Til hamingju

Ég vil óska kollegum mínum í Háskóla Íslands, ekki síst þeim sem störfuðu í Kennaraháskóla Íslands í gær, til hamingju með sameininguna og nýtt upphaf. Eins og aðrir kennarar við Háskólann á Akureyri var ég boðinn í hóf í Háskólatorgi síðdegis í dag þar sem var samglaðst og málin rædd. Ávörp fluttu Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, og Ólafur J. Proppé, fráfarandi rektor KHÍ, og fleiri. Það ávarpanna sem vakti mesta athygli mína var ávarp fulltrúa stúdenta við KHÍ en þeirra stúdentaráð mun starfa út bókhaldsárið, eins og það var orðað. Ég tók ekki vel eftir nafninu en af leit á vefsíðu stúdentaráðs KHÍ held ég að það sé Guðmundur Rúnar Ingvarsson sem talaði. Hann minnti okkur á að gleyma ekki akademísku frelsi í sókn eftir að verða meðal þeirra bestu í heimi og að glata ekki sjálfstæði okkar sem einstaklinga í kappinu eftir góðum einkunnum.

Þetta er afar þörf áminning nú þegar aðkoma kennara háskólanna að yfirstjórn þeirra (háskólaráðum) hefur enn verið minnkuð með nýjum lögum sem voru að taka gildi. Þeir sem koma utan frá og ætla að ráðskast með málefni háskóla mega ekki gleyma því að það er einmitt frelsi til rannsókna, þar með talið frelsi til að vinna saman á eigin forsendum, eða hver í sínu horni þegar það á við, er ekki bara lúxus okkar sem störfum þar heldur og helsti möguleiki háskóla til að verða bestur. Stjórnendur stórra fyrirtækja á allt öðrum sviðum, sem sumir hafa sýnt það undanfarið hvernig er hægt að tapa miklum fjármunum: eru þeir líklegastir til að leiða Háskóla Íslands í átt til þeirra bestu í heimi?


mbl.is Sameining HÍ og KHÍ tekur gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hagbarður

Ég tek undir hamingjuóskir þínar og held að þetta geti orðið gæfuspor fyrir báða þessa gömlu skóla.

Annað mál sem ég reyndar fæ ekki skilið er hvernig HÍ ætlar að raða sér á meðal 100 bestu háskóla. Þegar aðrir háskólar þurfa að laða til sín "séní" og greiða þeim jafnvel 100 föld laun til að halda þessum "status", þegar rannsóknarfé sumra deilda í þessum háskólum nemur margföldum fjárlögum íslenska ríkisins og þegar búa þarf sumum aðilum rannsóknaraðstöðu sem nemur hærri fjárhæð en lagt hefur verið til vegagerðar hér á landi frá upphafi. Ég get viðurkennt það að ég hef ekki kynnt mér þær leiðir sem HÍ hyggst feta í átt að þessu markmiði. En veit af eigin reynslu að launakerfi stofnunarinnar er lítt sveigjanlegt og rannsóknarfé af skornum skammti. Frekar finnst mér þetta lykta af "pólitísku skrumi" frekar svona eins og "17 júní glamour".  Ég held að það sé okkur ómögulegt að ná fram þessum markmiðum, einfaldlega vegna smæðarinnar.

Hagbarður, 2.7.2008 kl. 16:19

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlitið, Hagbarður. Markmiðið um að komast í hóp hinna bestu er metnaðarfullt og að einhverju leyti getur verið að stækkun HÍ með sameiningunni við KHÍ vinni með því, meðal annars vegna þess að stofnunin stækkar mikið. Getur unnið gegn því í skammtíma, en með því í langtíma.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2.7.2008 kl. 16:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband