Glæsilegt fjölbýlishús Búseta við Kjarnagötu á Akureyri

Ég skrapp í gær til að skoða nýtt, stórt fjölbýlishús Búseta í nýja Naustahverfinu, sem mér skilst að sé stærsta fjölbýlishús utan höfuðborgarsvæðisins. Það er fimm hæðir og íbúðirnar eru "afgreiddar" með öllum heimilistækjum nema sjónvarpi og mér skilst að það sé nýjung, reyndar tekin upp eftir systurfélaginu á höfuðborgarsvæðinu. Bílakjallari er undir húsinu og þjónar hann jafnframt minna fjölbýlishúsi félagsins rétt hjá þannig að þessi tvö eru sambyggð neðanjarðar með bílakjallaranum. Í húsinu eru 58 íbúðir. Verulegt fjölmenni var á staðnum, bæði íbúar hússins, búsetar í öðrum íbúðum félagsins og gestir.

Það var á þeim árum sem ég var formaður Búseta á Akureyri (nú Búseti á Norðurlandi) sem við báðum Akureyrarbæ um að fá stórt svæði sem Búseti mætti skipuleggja eftir sínu höfði. Jafnframt tókum við sem í forystu félagsins sátum eftir því að skipulagsskilmálar gerðu ráð fyrir þessu stóra húsi beint á móti leik- og grunnskóla Naustahverfisins. Við sáum líka að Búseti ætti möguleika á því nýta sér skilmálana í stað þess að líta á þá sem hindrun. Þegar ég lét af formennskunni fyrir fimm árum hætti ég að fylgjast með þessu frá degi til dags en mikil er ánægjan að hitta þau sem voru með mér í stjórninni og hafa nú gert hina djörfu hugmynd að veruleika og fá tækifæri til að fagna með þeim og íbúum hússins og gestum.

Ég hef nú búið í búseturéttaríbúð í nærri 16 ár, fyrst í Berjarima í Borgarholtshverfi í Reykjavík og síðan við Drekagil á Akureyri, en það er á vesturbakka Glerár, bak við stórar blokkir sem stundum eru kallaðar mjólkurfernurnar. Mér líkar fyrirkomulagið vel því að það eru fastar greiðslur og engir bakreikningar vegna stórra viðgerða þótt ég sjái sjálfur um smærri viðgerðir innan húss og svo lét ég mála fyrir nokkrum árum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Þetta er mjög sniðugt fyrirkomulag hjá Búseta. En þegar maður skráir sig hjá Búseta,tekur það ekki mörg ár að komast að með úthlutun á íbúð ? Ég var að hugsa um að benda syni mínum á Búseta.

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 2.3.2008 kl. 10:28

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Held að þetta sé misjafnt - veit jafnvel um dæmi þess að manneskja hafi labbað inn á skrifstofu Búseta og það var laus íbúð til ráðstöfunar. Hitt er öurggara algengar, sérstaklega eftir að húsnæðisverðið á höfuðborgarsvæðinu hækkaði, að fólk með lág númer hafi nýtt sér þá staðreynd að lágt númer ræður þegar margir sækja um sömu íbúð

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2.3.2008 kl. 10:58

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Framhald: Þetta er því spurning fyrir ungt fólk að horfa á Búseta sem framtíðarvalkost með því að ganga í félagið.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2.3.2008 kl. 10:59

4 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Kæri Ingólfur

 Til hamingju með áfangann. Alltaf gaman að sjá eitthvað sem maður hefur ýtt úr vör verða til. 

Anna Karlsdóttir, 2.3.2008 kl. 23:32

5 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Anna og Ólafur Þór, takk fyrir innlitið.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 3.3.2008 kl. 14:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband