Friðlýsum Gjástykki - röskum því ekki með borunum

SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, vilja að Gjástykki í Þingeyjarsýslu verði verndað fyrir hvers konar raski.

Gjástykki er ásamt svæðinu í kringum Leirhnjúk vestan Kröflu sennilega það svæði í heiminum á þurru landi sem best sýnir hvernig landreksflekarnir færast í sundur. Landrekskenningin sannaðist þarna fyrir augum okkar á 8. og 9. áratug síðustu aldar og allt var vel skoðað og skráð. Á þessum slóðum eru aðstæður til fræðslu og náttúruupplifunar sem hvergi gefast annars staðar og í því felast mikil tækifæri, bæði andleg og efnaleg. Þegar málefni Gjástykkis eru skoðuð í víðu samhengi er ljóst að verðmæti svæðisins er afar mikið og í þeirri orku sem þar kann að vera tæknilega nýtanleg felst minnstur hluti þeirra verðmæta. Auðlegð svæðisins er fólgin í ímynd þess fyrir Ísland, fræðslugildi þess fyrir Ísland og umheiminn og því að þar eru óhemjumiklir möguleikar fyrir útivist og ferðaþjónustu, t.d. í gönguferðum milli Jökulsárgljúfra í Vatnajökulsþjóðgarði og Mývatns. Allt rask, þar með taldar rannsóknarboranir, ógnar þessu gildi og rýrir ímynd og gæði. Stjórnvöld, þar á meðal sveitarfélög í héraðinu, ættu því að berjast fyrir uppbyggingu eldfjallafræðagarðs í Gjástykki og við Leirhnjúk.

SUNN lýsa af ofangreindum ástæðum andstöðu við rannsóknarboranir í Gjástykki sem nú eru í matsferli vegna umhverfisáhrifa. Vissulega var það áfangi á sínum tíma að hafa fengið í gegn að ekki mætti bora í Gjástykki í rannsóknarskyni nema að undangengnu mati á umhverfisáhrifum. Þess háttar boranir kosta hins vegar sitt og það er auðvitað öllum ljóst að virkjunaraðili fer ekki út í þær nema að ætla sér að virkja. Við sem viljum vernda Gjástykki viljum ekkert rask þar og teljum að kostnaður við rannsóknarboranir sé óásættanlegur ef þar verður svo aldrei virkjað. Slíkur kostnaður er svo sem aldrei ásættanlegur - en núna er íslenska ríkið stórskuldugt og Landsvirkjun líka.

Af sömu ástæðum lýsa SUNN yfir andstöðu við hvers konar breytingar á skipulagi, svo sem aðalskipulagi sveitarfélaga eða skipulagi miðhálendisins, sem heimila orkuvinnslu í Gjástykki.

Friðlýsing Gjástykkis er forsenda þess að gæði svæðisins verði ekki skert. SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi nota tækifærið og beina því til ráðherra umhverfismála að hefjast þegar handa við undirbúning friðlýsingar svo tryggja megi eftir föngum að svæðið verði lyftistöng fyrir Ísland í samræmi við þáær einstöku aðstæður sem þar eru fyrir hendi.

Stjórn SUNN í ágúst 2009


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mælið þið manna heilust. Ég var einmitt að koma úr ferð með erlent sjónvarpsfólk um svæðið, að vísu ekki í sem hagstæðustu veðri, en það, eins og það fólk sem ég fór með um svæðið fyrir rúmum mánuði, var sem þrumu lostið yfir þeim hernaði vélaherdeilda Landsvirkjunar sem þar er stundaður.

Þetta er þegar komið of langt. Fyrir áratug var því lofað að hægt yrði að bora á ská þannig að engar holur þyrftu að vera á yfirborðinu við Víti og Leirhnjúk.

Nú sést að Landsvirkjun notar svipaða tækni og vélaherdeildirnar í seinni heimsstyrjöldinni. Boranaherdeildirnar vaða fram til norðurs milli Vítis og Leirhnjúks og fyrir ofan Víti.

Ætlunin er að halda áfram þessu æði norður Vítismó og þá verður Víti umkringt, ímyhnd og ásýnd Leirhnjúks og syðri hluta eldgosasvæðis Kröfluelda eyðilögð og þeir hafa farið sínu fram eins og ævinlega.

Ef slíkt viðgengist við Kerið í Grímsnesi, sem kemst hvergi nærri í hálfkvisti við Víti, yrði allt vitlaust.

En það er skákað í skjóli þekkingarleysis almennings á því hvað er að gerast þarna og skeytingarleysisisins sem ríkir í skjóli Icesafe og ESB umsóknar.

Ómar Ragnarsson, 6.8.2009 kl. 22:12

2 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir ábendingarnar, Ómar. En ég skil ekki alveg hvernig atvinnuleysi mælist í milljörðum, Kristinn, eða hverju það breytir um vísinda- og útivistargildi Gjástykkis.

Nú eru íslensku handritin komin á skrá Sameinuðu þjóðanna yfir verðmæt rit. Einu sinni voru þau lítils metin hér á landi sem nú er séð eftir.

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 7.8.2009 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband