Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
30.5.2008 | 08:47
Grænfánaskólum á Norðurlandi fjölgar
Í gær vorum við Eygló Björnsdóttir hérna hinum megin við fjörðinn á vegum Landverndar til að afhenda tveimur skólum, Álfaborg og Valsárskóla, svokallaðan grænfána. Hann er veittur fyrir árangur í umhverfismálum. Skólarnir vinna að því um tveggja ára skeið að fá grænfána. Skipuð er umhverfisnefnd í skólanum og lögð mikil áhersla á þátttöku nemenda. Það kom greinilega fram í gær í Valsárskóla þegar nemendur kynntu verkefnið.
Athöfnin í gær var þannig að fyrst fékk Álfaborg grænfánann sinn með viðeigandi útskýringum og ræðuhöldum (mjög stuttum). Skjal er á ensku til að leggja áherslu á að með móttöku grænfána komst skólinn í hóp þúsunda skóla í fjölda landa. Nemendur í umhverfisnefnd tóku við fánanum. Og auðvitað var fáninn dreginn að húni. Viðstaddir voru kennarar, nemendur og starfsfólk Álfaborgar og Valsárskóla, auk fjölmargra íbúa Svalbarðsstrandar. Síðan var gengið yfir að Valsárskóla, sem er á sömu lóð, flutt stytt útgáfa af ræðunum, nemendur í umhverfisnefnd fengu fánann afhentan, og hann dreginn upp nýja fánastöng. Að lokum var kynning nemenda og veisla þar sem á boðstólum voru pylsur og kökur.
Á annað hundrað skólar á landinu hafa nú fengið grænfána eða vinna að því að fá hann, sbr. heimasíðu Landverndar. Átta skólar á Norðurlandi fá grænfána í fyrsta eða annað skipti nú í vor.
Það er afar ánægjuleg reynsla að fá að afhenda grænfána, eins og ég hef tekið að mér í fáein skipti, og taka með því þátt í hátíðarstund í skólanum sem fær grænfánann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2008 | 10:00
Þjótandi á Þjórsárbökkum
Mér hefur borist eftirfarandi fréttatilkynning frá Áhugahópi um umhverfis- og samfélagsmál í Flóahreppi:
"Viltu sjá fallegan stað við Þjórsá? Viltu standa hjá landnámsskála frá því fyrir 1000? Viltu sjá fyrirhugað stíflustæði Heiðarlónsstíflu? Hvað sérðu? Hvað sést ef virkjað verður?
Áhugahópur um umhverfis- og samfélagsmál í Flóahreppi efnir til skoðunar- og fræðsluferða í landi Þjótanda að fornminjauppgreftri á bakka Þjórsár, en fornminjarnar lenda undir Heiðarlónsstíflu fari svo að Urriðafossvirkjun verði að veruleika. Þetta er stutt ganga á árbakkanum en margs að njóta. Vonandi verður líka hægt að selflytja fólk sem ekki getur gengið, á þar til gerðum ökutækjum. Við uppgröftinn verður miðlað fróðleik um minjarnar sem þar hafa fundist, en sennilega er eitt húsanna sem rannsökuð hafa verið byggt nokkrum áratugum eftir árið 871. Svo má taka með sér nesti og og njóta þess úti í náttúrunni.
Gengið verður föstudaginn 30. maí, laugardaginn 31. maí og sunnudaginn 1. júní, alla dagana kl. 18:00. Upphaf ferðarinnar er á gömlu brúnni yfir Þjórsá, en til að komast á hana er ekinn vegur merktur Heiðarbær / Skálmholt skammt vestan árinnar og Urriðafossvegar. Allir velkomnir.
Ferðirnar eru farnar á sama tíma og sveitarhátíðin Fjör í Flóa er haldin, en meirihluti undirbúningshóps hátíðarinnar taldi viðburðinn vera pólitískan áróður og hafnaði því að hann fengi að vera með á dagskrá hátíðarinnar."
Mér finnst þetta síðasta alveg ótrúlegt - en vekur kannski meiri athygli á göngunum.
Bloggar | Breytt 26.5.2008 kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.5.2008 | 06:48
Orkuskortur??
Iðnaðarráðherra hefur áhyggjur af orkuskorti í kjölfar álits Skipulagsstofnunar um Bitruvirkjun. Við Moggann í dag segir hann: Það er ljóst að erlend stórfyrirtæki hafa áhuga á að setja upp framleiðslu hér á landi, mengunarlausa en orkufreka stóriðju, sem hugsanlega myndi skapa bæði verðmæti og störf. Við þá stöðu sem núna er komin upp gæti slegið í bakseglin.
Hvernig getur orðið orkuskortur ef hugsað er um allar þær virkjanir sem unnið er að? Jú, einmitt út af því að það hafa verið gerðir samningar við álver sem í raun og veru eru ekki sérlega atvinnuskapandi miðað við þá orku sem álverið þarf. Það er í raun lítil orka í landinu og aldrei pláss fyrir álverin sem unnið er að, hvorki af náttúruverndar- né loftslagsástæðum.
Skortur á orku getur orðið vandamál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.5.2008 | 18:34
Falleinkunn fyrir Bitruvirkjun
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2008 | 18:54
Borkjarnar á hrakhólum?
Í gær sat ég ársfund Náttúrufræðistofnunar Íslands þar sem mér hafði verið falið flytja ávarp fyrir hönd SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi. Ársfundurinn var mjög fróðleg samkoma þar sem farið var yfir ýmsa þætti í starfsemi stofnunarinnar. Margt af því vissi ég talsvert um, svo sem um fuglamerkingar á vegum stofnunarinnar, en um annað vissi ég miklu minna - eða alls ekki neitt, eins og t.d. um borkjarnasafnið.
Hvað er eiginlega borkjarnasafn? Á vefsíðu NÍ segir: Á undanförnum áratugum hafa safnast upp borkjarnar hjá Orkustofnun, Landsvirkjun, Vegagerðinni og ýmsum fleiri aðilum sem hafa staðið fyrir jarðborunum í rannsóknaskyni. Á síðustu fimm árum hafa þessir aðilar sent borkjarnana til varanlegrar geymslu hjá Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri ásamt tiltækum upplýsingum. Í ráði er að samræma og færa allar upplýsingar um þessa borkjarna í gagnagrunn sem nýst gæti jarðfræðingum hvort heldur er í jarðlagafræði, berg- eða steindafræði. Alls er um að ræða um 20 þúsund lengdarmetra af borkjörnum."
Fram kom í máli forstöðumanns Akureyrarseturs NÍ að safnið er í leiguhúsnæði sem það missir innan tíðar, ef ég skyldi rétt. Einnig kom fram að safnið vantar margvíslegan búnað, eins og t.d. lyftara til að lyfta hinum gríðarlegu þyngslum þar sem kjarnarnir liggja á vörubrettum. Hér virðist þurfa úrbætur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2008 | 22:11
Álver, virkjun, raflínur: Sama framkvæmdin en metin í pörtum?
Aðalfundur SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, haldinn á Rimum í Svarfaðardal þann 4. maí 2008, krefst þess að fram fari sameiginlegt umhverfismat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar jarðgufuvirkjunar að Þeistareykjum, umhverfisáhrifum annarra virkjana á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum, umhverfisáhrifum háspennulína frá háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum að Bakka við Húsavík, umhverfisáhrifum álvers á Bakka við Húsavík og umhverfisáhrifum annarra framkvæmda sem eru bein afleiðing álversins. Lesa má greinargerð um ályktunina og fleiri ályktanir og fréttir á vefsíðunni http://www.ismennt.is/not/ingo/SUNNadalfu08.htm
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)