétt um strákaplottið á Eyjunni sem Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra mótmælir annars staðar en bendir á að sá sem var ráðinn sé vissulega ágætur samstarfsmaður. Meint "strákaplott" er reyndar þekkt úr kynjafræðilegum rannsóknum og engin ástæða til að gera lítið úr slíkum möguleika. Ekki einu sinni víst að það sé meðvitað ferli í mörgum tilvikum - og þar af leiðandi ekki plott. En það má samt ekki breyta aðalatriðum málsins í deilur um hvort Hrannar hafi skipt sér með einhverjum óeðlilegum hætti af þessu ráðningarferli heldur vil ég að þeir sem standa að ráðningum noti kynjagleraugun eins og lögskylt er.]


Mengun í Eyjafirði

Og hvað á maður svo sem að segja nú þegar kemur í ljós að verksmiðjan mengar og mengar og eftirlit af hennar eigin hálfu og hins opinbera er í molum? Jú, rifja upp grín frá því í september 2007 þegar ég var talinn úrtölumaður að gera grín að orðfærinu um verksmiðjuna:

"Ál-aflþynnuverksmiðjunni á Akureyri hefur verið sunginn hár lofsöngur undanfarið. Framleiðslan er "sérhæfð hátækni sem losar ekki gróðurhúsalofttegundir en skapar um 90 ný gæðastörf. Hráefnið er valsað og afar hreint hágæðaál ... rafhúðað í sérhönnuðum vélasamstæðum". Og ekki nóg með það heldur er afurðin, aflþynnur, líklega notuð í "háspenntari þétta með mikinn áreiðanleika ..." sem vaxandi eftirspurn er eftir. Það vill svo vel til að Becromal, fyrirtækið sem reisir verksmiðjuna, er leiðandi við að búa til aflþynnur í einmitt slíka þétta (Vikudagur, 16. ágúst sl.). Gott að þetta eru ekki neinir ómerkingar, þessir hálf-eyfirsku þéttar, og ánægjulegt að um er ræða að ræða gæðastörf.

Þá er okkur er lofað að þessi 75 MW muni ekki leiða af sér nýjar virkjanir og þá auðvitað hvorki með eða án náttúruspjalla enda þótt rafmagnið samsvari 10% aukningu í eigin raforkuframleiðslu Landsvirkjunar frá síðasta ári (sama heimild). En þarf þá ekki einhvers staðar að virkja vegna almennrar aukningar? Og einhvern veginn hefur mér fundist loforðið um að verksmiðjan losi ekki gróðurhúsalofttegundir jafngildi því að hún mengi ekki, en ég hef ekki séð mikið um slíkt í fjölmiðlum. Vonandi kemur það þó allt fyrir augu almennings í mati á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar þannig að auðvelt sé að bera starfsemina saman við hverja aðra starfsemi hvað það varðar." Sjá: http://ingolfurasgeirjohannesson.blog.is/blog/ingolfurasgeirjohannesson/entry/304876/

Það kemur sem sé í ljós að þetta er bara miklu verra en mér datt í hug að sjá fyrir. Ég var ekki nógu mikill úrtölumaður, ég var enginn úrtölumaður. Ég sneri bara út úr.

Mengun er fleira en gróðurhúsalofttegundir. Og hvað með allt þetta eftirlit - nú skilst mér að ekki hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum og almenningi því ekki gefinn kostur á gagnrýni.

Hvað með aðra eftirlitsskylda starfsemi? Eða er þetta bara af því að það eru Ítalir og Eyþór Arnalds sem eiga þetta sem eftirlitið brást?

 


Raddir barna - skóli án aðgreiningar

Dagskrá ráðstefnu í húsi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð fimmtudaginn 31. mars 2011 - gengið inn frá Háteigsvegi

13:30-13:40 Setning.   Ávarp - Oddný Sturludóttir, formaður Menntaráðs Reykjavíkurborgar
13:40-14:05 Raddir barna af barnafundi. Kynning á rannsókn – Ragnheiður Axelsdóttir M.Ed. Sérkennari
14:05-14:10 Innslag.  Viðtal við grunnskólabörn
14:10-14:30 Að virða börn. Um réttindi barna. Dr. Gunnar Finnbogason, prófessor við Menntavísindasvið
14:30- 15.00 Kaffi
15:00-15:20 Rödd unglinga – hvernig á skólinn að vera. Fyrstu niðurstöður úr spurningakönnun meðal unglinga í 20 grunnskólum. Dr. Amalía Björnsdóttir, dósent við Menntavísindasvið
15:20-15:40 Hrannar Halldórsson Bachmann 15 ára
15:40-15:45 Innslag. Viðtal við unglinga í framhaldsskóla
15:45-15:55 „Leikskólagangan af sjónarhóli barna“. Dr. Jóhanna Einarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið
15:55-16:00 Innslag. Viðtal við leikskólabörn
16:00-16:15 Ráðstefnulok, Dr. phil. Dóra S. Bjarnason, prófessor við Menntavísindasvið og forstöðumaður Rannsóknarstofu um skóla án aðgreiningar

Ráðstefnan er styrkt af Menntavísindasviði HÍ, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Kvikmyndaskóla Íslands.

Sjá meira: http://www.hi.is/vidburdir/hlustid_a_okkur_radstefna_rannsoknarstofu_um_skola_an_adgreiningar


Atli Gíslason og baráttan gegn eyðileggingu náttúrunnar

Ég vona að þeir vinstri grænir sem hvetja Atla Gíslason til að víkja af þingi muni halda uppi ótrauðir baráttu gegn virkjunum sem myndu skemma náttúru Suðurlands og Reykjanesskagans. Atli hefur fullt umboð mitt til að standa í þeirri baráttu. Fáir stjórnmálamenn hafa staðið sig betur en Atli í þessum málaflokki. Að hinum ólöstuðum.

Ég er samt ekki ánægður með þá framgöngu að Atla að segja sig úr þingflokknum. Nú er fyrir okkar ágæta þingflokk að standa sig í náttúruverndarmálum. Ég vona að Atli og þingflokkurinn geti unnið saman í þeim málaflokki.


Engin afsökun!

„Engin afsökun fyrir þvermóðsku og heimóttarskap að  vera úr Mývatnssveit“: Um skrif Öðlingskarlanna í Fréttablaðið

Ávarp á málþinginu STAÐA KONUNNAR ER LAUS TIL UMSÓKNAR sem haldið var á Grand Hótel af samtökum stéttarfélaga, Jafnréttisráði og Jafnréttisstofu í hádeginu 8. mars 2011 – birt lítið breytt en án styttingar sem var 

Ég varð fyrst var við blaðagreinaherferðina „Öðlingurinn“ á Facebook, fljótlega eftir að hún hófst. Þar birtust annars vegar stöðuuppfærslur þar sem Facebook-vinir tjáðu aðdáun sína á efni greinanna og hins vegar ábendingar um það að konur hefðu fyrir löngu sagt það sem viðkomandi karl sagði, en þá hefði enginn hlustað. Ég lagði við hlustir, ef svo má að orði komast um blaðagreinar sem birtast á prenti og á vefsíðu. Og fór að lesa. Ekki það að ég hefði ekki lesið fjöldann allan af blaðagreinum um jafnréttismál eftir margar konur og nokkra karla.  

Ég var síðan af aðstandendum þessa fundar beðinn um að tala í dag um orðræðu karla í tengslum við jafnréttismál. Fyrirspurnin snerist um hvort hægt væri að draga saman og greina pistlana sem birtast undir yfirskriftinni Öðlingur.  

En hvað er Öðlingurinn? Á visir.is stendur þetta: Öðlingurinn 2011 er vitundarvakning. Átakið stendur yfir í mánuð, frá bóndadeginum (21. janúar) til konudagsins (20. febrúar).  Markmið þess er að stuðla að opinni umræðu um jafnrétti kynjanna á Íslandi. Nánar á heimasíðu átaksins, odlingurinn.is. Og hvað kemur þá fram á þeirri síðu: „Öðlingsátakið var stofnað árið 2011 af Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur, höfundi bókarinnar Á mannamáli. Söluágóði bókarinnar rann beint í baráttuna gegn kynferðisofbeldi, sem liður í Öðlingsátakinu. Öðlingar ársins 2010 unnu margvísleg sjálfboðastörf og héldu m.a. uppboð til styrkar Neyðarmóttöku vegna nauðgana. Á mannamáli og Öðlingsátakið leiddu til þess að Þórdís Elva var tilnefnd til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins 2010“ (sjá odlingurinn.is). Enn fremur: „Röksemdafærslan fyrir því að einungis karlmenn voru beðnir um að skrifa … pistla er sú að raddir kvenna hafa verið sterkari en raddir karla í umræðunni um kynbundið misrétti.

Öðlingsátakið er því tilraun til að rétta hlut karla og ljá þeim rödd – ekki síst til að sýna að allir eru velkomnir í umræðuna um þetta mikilvæga málefni.“ Fram kemur að öðlingar ársins séu m.a. úr röðum rithöfunda, feðra, slagorðasmiða, plötusnúða, leikskólakennara, tónlistarmanna, sjómanna, heimspekinga, nema, unglinga, viðskiptafræðinga, leikara, presta, guðfræðinga, leikstjóra, dagskrárgerðarmanna, skálda og líkamsræktarþjálfara (sjá vefsíðuna http://odlingurinn.is/odlingsatakid.html)

Mig langar að velta tvennu fyrir mér: Annars vegar hver sé umgjörð þessa átaks og af hverju þarf að „rétta hlut karla og ljá þeim rödd …“, af hverju þurfi að sýna körlum sérstaklega að þeir séu velkomnir í jafnréttisumræðuna. Hins vegar að skoða svolítið greinarnar og velta fyrir mér innihaldi þeirra. 

Umgjörð 

Ég velti fyrir mér forsendunni: Af hverju þarf að sýna körlum að þeir séu velkomnir? Hafa dagblöðin – eða vefsíðurnar – verið eitthvað sérstaklega lokuð karlmönnum til að skrifa í? Ekki kannast ég nú beinlínis við það, byrjaði að skrifa í dagblöðin fyrir meira en 30 árum og held að mér hafi aldrei verið meinað að skrifa þar, en þori þó ekki alveg að fullyrða að það. 

Eru karlmenn ekki velkomnir í jafnréttisumræðuna? Ég hef persónulega reynslu af allt öðru. Ég kannast ekki við annað en ég hafi verið velkominn í jafnréttisumræðuna, jafnvel sóst eftir mér. Ég held að karlar sem hafa viljað tjá sjónarmið sín um jafnréttismál kynjanna hafi ekki átt neitt erfitt með að koma sjónarmiðum sínum að. Ég er eiginlega sannfærður um að við fáum stundum ríkari hljómgrunn en kvenkyns femínistar. Það hefur komið fyrir að eitthvað sem ég sagði virtist vega þyngra í mínum munni en kvenna. Þetta á einkum við ef ég greini frá dæmum um ójafnt valdajafnvægi karla og kvenna í samfélaginu. Ég fæ hroll þegar það kemur fyrir. Ég vil auðvitað að eftir mínum orðum sé tekið – en ekki á kostnað annarra. Og ekki á þeim grundvelli að sjónarmið mín séu óhlutdrægari en sjónarmið kvenna og kvenkyns femínista.  

Er körlum hampað með þessu átaki? Er tilteknum körlum hampað? Það kann vel að vera að það þurfi „átak“ til að fá karla til að skrifa svona margar greinar um jafnréttismál á stuttum tíma. Ég hugsa að það þyrfti líka átak til þess að fá 31 konu til þess arna. Það er talsvert verk og alls ekki ómerkilegt að skipuleggja greinaskrif af þessum toga. 

Líklega er stærsti kosturinn við þessar greinar er liðskönnunin. Eftir þessa könnun vitum við af a.m.k. 31 karli, og þótt ég hafi vitað um allmarga þeirra að þeir væru liðsmenn femínismans – þá vissi ég ekki að sumir þeirra væru það. Ég vissi jafnvel ekki að fjórir þessara karla væru yfirleitt til, það er Darri Johansen viðskiptafræðingur, Bjartmar Þórðarson leikhúslistamaður, Karvel A. Jónsson félagsfræðingur og Sigurður Páll Pálsson geðlæknir. Níu aðrir mér ókunnir sem liðsmenn femínískrar baráttu, t.d. vissi ég hvorki um Margeir St. Ingólfsson plötuspilara né Berg Ebba Benediktsson lögfræðing að þeir væru í mínu liði. Vonandi munu allir þessir sem ég nefnt og hinir 25 líka leggjast enn harðar á sveifina með öðrum körlum sem hafa verið nokkuð virkir í skrifum og rannsóknum. Að ógleymdum tugum, hundruðum og þúsundum kvenna. Ég spyr: Koma svo greinar eftir 31 kvenskörung? 

Innihald 

Hvað er í greinunum? Um hvað eru greinarnar? Stíll þeirra tilheyrir líka innihaldi þeirra í tilviki eins og þessu, það er hvernig þær eru skrifaðar. 

Ég settist niður með greinarnar og las – fyrst þær 20 fyrstu. Ég reyndi að átta mig annars vegar á hvert væri megininntak greinanna, helsta eða helstu þrástef hverrar. (Þrástef er greiningarhugtak sem ég nota gjarna og merkir einfaldlega það sem þráfaldlega kemur fyrir eða er sérstakt áhersluatriði sem sker sig úr í málflutningnum eða orðræðunni.) Ég reyndi að finna það stef eða þau stef sem einkenndu málflutninginn. Ég reyndi auðvitað að máta þessi þrástef við þrástefin í kynjajafnréttisbaráttunni.  Ég las síðustu 11 greinarnar nokkurn veginn jafnóðum og svo allar, það er 31 grein, í einum rykk skömmu síðar og freistaði þess þá að flokka hverja aðeins í einn eða tvo flokka eða í mesta lagi þrjá, eftir inntaki. Ég skráði 59 þrástef – eitt í sumum greinum og tvö og þrjú í öðrum. Erfiðara er að átta sig á stílbrigðum þeirra og hvað má lesa út úr þeim. Reyndi þó að átta mig á því sérstaklega hvort og hvernig einhverjar þeirra væru skrifaðar í hálfkæringi og hvort háði væri markvisst beitt og hvernig. Háð og hálfkæringur eru því eitt þrástefið. 

Aðrir helstu efnisflokkar – eða þrástef – reyndust vera staðalímyndir, laun, ofbeldi, málnotkun, klám og hlutgerving, hvatning til karla um ábyrgð, vald og valdajafnvægi, að konur skiptist í hópa, femínistahatur gert að umtalsefni og kvennabaráttan sem fordæmi. Loks sá ég að einn greinarhöfundanna skrifaði meira um réttindi feðra en annað. Við endurlesturinn bættust við þemun gagnrýni á þögn, ábyrgð kvenna á gangverki fjölskyldna og gagnkynhneigt forræði. Gagnrýni á þögn og þegjandi samþykki gagnvart misréttinu var eitt slíkt meginstef hjá þremur höfundum en ábyrgð kvenna á gangverki fjölskyldna aðeins hjá einum. Þá held ég að aðeins einn höfundur hafi nefnt gagnkynhneigt forræði í samfélaginu. Mér sýndist reyndar að fleiri þemu gætu komið í ljós, svo sem eins og virðing fyrir konum, næstum því upphafin virðing. En ákvað lesa þær ekki einu sinni enn heldur láta þessa greiningu duga að sinni. (Það væri reyndar gaman að fá aðra til að lesa þær með hliðstæðum greiningarlykli.) 

Þau þrástef sem koma oftast fyrir reyndust vera, í fyrsta sæti háðið og hálfkæringurinn sem stíll greinarinnar eða sem áberandi stílbragð með öðrum þemum. Önnur stef sem komu fyrir a.m.k. fimm sinnum eða oftar sem eitt af einu, tveimur eða þremur meginstefjum voru vald og valdajafnvægi, staðalímyndir, laun, ofbeldi og hvatning til karla um ábyrgð. Önnur stef komu sjaldnar fyrir og mest var ég reyndar hissa á því hversu klámið, hlutgerving á konum og klámvæðingin voru sjaldan þess háttar meginstef.

Hatur gagnvart femínistum var meginstef í fjórum greinum og kvennabaráttan sem fordæmi í þremur greinum. Sigurður Magnússon matreiðslumaður, Öðlingurinn sem talaði við á Jafnréttisþinginu, ræddi sérstaklega hag karla af kvennabaráttunni, þema sem mér hefur lengi verið hugleikið. 

Í meira og minna öllum greinunum kemur vel fram að kynjakerfið – þótt það orð sé sjaldnast notað – er óréttlátt í garða kvenna og að karlar geti hagnast á því að svo sé og að þessu þurfi að breyta. Snæbjörn Ragnarsson, án atvinnutitils, leggur þó til að fest verði á einhvern hátt í sáttmálum samfélagins að konur fái 80% af meðallaunum karla í hverju starfi fyrir sig og að 20% kvenna verði fyrir kynferðislegri misnotkun áður en þær verða 20 ára ásamt fleiru slíku (29. janúar). Hann bendir á að flest okkar hafi samþykkt þetta í reynd nú þegar. 

Lokaorð 

Þórdís Elva, frumkvöðull greinanna, var í viðtali í útvarpsþætti á Rás 1 þann 21. febrúar sl., daginn eftir að átakinu lauk. Hún viðurkennir að rithöfundaslagsíða hafi verið á greinunum enda skrifi rithöfundar betur en aðrir og séu skilvirkari en aðrir, væntanlega við að skila af sér því sem beðið er um að sé skrifað. Að þeir Hugleikur og Andri Snær hafi verið mest lesnir. Þeir reyndar notuðu klámið sem þema. Báðir gerðu reyndar hatur gagnvart femínistum að umtalsefni og Hugleikur gerir kynhegðun femínistastúlkna skil. Mögulega er hið síðastnefnda þó stílbragð. 

Greinarnar sem slíkar bæta ekki miklu við þekkingu í jafnréttismálum, og í mörgum er ekki vísað í neinar rannsóknir eða aðrar haldbærar upplýsingar, þótt aðrir vísi í rannsóknir, bæði út og suður. Líklegt – ég veit ekki hversu líklegt er – að einhverjar greinanna hafi opnað augu annarra fyrir hinu órökrétta í valdajafnvægi karla og kvenna, augu sem annars hefðu haldið áfram að vera lokuð. Slíkt er að sjálfsögðu jákvætt. Einhverjar staðreyndir voru mér áreiðanlega áður ókunnar; einhver hnyttni kemur fram sem ég hafði ekki séð áður. Einmitt þess vegna er mikilvægt að liðsmaðurinn 31 láti ekki staðar numið eftir að hafa verið „ljáð rödd“, svo ég vitni aftur í orð Þórdísar Elvu þegar átakið var kynnt. Einmitt þess vegna er mikilvægt að „átakið“ haldi áfram með þátttöku beggja kynjanna. 

Yfirskrift erindisins er sótt í fyrri hluta lokamálsgreinar Svavars Knúts, tónlistarmanns, í öðlingsátakinu (12. febrúar 2011). Ekki veit ég hvort hann er ættaður úr Mývatnssveit, eða hvort hann virkilega heldur að Mývetningar séu þvermóðskufyllri og heimóttarlegri en aðrir Íslendingar. Mér fannst þetta bara tilvalinn titill fyrir mig, drenginn úr Mývatnssveit, sveitadrenginn sem upplifði róttæka pólitík Kvennalistans á þeim tíma sem ég varð þrítugur og lærði svo femínísk fræði í Bandaríkjunum. Lokaorð Svavars Knúts voru þannig . Ég endurtek þau: „Rétt eins og það er engin afsökun fyrir þvermóðsku og heimóttarskap að vera úr Mývatnssveit, þá er engin afsökun fyrir að líða eða ástunda ofbeldi, bara af því við erum mennsk.“


Staða konunnar er laus til umsóknar

Í tilefni af 8. mars er fundur, sem heitir Staða konunnar er laus til umsóknar, á Grand Hótel í Reykjavík, dagskrá, matur og erindi frá 11:45-13:00. Þetta eru erindin:  
  • Löggjöf um mismunun og fjölþætt mismunun - Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands 
  • Konur í kreppu? – Niðurstöður athugunar á velferð kvenna fyrir og eftir efnahagshrun - Eygló Árnadóttir, sjálfstætt starfandi fræðikona -
  • „Engin afsökun fyrir þvermóðsku og heimóttarskap að vera úr Mývatnssveit“ – Um skrif Öðlingskarlanna í Fréttablaðið - Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands

Lífrænir neytendur

Fékk þetta sent í facebook-pósti TímiStaður
7. mars · 19:30 - 21:30
Norræna húsinu - stóra salnum
Sturlugötu 5
 
DAGSKRÁ
19:30 - Inngangsorð: Oddný Anna Björnsdóttir
19:40 - Kjör fundarstjóra og ritara
19:45 - Fundurinn formlega settur
19:50 - Erindi um mat og heilsu í iðnvæddum heimi: Dr. Kristín Vala
Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ
20:10 - Tillögur og umræður um fyrirkomulag samtakanna
20:40 - Hlé, skráning í framkvæmdanefnd og faghópa
21:10 - Kynning á framkvæmdanefnd og faghópum
21:20 - Almennar umræður
21:30 - Fundi slitið

Boðið verður upp á léttar lífrænt vottaðar veitingar/smakk.

Á staðnum verður upplýsingamiðstöð um lífrænan landbúnað og framleiðsluaðferðir.

Tilgangur samtakanna: Stuðla að aukinni framleiðslu og neyslu vottaðra lífrænna vara á Íslandi með velferð almennings, búfjár og umhverfisins að leiðarljósi.

Markmið samtakanna: Efla miðlun upplýsinga um lífrænar afurðir og framleiðslu þeirra, hvetja til aukinnar neyslu á vottuðum lífrænum vörum, vekja athygli á kostum lífrænna aðferða og nauðsyn bættrar meðferðar búfjár, veita markaðinum aðhald um bættar merkingar og aukið framboð lífrænna afurða, og stuðla þannig að heilbrigðum lífsstíl og heilnæmu umhverfi.

Í undirbúningsnefnd stofnfundarins eru:

Björg Stefánsdóttir: Skrifstofustjóri NLFÍ
Dominique Plédel Jónsson: Formaður Slow Food
Eygló Björk Ólafsdóttir: Slow Food og Vallanes/Móðir Jörð
Guðmundur R. Guðmundsson: Nefnd um Græna hagkerfið
Guðrún Helga Guðbjörnsd: Brautarstjóri garðyrkjuframleiðslu hjá LBHÍ
Guðrún Hallgrímsdóttir: Stjórnarmaður og formaður vottunarnefndar Túns
Guðrún Tryggvadóttir og Einar Bergmundur: Náttúran.is
Gunnar Á Gunnarsson: Framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns
Kristín Vala Ragnarsdóttir: Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ
Ólafur Dýrmundsson: Landsráðunautur í lífrænum landbúnaði
Oddný Anna Björnsdóttir: Stjfm Lifandi ehf og stofnandi SLN á FB
Sirrý Svöludóttir: Lífrænn bloggari og markaðsstjóri Yggdrasils

Hafa kennarar lítið hlutverk í framhaldsskólum?

Til hvers er ætlast af kennurum framhaldsskóla? Til hvers ætlast kennarar framhaldsskóla?

Erindi Ingólfs Ásgeirs Jóhannessonar prófessors við Háskólann á Akureyri og prófessors og brautarstjóra framhaldsskólakennslufræði við Háskóla Íslands á Málþingi um stöðu innleiðingar laga um framhaldsskóla, sem haldið var í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins þann 11. febrúar 2011 [frágengið því sem næst óbreytt frá textanum sem stuðst var við þegar erindið var flutt]

Sá sem talar núna hefur starfað sem framhaldsskólakennari, reyndar um fárra ára skeið fyrir aldarfjórðungi. Miklu lengur, eða í hartnær 20 ár, hef ég tekið þátt í að mennta framhaldsskólakennara og lengst af þeim tíma átt þátt í að móta hvað fólst í menntun þeirra, fyrst við Háskólann á Akureyri og nú við Háskóla Íslands. Það er að segja þann hluta námsins sem tilheyrir sjálfum starfsvettvangi kennara, þeim hluta sem oft er nefndur kennslufræði til kennsluréttinda og enn oftar kennsluréttindanám fyrir háskólafólk og iðnmeistara.

I.

Þegar ég fékk verkefnið að ræða til hvers er ætlast af kennurum í lögum um framhaldsskóla gáði ég í lögin (frá 2008). Ég komst að því í þeim segir mjög lítið um kennara og kennslu. Í fyrsta skiptið sem kennari er nefndur þá er tekið fram að „kennari, sem skipaður er skólameistari, skal fá leyfi frá kennarastarfi sínu þann tíma sem hann gegnir embætti skólameistara" (6. gr.).

Næst er tekið fram að kennarar eigi fulltrúa í skólaráði (7. gr.) og í þriðja skiptið sem kennarar eru nefndir er tekið fram að skólameistarar ráði þá og þeir séu ráðnir í samræmi við lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda (8. gr.).

Flest önnur ákvæði eru um formsatriði, svo sem um kennarafundi sem allir kennarar eiga seturétt á (10. gr.), áheyrnarfulltrúa kennara í skólanefndum (10. gr.) og námsorlof (11. gr.). Orlofið sjálft og það markmið þess að kennarar geti óskað eftir því „til að efla þekkingu sína og kennarahæfni", eins og það er orðað, eru reyndar engin léttvæg formsatriði en lagagreinin fjallar þó að mestu um formsatriðin við að sækja um orlof og að fá því úthluta.

Menntunarkröfur til kennara eru nefndar í þremur línum en greinin sem kveður á um undanþágu frá menntunarkröfum er fjórar línur (13. gr.).

Sú grein sem mér sýnist segja einna mest um kennarana er greinin um námsmat sem er „í höndum kennara, undir umsjón skólameistara" (30. gr.). Tekið er fram að „matið byggist á markmiðum skólastarfs sem kveðið er á um í aðalnámskrá og skólanámskrá". Í sömu grein kemur fram að „hlutverk skólasafns [sé] að vera upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara."

Loks er minnst á kjarasamninga kennara í grein um reiknilíkan (43. gr.).

II.

Er það gott eða slæmt að lögin um framhaldsskóla skuli ekki segja meira um kennara? Eykur það frelsi framhaldsskólakennara - eða veitir það kennurum lakari leiðsögn?

Ef ráða má af lögunum er það meginverksvið framhaldsskólakennara að gefa nemendum einkunnir. Og þótt mér finnist það þröngur skilningur, og þótt þetta kunni að vera útúrsnúningur, er þessi grein þó nokkuð afgerandi, a.m.k. svo lengi sem „undir umsjón skólameistara" er aðallega formsatriði.

III.

Lögin um framhaldsskóla eru ný - og það eru líka tímamót þegar meistaraprófs verður frá og með næsta sumri krafist af framhaldsskólakennurum. Og þótt skyldur kennara virðist, samkvæmt lögunum, ekki svo miklar má lesa miklu meira út úr almennum ákvæðum. Þær kröfur fara mjög saman við almennar tilhneigingar um hvers er krafist af fagmennsku allra kennara. Í grundvallaratriðum: Kennarar í framhaldsskólum eiga að gera meira en að kenna námsgreinina sína á hefðbundinn hátt. Þeir þurfa að skilja skólastarfið sem heild og þeir þurfa að mæta margvíslegum þörfum ólíkra nemenda með alls konar vonir og væntingar, þarfir og þrár.

Ég hef valið fjögur atriði úr lögunum til að nefna í þessu samhengi:

Í fyrsta lagi námskrárgerð og skólaþróun. Nú eiga skólar að semja eigin námskrár og fá þær staðfestar af menntamálaráðuneytinu. Og hver gerir það? Skólameistarinn sem ræður til þess námskrársérfræðinga? Nei, skólaþróun fer fram á heimavelli. Þetta er jákvætt við lögin - en mér sýnist það sannarlega geta krafist breyttra vinnubragða, meiri þekkingar og þjálfunar í námskrárgerð og mati á því hvernig breytingastarf tekst. Því auðvitað þarf að endurskoða námskrána reglulega. Við sem vinnum í kennaraháskólunum þurfum auðvitað að mæta þessum kröfum bæði í kennaranáminu og í tilboðum um símenntun og aðstoð við skólaþróun.

Í öðru lagi vil ég nefna þá kröfu laganna að nemendur með fötlun stundi nám við hlið annarra. Mér sýnist þetta gera kröfur um meiri fjölbreytni í kennsluaðferðum, meiri einstaklingsmiðun námsins og aukna þjálfun í samvinnu við annað fagfólk, svo sem þroskaþjálfa. Það getur vel verið að það verði ekki verkefni allra kennara að taka á móti nemendum með þroskahömlun inn í alla námshópa - en það verður líka mikilvægt að allir kennarar hafi þekkingu og áhuga á því að gera framhaldsskólann að skóla fyrir alla, án aðgreiningar.

Í þriðja lagi nefni ég móttökuáætlanir skóla fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku og undir sama hatti fjölmenningu. Undanfarnar vikur hef ég heimsótt sjö framhaldsskóla sem kennaradeild Háskóla Íslands hefur samstarf við. Í þessum heimsóknum hef ég kynnst mjög áhugaverðu starfi og aðlögun nemenda að því að stunda nám í íslenskum skóla og á íslensku. Í þeim skólum þar sem ég hef kynnst þessu starfi sérstaklega hafa tilteknir kennarar tekið að sér verkefni af þessum toga - og ég á von á því að það sé skynsamlegt. En um leið veita þeir öðrum kennurum ráðgjöf þannig að í senn snertir aukinn fjöldi innflytjenda á framhaldskólaaldri suma kennara meira en aðra en alla kennara eitthvað.

Allir framhaldsskólakennarar þurfa því þekkingu á íslenskunámi fyrir útlendinga og á fjölmenningu. Þess vegna ákvað Háskólinn á Akureyri að námskeið um fjölmenningu sem skyldu fyrir verðandi framhaldsskólakennara og þess vegna verður í boði námssvið innan meistaranáms í kennslufræði Háskóla Íslands þar sem verðandi framhaldsskólakennarar, sem mæta með bakkalárpróf í ólíkum greinum upp á vasann, geta sérhæft sig í fjölmenningarlegri kennslu sem auðvitað fer fram í skóla án aðgreiningar. Þessi námssvið, þvert á námsgreinar og skólastig, eru valkostur í samræmi við ákvæði í reglugerð númer 872 frá 2009 þar sem fjallað er um inntak menntunar kennara.

Loks vil ég nefna sjálfræðisaldurinn sem að vísu er nokkuð síðan hækkaði úr 16 árum í 18 ár. Sú breyting hefur krafist meira foreldrasamstarfs af skólunum - en ég tel að hún undirstriki að umhyggja er og verður alltaf hluti af starfi kennara. Umhyggja er reyndar líka hluti af starfi háskólakennara, grunnskólakennara og leikskólakennara (sjá nánari umfjöllun mína í fyrirlestri á málþingi Kennaraháskóla Íslands 2007: http://www.ismennt.is/not/ingo/umhy.htm).

Hækkaður sjálfræðisaldur tengist fræðsluskyldunni sem nú hefur verið lögð á skólana. Það gæti breytt því hvers konar umhyggja þarf að vera í öndvegi, ekki bara umhyggja fyrir góðu námi í eigin fagi, sem langflestir framhaldsskólakennarar hafa í ríkum mæli, heldur umhyggja fyrir nemandanum sem manneskju. Hér koma líka til auknar kröfur um foreldrasamstarf, sem vissulega getur orðið streituvaldur hjá öllum framhaldsskólakennurum eins og foreldrasamstarfið er oft á tíðum hjá nýbyrjuðum grunnskólakennurum.

IV.

Flest af því sem ég hef nefnt breytir kröfum til framhaldsskólakennara og þar með auðvitað til menntunar og undirbúnings þeirra. Ég hef um árabil í minni háskólakennslu til framhaldsskólakennaranema skotið inn, þar sem ég hef getað, litlum þætti um það sem ég kalla samfagleg sjónarmið. Á ensku er þetta cross-curricular - þvert námskrár.

Nú fer hugtakið „þvert" á eitthvað, í þessu sambandi, í taugarnar á mér því að mér virðist mikilvægara að leggja áherslu á að jafnrétti kynja, fjölmenning, upplýsingatækni, sjálfbær þróun, lýðræði og mannréttindi eru allt saman málefni sem varða allt skólastarf - ekki bara þvert á námsgreinar og skólastig heldur eru þetta sameiginleg verkefni. Þar með geri ég ekki lítið úr því sem einstakir sögukennarar eða náttúrufræðikennarar eru að gera, svo að ég nefni dæmi, heldur legg ég áherslu á að þessi viðfangsefni eru ekki einkamál neins kennarahóps. Rétt eins og flestir af hinum 18 viðmælendum Atla Harðarsonar úr hópi raungreina-, sögu- og stærðfræðikennara í framhaldsskólum telja sig að einhverju marki sinna almennum markmiðum og að kennslugreinar þeirra séu til þess fallnar að vinna að framgangi þeirra (nýbirt rannsókn í Tímariti um menntamál, 2010).

Í eldri námskrám var að því er ég best man líka tekið fram eitthvað í þá veruna að allir kennarar væru íslenskukennarar og ef það er rétt þá er íslenskan samfaglegs eðlis og ætti kannski ekki að kenna hana sem sérnámsgrein heldur samþætta hana stærðfræði, sögu, smíðum, hárgreiðslu og náttúrufræði. Slíkt er hlutskipti flestra annarra samfaglegra málefna að vera samþætt við námsgreinarnar - eða sleppt, eins og franski félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu varar við í viðmiðum sem hann vann að um námskrárgerð fyrir franska menntamálaráðherrann fyrir rúmlega 20 árum (Sjá greinina Principles for reflecting on the curriculum sem birtist á ensku í tímaritinu The Curriculum Journal, 1. árgangi, 3, hefti, bls. 307-314.)

Viðfangsefni mitt með kennaranemum, sem ég nefndi áðan, hefur falist í því að biðja þá að hugsa um tvennt: Hvað getur greinin mín lagt af mörkum við að stuðla að jafnrétti kynja eða sjálfbærri þróun - svo ég taki dæmi af þeim málefnum sem ég hef kynnt mér best? Hin spurningin hljóðar svo: Hvernig getur það að taka tillit til kynjajafnréttis og hugmynda um sjálfbæra þróun bætt námsgreinina og kennslu í henni? Raunar hef ég iðulega beitt spurningunum á lýðræði, fjölmenningu, upplýsingatækni og jafnvel íslenskuna.

V.

Í ljósi þessara samfaglegu þátta, sem ég hafði um árabil lagt áherslu á að faggreinakennarar hugsuðu um, fagnaði ég auðvitað skilgreiningu mennta- og menningarmálaráðherra, sem ég heyrði fyrst af í september 2009 á málþingi um menntun til sjálfbærni, á fimm grunnþáttum menntunar er námskrá og kennsla í leik-, grunn- og framhaldsskólum skyldi taka mið af. Það er læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, lýðræði og mannrétti, jafnrétti og sköpun. Segja má að þessi ákvörðun sé eins konar framlenging af löggjöfinni með því að taka tillit til annarrar löggjafar, svo sem til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og til alþjóðlegra sáttmála sem við höfum skuldbundið okkur með. Í nýjum sameiginlegum hluta aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla er þetta undirstrikað.

VI.

Einn af þessum þáttum eða í rauninni hluti af einum þættinum, jafnrétti kynjanna, er áhersluatriði í þingsályktunartillögu um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ári sem nú liggur fyrir Alþingi (Þskj. 401 - 334. mál). Í E-lið áætlunarinnar og atriði númer 27 er gert ráð fyrir að áföngum í kynja- og jafnréttisfræðum verði komið inn í framhaldsskóla og árin 2013 og 2014 verði veitt jafnréttisverðlaun til þeirra þátttakenda sem hafa sýnt mestan árangur. Ég geri ráð fyrir að það sé til þeirra skóla sem hafa sýnt sterkasta litinn í jafnréttismálum.

Atriði númer 28 fjallar um félagslíf í framhaldsskólum og skoðað verði hverjar birtingarmyndir framhaldsskóla séu í Ríkisútvarpinu. Atriði númer 29 snýst um samstillt átak starfsgreinaráða, skóla og atvinnufyrirtækja til að opna aðgang „hins kynsins" að starfsgreinum sem teljast annaðhvort kvennagreinar eða karlagreinar „samkvæmt hefð", eins og það er orðað.

Svo er í atriði 30 það sem varðar okkur í kennaraháskólunum: Hvetja á okkur til að innleiða námskeið í kynjafræði fyrir alla nemendur.

VII.

Hitt séráhugamálið mitt af samfaglegu málefnunum er sjálfbær þróun - það er að segja þetta málefni sem ég hef sett mig betur inn í en mörg af hinum samfaglegu málefnunum. Ríkisstjórnin gefur reglulega út ritið Velferð til framtíðar. Það var gefið út í þriðja sinn sl. sumar, það er sumarið 2010. Þar er sjálfbærnimenntun nefnd sem áhersluþáttur - í fyrsta skipti.

VIII.

Eigum við þá í kennaraháskólunum að hlaupa til ef það kemur slíkur pólitískur þrýstingur, eins og ég hef tilgreint, og birtist í grunnþáttunum, framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og stefnu ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun? Ef rannsóknir styðja þessa stefnu þá er svar mitt já - ekki að vísu við því að „hlaupa" heldur hlusta og taka tillit til.. Það er gríðarmikil þörf til þess að þjálfa kennara þannig þeir geti kennt um jafnrétti og mismunun og leiðbeint nemendum í leik-, grunn- og framhaldsskólum í átt til lýðræðis og sjálfbærni

Á að taka fram fyrir hendur kennara? Á ráðherra að neita að samþykkja námskrár framhaldsskóla nema þar séu áfangar um kynjafræði - eða sjálfbærnimenntun sé sýnileg sem þungamiðja skólastarfsins?

IX.

Á þessum nótum lýk ég erindinu. Það er bara hollt að það séu ekki allir sammála um hvort samfagleg málefni eigi að vera þungamiðja skólastarfsins. Samfaglegu málefnunum, eins og jafnrétti kynjanna, verður þó varla sinnt í hjáverkum eða þannig að kennarar geti bara vona að eitthvað komi út úr því sem þeir gera þegar þeir eru að kenna hefðbundnar námsgreinar. (Sjá meira um samfagleg málefni sem þungamiðju skólastarfs í fyrirlestri mínum á ráðstefnu skólaþróunarsviðs Háskólans á Akureyri 2009: http://www.ismennt.is/not/ingo/Sjalftung.htm).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband