Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Boranir í Gjástykki

Í fréttum í dag var rætt um Gjástykki og ummæli umhverfisráðherra um svæðið og líka hefur heyrst óánægja forsvarsmanna orkufyrirtækja og sveitarstjórans í Norðurþingi um ummælin. Í frétt frá Náttúruverndarsamtökum Íslands kemur eftirfarandi fram: „Iðnaðarráðherra ... tók netta rispu út af Kerinu í Grímsnesi og nú er honum mjög umhugað um Gjástykki og vill að þar fari fram mat á umhverfisáhrifum. Slíkt mat gæti orðið til þess að rannsóknarleyfi Landsvirkjunar yrði afturkallað, þ.e.a.s. ef Össur vill að rannsóknarboranir Landsvirkjunar sæti umhverfismati líkt og skýr heimild er fyrir í lögum um mat á umhverfisáhrifum (http://www.althingi.is/lagas/135a/2000106.html Sjá 2. viðauka). Ef iðnaðarráðherra á við boranir fari í mat eftir að rannsóknarborunum lýkur yrði of seint í rassinn gripið enda valda rannsóknarboranir umtalsverðu raski ... Spurningin er þá af hverju afturkallaði Össur Skarphéðinsson ekki það rannsóknarleyfi í Gjástykki sem forveri hans veitti Landsvirkjun 48 tímum fyrir kosningar 2007. Lögformlega var leyfisveiting Jóns Sigurðssonar hæpin enda var ekki fengin umsögn umhverfisráðherra og Össur hefði því verið í fullum rétti til að afturkalla leyfisveitinguna."


Teigsskóg verður að verja

Teigsskógur á Vestfjörðum er bitbein í umhverfisverndarbaráttunni. Þar á að leggja veg í gegnum fallegan og merkan birkiskóg. Eftir því sem ég kemst næst er um að ræða skammtímavegabætur og e.t.v. nokkrum krónum ódýrari en varanlegri - og styttri - leið með jarðgöngum gegnum hálsa. Hér er því ekki horft langt fram á veg.

Ýmis umhverfisverndarsamtök fjölmenna í Teigsskóg nú um helgina. Á laugardaginn kl. 13 verður lagt verður upp frá Gröf í Þorskafirði þar sem Gunnlaugur Pétursson býður göngufólk velkomið og segir frá áformum Vegagerðarinnar um veglagningu um landnámsskóginn og umhverfisáhrifum hennar. Á áningarstöðum sýna Einar Þorleifsson frá Fuglavernd og Gunnlaugur Pétursson ferðalöngum fugla, blóm og jurtir m.a. ferlaufunginn og krossjurtina sem fundist hafa í skóginum. Ferðin endar í hlaðvarpanum á Hallsteinsnesi þar sem sagt verður frá lifnaðarháttum arnarins sem og einu gjöfulasta arnarhreiðri á landinu sem er að finna í Djúpafirði. Gönguferð um skóginn tekur um þrjár klukkustundir.

Leiðsögn um skóginn er göngufólki að kostnaðarlausu. Skráning í ferðina er hjá Sigrúnu í síma 866 9376 eða sigrunpals@landvernd.is

Upplýsingar um svæðið með kortum: www.westfjords.is/index.php/services/listings/C11
(Síðari hluti færslunnar er fenginn af bloggi Dofra Hermannssonar.)


Orsök eða afleiðing?

Spurningin vaknar: Hverjir, úr hvaða starfshópum, eiga að tala í útvarpi og vera í viðtölum? Eru það karlarnir sem nú tapa peningum í stórfyrirtækjunum? Eða konur og karlar sem vinna önnur störf í samfélaginu? Störf þar sem litlum peningum er hægt að tapa, nema launum sem hafa orðið fyrir kjararýrnun.

Að einhverju leyti endurspegla þessi hlutföll valdastöður (stjórnmál, rekstur stórra fyrirtækja) í landinu - en á sama tíma má vel ætlast til þess að fjölmiðlar séu jafnréttistæki, og það hefur sýnt sig að þegar fjölmiðlafólk reynir að fá bæði konur og karla og fólk með fjölbreyttan bakgrunn í viðtöl og þætti að þá tekst það. 


mbl.is Mun minna talað við konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju

Ég vil óska kollegum mínum í Háskóla Íslands, ekki síst þeim sem störfuðu í Kennaraháskóla Íslands í gær, til hamingju með sameininguna og nýtt upphaf. Eins og aðrir kennarar við Háskólann á Akureyri var ég boðinn í hóf í Háskólatorgi síðdegis í dag þar sem var samglaðst og málin rædd. Ávörp fluttu Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, og Ólafur J. Proppé, fráfarandi rektor KHÍ, og fleiri. Það ávarpanna sem vakti mesta athygli mína var ávarp fulltrúa stúdenta við KHÍ en þeirra stúdentaráð mun starfa út bókhaldsárið, eins og það var orðað. Ég tók ekki vel eftir nafninu en af leit á vefsíðu stúdentaráðs KHÍ held ég að það sé Guðmundur Rúnar Ingvarsson sem talaði. Hann minnti okkur á að gleyma ekki akademísku frelsi í sókn eftir að verða meðal þeirra bestu í heimi og að glata ekki sjálfstæði okkar sem einstaklinga í kappinu eftir góðum einkunnum.

Þetta er afar þörf áminning nú þegar aðkoma kennara háskólanna að yfirstjórn þeirra (háskólaráðum) hefur enn verið minnkuð með nýjum lögum sem voru að taka gildi. Þeir sem koma utan frá og ætla að ráðskast með málefni háskóla mega ekki gleyma því að það er einmitt frelsi til rannsókna, þar með talið frelsi til að vinna saman á eigin forsendum, eða hver í sínu horni þegar það á við, er ekki bara lúxus okkar sem störfum þar heldur og helsti möguleiki háskóla til að verða bestur. Stjórnendur stórra fyrirtækja á allt öðrum sviðum, sem sumir hafa sýnt það undanfarið hvernig er hægt að tapa miklum fjármunum: eru þeir líklegastir til að leiða Háskóla Íslands í átt til þeirra bestu í heimi?


mbl.is Sameining HÍ og KHÍ tekur gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir fá prósentuhækkanir?

Hjúkrunarfræðingar fallast ekki á að fá krónutöluhækkun sem kjararýrnun, eins og formaður Bandalags háskólamanna viðurkenndi að nýgerðir samningar hefðu verið. Aðalsamninganefndarmaður ríkisins heyrðist mér bara staffírugur í því að ekki stæði til boða annað en sú tiltekna krónutala sem BSRB hefði samið um, mér skilst sú sama og Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins sömdu um. En svo gerðist það sl. föstudag að Samtök atvinnulífsins sömdu við flugumferðarstjóra um circa 8-11% hækkun. Hér er ósamræmi á ferðinni og því er spurt hverjir fái prósentuhækkanir og hverjir megi ekki fá þær.
mbl.is Strax grafalvarlegt ástand
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband