Ránplanta

Það er dýrt spaug að eiga við lúpínuna, það er alveg ljóst á því sem garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar segir. Við vitum ekki enn þá hvernig það gengur með skógarkerfilinn sem á greiða leið í kjölfarið. Á vef Umhverfisstofnunar er sagt frá baráttunni gegn því að skógarkerfill og lúpína leggi undir viðkvæman gróður við Mývatn.
mbl.is Lúpínan erfið í Rauðhólum og Laugarási
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón  Benediktsson

Rétt væri að þeir sem telja lúpínu til ránplöntu fari á kúrs í plöntulíffræði við fína skólann á Akureyri. Eða eru allir voða uppteknir við að kenna og læra umhverfissnobbið.

Í blindri heift öfga- og snobbafla var settur skógarkerfill í Mógilsá til að gera út af við lúpínu. Svona fer nú hatrið með mannfólkið

Leyfum náttúrunni að hafa sinn gang, hún hristir allt þetta snobb af sér.Gróður við Mývatn og nágrenni er nú aðallega viðkvæmur vegna rányrkju sem háskólasamfélagið hefur engar áhyggjur af.

Sigurjón Benediktsson, 13.9.2009 kl. 14:00

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlitið, Sigurjón. Það er nú alltaf jafn gaman af orðaforðanum hjá þér - "blind heift öfga- og snobbafla ...", "umhverfissnobb", "háskólasamfélagið" - þótt þú sleppir núna að ræða um kaffihús og kaffihúsalið og þótt þetta sé býsna einsleitur orðaforði.

Svo er líka alveg merkilegt að þú lætur eins og ég tali hér á bloggsíðunni fyrir hönd Háskólans á Akureyri, sjá athugasemd fyrr. Auðvitað tölum við hvor í eigin nafni hér á bloggsíðum nema í þeim fáu tilvikum sem ég birti fréttatilkynningar samtaka sem ég er formaður í.

Annars er ég nokkuð forvitinn um þann atburð sem þú nefnir við Mógilsá því að ég held að hið eina sem vinnur ekki gegn lúpínunni sé heift heldur hugsanlega þrautseigja. En svo mikið veit ég þó að við Mógilsá er rekin tilraunastöð Skógræktarinnar.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 13.9.2009 kl. 15:01

3 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Ég er hræddur um að blessaður karlinn hann Sigurjón átti sig ekki á alvarleika málsins. Í þrjú ár hefur umhverfisyfirvöld á Akureyri barist við lúpínu kerfil og hvönn sem sækja hratt fram í Hrísey. Þegar eru 14% af eyjunni undirlögð og með sama áframhaldi og ef ekkert væri gert væri allt mólendi horfið undir þennan gróður í einni og þá hyrfi megnið af varplandi þeirra fugla sem þar verpa auk þess sem allt lyng og allir móar yrðu samhangandi flækja þessar þriggja tegunda.  Það gæti gerst á ca 15-20 árum miðað við þann hraða sem það sem þegar er orðið hefur átt sér stað. Þess atburðarás hefst af því fólk í góðum hug ætlaði að græða upp orfoka mel í landi Ystabæjar og skógarkerfill var settur við húsið til prýði og ánægju...en svona er nú komið og þetta er orðið hluti af verkefni sem nefnist countdown 2010 og er í grunninn rammi um verkefni til að endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika.

Sigurjón... þetta verkefni er ekki háskólasnobb sem þú kallar heldur neyðaraðgerð þeirra sem sjá hvað er að gerast og hverjar yrðu afleiðingar þessa að sýna tómlæti eins og þú leggur hér til.

Lúpínan virðist láta undan við slátt á öðru ári en skógarkerfillinn er miklu erfiðari.

Jón Ingi Cæsarsson, 13.9.2009 kl. 17:17

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Lúpínan er ekki í neinni merkingu „illgresi“. Hún rýrir ekki jarðveg heldur eflir hann og gefur honum köfnunarefni (eins og áburður) og hún víkur undan öðrum hágróðri þegar hann sækir á. Þrátt fyrir þann illa hug sem sumir bera til hennar.

Hún ein fárra jurta safnar köfnunarefni í jarðveginn og nærir og leggur jarðveg fyrir annan hágróður. Og víkur sjálf úr þroskuðum jarðvegi  þegar aðrar plöntur og hágróður er tilbúinn til að nýta sér hann.

Hún er afar merkileg og öflug landgræðslujurt og á hvergi svo mikið erindi sem hér á Íslandi. Við vorum hinsvegar búin að rýja landið inn að skinni og lúpínan á mikið verk fyrir höndum.

Með búsmala okkar og ágangi í gras runna og sprek til að brenna og bíta,  auk uppþurrkunar höfum við farið nærri því að gereyða gróðri á íslandi og það sem verra er nær öllum gróðurjarðvegi sem hefur fokið á haf út þegar rætur of-bitins og of-hoggins gróðursins slepptu tökum sínum á jarðveginum, en allur venjulegur gróður þarf að fá köfnunarefni úr jarðveginum til að vaxa og dafna, - nema lúpínan.

Lúpínan ein fárra jurta bindur köfnunarefni úr andrúmsloftinu í jarðveginn og leggur þannig jarðveg fyrir trjágróður og grasplöntur og annan þróaðan gróður sem þarf jarðveg. Í ofanálag þá víkur lúpínan sjálf undan þroskuðum og öflugum gróðurjarðvegi yfir í þann snauða - sem vissulega er ofgnótt af á Íslandi. Þessi umbylting tekur hinsvegar langan tíma og sést í stórum sveiflum með vafalaust tilbrigðum sem fara misvel í smekk manna og taka ára og áratugi ef ekki aldir.

Þær frumstæðu jurtir sem búa á þeim svæðum sem Lúpínan tekur til endurvinnslu eiga og munu eiga áfram nóg rými á Íslandi þó þær víki af stórum svæðum. Það eru allt jurtir sem hafa lifað af ísaldirnar og allskyns þrengingar þúsunda ára og munu áfram lifa við kaldari og harðari aðstæður en lúpína sækir inná.

Ekkert er einstakra í alheiminum en lífríkið (grjót og steinar eru allan alheim en líf aðeins hér) og ekkert eigum við að styðja við í náttúrunni sem það á þess eigin forsendum þar sem það sífellt leitar nýs jafnvægis. 

Lífríkið verður hinsvegar aldrei kyrrsett eða fryst, heldur er síbreytilegt og aldrei eins tvo daga í röð.

Lúpínan leggur jarðveg með köfnunarefnisbindingu sinni fyrir nýtt og öflugt gróðurríki á Íslandi, sú umbreyting er á forsendum náttúrunnar sjálfrar en verður auðsýnileg og vafalaust fer hún í taugar einhverra þegar svo virðist sem lúpína sé að leggi undir sig landið. - Það er þó aðeins sveifla á langri þróunarleið við ummyndun hins snauða jarðvegs sem við skiluðum landinu eftir 1100 ára landnám til öflugrar gróðurmoldar fyrir skógi vaxna gróðurparadís framtíðarinnar sem Ísland verður með hjálp lúpínunnar.

Helgi Jóhann Hauksson, 13.9.2009 kl. 18:13

5 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir innlit og umræðu, Jón Ingi og Helgi Jóhann. Lúpínan er ekki nein "þróun" heldur gríðarlegt inngrip í náttúruna. Og það væri ekki úr vegi að spyrja þig, Helgi Jóhann, hvort þú telur að ekki að verja Hrísey á þann hátt sem er reynt.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 13.9.2009 kl. 20:30

6 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Planta sem sáir sér óbreytt og sem náttúrlegt kvæmi eftir að hafa borist hingað hvort sem er með vindi, sjó, fuglum eða mönnum er ekki „inngrip“ í náttúruna, heldur er það náttúrun sjálf að verki. - Það er náttúrun Ingólfur. - Hversvegna heldur þú Ingólfur að Hrísey beri þett nafn „Hrísey“ - Heldur þú að Hrísey og náttúru hennar sé ósnortin af mönnum í 1100 ár - sé bara svona ber af náttúrunar völdum?

Helgi Jóhann Hauksson, 13.9.2009 kl. 22:15

7 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Lúpínan barst ekki til Íslands með vindi, sjó eða fuglum

En auðvitað ræður þú, Helgi Jóhann, hvort þú svarar spurningu minni um Hrísey

Og er Hrísey svo "ber"? Er ekki gróður og fuglalíf þar sem er verið að verja ágangi lúpínu og skógarkerfils? Var ekki Hrísey tilraunastöð við að meta rjúpnastofninn.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 14.9.2009 kl. 07:32

8 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Svo því sé til haga haldið, vil ég leiðrétta eitt atriði í annars ágætu innleggi Sigurjóns: "Í blindri heift öfga- og snobbafla var settur skógarkerfill í Mógilsárlandið ( eign Skógræktarinnar) til að gera út af við lúpínu. Svona fer nú hatrið með mannfólkið". 

Mér vitanlega hefur skógarkerfill (Anthriscus sylvaticus) aldrei verið markvisst gróðursettur né ræktaður í landi því sem Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins (og síðar Skógræktarfélag Reykjavíkur) hefur haft umsjón með í Esjuhlíðum Mógilsár. Fyrst fór að bóla á kerfli á Mógilsá á níunda áratug síðustu aldar, á afmörkuðu svæði ofarlega í túni sem hætt hafði verið að slá og nýta um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Þar höfðu verið gróðursett nokkur skjólbelti og hefur kerfillinn að líkindum slæðst með trjáplöntum úr gróðrarstöð. Þaðan tók hann síðan að breiðast út með sjálfsáningu í nærliggjandi lúpínubreiður í hlíðum Sandhóls, vestan gönguleiðarinnar á Þverfellshorn.

Sjá nánar: Plantan skógarkerfill ryður sér til rúms

 

 

Ég tel meiri líkur en minni á því að á næstu árum og áratugum muni kerfillinn eiga eftir að láta í minni pokann fyrir öðrum kröfuhörðum og þurftamiklum og enn ágengari plöntutegundum í hlíðum Esjunnar, hugsanlega með aukinni fræmyndun ætihvannar og sigurskúfs á svæðinu, en þessar innlendu tegundir virðast sumsstaðar á landinu a.m.k. geta átt í fullu tré við skógarkerfilinn.

Reynslan úr Hrísey styður þetta mat, a.m.k. hvað hvönnina áhrærir. Þar hefur framvindan verið sú, að fyrst leggur lúpínan undir sig rofinn móa, í kjölfarið fylgir skógarkerfill, en nú eru kerfilsbreiðurnar að breytast í hvannstóð.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 14.9.2009 kl. 11:00

9 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ingólfur, ég er ekki að tala um skógarkerfil sem er í alla stað ólíkur lúpínu. Hann er t.d. planta sem leitar í gróðurmold og losara um hana en byggir hana ekki upp eins og lúpínan, en annars þekki ég hann, útbreuðlsu hans og náttúrlegar sambýlisplöntur ekki nægilega.

Hitt er að Hrísey er augljóslega ekki svipur af nafni sínu, þ.e. þar er ekkert hrís, þ.e. birkiskógur eins og nafnið vísar til að hafi einkennt eyjuna. Um lúpínu í Hrísey veit ég ekki nóg til að taka afstöðu en ég efast um að neitt sé að óttast þó náttúran fari þar sínu fram. Lúpína leggur jarðveg fyrir birkið eins eyjan er kennd við og víkur svo.

- Jú útbreiðsla lúpínu er náttúrulegt ferli og afar gagnlegt fyrir uppbyggingu nýrrar gróðurþekju á Íslandi sem mun taka 2-300 ár og auðvitað áfram eftir það. - En hin lifandi náttúra er aldrei eins tvo daga í röð og það virðast of margir eiga erfitt með að sætta sig við. - Aðalatriðið er þó að við séum fermur að leggja henni lið en að eyða henni.

Helgi Jóhann Hauksson, 14.9.2009 kl. 11:49

10 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir athugasemdina, Aðalsteinn, og hinar sögulegar upplýsingar. Alltaf betra að tala út frá réttum staðreyndum hverjar sem skoðanirnar eru.

En Helgi: Málið snýst um þessa þörf að leggja náttúrunni "lið" sem við erum mörg hver haldin. Það er varhugavert þegar við gerum það án eftirlits og umhugsunar. Sáning lúpínu á stöðum sem ættu að fá að vera án þess að leggja náttúrunni lið hefur valdið miklum skaða, meðal annars fyrir að við fáum ekki að sjá hvernig náttúran þróast sjálf. Þetta á við á mörgum sandanna fyrir austan og alræmdasta dæmið er auðvitað sandarnir fyrir neðan Bæjarstaðaskóg, nú í Vatnajökulsþjóðgarði. En til að taka af vafa hef ég ekki á móti henni þar sem á að rækta skóg, t.d. í Fnjóskadal.

En góðar kveðjur til þín

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 14.9.2009 kl. 13:00

11 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Þá skulum við þykjast vera gáfulegir og prófa verkfæri póststrúktúralistískrar afbyggingar á þessa orðræðu:

 

Upphaf vistfræðinnar hjá Ernst Häckel markar samruna tveggja frumspekilegra hugmynda sem báðar hafa reynst lífseigar kennisetningar í náttúruvernd og vistfræði: annars vegar hugmyndarinnar um „jafnvægi í náttúrunni“ og hins vegar um „einingu (órofa heild) náttúrunnar“.

 

Það er hins vegar fátt að finna í niðurstöðum vistfræðirannsókna undanfarna öld sem rennir stoðum undir hinar lífseigu, frumspekilegu hugmyndir Häckels um að náttúrleg, „ósnortin“ lífkerfi séu þétt, samofin, samþróuð kerfi sem leiti samhljóms í fullkomnu jafnvægi. Raunar er ómögulegt að sjá neina augljósa „markáætlun“ í náttúrunni sem gæti bent til þess að náttúran hafi verið skipulögð með þau háleitu markmið að leiðarljósi að stuðla að jafnvægi og stöðugleika. Þvert á móti einkennist náttúran og öll saga hennar fremur af eilífri ringulreið og umróti.

 

Heildarhugmyndin um stöðugleika og jafnvægi náttúrunnar er „ágætis ljóðlist en fremur klén vísindi“ eins og heimspekingurinn Mark Sagoff komst að orði

 

Vistfræðingurinn Michel Soulé ritar :„Hugmyndin um að tegundir lifi í samþættum samfélögum er ekkert annað en goðsögn .... Stöðug umbreyting á félagatali svonefndra líffélaga er reglan og hin lifandi náttúra er ekki í neinu jafnvægi, a.m.k. ekki í þeim mæli að það skipti máli fyrir langvarandi viðhald tegunda sem í henni er að finna“.

Hann segir ennfremur:

„Vistfræðin hefur fallið á eigin bragði með því að halda of lengi fram þeirri úreltu kennisetningu að náttúrleg líffélög leiti jafnvægis. Nútímaleg vistfræðileg hugsun færir fyrir því rök að samsöfn lífvera hafi aldrei haft í sér ‘eðlislæga hneigð til þess að leita jafnvægis’. Þess vegna munu allar tilraunir til þess að skilgreina og framkalla upphaflegt, ‘náttúrlegt’ ástand og tegundasamsetningu líffélags eða vistkerfis bera beinin inni í vísindalegu eða rökrænu völundarhúsi.“

(Soulé, M. 1995. The Social Siege of Nature. Í: Soulé, M. and Lease, G. (ritstj.), Reinventing Nature: Responses to Postmodern Deconstruction. Island Press.)

 

Hjá því verður vart komist að álykta að hinar lífseigu hugmyndir Häckels dragi dám af hugmyndum um manngervingu náttúrunnar (e. anthropomorphism). Vegna þess að stöðugleiki, fyrirsjáanleiki, velferð, samhljómur og eining eru álitnir æskilegir þættir í mannlegum samfélögum og hagkerfum, hljóti framvindan í náttúrunni (s.s. jarðsagan, þróunarsagan, framvinda vistkerfa) að endurspegla það ástand sem maðurinn álítur æskilegast í eigin þjóðfélagsskipulagi og sem hann keppist við að ná (þ.e. útópíu: „hinn besta heim allra heima“).

 

Algengar hugmyndir á okkar dögum, af skyldum toga, eru t.d. trúin á „náttúrlega yfirburði“ innlendra tegunda (sem eigi að hafa „bestu mögulegu aðlögun“); „siðferðislegan fyrsta rétt“ innlendra tegunda (= frumbyggjanna) og „verndun“ eða „endurheimt“ vistkerfa með „upprunalega“ tegundasamsetningu að leiðarljósi. Þessar hugmyndir eiga rætur sínar að rekja til rómantíska tímabilsins (ca. 1785-1835),

innblásnar af einhyggju Häckels og hugmyndum Rousseau um jafnvægi og einingu í náttúrunni, ásamt tilfinningum og trúarlegum kennisetningum sköpunarfræðinnar (e. creationism).

 

Ádeilu á rökvillur þessara hugmynda eru gerð ítarleg skil af bandaríska þróunarfræðingnum Stephen Jay Gould (Gould, S.J. 2003. An Evolutionary Perspective on the Concept of Native Plants. Í: I have landed – The End of a Beginning in Natural History. Three Rivers Press, New York, bls. 335-346.): „Innlendar tegundir eru þær tegundir sem hafa fyrir tilviljun fundið sér leið á tiltekinn stað (eða þróast þar), ekki endilega bestu mögulegu tegundir fyrir þann stað“.

 

Annað væri í raun andstætt grundvallarlögmáli þróunarlíffræðinnar sem boðar að tilkoma, tilvist og „heimahagar“ líffræðilegra fyrirbæra (lífverutegunda, vistkerfa, lífbelta) séu afleiðing jarðsögulegra tilviljana, en að því fari hins vegar fjarri að þessi fyrirbæri hafi verið hönnuð eða þeim stýrt af æðri máttarvöldum, með fullkomna aðlögun að leiðarljósi. Lífverur hafi, með öðrum orðum, ekki endilega tekið sér bólfestu á stöðum þar sem eðliseiginleikar þeirra eða hæfni til aðlögunar fái best notið sín.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 14.9.2009 kl. 15:23

12 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir bollaleggingarnar, Aðalsteinn, þær eru skemmtilegar.

Nú er rétt að taka fram að ég er ekki vistfræðingur og misskil örugglega ýmislegt í þeirri vistfræði sem ég þarf þó stundum að kynna mér bæði vegna starfa minna fyrr á tíð sem landvörður og nú sem áhugamaður í náttúruverndarsamtökum. En hin póststrúktúralíska greining er ekki neinn leiðarvísir um hvar við ættum að forðast að setja lúpínuna sem hefur sýnt sig sem ágeng planta í ísl. náttúru, rétt eins og ýmis dýr sem eru flutt í náttúru þar sem þau eiga ekki „náttúrlega“ óvini. Kannski er erfitt að losna við hana, eins og hefur reynst með minkinn. Þar til nú að það er verkefni í gangi sem mér skilst að gefi betri árangur en fyrr að losna við hann.

Og einmitt einn vandinn við póststrúktúralískt niðurrif er stundum að það segir okkur ekki hvað við eigum að gera í Hrísey eða í Laugarnesinu í Reykjavík eða í Framengjum í Mývatnssveit. Á öllum þessum stöðum er reynt eða hefur verið reynt að „leiðrétta“ fyrri inngrip, hvort það er lúpínuplöntun, risahvönn eða skurðgröftur, að hluta af fegurðarástæðum en ekki bara af vistfræðilegum, en líka af mórölskum, rétt eins og með skógræktina hjá mörgum leikmanninum. Og víst reitum við arfa úr kartöflugarðinum okkar, en hann kemur alltaf aftur. Vonandi tekst betur til í Hrísey. Og póststrúktúralisminn kennir okkur að hugfallast ekki þótt arfinn komi aftur.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 14.9.2009 kl. 16:46

13 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Ekki er lengur hægt að halda því fram um lúpínu, að hún eigi sér enga náttúrlega óvini í lífríki Íslands. Í nýjasta hefti Bændablaðsins birtist frétt um að fiðrildalirfurnar mófeti (Eupithecia satyrata) og ertuygla (Melanchra pisi) séu orðnir skæðir óvinir lúpínu um allt sunnanvert landið. Þessi skordýr aflaufga lúpínuplönturnar á miðju sumri og flýta þannig fyrir framvindu í lúpínubreiðum. Jafnframt eru þessar pöddur eftirsótt fæða mófugla, ásamt ánamöðkunum sem fjölgar mjög við tilkomu lúpínunnar og auka enn frekar frjósemi jarðvegs sem lúpínan hefur komið til leiðar með niturbindingu. Samkvæmt því má fullyrða, að lúpínan sé orðin nýtur þegn í íslensku lífríki, sem fæðir, nærir og tryggir viðgang innlendra dýrategunda.

En svo við höldum áfram "dekonstrúeringunni": Hvað er það nákvæmlega sem þú átt við þegar þú lýsir lúpínunni sem "ágengri"? Vistfræðilega ágengri? Móralskt ágengri? Að mínum dómi krefst notkun hugtaksins "ágengur" skýrari, gagnsærri og nothæfri skilgreiningar en ég get lesið út úr texta þínum og hugvekjum um þessi mál.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 14.9.2009 kl. 20:39

14 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Hvað kalla menn þá gras og dreifingu þess? - ef hæg útbreiðsla lúpínunnar á rýru landi með köfnunarefnisbindingu sína og jarðvegsmyndun fær slíka útreið.

Helgi Jóhann Hauksson, 15.9.2009 kl. 02:30

15 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Sælir piltar. Lúpínan er ágeng á íslenskan mela- og holtagróður og á melana sjálfa og hraunið og mosann. Og það er fyrirhafnarsamt og dýrt að stöðva hana. Og það skiptir í þessu samhengi litlu máli hvort það eru vistfræðilegar eða fagurfræðilegar ástæður fyrir því að vilja leyfa landinu að vera í friði fyrir henni.

Þetta er í sjálfu sér varla flókið að skilja og ætti ekki að þurfa langt mál um þetta - en þar sem gagnrýni á lúpínuna í þessu umhverfi virðist kalla á viðbrögð eins og hér í blogginu er hún sennilega móralskt ágeng líka. Og ég held að skorkvikindin sem þú nefnir, Aðalsteinn, verði ekki flutt í Laugarásinn eða heiðarnar fyrir ofan Reykjavík eða í Mývatnssveit eða annars staðar þar sem er nauðsynlegt að halda henni í skefjum þótt kannski komi þau sjálf. Fremur en ég kæri mig um að eitra fyrir arfanum innan um kartöflurnar mínar.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 15.9.2009 kl. 07:57

16 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Hér má sjá afleiðingarnar af beit ertuyglu og mófeta á lúpínu. Sjálfur gleðst ég við þessa sjón, ekki af því ég hafi ánægju að að sjá lauflausa lúpínu á miðju sumri, heldur af því að hér er komin vísbending um lúpínan sé orðin gildur þátttakandi í því að efla líffræðilega fjölbreytni Íslands (n.k. "burðarás" í lífríkinu), með því að framleiða fæðu handa skordýrum og fuglum. Ég er nefnilega af þeim skóla sem tel framleiðni vistkerfis betri mælikvarða á líffræðilega fjölbreytni, fremur en talning á fjölda plöntutegunda á einum fermetra. Ég deili ekki áhyggjum þínum af því að þessar pöddur muni ekki rata á höfuðborgarsvæðið eða norður í Mývatnssveit - fullorðnu dýrin (fiðrildin) eru jú fleygar!

 Ef ég skil röksemdafærslu þína rétt, Ingólfur, telst jurtartegund "ágeng" ef hún er framgjörn, tranar sér fram og vex annarri jurt yfir höfuð (sbr. ísl. orðabók: ágengur = framur, framgjarn,sem tranar sér fram).

Samkvæmt þinni röksemdafærslu telst það siðferðislega ámælisvert og raunar óverjandi hegðun hjá jurt að trana sér fram og vaxa annarri jurt yfir höfuð. Okkur ber að fordæma og bannfæra allar slíkar jurtir sem ekki sjá sóma sinn í því að vera jarðlægar. Í gróðurríkinu á að ríkja jafnrétti og bræðralag, og jurtir eiga að hjálpa sínum minni bræðrum.  Við mennirnir eigum því að kappkosta að eyða öllum þeim gróðri Íslands sem vex lóðrétt upp frá jörðu, stingur þar með í stúf við berangurinn (andstætt fagurfræðilegri ingólfskri rétthugsun) og skyggir um leið út lággróður/bersvæðisgróður (andstætt móralskri ingólfskri rétthugsun).

Eitt er rétt sem þú segir: "þetta er í sjálfu sér ekki flókið" og "óþarfi að hafa langt mál um þetta". Hvort allir eigi að deila með þér sömu fagurfræðilegu og siðferðislegu gildunum er svo allt annað mál!

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 15.9.2009 kl. 10:07

17 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Aðalsteinn, það er ekkert í röksemdafærslu minni um siðferði plantna, en ég gæti alveg rætt um "siðferði" fólks. Ég veit ekki hvort þú ert að skrifa frá sjálfum þér eða túlka mig þegar þú talar um að "jurtir eiga að hjálpa sínum minni bræðrum" - en láttu það samt vera að túlka mín sjónarmið, þau fara ekki eftir þínum tegundum af röksemdafærslum um "eyðingu" alls gróðurs. Hingað til hef ég eingöngu nefnt að reita arfa úr kartöflugörðum og losna við lúpínu af völdum stöðum - en ég ekki heldur að hún sé gróðursett á náttúruverndarsvæðum.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 15.9.2009 kl. 12:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband