Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Faglegar mannaráðningar og kynjagleraugu

Nú eru nokkrir dagar liðnir síðan Kærunefnd jafnréttismála birti úrskurð sinn þar sem fram kom að forsætisráðuneytið hefði brotið lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá árinu 2008. Mikið hefur málið verið rökrætt og mannauðsráðgjafi forsætisráðuneytisins jafnvel haldið því fram að þau skilaboð felist í úrskurði Kærunefndar að það "eigi ekki að vinna faglega að undirbúningi ráðninga hjá hinu opinbera" (sjá frétt Morgunblaðsins og greinargerð mannauðsráðgjafans) á http://www.mbl.is/media/02/2802.pdf). - Það er svo sem alveg óhætt að nefna nafn mannauðsráðgjafans; hún heitir Arndís Ósk Jónsdóttir.-

Það er mikil reginfirra hjá Arndísi að slík skilaboð felist í úrskurðinum, rétt eins og við lestur gagna málsins, þ.m.t. úrskurðar Kærunefndar, má líka sjá að "faglega" hefur verið staðið að þessu hjá henni; Arndís, ráðuneytisstjórinn og aðrir ætluðu að vanda sig. Hvort var búið að ákveða að sá sem var ráðinn fengi starfið er ekki augljóst þótt ég hafi séð ýjað að því (sjá frétt Morgunblaðins þar sem vísað er til orða Ólafs Þórs Gunnarssonar varaþingmanns vinstri grænna, og minnir reyndar endilega að ég hafi séð hið sama í fréttaskýringu blaðamanns Moggans en finn ekki núna á Netinu). Mér dettur ekki einu sinni í hug að Arndís hafi verið þátttakandi í því.

Miklu augljósara er af greinargerð mannauðsráðgjafans, út frá algerri þögn um kyn í þeirri greinargerð, að hún og ráðuneytið "gleymdu" lögunum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það er ekki smekksatriði hvort kyn er meginbreyta við ráðningar heldur lagaskylda. Það hefur bersýnilega ekki verið farið yfir gögnin í ráðningarferlinu út frá því hvort einhver af konunum sem sótti um yrði kannski metin hæfari eða jafnhæf ef til kasta úrskurðarnefndar kæmi. Eða var haldið að það væri nóg að Anna Kristín væri númer 5 í því mati til að svo einfaldlega yrði hægt að ganga fram hjá henni? 

Ég sé ekki betur en að lærdómurinn af þessu máli hljóti vera sá að kynjagleraugu sé meðal faglegra tækja og vinnubrögð við ráðningar, án kynjagleraugna, sé ófullnægjandi, faglega séð. En ella beiti forsætisráðherra sér fyrir breytingu á löggjöfinni. Ef notkun kynjagleraugnanna fjölgar ráðningum kvenna í störf þar sem karlar eru í meirihluta er það vegna þess að þau þarf meðal faglegra tóla og tækja; ef þau breyta engu í því efni, þá skaða þau heldur ekki önnur fagleg tól og tæki - en lagaskyldum hefur verið fylgt.

[Fann frétt um strákaplottið á Eyjunni sem Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra mótmælir annars staðar en bendir á að sá sem var ráðinn sé vissulega ágætur samstarfsmaður. Meint "strákaplott" er reyndar þekkt úr kynjafræðilegum rannsóknum og engin ástæða til að gera lítið úr slíkum möguleika. Ekki einu sinni víst að það sé meðvitað ferli í mörgum tilvikum - og þar af leiðandi ekki plott. En það má samt ekki breyta aðalatriðum málsins í deilur um hvort Hrannar hafi skipt sér með einhverjum óeðlilegum hætti af þessu ráðningarferli heldur vil ég að þeir sem standa að ráðningum noti kynjagleraugun eins og lögskylt er.]


Mengun í Eyjafirði

Og hvað á maður svo sem að segja nú þegar kemur í ljós að verksmiðjan mengar og mengar og eftirlit af hennar eigin hálfu og hins opinbera er í molum? Jú, rifja upp grín frá því í september 2007 þegar ég var talinn úrtölumaður að gera grín að orðfærinu um verksmiðjuna:

"Ál-aflþynnuverksmiðjunni á Akureyri hefur verið sunginn hár lofsöngur undanfarið. Framleiðslan er "sérhæfð hátækni sem losar ekki gróðurhúsalofttegundir en skapar um 90 ný gæðastörf. Hráefnið er valsað og afar hreint hágæðaál ... rafhúðað í sérhönnuðum vélasamstæðum". Og ekki nóg með það heldur er afurðin, aflþynnur, líklega notuð í "háspenntari þétta með mikinn áreiðanleika ..." sem vaxandi eftirspurn er eftir. Það vill svo vel til að Becromal, fyrirtækið sem reisir verksmiðjuna, er leiðandi við að búa til aflþynnur í einmitt slíka þétta (Vikudagur, 16. ágúst sl.). Gott að þetta eru ekki neinir ómerkingar, þessir hálf-eyfirsku þéttar, og ánægjulegt að um er ræða að ræða gæðastörf.

Þá er okkur er lofað að þessi 75 MW muni ekki leiða af sér nýjar virkjanir og þá auðvitað hvorki með eða án náttúruspjalla enda þótt rafmagnið samsvari 10% aukningu í eigin raforkuframleiðslu Landsvirkjunar frá síðasta ári (sama heimild). En þarf þá ekki einhvers staðar að virkja vegna almennrar aukningar? Og einhvern veginn hefur mér fundist loforðið um að verksmiðjan losi ekki gróðurhúsalofttegundir jafngildi því að hún mengi ekki, en ég hef ekki séð mikið um slíkt í fjölmiðlum. Vonandi kemur það þó allt fyrir augu almennings í mati á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar þannig að auðvelt sé að bera starfsemina saman við hverja aðra starfsemi hvað það varðar." Sjá: http://ingolfurasgeirjohannesson.blog.is/blog/ingolfurasgeirjohannesson/entry/304876/

Það kemur sem sé í ljós að þetta er bara miklu verra en mér datt í hug að sjá fyrir. Ég var ekki nógu mikill úrtölumaður, ég var enginn úrtölumaður. Ég sneri bara út úr.

Mengun er fleira en gróðurhúsalofttegundir. Og hvað með allt þetta eftirlit - nú skilst mér að ekki hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum og almenningi því ekki gefinn kostur á gagnrýni.

Hvað með aðra eftirlitsskylda starfsemi? Eða er þetta bara af því að það eru Ítalir og Eyþór Arnalds sem eiga þetta sem eftirlitið brást?

 


Raddir barna - skóli án aðgreiningar

Dagskrá ráðstefnu í húsi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands við Stakkahlíð fimmtudaginn 31. mars 2011 - gengið inn frá Háteigsvegi

13:30-13:40 Setning.   Ávarp - Oddný Sturludóttir, formaður Menntaráðs Reykjavíkurborgar
13:40-14:05 Raddir barna af barnafundi. Kynning á rannsókn – Ragnheiður Axelsdóttir M.Ed. Sérkennari
14:05-14:10 Innslag.  Viðtal við grunnskólabörn
14:10-14:30 Að virða börn. Um réttindi barna. Dr. Gunnar Finnbogason, prófessor við Menntavísindasvið
14:30- 15.00 Kaffi
15:00-15:20 Rödd unglinga – hvernig á skólinn að vera. Fyrstu niðurstöður úr spurningakönnun meðal unglinga í 20 grunnskólum. Dr. Amalía Björnsdóttir, dósent við Menntavísindasvið
15:20-15:40 Hrannar Halldórsson Bachmann 15 ára
15:40-15:45 Innslag. Viðtal við unglinga í framhaldsskóla
15:45-15:55 „Leikskólagangan af sjónarhóli barna“. Dr. Jóhanna Einarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið
15:55-16:00 Innslag. Viðtal við leikskólabörn
16:00-16:15 Ráðstefnulok, Dr. phil. Dóra S. Bjarnason, prófessor við Menntavísindasvið og forstöðumaður Rannsóknarstofu um skóla án aðgreiningar

Ráðstefnan er styrkt af Menntavísindasviði HÍ, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Kvikmyndaskóla Íslands.

Sjá meira: http://www.hi.is/vidburdir/hlustid_a_okkur_radstefna_rannsoknarstofu_um_skola_an_adgreiningar


Atli Gíslason og baráttan gegn eyðileggingu náttúrunnar

Ég vona að þeir vinstri grænir sem hvetja Atla Gíslason til að víkja af þingi muni halda uppi ótrauðir baráttu gegn virkjunum sem myndu skemma náttúru Suðurlands og Reykjanesskagans. Atli hefur fullt umboð mitt til að standa í þeirri baráttu. Fáir stjórnmálamenn hafa staðið sig betur en Atli í þessum málaflokki. Að hinum ólöstuðum.

Ég er samt ekki ánægður með þá framgöngu að Atla að segja sig úr þingflokknum. Nú er fyrir okkar ágæta þingflokk að standa sig í náttúruverndarmálum. Ég vona að Atli og þingflokkurinn geti unnið saman í þeim málaflokki.


Engin afsökun!

„Engin afsökun fyrir þvermóðsku og heimóttarskap að  vera úr Mývatnssveit“: Um skrif Öðlingskarlanna í Fréttablaðið

Ávarp á málþinginu STAÐA KONUNNAR ER LAUS TIL UMSÓKNAR sem haldið var á Grand Hótel af samtökum stéttarfélaga, Jafnréttisráði og Jafnréttisstofu í hádeginu 8. mars 2011 – birt lítið breytt en án styttingar sem var 

Ég varð fyrst var við blaðagreinaherferðina „Öðlingurinn“ á Facebook, fljótlega eftir að hún hófst. Þar birtust annars vegar stöðuuppfærslur þar sem Facebook-vinir tjáðu aðdáun sína á efni greinanna og hins vegar ábendingar um það að konur hefðu fyrir löngu sagt það sem viðkomandi karl sagði, en þá hefði enginn hlustað. Ég lagði við hlustir, ef svo má að orði komast um blaðagreinar sem birtast á prenti og á vefsíðu. Og fór að lesa. Ekki það að ég hefði ekki lesið fjöldann allan af blaðagreinum um jafnréttismál eftir margar konur og nokkra karla.  

Ég var síðan af aðstandendum þessa fundar beðinn um að tala í dag um orðræðu karla í tengslum við jafnréttismál. Fyrirspurnin snerist um hvort hægt væri að draga saman og greina pistlana sem birtast undir yfirskriftinni Öðlingur.  

En hvað er Öðlingurinn? Á visir.is stendur þetta: Öðlingurinn 2011 er vitundarvakning. Átakið stendur yfir í mánuð, frá bóndadeginum (21. janúar) til konudagsins (20. febrúar).  Markmið þess er að stuðla að opinni umræðu um jafnrétti kynjanna á Íslandi. Nánar á heimasíðu átaksins, odlingurinn.is. Og hvað kemur þá fram á þeirri síðu: „Öðlingsátakið var stofnað árið 2011 af Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur, höfundi bókarinnar Á mannamáli. Söluágóði bókarinnar rann beint í baráttuna gegn kynferðisofbeldi, sem liður í Öðlingsátakinu. Öðlingar ársins 2010 unnu margvísleg sjálfboðastörf og héldu m.a. uppboð til styrkar Neyðarmóttöku vegna nauðgana. Á mannamáli og Öðlingsátakið leiddu til þess að Þórdís Elva var tilnefnd til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins 2010“ (sjá odlingurinn.is). Enn fremur: „Röksemdafærslan fyrir því að einungis karlmenn voru beðnir um að skrifa … pistla er sú að raddir kvenna hafa verið sterkari en raddir karla í umræðunni um kynbundið misrétti.

Öðlingsátakið er því tilraun til að rétta hlut karla og ljá þeim rödd – ekki síst til að sýna að allir eru velkomnir í umræðuna um þetta mikilvæga málefni.“ Fram kemur að öðlingar ársins séu m.a. úr röðum rithöfunda, feðra, slagorðasmiða, plötusnúða, leikskólakennara, tónlistarmanna, sjómanna, heimspekinga, nema, unglinga, viðskiptafræðinga, leikara, presta, guðfræðinga, leikstjóra, dagskrárgerðarmanna, skálda og líkamsræktarþjálfara (sjá vefsíðuna http://odlingurinn.is/odlingsatakid.html)

Mig langar að velta tvennu fyrir mér: Annars vegar hver sé umgjörð þessa átaks og af hverju þarf að „rétta hlut karla og ljá þeim rödd …“, af hverju þurfi að sýna körlum sérstaklega að þeir séu velkomnir í jafnréttisumræðuna. Hins vegar að skoða svolítið greinarnar og velta fyrir mér innihaldi þeirra. 

Umgjörð 

Ég velti fyrir mér forsendunni: Af hverju þarf að sýna körlum að þeir séu velkomnir? Hafa dagblöðin – eða vefsíðurnar – verið eitthvað sérstaklega lokuð karlmönnum til að skrifa í? Ekki kannast ég nú beinlínis við það, byrjaði að skrifa í dagblöðin fyrir meira en 30 árum og held að mér hafi aldrei verið meinað að skrifa þar, en þori þó ekki alveg að fullyrða að það. 

Eru karlmenn ekki velkomnir í jafnréttisumræðuna? Ég hef persónulega reynslu af allt öðru. Ég kannast ekki við annað en ég hafi verið velkominn í jafnréttisumræðuna, jafnvel sóst eftir mér. Ég held að karlar sem hafa viljað tjá sjónarmið sín um jafnréttismál kynjanna hafi ekki átt neitt erfitt með að koma sjónarmiðum sínum að. Ég er eiginlega sannfærður um að við fáum stundum ríkari hljómgrunn en kvenkyns femínistar. Það hefur komið fyrir að eitthvað sem ég sagði virtist vega þyngra í mínum munni en kvenna. Þetta á einkum við ef ég greini frá dæmum um ójafnt valdajafnvægi karla og kvenna í samfélaginu. Ég fæ hroll þegar það kemur fyrir. Ég vil auðvitað að eftir mínum orðum sé tekið – en ekki á kostnað annarra. Og ekki á þeim grundvelli að sjónarmið mín séu óhlutdrægari en sjónarmið kvenna og kvenkyns femínista.  

Er körlum hampað með þessu átaki? Er tilteknum körlum hampað? Það kann vel að vera að það þurfi „átak“ til að fá karla til að skrifa svona margar greinar um jafnréttismál á stuttum tíma. Ég hugsa að það þyrfti líka átak til þess að fá 31 konu til þess arna. Það er talsvert verk og alls ekki ómerkilegt að skipuleggja greinaskrif af þessum toga. 

Líklega er stærsti kosturinn við þessar greinar er liðskönnunin. Eftir þessa könnun vitum við af a.m.k. 31 karli, og þótt ég hafi vitað um allmarga þeirra að þeir væru liðsmenn femínismans – þá vissi ég ekki að sumir þeirra væru það. Ég vissi jafnvel ekki að fjórir þessara karla væru yfirleitt til, það er Darri Johansen viðskiptafræðingur, Bjartmar Þórðarson leikhúslistamaður, Karvel A. Jónsson félagsfræðingur og Sigurður Páll Pálsson geðlæknir. Níu aðrir mér ókunnir sem liðsmenn femínískrar baráttu, t.d. vissi ég hvorki um Margeir St. Ingólfsson plötuspilara né Berg Ebba Benediktsson lögfræðing að þeir væru í mínu liði. Vonandi munu allir þessir sem ég nefnt og hinir 25 líka leggjast enn harðar á sveifina með öðrum körlum sem hafa verið nokkuð virkir í skrifum og rannsóknum. Að ógleymdum tugum, hundruðum og þúsundum kvenna. Ég spyr: Koma svo greinar eftir 31 kvenskörung? 

Innihald 

Hvað er í greinunum? Um hvað eru greinarnar? Stíll þeirra tilheyrir líka innihaldi þeirra í tilviki eins og þessu, það er hvernig þær eru skrifaðar. 

Ég settist niður með greinarnar og las – fyrst þær 20 fyrstu. Ég reyndi að átta mig annars vegar á hvert væri megininntak greinanna, helsta eða helstu þrástef hverrar. (Þrástef er greiningarhugtak sem ég nota gjarna og merkir einfaldlega það sem þráfaldlega kemur fyrir eða er sérstakt áhersluatriði sem sker sig úr í málflutningnum eða orðræðunni.) Ég reyndi að finna það stef eða þau stef sem einkenndu málflutninginn. Ég reyndi auðvitað að máta þessi þrástef við þrástefin í kynjajafnréttisbaráttunni.  Ég las síðustu 11 greinarnar nokkurn veginn jafnóðum og svo allar, það er 31 grein, í einum rykk skömmu síðar og freistaði þess þá að flokka hverja aðeins í einn eða tvo flokka eða í mesta lagi þrjá, eftir inntaki. Ég skráði 59 þrástef – eitt í sumum greinum og tvö og þrjú í öðrum. Erfiðara er að átta sig á stílbrigðum þeirra og hvað má lesa út úr þeim. Reyndi þó að átta mig á því sérstaklega hvort og hvernig einhverjar þeirra væru skrifaðar í hálfkæringi og hvort háði væri markvisst beitt og hvernig. Háð og hálfkæringur eru því eitt þrástefið. 

Aðrir helstu efnisflokkar – eða þrástef – reyndust vera staðalímyndir, laun, ofbeldi, málnotkun, klám og hlutgerving, hvatning til karla um ábyrgð, vald og valdajafnvægi, að konur skiptist í hópa, femínistahatur gert að umtalsefni og kvennabaráttan sem fordæmi. Loks sá ég að einn greinarhöfundanna skrifaði meira um réttindi feðra en annað. Við endurlesturinn bættust við þemun gagnrýni á þögn, ábyrgð kvenna á gangverki fjölskyldna og gagnkynhneigt forræði. Gagnrýni á þögn og þegjandi samþykki gagnvart misréttinu var eitt slíkt meginstef hjá þremur höfundum en ábyrgð kvenna á gangverki fjölskyldna aðeins hjá einum. Þá held ég að aðeins einn höfundur hafi nefnt gagnkynhneigt forræði í samfélaginu. Mér sýndist reyndar að fleiri þemu gætu komið í ljós, svo sem eins og virðing fyrir konum, næstum því upphafin virðing. En ákvað lesa þær ekki einu sinni enn heldur láta þessa greiningu duga að sinni. (Það væri reyndar gaman að fá aðra til að lesa þær með hliðstæðum greiningarlykli.) 

Þau þrástef sem koma oftast fyrir reyndust vera, í fyrsta sæti háðið og hálfkæringurinn sem stíll greinarinnar eða sem áberandi stílbragð með öðrum þemum. Önnur stef sem komu fyrir a.m.k. fimm sinnum eða oftar sem eitt af einu, tveimur eða þremur meginstefjum voru vald og valdajafnvægi, staðalímyndir, laun, ofbeldi og hvatning til karla um ábyrgð. Önnur stef komu sjaldnar fyrir og mest var ég reyndar hissa á því hversu klámið, hlutgerving á konum og klámvæðingin voru sjaldan þess háttar meginstef.

Hatur gagnvart femínistum var meginstef í fjórum greinum og kvennabaráttan sem fordæmi í þremur greinum. Sigurður Magnússon matreiðslumaður, Öðlingurinn sem talaði við á Jafnréttisþinginu, ræddi sérstaklega hag karla af kvennabaráttunni, þema sem mér hefur lengi verið hugleikið. 

Í meira og minna öllum greinunum kemur vel fram að kynjakerfið – þótt það orð sé sjaldnast notað – er óréttlátt í garða kvenna og að karlar geti hagnast á því að svo sé og að þessu þurfi að breyta. Snæbjörn Ragnarsson, án atvinnutitils, leggur þó til að fest verði á einhvern hátt í sáttmálum samfélagins að konur fái 80% af meðallaunum karla í hverju starfi fyrir sig og að 20% kvenna verði fyrir kynferðislegri misnotkun áður en þær verða 20 ára ásamt fleiru slíku (29. janúar). Hann bendir á að flest okkar hafi samþykkt þetta í reynd nú þegar. 

Lokaorð 

Þórdís Elva, frumkvöðull greinanna, var í viðtali í útvarpsþætti á Rás 1 þann 21. febrúar sl., daginn eftir að átakinu lauk. Hún viðurkennir að rithöfundaslagsíða hafi verið á greinunum enda skrifi rithöfundar betur en aðrir og séu skilvirkari en aðrir, væntanlega við að skila af sér því sem beðið er um að sé skrifað. Að þeir Hugleikur og Andri Snær hafi verið mest lesnir. Þeir reyndar notuðu klámið sem þema. Báðir gerðu reyndar hatur gagnvart femínistum að umtalsefni og Hugleikur gerir kynhegðun femínistastúlkna skil. Mögulega er hið síðastnefnda þó stílbragð. 

Greinarnar sem slíkar bæta ekki miklu við þekkingu í jafnréttismálum, og í mörgum er ekki vísað í neinar rannsóknir eða aðrar haldbærar upplýsingar, þótt aðrir vísi í rannsóknir, bæði út og suður. Líklegt – ég veit ekki hversu líklegt er – að einhverjar greinanna hafi opnað augu annarra fyrir hinu órökrétta í valdajafnvægi karla og kvenna, augu sem annars hefðu haldið áfram að vera lokuð. Slíkt er að sjálfsögðu jákvætt. Einhverjar staðreyndir voru mér áreiðanlega áður ókunnar; einhver hnyttni kemur fram sem ég hafði ekki séð áður. Einmitt þess vegna er mikilvægt að liðsmaðurinn 31 láti ekki staðar numið eftir að hafa verið „ljáð rödd“, svo ég vitni aftur í orð Þórdísar Elvu þegar átakið var kynnt. Einmitt þess vegna er mikilvægt að „átakið“ haldi áfram með þátttöku beggja kynjanna. 

Yfirskrift erindisins er sótt í fyrri hluta lokamálsgreinar Svavars Knúts, tónlistarmanns, í öðlingsátakinu (12. febrúar 2011). Ekki veit ég hvort hann er ættaður úr Mývatnssveit, eða hvort hann virkilega heldur að Mývetningar séu þvermóðskufyllri og heimóttarlegri en aðrir Íslendingar. Mér fannst þetta bara tilvalinn titill fyrir mig, drenginn úr Mývatnssveit, sveitadrenginn sem upplifði róttæka pólitík Kvennalistans á þeim tíma sem ég varð þrítugur og lærði svo femínísk fræði í Bandaríkjunum. Lokaorð Svavars Knúts voru þannig . Ég endurtek þau: „Rétt eins og það er engin afsökun fyrir þvermóðsku og heimóttarskap að vera úr Mývatnssveit, þá er engin afsökun fyrir að líða eða ástunda ofbeldi, bara af því við erum mennsk.“


Staða konunnar er laus til umsóknar

Í tilefni af 8. mars er fundur, sem heitir Staða konunnar er laus til umsóknar, á Grand Hótel í Reykjavík, dagskrá, matur og erindi frá 11:45-13:00. Þetta eru erindin:  
  • Löggjöf um mismunun og fjölþætt mismunun - Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands 
  • Konur í kreppu? – Niðurstöður athugunar á velferð kvenna fyrir og eftir efnahagshrun - Eygló Árnadóttir, sjálfstætt starfandi fræðikona -
  • „Engin afsökun fyrir þvermóðsku og heimóttarskap að vera úr Mývatnssveit“ – Um skrif Öðlingskarlanna í Fréttablaðið - Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband