Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
18.3.2008 | 12:24
Ektur eða einingar
Nú eru íslenskir háskólar smásaman að bolognavæða sig: taka upp samræmd kerfi þannig að auðveldara sé að meta nám sem stundað er í ólíkum löndum, hvort er heldur heilar prófgráður, einstök námskeið eða skiptinám. (Bolognavæða er kennt við ítölsku borgina Bologna þar sem elsti háskóli Evrópu starfar.)
Háskólanám hefur um tiltölulega skamman tíma verið metið í einingum þar sem gert er ráð fyrir að eining samsvari vinnuviku á einhvern hátt. Þannig var háskólanám metið í stigum fyrsta árið sem ég stundaði nám í Háskóla Íslands, þ.e. 1976-1977. [Hvert stig var ígildi náms í eitt misseri.]
Nú skal tekið upp nýtt "einingakerfi", svokallaðar ECTS-einingar; hver eining í því er helmingi minni en íslensku háskólaeiningarnar. Þetta er þýðing á European Credit Transfer System, ef ég man rétt. Við gætum núna búið til ágætis nýyrði um þessar einingar: ektur. Ef "eining" er notuð um nýja kerfið mun allt fara í hrærigraut og ekta hefur þann ágæta kost að falla að íslensku málkerfi og þýða ekki neitt annað. Tekið skal fram að ég man ekki hvern ég heyrði fyrst nota orðið ekta en höfundur nýyrðisins er ég ekki. En vil gera mitt til að halda því á lofti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.3.2008 | 09:55
Byggingarleyfi til álvers í Helguvík: Hneyksli eða sjónarspil?
Náttúruverndarsamtök Íslands (NSÍ) hafa sent frá sér yfirlýsingu þar þau fagna gagnrýni umhverfisráðherra á samþykktir bæjarstjórna Garðs og Reykjanesbæjar. NSÍ lýsa yfir fullum stuðningi við kæru Landverndar og krefjast þess að umhverfisráðherra ógildi álit Skipulagsstofnunar um álver í Helguvík og tryggi með þeim hætti að fram fari heildstætt umhverfismat fyrir álver, orkuflutninga og þær virkjanir sem óhjákvæmilega þarf að ráðast í. NSÍ benda á að fyrir kæru Landverndar séu gild rök sem m.a. byggja á markmiðum tilskipunar Evrópusambandsins um mat á umhverfisráhrifum þess efnis að allar upplýsingar liggi fyrir þegar ákvörðun er tekin. Þess vegna ber ráðherra að ógilda álit Skipulagsstofnunar og taka þannig af öll tvímæli um að fram verði að fara nýtt og heildstætt mat á umhverfisáhrifum. Sjá nánar á heimasíðu NSÍ.
Dráttur hefur orðið á því að umhverfisráðuneytið afgreiði kæru Landverndar og var að heyra á umhverfisráðherra í gærkvöldi í fréttum Sjónvarpsins að það væri vegna þess að málið væri flókið og hefði fordæmisgildi. Hvorttveggja er rétt - og má þá velta fyrir sér hvort útgáfa leyfis nú sé sjónarspil til að reka á eftir ráðherranum - eða hvað - og eiga þannig á hættu að fá óvandaðri niðurstöðu.
Umhverfisráðherra benti líka á í fréttunum að Samfylkingin hefði ekki náð Fagra Íslandi ómenguðu inn í stjórnarsáttmálann. Er það málið? Að henni verði ekki vært í ríkisstjórninni um hún úrskurðar um heildstætt umhverfismat? Vill umhverfisráðherrann í raun og veru stöðva þá iðju að stórar framkvæmdir séu bútaðar niður þannig að hver og ein standist mat á umhverfiáhrifum? Ef hið síðastnefnda á við styð ég ráðherrann.
Fagna gagnrýni umhverfisráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.3.2008 | 20:26
Hugarfar gagnrýninnar hugsunar
Hvernig hugsar gagnrýninn maður? Hvað er lýðræði? Hvaða hlutverki gegna skólar í því að þroska gagnrýna hugsun og gildismat? Hvaða tækifæri gefur aukinn fjöldi innflytjenda okkur við þróa lýðræðið?
Svör við þessum spurningum og fjölmörgum öðrum færðu á ráðstefnu sem kennaradeild Háskólans á Akureyri gengst fyrir laugardaginn 15. mars nk. í húsakynnum sínum í Þingvallastræti 23. Ráðstefnan er haldin til heiðurs Guðmundi Heiðari Frímannssyni sem gegndi starfi deildarforseta kennaradeildar fjórtán fyrstu starfsárin en lét af þeim störfum sl. haust. Guðmundur er nú prófessor í heimspeki við deildina og flytur aðalerindi ráðstefnunnar sem nefnist Hugarfar gagnrýninnar hugsunar. Á ráðstefnunni munu einnig tala Vilhjálmur Árnason og Sigrún Aðalbjarnardóttir, prófessorar við HÍ, og Hanna Ragnarsdóttir dósent við KHÍ. Sjá dagskrá.
Okkur sem nú stjórnum deildinni fannst upplagt að efna til ráðstefnu á þessum tímamótum en jafnframt er deildin 15 ára þessu ári sem er síðasta starfsár hennar sem deildar en hún verður hluti af nýrri hug- og félagsvísindadeild Háskólans.
Ráðstefnan er öllum opin meðan húsrúm leyfir, það er enginn aðgangseyrir og það eru veitingar að henni lokinni. Hún hefst kl. 13 og lýkur, ja, ætli hún klárist nokkuð fyrr en maturinn er búinn. En formlega á henni að ljúka kl. 16!
Bloggar | Breytt 7.3.2008 kl. 09:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.3.2008 | 09:15
Glæsilegt fjölbýlishús Búseta við Kjarnagötu á Akureyri
Ég skrapp í gær til að skoða nýtt, stórt fjölbýlishús Búseta í nýja Naustahverfinu, sem mér skilst að sé stærsta fjölbýlishús utan höfuðborgarsvæðisins. Það er fimm hæðir og íbúðirnar eru "afgreiddar" með öllum heimilistækjum nema sjónvarpi og mér skilst að það sé nýjung, reyndar tekin upp eftir systurfélaginu á höfuðborgarsvæðinu. Bílakjallari er undir húsinu og þjónar hann jafnframt minna fjölbýlishúsi félagsins rétt hjá þannig að þessi tvö eru sambyggð neðanjarðar með bílakjallaranum. Í húsinu eru 58 íbúðir. Verulegt fjölmenni var á staðnum, bæði íbúar hússins, búsetar í öðrum íbúðum félagsins og gestir.
Það var á þeim árum sem ég var formaður Búseta á Akureyri (nú Búseti á Norðurlandi) sem við báðum Akureyrarbæ um að fá stórt svæði sem Búseti mætti skipuleggja eftir sínu höfði. Jafnframt tókum við sem í forystu félagsins sátum eftir því að skipulagsskilmálar gerðu ráð fyrir þessu stóra húsi beint á móti leik- og grunnskóla Naustahverfisins. Við sáum líka að Búseti ætti möguleika á því nýta sér skilmálana í stað þess að líta á þá sem hindrun. Þegar ég lét af formennskunni fyrir fimm árum hætti ég að fylgjast með þessu frá degi til dags en mikil er ánægjan að hitta þau sem voru með mér í stjórninni og hafa nú gert hina djörfu hugmynd að veruleika og fá tækifæri til að fagna með þeim og íbúum hússins og gestum.
Ég hef nú búið í búseturéttaríbúð í nærri 16 ár, fyrst í Berjarima í Borgarholtshverfi í Reykjavík og síðan við Drekagil á Akureyri, en það er á vesturbakka Glerár, bak við stórar blokkir sem stundum eru kallaðar mjólkurfernurnar. Mér líkar fyrirkomulagið vel því að það eru fastar greiðslur og engir bakreikningar vegna stórra viðgerða þótt ég sjái sjálfur um smærri viðgerðir innan húss og svo lét ég mála fyrir nokkrum árum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)