Faglegar mannaráðningar og kynjagleraugu

Nú eru nokkrir dagar liðnir síðan Kærunefnd jafnréttismála birti úrskurð sinn þar sem fram kom að forsætisráðuneytið hefði brotið lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá árinu 2008. Mikið hefur málið verið rökrætt og mannauðsráðgjafi forsætisráðuneytisins jafnvel haldið því fram að þau skilaboð felist í úrskurði Kærunefndar að það "eigi ekki að vinna faglega að undirbúningi ráðninga hjá hinu opinbera" (sjá frétt Morgunblaðsins og greinargerð mannauðsráðgjafans) á http://www.mbl.is/media/02/2802.pdf). - Það er svo sem alveg óhætt að nefna nafn mannauðsráðgjafans; hún heitir Arndís Ósk Jónsdóttir.-

Það er mikil reginfirra hjá Arndísi að slík skilaboð felist í úrskurðinum, rétt eins og við lestur gagna málsins, þ.m.t. úrskurðar Kærunefndar, má líka sjá að "faglega" hefur verið staðið að þessu hjá henni; Arndís, ráðuneytisstjórinn og aðrir ætluðu að vanda sig. Hvort var búið að ákveða að sá sem var ráðinn fengi starfið er ekki augljóst þótt ég hafi séð ýjað að því (sjá frétt Morgunblaðins þar sem vísað er til orða Ólafs Þórs Gunnarssonar varaþingmanns vinstri grænna, og minnir reyndar endilega að ég hafi séð hið sama í fréttaskýringu blaðamanns Moggans en finn ekki núna á Netinu). Mér dettur ekki einu sinni í hug að Arndís hafi verið þátttakandi í því.

Miklu augljósara er af greinargerð mannauðsráðgjafans, út frá algerri þögn um kyn í þeirri greinargerð, að hún og ráðuneytið "gleymdu" lögunum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það er ekki smekksatriði hvort kyn er meginbreyta við ráðningar heldur lagaskylda. Það hefur bersýnilega ekki verið farið yfir gögnin í ráðningarferlinu út frá því hvort einhver af konunum sem sótti um yrði kannski metin hæfari eða jafnhæf ef til kasta úrskurðarnefndar kæmi. Eða var haldið að það væri nóg að Anna Kristín væri númer 5 í því mati til að svo einfaldlega yrði hægt að ganga fram hjá henni? 

Ég sé ekki betur en að lærdómurinn af þessu máli hljóti vera sá að kynjagleraugu sé meðal faglegra tækja og vinnubrögð við ráðningar, án kynjagleraugna, sé ófullnægjandi, faglega séð. En ella beiti forsætisráðherra sér fyrir breytingu á löggjöfinni. Ef notkun kynjagleraugnanna fjölgar ráðningum kvenna í störf þar sem karlar eru í meirihluta er það vegna þess að þau þarf meðal faglegra tóla og tækja; ef þau breyta engu í því efni, þá skaða þau heldur ekki önnur fagleg tól og tæki - en lagaskyldum hefur verið fylgt.

[Fann frétt um strákaplottið á Eyjunni sem Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra mótmælir annars staðar en bendir á að sá sem var ráðinn sé vissulega ágætur samstarfsmaður. Meint "strákaplott" er reyndar þekkt úr kynjafræðilegum rannsóknum og engin ástæða til að gera lítið úr slíkum möguleika. Ekki einu sinni víst að það sé meðvitað ferli í mörgum tilvikum - og þar af leiðandi ekki plott. En það má samt ekki breyta aðalatriðum málsins í deilur um hvort Hrannar hafi skipt sér með einhverjum óeðlilegum hætti af þessu ráðningarferli heldur vil ég að þeir sem standa að ráðningum noti kynjagleraugun eins og lögskylt er.]


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ingólfur

Ég ætla ekki að bæta neinu við þetta hjá þér en vil taka undir það og þakka fyrir þarft innlegg í þessa umræðu (þótt ég sé reyndar víðsfjarri og fylgist ekki nógu grannt með) en sjónarhornið sem þarna kemur fram hljómar svo einfalt og sjálfsagt að mann rekur í rogastans þegar það rennur upp fyrir manni hvar kynjagleraugu er geymd niðri í skúffu og ónýta lög í þessu landi (vitandi reyndar að fæstar stofnanir eiga slík gleraugu).

bestu kv. Þórdís

Þórdís Þórðardóttir 27.3.2011 kl. 10:04

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Engin slík gleraugu verið þarna - en hefðu kannski dugað ef það hefði verið skilningur á því að þau þyrfti að hafa.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 27.3.2011 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband