3.9.2007 | 20:43
Iðnaðarráðuneytið og umsókn Landsvirkjunar
Undanfarna daga hefur mikið verið fjallað í fjölmiðlum um útgáfu rannsóknarleyfis í Gjástykki eftir að Landvernd og SUNN óskuðu þess að Alþingi rannsakaði hvernig staðið hefði verið að útgáfu rannsóknarleyfisins. Iðnaðarráðuneytið ber af sér í langri yfirlýsingu í dag og telur eðlilega að málum staðið. Kjarni málsins kemur þó fram í lokaorðum yfirlýsingarinnar: "Það var mat ráðuneytisins að erindi frá Landsvirkjun 8. maí 2007 væri aðeins ítrekun á umsókn fyrirtækisins frá 25. október 2004. Í ljósi hlutverks ráðuneytisins, lagaákvæða um jarðhitarannsóknir og eðlis rannsóknarleyfa var ekki talin þörf á að afla frekari umsagna um umsókn Landsvirkjunar um rannsóknarleyfi á Gjástykkissvæðinu og umrætt rannsóknarleyfi gefið út" [leturbreyting mín]. SUNN og Landvernd hafa metið það svo hér hafi verið á ferðinni ný umsókn, enda voru umsagnir lögboðinna umsagnaraðila um annars konar rannsóknir, sjá fyrri blogg um málið og heimasíðu Landverndar. Því hefði verið full ástæða til að afla nýrra umsagna, sérstaklega frá Orkustofnun sem skilyrti fyrri umsögn.
Iðnaðarráðuneytið bendir líka á að rannsóknarleyfi sé ekki framkvæmdaleyfi af neinu tæi og það geti líka þurft mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Og nú eru bersýnilega hafnar vegaframkvæmdir eins og sjá má á myndum Ómars Ragnarssonar í frétt Landverndar. Fór þessi vegagerð í mat á umhverfisáhrifum? Viðbót: Allur þessi hraði tengist náttúrlega áformum fv. ríkisstjórnar og samkomulagi við Alcoa sem undirritað var 1. mars 2006, sjá frétt Mogga. Það verður að finna orkuna, hvað sem það kostar.
Náttúruverndarsinnar krefjast heildstæðrar stefnumótunar um náttúruvernd og aðra landnýtingu, þ.m.t. orkuöflun.
Athugasemdir
Mér finnst nú stutt síðan eldur var uppi við Leirhnjúk og þar um kring. Namaskarð gekk til og svo framvegis. Er allt rólegt á þessum vigstöðvum núna? Kveðjur að sunnan.
Eyþór Árnason, 3.9.2007 kl. 21:03
Mér sýnist á mynd Ómars að það sé hraunið frá árunum 1976 til 1984 sem byrjað er að gramsa í. Já, það hefur allt verið rólegt þarna síðan þá, það er að verða aldarfjórðungur síðan. Svona líður tíminn ...
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 3.9.2007 kl. 21:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.