Þræðir og fléttur

Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK) boðar til alþjóðlegrar ráðstefnu í tilefni af 20 ára afmæli stofnunarinnar og 100 ára afmælis Háskóla Íslands. Ráðstefnan fer fram dagana 4.–5. nóvember 2011 við Háskóla Íslands og er haldin í framhaldi af alþjóðlegu ráðstefnunni „Líkamar í krísu“ sem fer fram dagana 2.-4. nóvember við Háskóla Íslands.

Alþjóðleg ráðstefna RIKK er fimmta stóra ráðstefnan um kvenna- og kynjarannsóknir sem hefur verið haldin við Háskóla Íslands. Dagskrá ráðstefnunnar er sérlega metnaðarfull og von er á fjölda erlendra fyrirlesara. Sjá dagskrá hér (.pdf).

Ráðstefnan í ár skiptist í 20 málstofur með þátttöku fræðimanna af ólíkum fræðasviðum. Rétt er að vekja athygli á sérstakri öndvegismálstofu í tilefni af framlagi kvenna að stofnun Háskóla Íslands og aldarafmæli laga um rétt kvenna til embættisnáms, en þar verður reynt verður að svara spurningunni: Hverju hefur menntun kvenna skilað? Málstofan er haldin í samstarfi við Kvennasögusafnið og Jafnréttisstofu.

Lykilfyrirlesarar á ráðstefnunni eru:

  • Cynthia Enloe, stjórnmálafræðingur og prófessor við Clark-háskóla í Bandaríkjunum: The Strauss-Kahn Affair: The Cultures and Structures of Masculinity
    Enloe er heimsþekkt fyrir femíníska greiningu sína á hervæðingu, stríðum, stjórnmálum og hnattvæðingu efnahagskerfa og hefur stundað rannsóknir í Írak, Afganistan, Bandaríkjunum, Bretlandi, Japan, Filippseyjum, Kanada, Chile og Tyrklandi.
  • Joni Seager, prófessor í hnattrænum fræðum við Bentley-háskóla í Boston: Death by Degrees: Making Feminist Sense of the 2° Climate Change Target. Seager stundar femínískar rannsóknir á sviði landfræði, alþjóða- og umhverfismála. Hún er afkastamikil fræðikona og hefur birt fjölda greina og bóka. Meðal bóka hennar er The Penguin Atlas of Women in the World sem hefur fengið mjög góða dóma og unnið til verðlauna. Hún hefur einnig starfað sem ráðgjafi hjá Sameinuðu þjóðunum og unnið þar að verkefnum er varða umhverfismál og stefnumótun í vatnsmálum.
  • Beverly Skeggs, prófessor í félagsfræði við Goldsmiths, London-háskóla:Rethinking Respectability: the moral economy of person value? Skeggs er höfundur bókanna Formations of Class and Gender: Becoming Respectable, Class, Self, Culture og Feminism after Bourdieu. Hún hefur fært rök fyrir mikilvægi stéttar í mótun kynjaðra sjálfsmynda og því gildi sem einstaklingum er gefið í samtímamenningu.

Ráðstefnan er haldin í samstarfi við umhverfisráðuneytið, EDDU – öndvegissetur við Háskóla Íslands, Jafnréttisstofu, Kvennasögusafnið, Stofnun Sæmundar fróða, Alþjóðamálastofnun og Alþjóðlegan jafnréttisskóla við Háskóla Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband