Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Útinám í Skagafirði

Hvernig er hægt að kenna að njóta umhverfisins á vefnum? Er hægt að kenna útinám í kennslustofu? Hvernig er sanngjarnt að deila kostnaði af menntun barna sem þurfa að vera fjarri lögheimili sínu? 

Á ársþingi Samtaka fámennra skóla í Skagafirði, nánar tiltekið að Steinsstöðum (í Lýtingsstaðahreppi "hinum forna", eins og heimafólk tekur til orða þótt aðeins séu fá ár síðan hreppurinn sameinaðist flestum öðrum hreppum í héraðinu), í gær var m.a. fengist við þessi viðfangsefni. Kynntir voru tveir námsefnisvefir um umhverfið, annar þegar tiltækur, hinn á leiðinni, og sagt frá hugmyndafræði útináms og tilurð útikennslustofu í Norðlingaholti í Reykjavík þar sem norskur háskóli aðstoðar Norðlingaskóla við gríðarlega áhugavert þróunarstarf þar sem stefnt er að því að geta kennt sem flestar námsgreinar úti. Á ársþinginu var einnig fjallað um málefni kennitölulausa barna sem eiga rétt á menntun (lagalegan sem byggðan á mannréttindasjónarmiðum) - en slík mál heyrist um í fjölmiðlum og þau snerta dreifbýlið vísast ekki síður en þéttbýlli staði. Ársþinginu lauk með gönguferð um nágrennið þar sem lærðum folf, blöndu af frisbí og golfi, og hinum rómaða hátíðarkvöldverði samtakanna og heimatilbúnum skemmtiatriðum, m.a. sagði Rúnar Sigþórsson, einn af frumkvöðlum samtakanna, staddur í Cambridge á Englandi, nokkrar pekkasögur í gegnum síma, tölvupóst og mannlega miðla. Þetta var í alla staði velheppnað þing. Á heimleiðinni í morgun þurfti ég svo í óvæntan bíltúr út í Fljót og yfir Lágheiði vegna umferðaróhapps á Öxnadalsheiði.


Hjónaband - samvist - forréttindi

Þjóðkirkjan hefur verið að velta því fyrir sér árum saman hvort hún eigi að láta sam- og gagnkynhneigt fólk njóta jafnræðis er að því kemur að gefa saman í hjónaband. Löggjafinn hefur ekki treyst sér til að setja löggjöf um slíkt jafnræði í trássi við þjóðkirkjuna. Gagn- og samkynhneigðir mannréttindasinnar hafa beðið; við höfum verið þolinmóð og umburðarlynd gagnvart kirkjunni - treyst því hún gerði rétt. Nú hefur það gerst að þjóðkirkjan hefur fellt tvær tillögur um málið en samþykkt eina: Prestum verður leyft að blessa samvist homma- og lesbíupara. Fellt var að vígja eða gefa saman. Fyrir okkur óinnmúruð í þjóðkirkjuna skiptir harla litlu hvort er blessað, vígt eða gefið saman. En fyrir trúaða homma og lesbíur mun það ekki vera svo. Formaður Samtakanna 78 bregst svo við fréttunum að það ætti að sameina löggjöfina um staðfesta samvist og hjúskap í eina. Auðvitað. Það eiga að vera sömu lög fyrir gagn- og samkynhneigða. En af hverju löggjöf um samvist eða hjónaband? Af hverju eiga pör að njóta lagalegra réttinda umfram annað fólk?

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1266393 


Vinnuaflsskortur á Suðurnesjum

Blaðið skýrir frá því í dag á bls. 4 að mikil þensla og vinnuaflsskortur séu á Suðurnesjum og hefur eftir Kristjáni G. Gunnarssyni formanni Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis: "Í flugstöðina vantar tugi manna í vinnu ... Þá hefur lengi vantað iðnaðarmenn og sérþjálfaða byggingaverkamenn, þannig að það hefur verið flutt inn töluvert af vinnuafli". Þá kemur fram að aðeins 50 af rúmlega 700 sem unnu hjá hernum séu án vinnu í dag. Samt telur Kristján að til lengri tíma verði álver mannað með innlendu vinnuafli - 350 til 400 störf.

Aðalatriðið er þó þetta: Á að taka hvert einasta háhitasvæði á Reykjanesskaga alveg upp að Þingvallavatni og virkja það? Á að taka hvert einasta háhitasvæði í Þingeyjarsýslum og virkja það? Við viljum flýta gerð náttúruverndunaráætlunar og taka frá háhitasvæði. Mig grunar að þegar verndargildið hefur verið metið þá verði jafnvel um orkuskort að ræða í landinu - ef verður farið eftir niðurstöðum um mat á verndargildi. Á að flýta sér áður en verndargildið hefur verið metið?


Vegagerð að Dettifossi

Staksteinahöfundur Morgunblaðsins ávítar embættismenn í dag fyrir að halda vegagerð að Dettifossi frá hringveginum á Mývatnsöræfum í herkví. Hið rétta er að Vegagerðin bað Skipulagsstofnun um að meta tvær veglínur og var önnur þeirra, nálægt núverandi vegslóða samþykkt. Hin leiðin liggur meðfram Jökulsá og var hafnað vegna verulegra neikvæðra, varanlegra og óafturkræfra áhrifa á jarðmyndanir, landslag og ásýnd svæðisins. Á sínum tíma fögnuðu SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (sjá t.d. grein í Mogganum 28. ágúst 2006), og fleiri aðilar þessari niðurstöðu þar sem vegagerð svo nærri ánni gengur gegn markmiðum þess að stofna Vatnajökulsþjóðgarðs og vernda Jökulsá þar sem sjaldgæfar jarðmyndanir eru í hættu, bæði út af veginum og hættu á því að þær yrðu notaðar sem námur vegna vegagerðarinnar.  Ég hvet Vegagerðina, Skútustaðahrepp og aðra leyfisveitendur til að virða álit Skipulagsstofnunar og markmiðin með því að stofna Vatnajökulsþjóðgarð. Ég bið Moggann að ganga í lið með okkur í þessu máli sem hann hefur reyndar gjarna verið í baráttunni fyrir Vatnajökulsþjóðgarði. Og ef við viljum líta á þetta frá efnahagslegu sjónarmiði gengur vegur meðfram ánni mjög gegn markmiðum um gönguleið meðfram ánni.

Glæsileg Gljúfrastofa

Fór í Ásbyrgi í dag til að vera viðstaddur opnun Gljúfrastofu, gestastofu í Þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum. Ekki gat veðrið verið fallegra enda frusu saman vetur og sumar með glaðasólskini í dag. Gestastofan er í mynni Ásbyrgis rétt við veginn inn í Ásbyrgisbotn, norðaustan tjaldsvæðanna, skammt suður af versluninni. Hún er fjárhúsum og hlöðu sem voru byggð á 8. áratug síðustu aldar og höfðu verið aflögð sem slík - slík endurnýting húsa er til fyrirmyndar þar sem staðsetning er mjög góð.

Mikið fjölmenni var við opnunina, þ.á m. umhverfisráðherra, alþingismenn og mikið af nágrönnum þjóðgarðsins. Skemmst er frá að segja vel hefur til tekist við að setja upp fræðslusýningu og hvet ég alla gesti þjóðgarðsins til að koma við í gestastofunni. Í húsakynnunum eru einnig skrifstofur þjóðgarðsins. Við athöfnina færði Sigrún Helgadóttir - hún var fyrsti landvörður í þjóðgarðinum eftir stofnun hans 1973 - garðinum hornstein sem hún hefur varðveitt; steininn tóku vísindamenn af toppi fjallsins Eilífs sem markar suðvesturhorn garðsins og færðu Sigrúnu. Steinninn er nú kominn heim.

Einn skugga bar á þessa athöfn og það var sú staðreynd að ástæða þótti til að þakka Alcoa sérstaklega fyrir tíu milljón króna framlag sem afhent var á sl. ári. Slíkar þakkir heyra þó sögunni til því að umhverfisráðherra lýsti því yfir í Fréttablaðinu 11. nóvember sl. að við myndum ekki sjá „göngustíg í boði Alcoa eða Landsvirkjunar" í hinum nýja Vatnajökulsþjóðgarði. Sem mótvægi færðu SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, gestastofunni eintak af Draumalandinu hans Andra Snæs að gjöf.

 


Bílastæðið við Krossanesborgir

Fyrir örfáum misserum voru Krossanesborgir norðan Akureyrar friðlýstar sem fólkvangur og hefur verið unnið að gerð göngustíga og skilta og fleira gert til að fólk geti notið náttúrunnar. Hluti fólksvangsins er lokaður umferð fólks á varptíma fugla, einkum votlendið. Sérlega gaman er að rölta um Krossanesborgirnar skömmu eftir að varptíma lýkur.

Nú hefur svo ólánlega - að ekki sé fastar að orði kveðið - tekist til að nýtt bílastæði fyrir gesti fólkvangsins hefur verið gert í jaðri mýrarinnar beint sunnan Hundatjarnar og grafnir skurðir til að þurrka það upp. Þetta mun hafa slæm áhrif á vatnsbúskap mýrarinnar auk þess sem bílastæðið er að hluta undir vatni og nýtist þá eflaust síður sem bílastæði - sem er í besta falli grátbroslegt en þó einkum óþægilegt. Þar að auki þarf að brúa skurðinn til að gestir komist í fólkvanginn og hætta er á að sú umferð verði of nálægt varpsvæðinu. Nýja bílastæðið er skammt frá Bykóbúðinni á leiðinni norður úr bænum.

Í raun og veru sýnist hér um að ræða algera svívirðu - þvert á góðar fyrirætlanir bæjaryfirvalda með því að ná fram friðlýsingunni. Var alls ekki hægt að setja bílastæðið upp í móann nokkrum tugum metra nær þjóðveginum?


Nýja ríkisstjórn í vor!

Í morgun heyrði ég Baldur Þórhallsson prófessor halda því fram að trúverðugleiki vinstri grænna hefði aukist með því að Samfylkingin léði máls á kaffibandalaginu svokallaða. Trúverðugleiki vinstri grænna kemur nú fyrst úr fremst úr þeirri pólítík sem flokkurinn hefur mótað og sett fram en ekki frá Samfylkingunni eða öðrum flokkum og ég hlýt því að vera ósammála Baldri hvað þetta varðar. Samt sem áður er það næstum örugglega rétt að tilurð hins mjög svo óljósa bandalags kennt við kaffiboð jók trúverðugleika vinstri grænna, þar sem flokkurinn hefur verið ötull að lýsa því yfir sem fyrsta og að miklu leyti eina viti borna valkosti stjórnmála að stjórnarandstaðan sameinist og myndi nýja ríkisstjórn, sbr. VINSTRI GRÆN - HREINAR LÍNUR. Samfylkingin hefði átt að nýta sér þetta bandalag betur með sams konar yfirlýsingum - og hafi ég tekið rétt eftir var það Verkamannaflokkurinn í Noregi sem græddi á fyrir fram yfirlýsingu fyrir tveimur árum um samsteypustjórn með Sósíalíska vinstri flokknum og Miðflokknum en ekki sósíalistarnir. Ég hef trú á því að vinstri græn og Samfylkingin nái hreinum meirihluta í vor eins og stöku skoðanakönnun hefur leitt í ljós að gæti gerst - ef flokkarnir lýsa yfir fyrirætlun um samvinnu með eða án annarra flokka, og í því efni stendur meira upp á Samfylkinguna. Við í vinstri grænum erum tilbúin til að taka áhættuna af því fylgi Samfylkingarinnar aukist við þetta - ef við fáum nýja ríkisstjórn!

Grænu skrefin í Reykjavík og mislögð gatnamót

Við að fletta blöðum sl. 10 daga sá ég kosningaáróðursauglýsingu meirihlutans í Reykjavík um græn skref. Þessi skref munu bæta mannlífið, t.d. ókeypis ferðir námsfólks í strætó. En við þurfum stærri skref og fráhvarf frá þeirri samgöngustefnu sem R-listinn í Reykjavík því miður fylgdi líka, þ.e. að byggja stærri og meiri umferðarmannvirki, þar með talin þau skrímsli sem einhver nefndi "mislögð" gatnamót - áður en vinstri löppin verður að engu.* Róttækt skref væri að taka frá land fyrir lestarsamgöngur - jafnvel þótt það yrðu 20 ár þangað til lest gæti farið að renna um höfuðborgarsvæðið. Um leið og farið er að taka slíkt land frá kallar það á að koma þeim upp - þá fyrst gæti orðið raunhæft að hafa innanlandsflugvöll annars staðar en í Vatnsmýrinni - en fyrst og fremst eru lestarsamgöngur nauðsynlegar í baráttu gegn mengun og fyrir betra mannlífi.

*Umberto Eco, ítalskur bókmenntafræðingur og rithöfundur, lýsir nútímaborgarsvæði, eða eftirborgarsiðmenningu á þennan hátt: „Los Angeles er stórborg sem samanstendur af 76 minni borgum sem tengdar eru saman með tíu akreina vegum, þar sem mannskepnan lítur svo á að hægri löppin sé hönnuð í þeim tilgangi að vera á bensíngjöfinni, og vinstri löppin óþörf sem hver annar visnaður botnlangi af því að bílar hafa ekki lengur kúplingu – augun eru hlutir til að fókusera á undur sjónarspils og mekanisma, skilti og byggingar sem með ógnarhraða koma í ljós og hverfa og hafa aðeins örfáar sekúndur til að ná athygli og aðdáun. Í tvíburafylki Kaliforníu, Flórída, sem einnig virðist vera gervisvæði, finnum við í reynd hið sama, þ.e. ótruflaðar víðáttur af borgarmiðstöðvum, vegamótum sem spanna stór svæði, gerviborgir sem helgaðar eru afþreyingu (Disneyland er í Kaliforníu og Disneyveröld í Flórída …)" (Travels in Hyperreality, bls. 22). Sjá meira:


Sólskin á Akureyri, slydda í Chicago

Var rúma viku í Bandaríkjunum og kom heim í gærmorgun, afar vonsvikinn að sjá veggverkið hans Hlyns Hallssonar farið - fauk það kannski út í veður og vind eins og mætti gjarna henda álversáform norðan sem sunnan heiða? Á miðvikudagsmorguninn var hvassviðri og slydda í Chicagó þar sem ég var ásamt 13.000 öðrum ráðstefnugestum Bandarísku menntarannsóknasamtakanna (AERA) þar af a.m.k. tíu öðrum Íslendingum, að berjast á milli ráðstefnuhótela í miðborginni. Gott að koma heim í sólskin en síðra að koma heim í annríki.

Um páskana gisti ég á Arbor House í Madison, Wisconsin, sem kallar sig "environmental inn", umhverfisgististað. Fyrir utan að flokka ruslið í hverju herbergi, sem ætti nú bara að vera sjálfsagt, var allur búnaður, svo sem handklæði og lín, og hráefni, t.d. sápan, úr lífrænum efnum, oft mjög fagurfræðilega örvandi, og maturinn sömuleiðis hollur, góður, fallegur ... Eitthvað af orkunni úr sólarrafhlöðum og regnvatninu safnað til vökvunar, svo dæmi séu nefnd um annað. Annars er Madison heimaborg þar sem ég var í doktorsnámi á sínum tíma.

Á fimmtudaginn á að taka í notkun gestastofu í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum. Vona að ég komist þangað þrátt fyrir annríkið.


Göng undir Eyjafjörð

Umræður um samgöngumál eiga til að vera því marki brenndar að við bítum okkur í mikilvægi einnar lausnar á meintum vanda og hlustum ekki á neitt um aðrar, hvorki mótbárur né viðvaranir. Hvort heldur það er stytting vegalengda, nýr innanlandsflugvöllur, betri almenningssamgöngur eða margfaldur vegur milli einhverra staða. Slíkar hugmyndir þarfnast yfirleitt mikillar íhugunar og rannsókna. Eftirfarandi "töfralausn" setti ég fram í grein í Vikudegi 29. mars sl. í grein samnefndri þessari bloggfærslu. Í greininni segir m.a.:

"Er nauðsynlegt að koma við á Akureyri?
Ein er sú stytting sem aldrei hefur komið til umræðu opinberlega, mér vitanlega: Veggöng undir Eyjafjörð í tengslum við Vaðlaheiðargöng. Ég spyr hvort göng beint vestur frá brúnni á Fnjóská hafi verið skoðuð sem raunhæfur möguleiki. Þá væri hægt að halda áfram með göngin undir Eyjafjörð og stytta leiðina til Reykjavíkur fyrir Þingeyinga og Austlendinga um 15 til 20 kílómetra. Eflaust yrðu slík göng dýr en kostur þeirra er mikill og augljós fyrir þessa aðila. Vestan fjarðarins kæmu slík göng væntanlega upp nálægt Skjaldarvík.

Ef borað yrði beint vestur frá Fnjóskárbrú væri þó sennilega ódýrara að gera tvenn göng; önnur undir heiðina og hin undir fjörðinn, þótt einnig kæmi til álita að fara alla leið neðan jarðar og gera afleggjara upp á Svalbarðsströnd.

Hafi þessi leið verið skoðuð myndi það koma fram ef Vaðlaheiðargöngin færu í gegnum þann feril sem kallaður er mat á umhverfisáhrifum - en þau hafa nú verið undanþegin slíku mati og þar með verið minnkuð áhrif almennings. Þessi leið er líka ákjósanlegur samanburðarkostur og þá kæmi fram hversu raunhæf hún er í raun og veru.

Minni mengun á Akureyri:
Fyrir utan það að Þingeyingar og Austlendingar gætu með þessu móti ráðið því hvort þeir tefðu sig á Akureyri á leiðinni suður væri þessi gangaleið ansi mikil búbót í baráttunni við mengunina á Akureyri. Mengunin hefur verið æði áberandi í froststillunum í vetur. Þá hafa þungaflutningar um bæinn verið vaxandi áhyggjuefni og valdið ýmsum íbúum bæjarins verulegum óþægindum, eins og vissulega hefur komið fram í fjölmiðlum."


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband