Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Kynjahalli í ísbjarnarnefndinni

Athygli mína vakti um daginn þegar umhverfisráðherra skipaði fjóra karla í nefnd til að semja viðbragðsáætlun vegna yfirvofandi ísbjarnarheimsókna. Mikið lá á, því að undir venjulegum kringumstæðum hefur núverandi umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, verið mjög ströng gagnvart þeim sem tilnefna í nefndir á vegum ráðuneytisins að tilnefna karl og konu svo að ráðuneytið geti kynjajafnað, og ef ekki tilnefndir einstaklingar af báðum kynjum að rökstyðja hvers vegna ekki. Umhverfisráðuneytið mun líka að mér skilst vera eitt þeirra ráðuneyta þar sem kynjahlutfall í nefndum er minnst konum í óhag enda voru forverar Þórunnar á svipaðri línu með tilnefningarnar.

Hver er svo tilgangur þess að tilnefna fólk af báðum kynjum? Hann er margvíslegur, bæði varðar hann aðgang karla og kvenna að völdum og áhrifum, en varðar líka mikilvægi þess að koma ólíkum sjónarmiðum að. Karlarnir í nefndinni eru hins vegar færir; ég veit þetta um suma þeirra af því að ég þekki þá eða þeirra störf, og geri ráð fyrir að það eigi við um þá sem ég þekki minna til. Þeir munu vinna þetta verk vel og leita eftir sjónarmiðum sem máli skipta og safna upplýsingum og gera skynsamlegar tillögur. Þetta á yfirleitt við um nefndir hvort sem þær eru eingöngu skipaðar konum eða körlum, eða fólki af báðum kynjum og á ólíkum aldri. Samt er það þannig að ekki er ólíklegt að karlar og konur upplifi ísbjarnarvána með ólíkum hætti og ég held að umhverfisráðherra hefði vel mátt gefa sér örlítið meiri tíma til að fylgja grundvallarreglunni um hlutföll karla og kvenna í nefndum. Traust mitt til þeirra einstaklinga sem sitja í nefndinni breytir engu um það.


mbl.is Unnið að viðbragðsáætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magra Ísland - Fagra Ísland

Ég var að lesa góða grein Kristínar Helgu Gunnarsdóttur, ef ég veit rétt stjórnarkonu í Náttúruverndarsamtökum Íslands, um Magra Ísland í Herðubreið, tímariti sem kratar gefa út, þannig að einhverjir í ranni kratanna hafa af þessu áhyggjur. Þórunn úrskurðaði í vor um umhverfismat álversins í Helguvík, þar mætti meta í pörtum. Hvað gerir hún um álverið á Bakka og þær umfangsmiklu framkvæmdir og náttúruspjöll sem af þeim munu hljótast? Leyfir hún að þetta sé bútað niður í margar litlar framkvæmdir sem hver og ein verður metin meinlítil? Hversu magurt getur Fagra Ísland orðið?
mbl.is Umhverfisráðherra vill ekki fleiri álver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaðan kemur viðbótarorkan?

Verður farið í Gjástykki sem er einn af mikilvægustu stöðum heimsins til að sýna landrekskenninguna í verki? Verður farið í Skjálfandafljót? Eða Jökulsárnar í Skagafirði? Ég tel að framlengd viljayfirlýsing hljóti að merkja þann vilja ríkisstjórnarinnar að útvega orkuna - en merkir hún það að það eigi að útvega orkuna hvað sem það kostar? Ég óttast það - og er langeygður eftir því að sambærileg stefnumótun og fór fram um Vatnajökulsþjóðgarð fari fram um mið- og vesturhluta hálendisins, ekki bíða eftir því að virkjað verði í ofangreindum ám og svo friða það sem orkufyrirtækin vilja ekki.

Beðið er úrskurðar um hvort álverið á Bakka og allar framkvæmdir því tengdar þurfi í mat á umhverfisáhrifum þar sem áhrifin af þessum framkvæmdum eru metin í heild en ekki í pörtum. Framkvæmdaraðilarnir vilja fá að meta hverja og eina framkvæmd - og sleppa undan mati á rannsóknum og vegalagningu vegna rannsóknarborana. 


mbl.is Krafla veldur óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagra Ísland og álver

Jæja, þá er Samfylkingin búin að takast á hendur undirbúning álversins við Húsavík og þrengir þá enn að Fagra Íslandi. Enda þótt þessi yfirlýsing sem slík sýnist að einhverjum hluta vera leiktjöld gefur hún til kynna hvert á að stefna. Hún er því sorglegur atburður.
mbl.is Álversyfirlýsing undirrituð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndirnar eða atburðurinn?

Blaðamannafélag Íslands og umhverfisráðuneytið deila um myndabann af síðara hvítabjarnarhræinu og útskýrir ráðuneytið það þannig að myndataka hafi verið leyfð þegar sýnatöku var lokið. Nú var ég ekki á staðnum og get ekki metið hvort það var óeðlilegt, hefði jafnvel getað verið ímyndarlega klókt að sýna myndir af töku sýna og rannsóknum á dýrinu. Hitt þykir mér verra að í tilkynningu ráðuneytisins er ekki gerður greinarmunur á myndum af fyrra hræinu og þeim atburði þegar fjöldi byssumanna stillti sér upp við hræið með stolt í svip. Það var atburðarásin í fyrra skiptið sem var ógeðfelld en einmitt mjög gott að það voru sýndar myndir af þeim atburði því að ætla má að þær hafi haft áhrif á að fara gætilegar í síðara málinu.

mbl.is Umhverfisráðuneytið furðar sig á ályktun Blaðamannafélagsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessi ísbjörn var klár - sá næsti á undan var ær

Þessi ísbjörn var klár - sá næsti á undan var ær, jafnvel tvílemba með lömbin fast uppi við sig. En hvað ef "klár" og "ær" eru lýsingarorð? 

- Jamm, það er hægt að brosa að orðaleikjunum í sambandi við ísbjarnarfréttirnar.


mbl.is Bjarndýrsútkall í Langadal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða sett bráðabirgðalög?

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki nógu vel þá lagaflækju sem veldur því að maki móður í staðfestri samvist er samt ekki lagalaga séð foreldri barns - ef tæknifrjóvgun fór fram erlendis. En ég get ómöguleg séð annað en að þetta sé mismunun og óréttlæti og spyr hvort sett hafi verið bráðabirgðalög af minna tilefni en því að þessir foreldrar fái ekki réttar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Hvort það má síðan taka lengri tíma að hagræða öðrum pörtum laganna þori ég nú ekki að segja því að bráðabirgðalög eru almennt ekki heppilegur kostur. Höfum í huga að þetta mál sem varðar aðstöðumun foreldra er líka réttlætismál vegna barnanna.


mbl.is Verða að frjóvgast hérlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

eða ær

Alltaf leiðist mér þegar ær eru kallaðar rollur, nema í samsetningunni túnrolla. "Rolla" er niðrandi orð um á en ég hef aldrei heyrt orðið túnær.

En ég verð að viðurkenna að fyrirsögnin "Björninn væntanlega ær" hefði misskilist.


mbl.is Björninn væntanlega rolla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nykrar og bleikir hamrar

Ég hef verið að fletta nýju símaskránni, aðallega til að skoða myndasöguna eftir Hugleik Dagsson. Og ég held hann sé forspár þegar kemur að baráttunni um hver fær að stoppa upp ísbirnina: Því að á bls. 885 og áfram er saga af þeirri hugmynd að veiða nykur fyrir húsdýragarðinn til að "boosta" túrismanum "eins og moðerfokker". En þar sem þeir reyndust friðlýstir, í sögunni, varð að koma í gegn frumvarpi til að heimila veiðarnar. Síðar í sögunni kemur fyrir bleikur hamar og þrátt fyrir "ekkert sérstaklega macho lit" (bls. 1191), sem ein sögupersónan er látin gera grín að, kemur hann að gagni.


mbl.is Kom ísbjörn upp um hestana?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mismunandi eftir brautum og háskólum

Þegar spurt er um aðsókn í kennaranám virðist býsna oft spurt um grunnskólakennaranám við Kennaraháskóla Íslands en ekki kennaranám fyrir leikskóla eða framhaldsskóla eða kennaranám í öðrum háskólum, t.d. Háskólanum á Akureyri, sem býður nám til undirbúnings kennslu á þessum skólastigum þremur. Eftirspurn eftir námi í kennslufræði til kennsluréttinda hefur þannig aldrei verið meiri en í ár - ef miðað er við eftirspurn við Háskólann á Akureyri - og þannig virðist mér að svarið við spurningunni í fyrirsögninni sé engan veginn ótvírætt - kannski er það meira að segja "nei" ef grannt er skoðað.

Ein af skýringunum á því umsóknum um grunnskólakennaranám fjölgar ekki getur verið jákvæð fyrir kennarastarfið, það er sú að ungt fólk bíði eftir fimm ára náminu sem hefst haustið 2009. Önnur skýring getur verið sú að ungt fólk - reyndar ungt fólk á öllum aldri - sjái í auknum mæli hag sínum best borgið með að fara í margvíslegt grunnnám (bakkalárnám) í háskóla, jafnvel meistaranám, og bæta við sig kennaranáminu á eftir. Ég hef ekki kannað þetta markvisst en hef samt ástæðu til að gruna þetta.

Varla verður því þó móti mælt, sem fram kemur í fréttinni, að ástæða er til að huga að starfskjörum kennara á öllum skólastigum, einkum og sér í lagi ef okkur sem þjóðfélagi er alvara með að styrkja menntakerfið. Hluti af kjörunum er góð menntun kennara og fjölbreyttir möguleikar til að komast í kennarastarf.


mbl.is Minni áhugi á kennslu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband