Uppeldi og menntun var að koma út

Tímaritið Uppeldi og menntun var að koma út með sex ritrýndum greinum og þremur ritdómum um tvær bækur. Tímaritið fæst í bókaverslunum. En eldri hefti eru á Tímarit.is.


Drengir í skóla, skýrsla Reykjavíkurborgar

Málþing um skýrslu starfshóps um námsárangur drengja
9. desember kl. 14-16 í húsnæði Menntavísindasviðs við Stakkahlíð í stofu H-201 (2. hæð í nýbyggingunni Hamri)

Rannsóknarstofa um jafnrétti, kyngervi og menntun (RannKyn) við Menntavísindasvið Háskóla Íslands boðar til málþings um Skýrslu starfshóps um námsárangur drengja.

Dagskrá

Kynning höfunda á skýrslunni og viðbrögð Reykjavíkurborgar:

Óttar Proppé borgarfulltrúi, í starfshópnum
Nanna Christiansen verkefnisstjóri, í starfshópnum
Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi, formaður Skóla- og frístundaráðs.

Viðbrögð frá Menntavísindasviði og RannKyn

Anna Kristín Sigurðardóttir, deildarforseti Kennaradeildar
Freyja Birgisdóttir, lektor í sálfræði á Menntavísindasviði
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði, í stjórn RannKyn
Guðný Guðbjörnsdóttir prófessor í uppeldis- og menntunarfræði, í stjórn RannKyn

Umræður með þátttöku frummælenda og aðila úr sal

Málþingið er einkum ætlað áhugasömum kennurum í leik-, grunn- og framhaldsskólum og kennurum Menntavísindasviðs, en er öllum opið. 

Skýrsluna má finna hér: http://reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/menntasvid/skjol/Starfsh_pur_um_n_msvanda_drengja_2011.pdf. Nánari upplýsingar má fá hjá Guðnýju Guðbjörnsdóttur (gg@hi.is). Vefsvæði Rannsóknarstofu um jafnrétti, kyngervi og menntun (RannKyn) er: http://stofnanir.hi.is/rannkyn/


Verðlaun fyrir líffræðilega fjölbreytni

Náttúru- og umhverfisverðlaun  Norðurlandaráðs árið 2012 verða veitt norrænu fyrirtæki, samtökum eða einstaklingi sem hefur með góðu fordæmi og á árangursríkan hátt unnið að því að efla líffræðilega fjölbreytni í nærumhverfi sínu eða á alþjóðavettvangi og/eða aukið þekkingu almennings á þessu sviði.

Hver sem er má tilnefna: http://www.norden.org/is/nordurlandarad/verdlaun-nordurlandarads/natturu-og-umhverfisverdlaunin/nomineringsformular

Dómnefndir fara yfir tilnefningarnar í nokkrum þrepum, fyrst geta dómnefndir hvers lands fyrir sig bætt við tilnefningum. Næst munu dómnefndir landanna, hver um sig, ákveða um tvo aðila sem komast í úrslit. Þá eru greidd atkvæði á sameiginlegum fundi þar sem fulltrúar hvers lands mega ekki greiða tilnefndum aðilum frá eigin landi atkvæði. Fái enginn hreinan meirihluta í þeirri umferð eru greidd atkvæði á milli þeirra þriggja sem flest atkvæði fá og loks á milli tveggja.


Ofstækið og Brynjar Níelsson

Ég ætti að vera hættur að verða hissa á því sem Brynjar Níelsson segir. Núna segir hann að samtök sem vilja afhjúpa hverjir kaupa vændi séu "ofstækissamtök". Það getur vel verið - en fyrir mér eru fáir ofstækisfyllri en þeir sem vilja koma í veg fyrir að við fáum að vita hvaða glæpamenn hafa verið dæmdir fyrir að kaupa vændi. Mér finnst sú andstaða vera ofstæki, ef ofstæki er á annað borð til.

Persónulega vona ég að listinn, sem Stóra systir afhenti lögreglunni, leki út - en gæti vel trúað því að Stóra systir passaði vel upp á hann til að halda sér örugglega innan ramma laganna.

Annars minnir mig að hafa lesið fyrir mörgum árum að norskir femínistar hafi málað á bíla vændiskaupenda í Ósló og það hafi orðið meiri refsing en dómstóll sem ákveður að afhjúpa glæpinn getur nokkru sinni úthlutað glæpamönnunum.


mbl.is Líkir Stóru systur við ofstækissamtök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þræðir og fléttur

Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK) boðar til alþjóðlegrar ráðstefnu í tilefni af 20 ára afmæli stofnunarinnar og 100 ára afmælis Háskóla Íslands. Ráðstefnan fer fram dagana 4.–5. nóvember 2011 við Háskóla Íslands og er haldin í framhaldi af alþjóðlegu ráðstefnunni „Líkamar í krísu“ sem fer fram dagana 2.-4. nóvember við Háskóla Íslands.

Alþjóðleg ráðstefna RIKK er fimmta stóra ráðstefnan um kvenna- og kynjarannsóknir sem hefur verið haldin við Háskóla Íslands. Dagskrá ráðstefnunnar er sérlega metnaðarfull og von er á fjölda erlendra fyrirlesara. Sjá dagskrá hér (.pdf).

Ráðstefnan í ár skiptist í 20 málstofur með þátttöku fræðimanna af ólíkum fræðasviðum. Rétt er að vekja athygli á sérstakri öndvegismálstofu í tilefni af framlagi kvenna að stofnun Háskóla Íslands og aldarafmæli laga um rétt kvenna til embættisnáms, en þar verður reynt verður að svara spurningunni: Hverju hefur menntun kvenna skilað? Málstofan er haldin í samstarfi við Kvennasögusafnið og Jafnréttisstofu.

Lykilfyrirlesarar á ráðstefnunni eru:

  • Cynthia Enloe, stjórnmálafræðingur og prófessor við Clark-háskóla í Bandaríkjunum: The Strauss-Kahn Affair: The Cultures and Structures of Masculinity
    Enloe er heimsþekkt fyrir femíníska greiningu sína á hervæðingu, stríðum, stjórnmálum og hnattvæðingu efnahagskerfa og hefur stundað rannsóknir í Írak, Afganistan, Bandaríkjunum, Bretlandi, Japan, Filippseyjum, Kanada, Chile og Tyrklandi.
  • Joni Seager, prófessor í hnattrænum fræðum við Bentley-háskóla í Boston: Death by Degrees: Making Feminist Sense of the 2° Climate Change Target. Seager stundar femínískar rannsóknir á sviði landfræði, alþjóða- og umhverfismála. Hún er afkastamikil fræðikona og hefur birt fjölda greina og bóka. Meðal bóka hennar er The Penguin Atlas of Women in the World sem hefur fengið mjög góða dóma og unnið til verðlauna. Hún hefur einnig starfað sem ráðgjafi hjá Sameinuðu þjóðunum og unnið þar að verkefnum er varða umhverfismál og stefnumótun í vatnsmálum.
  • Beverly Skeggs, prófessor í félagsfræði við Goldsmiths, London-háskóla:Rethinking Respectability: the moral economy of person value? Skeggs er höfundur bókanna Formations of Class and Gender: Becoming Respectable, Class, Self, Culture og Feminism after Bourdieu. Hún hefur fært rök fyrir mikilvægi stéttar í mótun kynjaðra sjálfsmynda og því gildi sem einstaklingum er gefið í samtímamenningu.

Ráðstefnan er haldin í samstarfi við umhverfisráðuneytið, EDDU – öndvegissetur við Háskóla Íslands, Jafnréttisstofu, Kvennasögusafnið, Stofnun Sæmundar fróða, Alþjóðamálastofnun og Alþjóðlegan jafnréttisskóla við Háskóla Íslands.


Hreindýr festast í girðingum

Áskorun Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST)  til ábúenda, umráðamanna og sveitarfélaga á Austur- og Suðausturlandi 

Að undanförnu hefur fjöldi hreindýra fest í  girðingum, tarfar hafa fest saman á hornum í girðingaflækjum og jafnvel drepist vegna girðingardræsa sem skildar hafa verið eftir á víðavangi. Þetta ástand er óviðunandi.

NAUST skorar á bændur á Mýrum í Hornafirði, sem og aðra landeigendur og sveitarfélög á Suðaustur- og Austurlandi að sýna ábyrgð  og fjarlægja þá miklu hættu sem villtum dýrum og búfénaði stafar af gömlum girðingum og girðingarflækjum sem liggja á víðavangi.

Á undanförnum árum hafa hreindýr flækst í sömu girðingardræsunum ár eftir ár. Nú á síðustu vikum hafa um 10-12 hreindýrstarfar fest hornin í girðingum eða girðingarrusli. Vitað er um minnst tvo tarfa sem drepist hafa af þessum sökum. Búið er að frelsa sex tarfa með því að skjóta af þeim hornin þar sem tveir og tveir voru flæktir saman, en aðrir hafa verið losaðir með öðrum hætti. Rökin sem landeigendur sem bera ábyrgð á umræddum girðingum bera fyrir sig eru að hreindýrin eyðileggi girðingarnar sjálf og af því hljótist töluverður kostnaður fyrir þá. Stjórn NAUST tekur ekki þessi rök hvorki gild né afsökun fyrir slíku hirðuleysi.

Þá  hvetur stjórn NAUST Umhverfisstofnun og Umhverfisráðuneytið til að sinna eftirlitsskyldu sinni og sjá til þess að sveitarfélög hirði vír,  ónothæfar girðingar og girðingarflækjur þar sem landeigendur hafa ekki brugðist við, í samræmi við heimild í 12. gr. girðingarlaga nr. 135/2001

"Þegar lögð er girðing af ábúanda fer um skyldur jarðeiganda við burtför ábúandans eftir sömu reglum og um hús á jörðinni sé að ræða, sbr. 16. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976.
Öllum umráðamönnum lands er skylt að hreinsa burtu af landi sínu ónothæfar girðingar og girðingarflækjur. Nú vanrækir umráðamaður lands þessi fyrirmæli í eitt ár eftir að lög þessi öðlast gildi og er þá sveitarstjórn skylt að framkvæma verkið á hans kostnað að fengnu mati búnaðarsambands og á sveitarstjórn þá lögveð í jörðinni fyrir greiðslu kostnaðar. Það sama gildir um eyðijarðir."

 


Lína að Veiðivötnum umhverfismatsskyld

"Við mælumst eindregið til þess að þessi framkvæmd fari í umhverfismat," segir Hilmar J. Malmquist, stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum Íslands, um áætlaða lagningu raflínu og ljósleiðara frá Vatnsfelli í Veiðivötn og Snjóöldu. "Veiðivötn eru á náttúruminjaskrá og Veiðimálastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfistofnun hafa gert tillögu um að Veiðivatnasvæðið sé gert að friðlandi. Samkvæmt svæðisskipulagi miðhálendisins er allt svæðið sem strengurinn fer um annaðhvort náttúruverndarsvæði eða almennt verndarsvæði," bendir Hilmar á. "Þetta er eldfjallaland og víðerni sem eru eitt helsta náttúrufarseinkenni Íslands." (nsi.is)


Náttúruverndarsamtök um Vestfjarðaveg

Ályktun Fuglaverndar, Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands vegna vegagerðar í Gufudalssveit  
 
Landvernd, Fuglavernd og Náttúruverndarsamtök Íslands lýsa yfir stuðningi við þá ákvörðun Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra að hlífa Teigsskógi og leggja til vegagerð eftir svokallaðri D-leið í Gufudalssveit með göngum undir Hjallaháls. Þessi leið hefur verið samþykkt af Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra og því er ekkert því til fyrirstöðu að ráðast í hana og bæta þannig strax úr brýnni þörf Vestfirðinga á betri samgöngum með láglendisvegi.

Með þessari úrslausn yrði komið í veg fyrir þau miklu náttúrspjöll sem myndu hljótast af leið B um óspillta náttúru, m.a. eftir Teigsskógi endilöngum og yfir eyjar og sker í mynni Djúpafjarðar og Gufufjarðar í nágrenni tveggja arnarsetra.

Ofangreind samtök telja óréttlætanlegt að fórna þessum náttúruverðmætum sem eru á náttúrminjaskrá og falla undir lög um verndun Breiðafjarðar þar eð aðrar leiðir eru fyrir hendi. Göng undir Hjallaháls eru að öllum líkindum ódýrari en leið B þegar búið er að taka tillit til aukakostnaðar, jaðarkostnaðar og umhverfiskostnaðar.

Jóhann Óli Hilmarsson, formaður Fuglaverndar, svarar fyrirspurnum fjölmiðla um ályktunina í síma 8920299 eða 5673540.


Er kynjakerfið álög?

Ég er búinn að sjá núna nokkrum sinnum auglýsingu Verslunarmannafélags Reykjavíkur um "álög" sem lögð eru á stúlkubarn á fæðingardeild, og algerlega dofinn ungan mann sem stóð með sóp þegar álögin voru lögð á stúlkuna. Mér finnst sá hluti auglýsingarinnar kannski bestur: Við karlar fljótum sofandi gagnvart því óréttlæti sem við höldum að við græðum á. 

Jafnframt hefur Verslunarmannafélagið lagt til að konur fái 10% afslátt í búðum. Ef farið verður að þeirri tillögu munu karlmenn væntanlega steinhætta að versla fyrir heimilin og aukin vinna lenda á konum við innkaup (vinna sem sennilega er þó unnin af þeim í miklum meirihluta) - er það ekki?

Það er alltaf forvitnilegt að sjá einhverja nýja nálgun gagnvart vandamálum - en Verslunarmannafélagið leitar afskaplega langt yfir skammt, eða telur það kynjakerfið og feðraveldið vera yfirnáttúrleg fyrirbrigði?

Svo er ég að reyna að rifja upp hvort það sé rétt að það hafi verið verðmunur á mötuneytisgjaldi drengja og stúlkna í Laugaskóla eða MA á sínum tíma. Finnst þetta endilega og að okkur hafi alls ekki fundist neitt að þessu vegna þess að við vissum um betri fjárráð/hærra kaup á sumrin. Þar til við áttuðum okkur líka á því að óréttlát kerfi á að laga á kerfisgrunni en ekki einstaklingsgrunni, því að það voru líka til strákar sem fengu ekki há laun eða áttu mikla peninga að reyna að ganga í skóla. Sama gildir nú: Vill Verslunarmannafélagið að vöruverð til bankastjóra Arion og annarra sem fá milljónir í laun á mánuði sé margfalt hærra en til annarra? Til hvers er Verslunarmannafélag sem gerir kjarasamninga?

Viðbót frá Sigrúnu Ólafsdóttur á Facebook: Í Degi 17. maí 1966 skrifar Guðmundur Gunnarsson um Laugaskóla: „Fæðiskostnaður pilta í vetur varð kr. 69.95 á dag og kr. 59.90 fyrir stúlkur.“


Jafnréttismenntun: Gagnrýnin greining

Jafnréttismenntun á að felast í gagnrýnni skoðun á viðteknum hugmyndum stofnunum samfélagsins í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra - segir næstum því orðrétt í nýrri aðalnámskrá fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Nýta á nýjar fræðigreinar á borð við kynjafræði, hinseginfræði, fjölmenningarfræði og fötlunarfræði í því skyni að þessi menntun gagnist, fyrir utan fræðigreinar sem þegar eiga sér stoð í skólakerfinu, á borð við félagsfræði, landafræði og sögu, sem hafa margt til málanna að leggja í þessu samhengi.

En menntamálaráðuneytið þarf bæði aðhald og stuðning í þessari viðleitni við að hrinda í framkvæmd þessu ágæta markmiði. Því var það snemma á þessu ári sem stjórn Rannsóknarstofu um jafnrétti, kyngervi og menntun við Háskóla Íslands sendi fyrirspurn til menntamálaráðuneytisins um hvað nýtt ákvæði í grunnskólalögum um jafnréttismál sem grein í grunnskóla merkti - en jafnréttismál eru talin upp í 25. gr. laga nr 91/2008:

„Í aðalnámskrá skal setja ákvæði um inntak og skipulag náms í íslensku, íslensku sem öðru tungumáli eða íslensku táknmáli, stærðfræði, ensku, dönsku eða öðru Norðurlandamáli, list- og verkgreinum, náttúrugreinum, skólaíþróttum, samfélagsgreinum, jafnréttismálum, trúarbragðafræði, lífsleikni og upplýsinga- og tæknimennt." Spurt var:

1) Hvaða merking er lögð í orðið jafnréttismál í þessari grein? Er átt við jafnrétti í víðri merkingu, kynjajafnrétti þar með talið? Felst í þessu sérstök áhersla á kynjajafnrétti, sbr. t.d. álit rýnihóps frá desember 2010?

2) Hvort jafnréttismál séu með þessu að fá stöðu námsgreinar í grunnskólum?

3) Ef jafnréttismál fá ekki stöðu námsgreinar hvernig gerir ráðuneytið ráð fyrir að inntak og skipulag náms um jafnréttismál verði í grunnskólum?

Ráðuneytið svaraði spurningunum aðeins óbeint og benti á að í meðförum Alþingis hafi jafnréttismál og trúarbragðafræði bæst við fyrri námsgreinar. Í nýrri aðalnámskrá grunnskóla eru jafnréttismál talin námsgrein sem fellir að námssviðinu samfélagsgreinar í viðmiðunarstundaskrá. Þá kemur fram hjá ráðuneytinu að við túlkun á inntaki námsgreinarinnar jafnréttismál sé eðlilegt að líta til 24. greinar laganna. Þar eru ákvæði 2.gr. (markmiðsgreinar) grunnskólalaganna útfærð nánar. Þar segir m.a.: ,,Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar, trúarbragða, heilsufars, fötlunar eða stöðu að öðru leyti".

Í svari ráðuneytisins kemur fram að í tilefni af fyrirspurninni um hugtakið jafnréttismál hafa lögfræðingar ráðuneytisins kannað notkun orðanna jafnrétti og jafnræði í lögum almennt, sem og í Íslenskri orðabók. Af þeirri könnun megi draga þá ályktun að almennt séð feli hugtakið jafnrétti í lögum, án frekari skírskotunar, í sér vísun til almennrar reglu um jöfnuð manna á milli, einkum þegar um er að ræða þjóðfélagshópa sem eiga undir högg að sækja vegna fötlunar, þjóðernis eða félagslegrar stöðu. Að þessu leyti virðist hugtakið jafnrétti vera notað jöfnum höndum og hugtakið jafnræði, sbr. einnig skýringar hugtakanna í Íslenskri orðabók. Loks segir í svari ráðuneytisins að ef það hefði verið ætlun löggjafans að með hugtakinu jafnréttismál í grunnskólalögum væri eingöngu vísað til kynbundins jafnréttis hefði þurft að kveða skýrt á um það. Í vinnu að nýrri aðalnámskrá 2011 þar sem fjallað er um jafnréttisfræðslu sé því gengið út frá jafnrétti í víðri merkingu, kynjajafnrétti þar með talið.

Næst kemur fram í svari ráðuneytisins að við þróun þeirrar menntastefnu sem birt er í nýrri aðalnámskrá sé byggt á sex grunnþáttum menntunar sem á að hafa að sérstöku leiðarljósi við námskrárgerðina á öllum skólastigum, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Einn þessara áhersluþátta er jafnrétti. Tekið er fram í svarinu að ástæða sé til að gera formlega greinarmun á eðli jafnréttis sem grunnþáttar í menntastefnu á öllum skólastigum annars vegar og jafnréttismálum sem námsgreinar í grunnskóla. Gott er hins vegar að frétta að sömu megináherslur eigi að liggja til grundvallar báðum hugtökunum.

Í sameiginlegum hluta aðalnámskrár allra skólastiga 2011 sem finna má á vef ráðuneytisins er m.a. fjallað um jafnrétti sem grunnþátt. Í þeirri vinnu var m.a. byggt á niðurstöðum rýnihóps sem vísað er til í 1. spurningu fyrirspurnarinnar:

Í aðalnámskrá grunnskóla - og líka í aðalnámskrá leik- og framhaldsskóla segir m.a. (tilvitnun valin af menntamálaráðuneytinu): ,,Jafnréttismenntun vísar í senn til inntaks kennslu, kennsluhátta og námsumhverfis. Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær til margra þátta. Hér á eftir er upptalning nokkurra þeirra í stafrófsröð: Aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni, þjóðerni. Á öllum skólastigum þarf að fara fram menntun til jafnréttis þar sem fjallað er um hvernig ofangreindir þættir geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks."

Ef farið verður eftir þessu er lítið að óttast annað en tímaskort. En í drögunum er líka lögð áhersla á að „Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra" [feitletrun mín]. Lögð er sérstök áhersla á að skólakerfið nýti sér nýjar fræðigreinar á borð við kynjafræði, hinseginfræði, fjölmenningarfræði og fötlunarfræði. Það er líka vísað í lög um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Því er ljóst af grunnþættinum að kynjajafnrétti á að skipa stóran sess í skólunum, en ekki á kostnað annars jafnréttis og mismununar, enda er einnig sagt: „Jafnframt er mikilvægt að draga fram að ýmsir búa við margþætta mismunun þegar fleiri slíkir þættir tvinnast saman, til dæmis kyn og fötlun, kynhneigð og þjóðerni, aldur og búseta." Vonandi bera þeir sem vinna að námskrá samfélagsgreina gæfu til að vinna vel úr þessum leiðbeiningum og skipa kynjajafnréttisfræðslu í það öndvegi sem hún hefur átta vera í í þau 36 ár sem ákvæði hafa verið um hana í lögum um kynjajafnrétti.


Sjálfbærnimenntun

Menntun sem á að stuðla að sjálfbærara samfélagi er einn af hornsteinum, eða grunnþáttum eins og það er orðað, nýrrar námskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla á Íslandi sem var gefin út í maí sl., þ.e. fyrir leik- og framhaldsskóla en fyrir grunnskóla á miðvikudaginn. Námskrárnar eru á námskrárvef menntamálaráðuneytisins.

En hvað er sjálfbærnimenntun? Fyrir utan það sem kemur fram í námskránni í kafla sem er fremst í öllum námskránum, má benda á vef verkefnisins GETA. Þar er vísað á skýrslur og greinar sem eru afrakstur þróunarstarfs í samvinnu fræðafólks við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri við átta leik- og grunnskóla. Og svo langar mig að benda á fyrirlestur sem ég flutti fyrir tveimur árum um það hvernig sjálfbærnimenntun gæti í raun orðið þungamiðja frjósams skólastarfs: http://www.ismennt.is/not/ingo/Sjalftung.htm


Rollufordómar

Ég vil benda áhugafólki um fordómafullan málflutning, það er þeim sem hafa gaman af stóryrðum og gengdarlausum fordómum í garð dýra eða manna, á grein eftir Margréti Jónsdóttur eftirlaunaþega í Morgunblaðinu í dag. Þetta er alger gimsteinn á þessu sviði. Höfundi verður tíðrætt um rollur og rollukjöt, í stað þess að nota hin algengari og kurteislegri orð eins og sauðfé og kindur, eða lambakjöt þegar hún á við það, sem er meginhluti framleiðslunnar og útflutningsins, enda fá bændur lítið fyrir ærkjötið, þótt það sé stundum betra kjöt. Ég bið um kurteisi í garð sauðfjárins, því að einu skiptin sem talað er um rollur í minni sveit eru það túnrollur, beinlínis til að niðra óþekkt sauðfé. Enda orðið túnær ekki til. Og sennilega kann Margrét að beygja orðið ær því ég sé í greininni að hún kann að beygja orðið kýr.

Sannfæring um framfarir

Greinin "Principles of legitimation in educational discourses in Iceland and the production of progress", birt árið 1993, var hluti af afrakstri doktorsritgerðar minnar. Hér er ágripið:

On the one hand this paper is an exploration of how suitable the theories of Pierre Bourdieu and Michel Foucault are to explain educational reform. At another level, the paper tells a story of educational reform in Iceland in the last 25 years ‐ through the Bourdieuean and Foucauldian lenses. The paper identifies legitimating principles in the discourse on educational reform in Iceland and focuses on the tensions over what counts as capital in teacher education. In short, pedagogy, curriculum theory, educational psychology and other educational sciences signify a discursive pole that is gaining currency at the cost of the capital of the traditional academic disciplines, such as Icelandic, history and biology, which signify the other pole in this spectrum. The paper argues that an epistemology of progress underlying reform often prevents reformers from taking a reflective stance on the historical foundations of their beliefs in educational science; they take for granted that progress and evolution are possible and call for better methods to produce progress. Greinin var birt í Journal of Education Policy, 8(4), 339-351.


Að kenna drengjum og stúlkum

Ágrip greinarinnar "To teach boys and girls: a pro‐feminist perspective on the boys' debate in Iceland": This article is based on an interview study with 14 women teachers in Icelandic primary schools (6–16 years old). It presents their experiences and opinions about the differences in teaching boys and girls as well as what they believe about their prospects and possibilities in school and in the future. It also portrays their opinions regarding the so called ‘boys' debate’. The study found that the interviewees see clear gender patterns among students but also very strong individual differences. The interviewees emphasised that individual differences among teachers are most important, although there are gender patterns. The article is critical of the myth that boys in particular need ‘male role models’, and it argues that student teachers of both genders should be equally prepared to teach children of both genders.

Greinin birtist árið 2004 í tímaritinu Educational Review, 56(1), 33-42 

Sveitadrengurinn og tælingarmáttur femínismans

Abstract greinarinnar "Farm Boy from the Edge of the Arctic and the Seduction of Feminist Pedagogy in American Academia"

The article assumes that pedagogical decisions are not merely the result of the educator's personal choice or her/his serious and rational curriculum planning; rather, they occur through the interrelation of coincidences, structural issues, political and institutional discourses, and events in people's lives. The article focuses upon the politics of progressive pedagogy as they concern my work on a US campus (as a graduate student and as a teaching assistant) and my nature preservation work in the small arctic nation of Iceland. I discuss how and why I became attracted to the political potential of feminist poststructuralist theories. This is discussed in light of my supervision of mostly white young women in a teacher education programme in a large Midwestern university. I consider the institutional strength of the discourse on classroom management, grounded in curriculum taxonomy and educational psychology, over environmental education and feminist and critical pedagogy. These issues are examined in relation to my struggle to make a liveable reality for myself as a teaching assistant; after all, pedagogical decisions are usually pragmatic solutions (strategies) to immediate problems. I tell the story of one man's pedagogical decision‐making process and trajectory of identity formation in which personal history, political beliefs, discursive and institutional power, and immediate problems interact. The article unfolds in several layers: narrative stories about the feminist party in Iceland (Kvennalistinn), my work as a ranger in Iceland, and my work as a teacher in Iceland and the USA; the trajectory of me working through issues of feminist theories and my practice as a teacher during my stay in the USA (that is, identity formation); and a postscript concerned with pedagogical and academic implications of the story that is presented.

Birt í Gender and Education, 6 (3), 1994, bls. 293-306 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband