Styttri vegalengdir - meiri umferð?

Því er haldið á lofti að með uppbyggðum vegi yfir Kjöl muni útblástur gróðurhúsalofttegunda minnka vegna þess að vegalengdir styttist. En er það víst? Í skoðanakönnun sem fyrirtækið Norðurvegur hefur látið gera kemur fram: „Um 45% aðspurðra töldu að ferðum þeirra milli áfangastaða á Norður- og Suðurlandi myndi fjölga með framkvæmdinni en 55% töldu að þeim myndi ekki fjölga.“ Leiða má að því líkur að þessi niðurstaða bendi til þess að umferð beinlínis aukist við að leggja Kjalveg. Kannski er þetta bara bull - kannski endurspeglar þessi skoðun alls ekki almenningsálitið sem Pierre Bourdieu hafnar að sé til - sjá færslu - kannski mun akstur alls ekki aukast við þetta. En þá er varla meira að marka þá niðurstöðu sem Norðurvegur fékk að meirihluti landsmanna vilji „heilsársveg". Upplýsingar á heimasíðu Norðurvegar um skoðanakönnunina eru reyndar fremur litlar en eitthvað meira hefur um hana birst í fjölmiðlum. Aðalatriðið er þó þetta: Í þessari skoðanakönnun voru tæpast gefnir þeir ótal valkostir sem eru til staðar um samgöngubætur milli Norður- og Suðurlands, t.d. betri sumarvegur um Kjöl, jafnvel malbikaður, eða stytting hér og þar annars staðar. Og ég leyfi mér að fullyrða að það var ekki spurt um hvort viðmælendur myndu vilja að strandsiglingar væru niðurgreiddar, hvort fólk óttaðist vetrarveður og hálku á Kili og þaðan af síður hvort það vildi að byggðar yrðu upp lestarsamgöngur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Vissulega er það ekki ósennilegt að ferðalög á milli landsvæða yrðu örari ef vegalengdin styttist, en er þá ekki fólk meira að nota bifreiðina í stað flugvéla sem eru mjög mengandi? Svo er það líka spurning hvort orkufrekari bílar víki fyrir þeim sparneytnu. 

Við erum ein þjóð í þessu landi og bættar samgöngur eru í mínum huga aðeins til bóta. 

Ester Sveinbjarnardóttir, 8.6.2007 kl. 21:57

2 identicon

Ég hef ekki velt mikið fyrir mér þessum Kjalvegsmöguleika en sé í fljótu bragði bæði kosti og ókosti við hann. Kostirnir eru tvímælalaust bættar samgöngur sem þýða t.d. fyrir mig alveg örugglega tíðari ferðalög um Suðurlandsundirlendið. Hugsanlegir ókostir held ég að liggi fyrst og fremst í því að svæðið sem við köllum oftast óbyggðir eða örævi minnkar og ég held að þessi svæði verði okkur dýrmætari með hverju árinu sem líður og það í víðum skilningi þess orðs (sem ferðamannasvæði, sem náttúruauðævi, sem hávaðamengunarlaus svæði, svæði laus við sjoppur og bensínstöðvar o.s.frv.) 

Anna Ólafsdóttir (anno) 8.6.2007 kl. 22:54

3 Smámynd: Valgerður Halldórsdóttir

Já ég tek undir með þér Anna - ég held að við verum að vega og meta vel bæði  kostina og gallana.  Auðvitað skipta góðar samgöngur máli - en óbyggðir eru líka verðmæti sem við eigum að halda í. 

Valgerður Halldórsdóttir, 9.6.2007 kl. 17:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband